Um sekt eða sakleysi í Sjöundármálum
miðvikudagur, 13. mars 2024
Réttarsöguferð að Sjöundá og fundur Lögfræðingafélags Íslands á Patreksfirði 7. maí 2022. Laugardaginn 7. maí fór 100 manna hópur á vegum Lögfræðingafélags Íslands á slóðir Sjöundármála en fyrir 220 árum voru Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir dæmd fyrir morð á mökum sínum fyrir héraði sem svo var staðfest fyrir Landsyfirrétti og Hæstarétti Danmerkur. Steinunn lést skömmu áður en flytja átti þau utan til Kristianssand en þar var Bjarni höggvinn árið 1805.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir fundarstjóri
Gísli Gíslason var fararstjóri í vettvangsferð LÍ.
Að lokinni vettvangsferð að Sjöundá í leiðsögn Gísla Má Gíslasonar, prófessors og annars höfunda Árbókar FÍ um Rauðasand hins forna, var farið í félagsheimilið á Patreksfirði þar sem rætt var um sekt eða sakleysi þeirra Bjarna og Steinunnar.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur var fundarstjóri og kynnti til leiks þau fimm sem fluttu fyrirlestra og sagði að þeim loknum vonast til þess að við yrðum nokkurs vísari um þetta gamla og klassíska sakamál.
Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingisfv. héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ fjallaði um réttarfar á þeim tíma sem þau Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir voru dæmd til dauða.
Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinalæknirsérfræðingur í manndrápum og ofbeldisbrotum og hefur sérhæft sig í áverkum á hálsi sem kemur sér vel í þessu máli þar sem talið er að annar hinna látnu hafi verið drepinn með stungu. Við fengum nokkurs konar yfirmatsgerð á líkum þeirra Guðrúnar og Jóns.
Jón Friðrik Sigurðsson prófessor við HR og prófessor emeritus við HÍ, sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í trúverðugleika játninga. Hann fjallaði um játningar Bjarna og Steinunnar, hvort þær væru trúverðugar og hvort það séu veikleikar í sönnunargildi þeirra.
Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður hjá embætti ríkislögmannshefur langa reynslu af því að vera bæði sækjandi og verjandi, greip nú 220 árum eftir dauða þeirra Guðrúnar Egilsdóttur og Jóns Þorbjörnssonar til varna fyrir þau dæmdu en varnirnar voru afar fábrotnar á sínum tíma.
Lokaerindið flutti Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar,prófessor við Háskóla Íslands. Hans hlutverk var að leggja mat á það hvernig dómsniðurstaða myndi hljóma í nútímanum sem er innlendur, mildur og nútímalegur.
Hér er hægt að nálgast dómskjöl fyrir héraði, Landsyfirrétti og Hæstarétti
Skúli Magnússon: Réttarfar á tímum Sjöundármála
Mér falið það verkefni að fjalla um réttarfar á tíma er réttarheimildir þóttu æði brotakenndar og allur gangur á því hvernig lög höfðu verið birt á Íslandi hvað þá dómar. Almennt er hægt að lýsa ástandinu ástandinu sem svo að það hafi ríkt ákveðin réttaróvissa.
Á tímum Jónsbókar voru það einkaaðilar sem sóttu refsimál og báru ábyrgð á þeim en norsku lögum 1687, sem innleidd voru á Íslandi hvað snerti réttarfar upp úr 1719, urðu ýmsar umbætur á opinberu réttarfari, einkum að því er snerti sönnun. Með tilskipun árið 1751 var gerð afdráttarlaus krafa til yfirvalda um að grípa strax til aðgerða þegar grunsemdir um brot vöknuðu og það gat varðað sýslumann sektum ef hann vanrækti þessar skyldur sínar. Hér varð refsiréttarfarið því „opinbert“ því hið opinbera átti að sjá um þessi mál. Hert var á skilvirkni og skyldum dómenda til rannsókna með tilskipun 1796 og þar kom fram að taka ætti skýrslu af mönnum innan 24 tíma. Þanni hvíldi skylda á yfirvöldum til frumkvæðis og yfirvöldin hér á landi voru sýslumenn. Það er því afdráttarlaust að sýslumaður átti að hefja rannsókn þess máls sem hér um ræðir og að hann átti að gera það innan skamms tíma. Til samanburðar má geta þess að í hinum svokölluðu Skúlamálum 1893 var það metið Skúla Thoroddsen m.a. til embættismissis að hann tók skýrslu af grunaða fimm dögum eftir að hann fékk tilkynningu um grun og var það eftir fyrirmælum sömu tilskipunar. Í samræmi við þær kröfur sem gerðar voru til rannsóknar á tíma Sjöundármálanna er það er sýslumaður sem skipar hreppstjórum að hefjast handa en sýslumaður á einnig að sjá til þess að líkin séu skoðun af lækni, þ.e. kirurg. Það er því e.t.v. ekkert skrítið að Guðmundur Scheving, settur sýslumaður, skuli vera sektaður af hinum nýlega stofnaða Landsyfirrétti fyrir vanhöld við rannsókn málsins.
Hér er rannsókn og dómsvald á sömu hendi, rannsóknar og sannleiksreglan er komin til sögunnar þannig að sönnun er ekki formbundin. Með tilkomu réttarfars norsku laga varð sönnun að meginstefnu óformbundin þótt leifar af eiðum héldust í framkvæmd fram á 19. öld, jafnvel í opinberum málum.
Auðvitað vaknar ákveðinn grunur um harðræði í þessu máli. Með konungsbréfi, sem ekki var birt á Íslandi árið 1795, voru tekin af tvímæli um að pyntingar væru almennt óheimilar. Úrræði dómarans var takmarkað við vist á „vatn og brauð“ en þá bar að vara og áminna sakborning og þetta mátti eingöngu nota til að fá hann til að svara spurningum, ekki til að játa. Það eimir eftir af hinu forna réttarfari þegar Guðmundur sýslumaður vísar til þess í héraðsdómi að „tortura“ komi ekki til greina en hann ákveður að heimila Bjarna synjunareið gagnvart því að hafa banað Jóni með þessum broddstaf. Í Landsyfirrétti er þessu svo snúið við, væntanlega vegna þess að menn hafi ekki talið þetta vera lögum samkvæmt. Almennt var talið að aðildareiðar væru ekki heimilir við þessar aðstæður samkvæmt réttum lögum. Þetta var gert lengur í þjófnaðarmálum og í meiðyrðamálum og einkamálum eins og við þekkjum úr okkar réttarfarsnámi en sem sagt aðildareiður til synjunar manndrápi var tæpast heimill eftir tilkomu fyrrgreindra tilskipana. Reglan um að vafa skuli meta sakborningi í hag er að einhverju leyti komin til með áherslu á hinar efnislegu sönnun í stað hinnar formbundnu en sönnunarbyrði ákæruvaldsins er tæplega sú sem hún er í dag. Spyrja má hvort Steinunn hefði verið sakfelld fyrir samverknað eða hlutdeild í andláti Jóns í dag og væntanlega er svarið neitandi.
Bjarna og Steinunni var skipaður einn og sami verjandinn, Guðmundur Sigmundsson bóndi á Vaðli, sem var frekar slælegur. Þegar ljóst var að hagsmunir Bjarna og Steinunnar í málinu fóru ekki lengur saman bar að sjálfsögðu að gera þar bragarbót á samkvæmt nútímahugsun.
Málshraðareglan er hér höfð í hávegum. Þarna ber að hraða rannsókn og rannsaka á meðan sönnunargögn eru tiltæk. Það að Guðmundur sýslumaður ákveður við þetta tækifæri að fara suður til Reykjavíkur er á mjög gráu svæði, svo ekki sé meira sagt. Það verður þó að teljast gott að búið sé að rétta í málinu tæpum tveimur mánuðum eftir að lík Jóns rekur á land og það er kominn Landsyfirréttardómur rúmu ári síðar. Og læri nú ýmsir af því!
Það sem vekur einnig athygli er það aðhald sem er gagnvart embættismönnum. Embættismenn kasta hnútum hver í annan enda var ekki óalgengt að þeir væru í málaferlum hver við annan. Landsyfirrétti var hins vegar uppálagt með tilskipunum að hafa eftirlit með þeim og ætlað að sekta héraðsdómara sem ekki sinnti sínum skyldum. Eins átti héraðsdómari, þ.e. sýslumaður, að hafa eftirlit með sínum undirmönnum. Ákvæði um presta og hina geistlegu stétt voru í norsku lögum og var þeim ætlað þar margvíslegt hlutverk við sálgæslu, uppfræðslu o.fl. Það er síðan annað mál hvort að Jón Ormsson prófastur hafi mátt ljóstra upp um það sem að honum hafði verið trúað fyrir, það er að segja ef að hann hefði sinnt skyldum sínum að heimsækja Sjöundá og reyna að afstýra því hneyksli sem samdráttur Bjarna og Steinunnar var. Það má efast um það en hefur auðvitað ekki þýðingu í málinu vegna þess að Jón Ormsson ákveður að gefa skýrslu samt sem áður. Í Landsyfirrétti lýkur þætti Jóns Ormssonar þannig að biskupi er sett fyrir að taka hann til bæna og beita hann viðurlögum. Það má spyrja hvort það sé í verkahring Landsyfirréttar að gefa slíka ordru og væntanlega er svarið við neikvætt.
Refsing Bjarna og Steinunnar sem sumum finnst forneskjuleg er samt sem áður í samræmi við ítrekuð fyrirmæli konungs í alvarlegum manndrápsmálum á þessum tíma, pyntingar frá aftökustað, handarhögg o.s.frv. Magnús Stephensen, dómstjóri Landsyfirréttar, var ekki þekktur fyrir refsigleði og mun hann hafa verið í minnihluta dómsins þegar refsing Bjarna var þyngd úr þremur í fimm klípingar. Svo er það dæmigert fyrir Hæstarétt ákveðið er að hafa að hafa klípingarnar fjórar og þannig farið miðja vegu milli dóms í héraði og Landsyfirrétti. Konungur náðaði svo Bjarna af klípingunum en það var skylda að áfrýja dauðadómum til Hæstaréttar sem svo skyldi bera undir konung. Má af því marka að menn treystu ekki dómstólum varlega í þessu efni og endanlegt dómsvald var ótvírætt í höndum konungs í samræmi við einveldisskipulag tímans.
Pétur Guðmann Guðmannsson: Réttarlæknisfræðileg greining á líkum Jóns Þorgrímssonar og Guðrúnar Egilsdóttur
Hér er hægt að nálgast matsgerð Péturs
Ég ætla að byrja á því að þakka Lögfræðingafélaginu fyrir að muna eftir réttarlæknisfræðinni. Ef við fáum líkama í nútímanum þar sem grunur er um manndráp fer fram líkskoðun, mjög nákvæm ytri skoðun, þar sem allt líkamsyfirborð er skoðað. Síðan er líkið krufið og skoðað að innan. Í krufningsskýrslu myndum við kannski vera með 100-200 skoðunarpunkta sem við myndum fjalla um í niðurstöðu okkar. Í dómskjölum vegna Sjöundármála liggja fyrir svona 3-5 skoðunarpunktar sem eitthvað er hægt að vinna með sem hrátt gagn. Það er lítið en óskaplega freistandi að gera það.
Lík Jóns Þorgrímssonar
Það er lítið í dómskjölum um lík Jóns Þorgrímssonar. Þó er sagt að það sé skaddað að skinni og holdi á höfðinu. Ég túlka það þannig að mjúkvefir séu þá af eða að miklu leyti burt á þessu svæði. Það er talað um að hendur og tær séu á burt. Það er hola á hálsinum framanverðum, líklega neðanverðum, og hvort að þessi hola sé eiginleg hola vegna þess að þegar brúnum sársins sé lýst kemur fram að holdið sé „ekki frá étið“. Þetta er eiginlega eina orðið sem lýsir því hvernig holan er. Þetta er ofboðslega mikilvægt þegar greina á áverka. Við sjáum ekki holu eða vefjareyðu í áverkum og ég velti fyrir mér hvort holan sé eyða í vef eða rof í vef? Við stungusár þá hefði orðið rof í vef og enginn vefur væri á burt. Við sjáum ekki holu eða vefjareyðu í áverkum eftir til dæmis stungu. Ef þetta er vefjareyða á líki sem hefur verið í sjó, og markvikindi af ýmsu tagi hafa komist í það, má ætla að margar vefjareyður séu á því. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði.
Ég nefni í matsgerðinni að við gætum talað um holuna sem mögulegan áverka en það er mjög langsótt, myndi ég ætla. Á meðfylgjandi mynd [á glæru sem ekki fylgir hér með] sést hola á líki sem velktist um í sjó í örfáa daga og marflær hafa gert í holur en þær vinna mjög hratt. Þær éta vefi og herja á viðkvæmari svæði þar sem húðin er þynnst og bestur aðgangur inn í holdið sjálft, til dæmis augun. Þess vegna er það ekki óalgengt að andlit og höfuðmjúkvefirnir séu á burt fyrst við rotnun. Hér er annað lík [á glæru sem ekki fylgir hér með] með áverka eftir krabbadýr og á því eru margar holur, þetta eru klassísk dæmi. Hér er þriðja dæmið [á glæru sem ekki fylgir hér með] um lík sem hefur velkst um í sjó í marga mánuði. Þarna sjáið þið holu og það er alveg víst að hún er komin til vegna markvikinda. Hún er í fullkomnu samhengi við þessa náttúrukrafta.
Úr hverju dó Jón? Hann dó líklega í apríl og er dáinn í hálft ár áður en hann finnst. Við gefum okkur það að hann sé með miklar rotnunarbreytingar hvernig svo sem hann hefur verið geymdur. Þessi hola er að öllum líkindum breyting út af aðstæðum líksins svo það er ekkert sem að situr eftir og gefur okkur dánarorsökina, hvort honum hafi verið komið fyrir eða hann hnigið niður, runnið til eða hvort hann hafi bara drukknað.
Það að hann hafi verið sleginn með staf í höfuðið einu sinni og dáið af því er ótrúverðugt. Ef það er rétt, sem skoðunarmenn líksins segja, að höfuðbeinin séu óbrotin þá hefur hann ekki hlotið þeim mun meiri höfuðáverka við eitt högg. Bjarni talar um eitt högg og líka það að stafurinn hafi gengið í sundur og sá kraftur sem að Jóni er veittur er því þeim mun minni. Ég held að það sé ótrúverðugt að hann hafi dáið af þessu eina höggi ef það hefur ekki orðið neitt rof á höfuðkúbubeininu. Það passar ekki. Það getur alveg verið að hann hafi rotast og Bjarni kannski haldið að hann væri dauður og sett hann í sjóinn eins og hann lýsir, svona gróflega. Kannski er bara líklegra að hann hafi rotað hann og tekið hann hálstaki eins og hann gerði við Guðrúnu. En það er ekkert á líkinu sem að bendir sterklega á eitthvað eitt. Það er þó mikilvægt að hann er ekki með stórkostlega höfuðáverka og virðist ekki vera beinbrotinn. Ég tek því þó aðeins með fyrirvara því það getur dulist mjög. Húðin hefur tilhneigingu til að halda sér þrátt fyrir fall úr mikilli hæð. Maður veit ekki hversu vel þeir þukluðu hann og þreifuðu. Þannig er það með Jón.
Lík Guðrúnar Egilsdóttur
Snúum okkur að Guðrúnu. Hún var í ferskara ástandi þegar hún var skoðuð og mann klæjar í puttana að skoða líkið mjög vel. Þá hefði verið hægt að finna út úr hverju hún dó. Því er lýst að hún sé með bláma efst hægra megin á brjóstinu og að þau sem skoðuðu líkið hafi þuklað blámann. Ég myndi halda að þetta sé mar.
Því er líka lýst að hún sé með uppþemdan kvið og að hún sé með „drisblöðrur“. Það tóku ekki allir eftir því að það voru blöðrur undir bolnum á brjóstinu. [sjá glæru] Þetta er klassískt fyrirbæri og það sem við sjáum þegar lík byrja að þenjast út vegna rotnunar. Kviðurinn er fyrsti parturinn sem þenst út, bakteríur í iðrunum fara að leika lausum hala og búa til loft.
Menn standa oft á blístri viku eftir andlátið. Blöðrurnar eru á yfirhúð og eru að losna af. Það er engin stjórnun á dánum líkama, vökvi flyst úr einu hólfi í annað, þrýstist út úr líkamsvefjunum og undir yfirhúðina sem losnar af og þá verða þessar vökvafylltu blöðrur. Ég held að menn hafi verið að horfa á Guðrúnu rotna, ekki það að hún hafi verið þunguð eins og þeir veltu fyrir sér í dómskjölum. Mér telst til að vika hafi liðið áður en hún var skoðuð.
Hér er mynd [á glæru] sem sýnir fórnarlamb kyrkingar, undirtegund sem hefur verið nefnd „burking“ þegar gerandinn leggst ofan á brjóst fórnarlambsins og hindrar öndunarhreyfingar. Þá sér maður meira og minna húðblæðingar á brjósti eða herðablöðum út af þeirri pressu sem er fyrir neðan hálsinn. Stundum er það jafnvel það eina sem er sýnilegt. Þess vegna er áhugavert að lesa lýsingu á líkama Guðrúnar sem er með mar á sérkennilegum stað. Í dómskjölum lýsir Bjarni því í lokin hvernig þau fara með hana og það passar vel við að hann hafi lagt hana á jörðina, haldið um vit hennar og háls með höndum og lagst svo ofan á hana. Hann þarf svo að biðja Steinunni um að koma og halda henni. Því miður er líkið ekki skoðað nákvæmlega, til dæmis hvort verið hafi punktblæðingar í augum og andliti. Dánarorsök Guðrúnar er ekki augljós og það væri gaman að geta fyllt í allar þessar eyður.
Jón Friðrik Sigurðsson: Trúverðugleiki framburðar sakborninga
Ég ætla að fjalla um hvort hægt sé að treysta játningunum í Sjöundármálinu. Þetta mál byggir á sveitaorðrómi sem við þekkjum í nútímanum sakamál sem byggja fyrst og fremst á orðrómi þar sem vettvangurinn er í raun og veru ekki til. Það hafa fleiri velt fyrir sér játningunum í Sjöundármálinu og ég bendi á skemmtilega grein Þórs Vilhjálmssonar í Guðrúnarbók. Þar segir hann: „Á fyrsta degi neituðu þau bæði…“ svo segir Þór: „… vekja sinnaskipti Bjarna og Steinunnar sérstaka athygli.“ Hann bendir á að ef þau hefðu ekki játað, ef þau hefðu haldið sig við upphaflegan framburð, þá hefðu þau ekki verið líflátin, jafnvel sýknuð. Það er skemmtileg síðasta setningin: „Sjálfsagt hafa þau ekki haft fulla sjálfsstjórn, en varla svo brenglaða að það hafi leitt þau til að breyta framburði sínum.“ Það er það sem er áhugavert að skoða. Var sjálfsstjórn þeirra svona brengluð? Játuðu Bjarni og Steinunn á sig rangar sakir? Eru játningar þeirra falskar? Það verður mitt hlutverk að svara þessu eins og hægt er.
Aðeins að fræðunum og fölskum játningum. Skilgreiningin á falskri játningu er viðurkenning á sekt, auk frásagnar af broti sem viðkomandi framdi ekki. Þið takið eftir „auk frásagnar“. Við þekkjum fjölmörg dæmi um að fólk játar á sig rangar sakir og lýsir brotinu þannig að það verður trúverðugt svo yfirvöld efast ekki um að viðkomandi hafi verið á staðnum og framkvæmt verknaðinn.
Viðurkenning á broti sem að maður hefur ekki framið á sér venjulega stað við yfirheyrslur hjá lögreglu. En fólk gefur líka falskar játningar af fúsum og frjálsum vilja. Það þekkjum við líka hér á Íslandi að þegar framið er alvarlegt brot eins og manndráp og lögreglan hefur ekki upplýst, málið er í rannsókn, þá kemur fólk inn á lögreglustöð og segist hafa framið glæpinn. Það er eitt þekkt mál þar sem ungur maður játaði á sig sakir, játaði að hafa myrt fullorðinn mann sem gekk eftir Ægissíðu snemma árs, en svo kom í ljós að hann vissi nákvæmlega ekkert um atvikið og var sakfelldur fyrir rangan framburð. Það eru fleiri svona dæmi sem við eigum.
Það eru þrjár mismunandi ástæður fyrir því að fólk játar falskt. Sumir gera það sjálfviljugir, eins og ég var að nefna og það geta verið einstaklingar sem að eiga ekki auðvelt með að greina ímyndanir frá veruleikanum. Játningar af undanlátssemi eiga sér síðan stað við yfirheyrslur ef fólk finnur fyrir of miklum þrýstingi, til að losna undan yfirheyrslunni og bjarga sér í burtu. Þá játar það en er fullvisst um að það hafi ekki framið brotið. Þriðja tegundin er sú sem gæti átt við í þessu máli. Hún er fengin fram með þvingun á þann hátt að viðkomandi, sá sem er yfirheyrður, er sannfærður um það að hann hafi framið brotið. Það eru til fjölmörg dæmi um þetta í sögunni. Viðkomandi fer að vantreysta minni sínu. Í Sjöundármálum var málsmeðferðarhraðinn mjög mikill og við stöldrum því ekki við að þetta hafi gleymst og rifjist svo upp löngu seinna eins og gerist í sumum málum. Það er ákveðin dýnamík sem á sér stað við yfirheyrslur og er dálítið háð eðli málsins. Er um að ræða einfaldan þjófnað eða mjög alvarlegt mál sem kallar á þungar refsingar? Við þurfum að skoða bæði yfirheyrandann og þann sem er yfirheyrður, bæði aðferðirnar og einkennin. Svo eru það viðbrögð hins yfirheyrða við yfirheyrslunni.
Þetta eru upplýsingarnar sem við höfum um Bjarna og Steinunni: Bjarna er lýst sem bráðlyndum, raungóðum og heimskum. Það eru hlutir sem að við verðum að hafa í huga í svona málum. Einnig segir í dómskjölunum: „Ekki þekktur af skelmisstykkjum“ – eftir því sem ég kemst næst á þetta við um hrekkjabrögð sem eru alvarlegs eðlis. Steinunni er lýst þéttlyndri, þ.e. alvörugefinni, spakri og skýrri og hún var álitin „skikkanleg“ manneskja. Þarna voru átta börn. Þór minnist á þetta í sinni grein: „Áður en brotin voru framin höfðu hvorki Bjarni né Steinunn framið brot, svo séð verði.“ Við getum einnig haft í huga að þau voru fátækt bændafólk en vitum ekki hvort þau voru læs eða skrifandi. Það hefur líka áhrif á dýnamík við yfirheyrslur hvaða burði fólk hefur greindarfarslega eða þekkingarlega séð.
Það sem vekur athygli úr dómskjölum er að það er gengið út frá sekt Bjarna. Neitun hans er merki um sekt, en ekki að hann sé að segja satt, því þarf að fá hann til að játa og ef hann gerir það ekki þá þarf að fá prestinn til að ganga á hann og reyna fá hann til að játa. Og ef hann hikar, eins og gerist stundum þegar fólk er yfirheyrt fyrir dómi, þá er það merki um að hann sé sekur. Það er ekki merki um að hann sé óöruggur, í þessu tilviki illa gefinn, og truflist þess vegna. Hann er staðfastur í upphafi, hann ítrekar fyrir réttinum staðinn sem hann sagði Jón hafa runnið niður skriðuna. Presturinn var fenginn til að ganga á hann „… þá truflaðist hann nokkuð í þrætu sinni við það að ég sagði að það væri ómögulegt að maðurinn hefði hrapað þar af Hlíðunum.“ Ef hann hikar eða truflast „í þrætu sinni“ þá er hann ekki að segja sannleikann. Neitun Bjarna var merki um sekt og það þurfti að fá hann til að játa. Ef hann játaði ekki þurfti að fá prestinn til að „ganga á hann“ og reyna fá hann til játa, ef hann hikaði eða truflaðist „í þrætu sinni“ þá var hann ekki að segja sannleikann. Svo er spurningin: Kom sannleikurinn í ljós eftir að presturinn hafði sannfært þau?
Síðan koma skilaboð frá séra Eyjólfi Kolbeinssyni um að Bjarni og Steinunn séu ekki lengur „… forstokkuð heldur hefðu þau í gærkvöldi viknað og til staðið heimuglega fyrir sér sínar misgjörðir og sagt frá öllum að mestu sannsýnilegum kringumstæðum og atvikum við bæði morðin, af hálfu hvors þeirra, og staðfest sína sömu meðkenningu nú í morgun fyrir sér og svo heimuglega.“
Það eru sex atriði sem réttinum fannst gefa til kynna að framburður þeirra í fyrsta þinghaldinu væri ekki sannleikanum samkvæmur. Það var að Bjarni staðfesti upphaflegu frásögn sína, neitaði sekt, þau leituðu ekki að Jóni og svo var misræmi í framburðinum, t.d. varðandi skinnbuxurnar. Þetta stendur í dómskjölunum: „Vitnisburður hans [Bjarna] um buxur Jóns er gjörvallur svo villulegur.“ Gætu skýringarnar verið þær að Steinunn hafi haft meiri þekkingu á fötum heldur en Bjarni? Sagan segir að hún hafi verið annáluð hannyrðakona. Svo sagði Bjarni að skinnbuxurnar hefðu fundist um sumarmál en Steinunn þegar jörð var farin að grænka. Ég átta mig ekki á tímamuninum, er þetta ekki lýsing á svipuðum tíma.
Svo er það þetta sem skiptir máli: Þegar fólk er yfirheyrt um eitthvað sem það átti ekki von á að vera yfirheyrt um þá leggur það atburðarrásina kannski ekki sérstaklega á minnið fyrirfram. Í málinu er gengið út frá því að það hefðu verið samantekin ráð að neita öllu. Misræmið getur stafað af því að þau höfðu ekki farið nákvæmlega yfir atburðarrásina þessa daga sem að Jón og Guðrún létust þannig að þau gætu samræmt sig.
Förum aftur yfir þetta: Hér er um að ræða morðmál og refsingarnar skýrar. Yfirheyrendur eru tveir, sýslumaður og prestur. Við getum ímyndað okkur að Bjarni og Steinunn hafi verið hrædd. Við getum líka hugsað um sektarkennd. Þau áttu mörg börn og hvað yrði um börnin ef að þetta færi á versta veg? Bjarni var sagður heimskur og bráðlyndur. Ef við hugsum þetta út frá því sjónarhorni að játningarnar hefðu verið ótrúverðugar, þá getum við velt fyrir okkur; hvernig líður fólki þegar orðrómurinn segir að þau hafi verið völd að dauða tveggja einstaklinga? Ef það er ekki satt, hvernig hefur þeim liðið? Svo eru það tengslin við börnin. Mér finnst mjög skrýtið í málinu að það er ekkert talað um börnin. Þau voru átta og við sem höfum nú farið á staðinn sjáum að umhverfið er mjög þröngt og tvö morð hafa verið framin þarna á þessum tíma án þess að það truflaði eitthvað börnin, eða hvað? Það er erfitt að trúa því. Hvernig voru aðstæðurnar í varðhaldinu? Kalt, dimmt, drungalegt og óvistlegt? Voru þau höfð í járnum? Það getur haft áhrif á líðan þeirra þegar þau komu inn í yfirheyrslurnar. Prestur var látinn tala um fyrir þeim. Hvaða aðferðir notaði hann? Ræddi hann við þau sitt í hvoru lagi? Bar hann á milli þeirra? Við lestur gagnanna virðist hann hafa verið viss um sök þeirra. Reyndi hann þess vegna að sannfæra Bjarna um að hann hefði myrt þau? Var það aðferðin sem að hann notaði? Ól hann á sektarkennd vegna sambands þeirra og löngunar til að eigast? Höfðaði hann til trúar þeirra eins og Þór Vilhjálmsson fjallar um, til eilífðar útskúfunar? Þau gætu hafa verið hrædd um að missa börnin sín. Voru þau með sektarkennd vegna barnanna? Þau voru búin að koma sér og fleirum í vanda. Voru þau haldin vonleysi vegna framgangs yfirvaldsins? Við verðum að hafa í huga að þetta var fátækt bændafólk en prestur og sýslumaður menntaðir. Bjarni gæti hafa verið óöruggur. Hvað hafði Steinunn sagt? Í svona málum skiptir það máli. Svo var haldin samprófun. Það er eitt af því sem gert var í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu þar sem Sævar og Erla voru yfirheyrð saman. Látin þræta um framburð hvors annars. Út úr þessu kom játning sem er ekki alveg ljóst hvort sé fölsk. En það er hæpið að segja, eins og kemur fram í dómskjölum, að Bjarni hafi játað óneyddur.
Hver er niðurstaðan? Játuðu þau Bjarni og Steinunn á sig rangar sakir? Ýmsu er ósvarað. Ég segi eins og Pétur, það hefði verið gaman að hafa fleiri gögn, hafa þau fyrir framan sig og spyrja þau spjörunum úr. Ef menn gengu út frá því að þau væri sek í upphafi þá hefur það haft áhrif á yfirheyrslurnar, það er alveg ljóst. Hvaða áhrif hafði þessi hneykslanlegi samdráttur þeirra, eins og hann er orðaður? Þau eru líka dæmd fyrir hann.
Það sem við vitum í fræðunum er það að það eru tvær meginástæður fyrir því að fólk játar eftir að hafa neitað staðfastlega. Önnur ástæðan er sú að sá yfirheyrði áttar sig á því að yfirheyrandi hefur sannanir, að það þýði ekkert að vera að neita meira. Hin ástæðan er að fólk upplifir þrýsting. Ég er ekki að tala um barsmíðar eða hótanir heldur að fyrst og fremst skapa aðstæðurnar og aðstöðumunurinn þrýsting. Þá skulum við velta fyrir okkur í lokin niðurstöðu Þórs: „Ekki verður séð að neitt sé að athuga við þingbókina og ekki rök til að gruna sýslumann eða aðra um að kúga fangana til að játa á sig morð sem þau höfðu ekki framið“.
Ég lík þessu með spurningunni: Getum við fallist á niðurstöðu Þórs? Ef við tökum þetta sjónarhorn, þá er svo augljóst að það er ákveðið fyrirfram að þau séu sek; „… eftir að Bjarna varð snúið með prestsins fortölum frá upptekinni þrjósku og þeirra innbyrðis samningi að leyna hvort eftir öðru…“. Ég tek það þó fram að það er af og frá að hægt sé að slá því föstu að um falskar játningar sé að ræða.
Guðrún Sesselja Arnardóttir: Hvaða vörn hefðu þau Bjarni og Steinunn átt að fá?
Hér á undan höfum við hlustað á mjög áhugaverð erindi þeirra Péturs og Jóns Friðriks sem hafa hreinlega lagt málið upp í hendurnar á vörninni. Góður maður, mér nákominn, var þekktur fyrir að segja við sína skjólstæðinga; „játaðu bara, svo skal ég verja þig“ en hér um árið virðist vörn Guðmundar bónda Sigmundssonar skipaðs defensor hafa farið fyrir ofan garð og neðan.
Förum aðeins yfir hvernig þetta byrjaði allt saman. Það kom bréf frá sýslumanni til hreppstjóranna á Rauðasandi 28. september 1802 þar sem hann fól þeim að rannsaka málið. Tónninn er strax gefinn í þessu bréfi Schevings sem gefur fyrirmæli um að spyrja hvort Bjarni þekki ekki þar sín verk og meðkenni ekki morð Jóns. Þetta er svona: „Ertu ekki ennþá að berja konuna þína“ spurningar. Síðar í bréfinu segir: „Játi hann þessu á sig þá er gott en þræti hann, verðið þér að biðja prestinn að ganga á hann og í öllu falli að flytja hann að Haga“.
Það er búið að fara yfir það hér að það var staðföst neitun hjá Bjarna og Steinunni frá upphafi. Fyrri skýrslan er tekin 8. nóvember og enn á ný þræta þau bæði. Eftir þennan fyrri dag þá eru teknar saman grunsemdir réttarins í sjö liðum. Segir svo: “Ásetur því sýslumaðurinn að biðja E. Kolbeinsson prest, ásamt sér, að tala um fyrir þeim Bjarna og Steinunni og reyna að snúa þeim frá rímlegast upptekinni þrætni til sannleikans skýlausrar viðurkenningar.“
Það var búið að gefa sér fyrirfram að þau væru sek og þessar játningar Bjarna og Steinunnar um kvöldið og nóttina, þegar séra Eyjólfur og mögulega sýslumaður sjálfur setjast yfir þau, eru auðvitað fengnar með ólögmætum hætti. Er verið að tala við þau í sitt hvoru lagi? Eða, eins og við sjáum stundum í bíómyndum, er verið að segja við Steinunni að Bjarni sé búinn að játa og öfugt?
Þá erum við komin að vörninni. Játningarnar voru klárlega ólögmætar, þau voru þarna upp á vatn og brauð, hann í járnum ef mér skjátlast ekki en vörnin kemur einungis að því að krefjast málskostnaðar. Hvernig byrjaði svo vörnin hjá Guðmundi Sigmundssyni defensor? Í dómskjölum kemur fram: „Án þess að vilja fegra þann viðurstyggilegasta glæp, sem Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir á Sjöundá eru nú eftir eigin meðkenning orðin opinber að fyrir þessum rétti …” Einar ber helst í bætifláka fyrir Steinunni og segir: „… viðvíkjandi morði Jóns heitins Þorgrímssonar - Steinunnar Sveinsdóttur vitund og launung með Bjarna á báðum morðunum mætti máski afsakast með þeirri þykkju, sem hún af Jóns heitins sífelldu nöldri hafði til hans fengið …“ Jón var náttúrulega bara leiðinlegur, það er hægt að lesa það úr þessu og vona að það séu ekki margir nákomnir ættingjar hans hér. Svo segir: „ … og ekki minna af hennar elsku til Bjarna …“. Hún var auðvitað skotin í Bjarna: „… og ótta fyrir honum, hefði hún opinberað hann, þegar menn setja sér fyrir…“ Verjandinn er að biðja dóminn um að setja fyrir sér: „… sjón kvenlegra tilhneiginga óstjórnleika… „ Hún gat ekki haft stjórn á sér af því að hún var kona og því fékk hann hana til þess að taka þátt í glæpnum. Ég held að þetta hafi verið öðruvísi af því að Bjarni lýsti því nú að það var hún sem eggjaði hann mjög að drepa Guðrúnu úr því að hann var búinn að drepa Jón – ef við eigum að trúa játningunum sem við getum ekki gert því þær voru fengnar með ólögmætum hætti.
Það sem fram kemur hjá Jóni Friðriki um að sú síðari meðkenning þeirra væri óneydd og staðfest af þeim fyrir réttinum. Niðurstaðan er sú að það var búið að ákveða fyrirfram að þau væru sek, þetta var undirmálsfólk, fátækt fólk, sem er búið að vera á milli tannanna á fólki, bera þau út um allar sveitir, meðal annars hafði Guðrún Egilsdóttir kona Bjarna borið út að þau ættu í sambandi enda kannski erfitt að leyna framhjáhaldi í bæ eins og á Sjöundá. Þau voru umtöluð, standa þarna frammi fyrir yfirvaldinu og ekki nóg með það heldur er skriftafaðir þeirra, séra Eyjólfur Kolbeinsson, sem fær þau til þess að játa á sig sakir sem þau að sjálfsögðu áttu ekki að gera. Ég vísa til þess sem kom fram hjá Jóni Friðrik um að þetta séu falskar játningar og mögulega hafi þau sjálf verið orðin sannfærð um það eftir nóttina að þau hafi gert þetta. Þau hafa verið með sektarkennd yfir því að hafa verið í framhjáhaldi og svo er það yfirvaldið. Ég held að niðurstaðan hefði aldrei orðið sú sama í dag eins og þarna, fyrir 220 árum. Það eru engin sönnunargögn gegn þeim önnur en þau sem fengin voru fram með vafasömum hætti. Ekkert fast í hendi varðandi þessar ófullkomnu líkskoðanir. Ég tel að það hefði ekki verið möguleiki á að sakfella þau í dag, byggt á þessum gögnum. Takk fyrir.
Benedikt Bogason: Hvaða dóm hefðu Bjarni og Steinunn fengið ef að dæmt hefði verið í málinu í dag?
Það kemur í minn hlut að fjalla um hvaða dóm Bjarni og Steinunn hefðu fengið ef dæmt hefði verið í dag. Hvað höfum við á borðinu? Við erum með skýrslurnar sem eru raktar nokkuð ítarlega í þingbókinni, spurningar og svör við þeim, vitnisburði og álit í undanfara málsins. Þetta eru aðgengileg gögn.
Það sem er til viðbótar, og hefur kannski mesta gildi núna, eru upplýsingar sem hafa komið fram hér á fundinum. Pétur Guðmann fór yfir málið með réttarfræðilegri matsgerð, sem er upp á nokkrar blaðsíður, þar sem farið er yfir allt sem liggur fyrir og dregnar ályktanir af því. Þær skipta máli þegar lagt er mat á málið. Svo hefur Jón Friðrik farið yfir aðstæður þeirra Bjarna og Steinunnar og hvernig staðið var að því að fá fram játningar þeirra. Þetta tvennt er nýtt í málinu. Hvernig horfir þetta þá við?
Fyrst ber að nefna, sem áhugavert og myndi aldrei viðgangast í dag, að það er framganga yfirvaldsins í þinghaldinu 8. nóvember, þegar presturinn er notaður til að knýja fram játningar. Bjarna og Steinunni var ekki trúað og það voru í sjálfu sér alveg ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi kannaðist Steinunn við að hafa gefið Guðrúnu graut þar sem búið var að setja í einhverja ólyfjan í yfirheyrslu 8. nóvember. Það kviknuðu sterkar grunsemdir, hlýtur að vera, þegar þetta var sagt. Hún játaði svo 9. nóvember. Þetta var í sjálfu sér í samræmi við það sem Guðrún hafði sjálf sagt þannig að Steinunn gengst við því. Síðan er talið að frásögn Bjarna sé ótrúverðug í ljósi líkskoðunar. Hans fyrsta frásögn var að Jón hafi farið inn að Skor að sækja hey. Hann segist hafa séð hvar hann hafði fallið niður. Það sem gengur hins vegar ekki upp er skoðun á líkama Jóns sem samrýmist því ekki að hann hafi hrapað einhverja 100 metra niður Skorarhlíðar. Svo var ekki farið að leita að Jóni en ef hann hefði týnst með þessum hætti hefðu menn sennilega gert það. Grunsemdir vakna vegna þessa.
Presturinn er gerður út af dóminum til að fá þau til að viðurkenna. „… og reyna að snúa þeim frá rímlegast upptekinni þrætni til sannleikans skýlausrar viðurkenningar“. Af hverju var presturinn valinn? Hvaða tæki skyldi hann nú hafa haft? Til að skoða þennan þátt þurfum við auðvitað að setja okkur inn í það þjóðfélag sem þá var og þankagang. Trúin hafði miklu meira vægi og að brenna á báli helvítis til eilífðar voru viðurlög sem voru miklu verri en allt annað, þetta hlýtur að hafa bitið á þeim tíma og hlýtur að hafa verið tæki sem beit á þá sem voru í raun sekir. Það að beita prestinum með þessum hætti myndi ekki viðgangast í dag og meira að segja orkaði þetta tvímælis á þeim tíma. Í norsku lögum mátti prestur ekki greina frá því sem skriftað var fyrir honum og gat hann misst hempuna fyrir vikið. Fræðimenn í kirkjurétti töldu að þetta væri óheimilt og Jón Pétursson, sem var dómari við Landsyfirrétt í tæp 40 ár og kenndi í prestaskólanum í rúm 30 ár, skrifaði kirkjurétt þar sem hann fullyrðir að þessi regla norsku laganna væri enn í gildi. Samt gerir Landsyfirrétturinn ekki athugasemd, jafn tamt og honum var að finna að einu og öðru.
Hefðu þeir ekki hnýtt í þetta í Landsyfirrétti og falið biskupi að taka á þessu? Af hverju ekki? Maður spyr sig; af hverju var það ekki gert? Vildi Landsyfirréttur ekki grafa undan játningum sem réðu niðurstöðu málsins? Afleiðing af þessu hefði átt að vera hempumissir fyrir séra Eyjólf.
En jafnvel þótt að annmarki hafi verið á öflun sönnunargagna á þessum tíma, og varla í dag, þá er ekki hægt að slá þau út af borðinu. Þessar játningar koma daginn eftir að prestur hafði verið að eiga við sakborningana, hvernig horfa þær við? Maður spyr sig. Aðalgrunsemdin beindist gegn þessari stungu í hálsi Jóns og Bjarni neitaði alltaf að hafa valdið henni, féll aldrei frá þeirri neitun sinni. Ef að hann var að gangast við einhverju sem hann hafði hvort sem ekki gert, af hverju gekkst hann ekki bara við því? Af hverju stóð hann svona fastur á því? Hefði hann ekki átt að játa þá bara allt saman? Var ekki það sem hann bar nokkuð trúverðugt? Og þá líka það sem Steinunn sagði? Er ástæða til að ætla að ef þetta hefðu verið falskar játningar að þau hefðu bæði gefið eftir í einu? Hefði ekki annað viknað og bognað undan þessu?
Þau gefa bæði eftir. Það að Bjarni gengst aldrei við stungunni, að hafa valdið þessum áverka, gerir framburð hans nokkuð trúverðugan. Sú neitun Bjarna styðst svo við það sem Pétur Guðmann sagði okkur um þessa holu. Það er samhengi þar á milli. Niðurstaða Péturs bakkar upp það sem Bjarni sagði.
Bjarni kemst í mótsögn, gerist ótrúverðugur og verður margsaga varðandi hvernig þetta gerist og líkið styður ekki framburð hans um að Jón hafi fallið niður hamra. Niðurstaða Péturs, að þetta eina högg með sljóu verkfæri hafi tæplega getað valdið því að Jón datt niður dauður eins og höfuðkúpan var, grefur líka undan því sem hann gengst við og þess vegna virðist óhætt að ganga út frá því að Bjarni hafi gengið harðar fram þarna í fjörunni en hann gengst við. Það er mjög algengt í sakamálum að menn drag úr innan ákveðinna marka. Sennilega hefur hann borið meiri ábyrgð á dauða Jóns en þetta eina högg sem hann viðurkenndi að hafa slegið. Það kann að vera að átökin í fjörunni hafi gengið lengra og að lokum kannski leitt til dauða Jóns án þess endilega að það hafi verið ásetningur í upphafi. Ég held að það sé freistandi að komast að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 218.gr., sem er líkamsárás sem leiðir til bana, eigi við um lát Jóns.
Það sem Pétur sagði áðan um að áverki á ofanverðu brjósti Guðrúnar styðji síðan frásögn þeirra Bjarna og Steinunnar um að þau hafi drepið hana.
Ég hallast að því að þótt ýmsir gallar hefðu verið á málinu, bæði það að nota prestinn og sækja ekki lækni til að skoða líkin, þá bendir flest heldur til þess að Bjarni beri ábyrgð á dauða Jóns og þau saman á dauða Guðrúnar. Ég held síðan að aðkoma Steinunnar að dauða Jóns sé þunnur þrettándi, að minnsta kosti sé hún óveruleg og erfitt að gera hana ábyrga þar þó hún hafi kannski vitað að þetta væri í bígerð eða til umræðu. Þá er hennar aðkoma að því að minnsta kosti óveruleg. Hún hins vegar gekkst við því að hafa haldið höndunum á Guðrúnu þegar Bjarni var að kæfa hana og það er þá bein þátttaka í því drápi. Þetta held ég að sé nú niðurstaðan.
Í bókmenntum liggur gjarnan samúðin með gerendum en faglega er erfitt annað en að virða þetta með þessum augum.
Eyrún Ingadóttir frkvstj. LÍ tók saman.