Lög Lögfræðingafélags Íslands

I. KAFLI

Heiti félags, heimili og hlutverk

1. gr.
Félagið heitir Lögfræðingafélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Hlutverk félagsins er að:
1. Efla samheldni með íslenskum lögfræðingum.
2. Gæta hagsmuna lögfræðingastéttarinnar í hvívetna og vera í fyrirsvari fyrir stéttina gagnvart innlendum og erlendum aðilum.
3. Stuðla að vísindalegri umræðu og rannsóknum í lögfræði.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:
1. Efla tengsl milli lögfræðinga og sérfélaga þeirra hér á landi og erlendis.
2. Efna til funda um lögfræðileg efni.
3. Styrkja útgáfu lögfræðirita, þar á meðal tímarita um lögfræði.
4. gr.
Allir þeir sem lokið hafa grunn- og framhaldsnámi í lögfræði (150 einingum) frá viðurkenndum háskóla eiga rétt á að verða félagsmenn.
Nú tilkynnir lögfræðingur stjórn félagsins að hann óski að gerast félagsmaður og nýtur hann þá félagsréttinda er stjórnin hefur gengið úr skugga um að hann fullnægi skilyrðum fyrir aðild að félaginu.
Stjórn er þó heimilt að veita manni aukaaðild að félaginu sem lokið hefur grunn- eða meistaranámi í lögfræði við viðurkenndan háskóla, enda njóti þeir þá ekki atkvæðisréttar á félagsfundum. Sá sem óskar eftir aukaaðild á grundvelli þessarar heimildar skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn. Stjórn félagsins metur hvort nám hans fullnægir þessum skilyrðum.
Heimila má laganemum og öðrum en félagsmönnum aðgang að félagsfundum, eftir því sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni.
Innan félagsins er heimilt að starfrækja undirfélög, með sérstakar stjórnir og samþykktir.
5. gr.
Félagið getur kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef ¾ hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði.
6. gr.
Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna.

---

II. kafli

Félagsfundir

7. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda í apríl eða maí ár hvert. Til hans skal boðað með auglýsingu í blöðum eða með rafrænum hætti á annan tryggilegan hátt, með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur.
Rétt til setu og atkvæðis á aðalfundi eiga þeir félagsmenn sem staðið hafa skil á félagsgjaldi yfirstandandi starfsárs.
Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum þessum.
Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins eða varastjórn skulu tilkynna það til stjórnar ekki síðar en sjö dögum fyrir aðalfund.
8. gr.
Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:
1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.
2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar.
4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
5. Önnur mál.
9. gr.
Almennan félagsfund skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að kröfu tíunda hluta félagsmanna eða skoðunarmanns.

---

III. KAFLI

Stjórn félagsins

10. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum og tveimur til vara.
Leitast skal við að sem flestir starfshópar lögfræðinga eigi fulltrúa í stjórninni.
Formann og varaformann skal kjósa sérstaklega á aðalfundi en aðra stjórnarmenn skal kjósa í einu lagi og skipta þeir með sér störfum.
11. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja.
Stjórn félagsins getur ráðið framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri félagsins sem í þeim efnum skal fara eftir stefnu og fyrirmælum stjórnar.
Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Ef framkvæmdastjóri er ráðinn skal hann annast um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðiljum og er undirskrift formanns nægileg til þess. Ef framkvæmdastjóri er ráðinn getur hann komið fram út á við fyrir hönd félagsins og skuldbundið það í málum sem eru innan verksviðs hans samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.
12. gr.
Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara.
Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meiri hluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum.
Stjórn skal halda fundargerðir.

---

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði

13. gr.
Reikningsár félagsins er frá 1. apríl til 31. mars.
 
14. gr.
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.
 
Tillögur til breytinga á lögum félagsins verða ekki teknar til endanlegrar afgreiðslu nema helmingur félagsmanna hið fæsta sæki aðalfundinn.
 
Nú sækir ekki tilskilinn hluti félagsmanna aðalfund samkvæmt 2. málsgrein og skal þá efna til framhaldsaðalfundar, sem boðað skal til með sama hætti og aðalfundar. Er sá fundur lögmætur án tillits til fundarsóknar, hafi verið löglega til hans boðað. Fái tillaga til lagabreytingar samþykki meiri hluta fundarmanna á framhaldsaðalfundi öðlast hún þegar gildi.
 
15. gr.
Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá 
sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 14. gr. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins.
---
Lögum þessum var breytt á  aðalfundi 2005, framhaldsaðalfundi 9. febrúar 2006 og á framhaldsaðalfundi 14. september 2017.