Námsferð til Marokkó 2019
þriðjudagur, 23. janúar 2024
Annað hvert ár stendur Lögfræðingafélag Íslands fyrir námsferðum til fjarlægra landa til að gefa íslenskum lögfræðingum kost á því að kynnast dóms- og lagakerfi þeirra. Ferðir sem þessar auka víðsýni lögfræðinga og kynni á milli þeirra sjálfra sem og á milli landa. Haustið 2019 fór 49 manna hópur lögfræðinga og fylgifiska á vegum félagsins í sjö daga ferð til Marokkó og byrjaði ferðina í höfuðborginni Rabat.
Örlítið um landið
Í Marokkó búa um 34,3 milljónir manna en 99% eru af arabískum og berbískum uppruna. Um 31% landsmanna eru yngri en 25 ára. Þar er þingbundin konungsstjórn en marokkóska þingið er þjóðkjörið.
Múhameð VI. konungur hefur mikil völd, sérstaklega í málefnum hersins, í utanríkis- og trúmálum. Hann getur gefið út konunglegar tilskipanir sem hafa lagagildi og leyst upp þing ef svo ber við.
Casablanca
Byrjað var á því að eyða sunnudegi í Casablanca sem er helsta miðstöð viðskipta Marokkó, með stærstu höfn landsins, og auk þess fjölmennasta borgin. Casablanca þýðir „hvíta húsið“ en upphaflega hét bærinn Anfa sem varð miðstöð sjóræningja sem réðust á skip kristinna manna. Árið 1468 eyddu Portúgalir bænum en svo komu þeir aftur árið 1515 og byggðu nýjan sem þeir kölluðu Casa Branca, eða „Hvíta húsið“. Eftir jarðskjálfta sem varð árið 1755 eyðilagðist borgin og íbúar fóru á brott en seint á 19. öld endubyggðu Marokkómenn hana. Spænskir kaupmenn settust þar að og hófu að kalla borgina Casablanca og fljótlega fylgdu fleiri evrópskir höndlarar í kjölfarið enda góð hafnaraðstaða og stutt yfir til Miðjarðarhafsins.
Marokkómenn hafa byggt hina risastóru Hassan II mosku sem er stærsta moska í Afríku og sú þriðja stærsta í heimi. Moskan er ótrúlega falleg þar sem marokkóskur byggingastíll er látinn njóta sín en byggingu hennar lauk árið 1993.
Kvikmyndin Casablanca hefur svo sannarlega haldið nafni borgarinnar á lofti en hún var samt ekki tekin í Marokkó enda frumsýnd árið 1942, í miðri heimstyrjöld. Rick´s Cafe er þó til í borginni og er nákvæm eftirgerð af staðnum í kvikmyndinni en því miður gátum við ekki farið þangað. Það var kannski eins gott því vonbrigðin að sjá ekki Ingrid Bergman í hlutverki Elsu að segja við Dooley Wilson, í hlutverki Sam: „Play it again, Sam“
Þá komu þeir Winston Churchill, Franklin D. Roosevelt og Charles de Gaulle til Casablanca í ársbyrjun 1943 til að ráða ráðum sínum hvernig hægt væri að sigra Þjóðverja í stríðinu og ókum við framhjá hvíta húsinu þar sem þeir funduðu. Jósef Stalín afþakkaði hins vegar boðið, var víst upptekinn.
Heill dagur af heimsóknum
Að morgni mánudags var farið til Lögmannafélags Marokkó þar sem við fengum kynningu á starfi lögmanna í landinu. Lögmannafélagið í Rabat er nú 100 ára gamalt og í því eru 1900 lögmenn. Sextán önnur félög eru í landinu og mynda þau saman Lögmannafélag Marokkó sem í eru 17.000 félagar. Í Rabat eru 3 af 22 stjórnarmönnum lögmannafélagsins konur og er það meira en í öðrum félögum en konur virðast eiga á brattann að sækja í lögmennsku. Aðspurðir um hver væri mesta áskorunin í starfi félagsins um þessar mundir sögðu gestgjafar okkar það vera efnahagsmál og starf lögmanna annars vegar og sjálfstæði lögmanna hins vegar. Lögmenn væru sjálfstætt starfandi og væru því ekki með sjúkratryggingar og eftirlaun eins og ríkisstarfsmenn. Einnig var spurt út í dauðarefsingar en það er mikill áróður fyrir því nú í Marokkó að afnema þær með öllu. Þá var einnig fjallað um rétt Marokkó til yfirráða í Vestur-Sahara.
Okkur var tekið með kostum og kynjum í Hæstarétti Marokkó en það vakti undrun hve mikla athygli heimsókn félagsins vakti hjá fjölmiðlum í landinu.
Breytingar voru gerðar á stjórnarskrá Marokkó árið 2011 sem tryggðu sjálfstæði dómstóla landsins en sérstakt dómstólaráð sér um stjórn þeirra þar sem konungur og dómstólar eiga fulltrúa. Réttarkerfi Marokkó byggir á Sharia lögum sem þó er mun frjálslegra en í öðrum arabalöndum. Þar eru sérstakir dómstólar sem takast á við stjórnsýslumál, fjármálaglæpi, viðskiptamál og fjölskyldumálefni en einnig er réttur gyðinga til sérstaks dómstóls á sviði fjölskylduréttar tryggður í stjórnarskránni.
Við fengum afar áhugavert erindi um stöðu marokkóskra kvenna í dómskerfinu en fyrsta konan var skipuð dómari árið 1961. Konum hefur verið að fjölga í dómarastöðum síðustu ár en Marokkó hefur undirritað átta af níu alþjóðlegum samþykktum sem varða mannréttindi, þar á meðal eru samþykktir sem fjalla um að ekki megi mismuna konum vegna kynferðis. Alls eru 895 konur dómarar en 2.323 karlar og 172 konur eru saksóknarar en 919 karlar. Síðastliðin tíu ár hefur þeim fjölgað um 100%.
Sagnfræðingur frá Vestur-Sahara kom að því búnu og sagði frá tengslum Saharasvæðisins við marokkóska konunga í gegnum tíðina. Hann sýndi okkur því til sönnunar bréf frá höfðingum Sahrawi til konunga þar sem þeir voru að biðja m.a. um vernd. Að þessu loknu sáum við kvikmynd þar sem fjallað var um samband Marokkó og Vestur-Sahara um „grænu gönguna“ svokölluðu en árið 1975 fóru um 350.000 vopnlausir Marokkómenn til Vestur-Sahara ásamt 30.000 hermönnum og tóku landið af Spánverjum. Í lokin borðuðum svo hádegisverð með forseta Hæstaréttar.
Næstu heimsóknir voru til „National Human Rights Council“ eða Mannréttindaráðs Marokkó og „Economic, Social and Environment Council“ eða Efnahags, félags- og umhverfisráðs.
Mannréttindaráðið var stofnað til að styrkja réttarríkið og fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum marokkóskra stjórnvalda varðandi réttindi og frelsi borgaranna. Ráðið fylgist með mannréttindabrotum og getur rannsakað og komið með tilmæli til stjórnvalda. Það hefur einkum sinnt réttindum kvenna, fanga og flóttamanna. Samkvæmt þeim eru nú 64 fangar á dauðadeild en enginn hefur verið líflátinn síðan árið 1993 og hefur ráðið beitt sér fyrir því að afnema dauðarefsingar. Spurt var út í mál sem hafa hlotið athygli umheimsins s.s. mál Hajar Raissouni blaðamanns sem fékk dóm fyrir kynlíf utan hjónabands og að hafa farið í fóstureyðingu sem bæði er andstætt lögum í Marokkó. Konungur var búinn að náða hana þegar hér var komið við sögu en svör voru á þá leið að hún hefði sannanlega brotið lög. Eins var spurt út í mál mál Malika Oufkir sem var í fangelsi ásamt fjölskyldu sinni í 20 ár, til 1991, í kjölfar þess að faðir hennar reyndi að steypa Hassan II af stóli. Okkur var sagt að mál hennar hefði síðar verið tekið fyrir hjá svokallaðri sannleiksnefnd en hún var stofnuð eftir andlát Hassan II, í sama anda og gert var í Suður-Afríku eftir að aðskilnaðarstefnan þar var afnumin. Mannréttindaráðið var síðan stofnað á þeim grunni. Efnahags, félags- og umhverfisráðið er ráðgefandi fyrir stjórnvöld um þessa þrjá þætti og beitir sér fyrir rannsóknum fyrir ríkisstjórn eða þing eða að eigin frumkvæði.
Klukkan fimm síðdegis var komið að síðustu heimsókninni, í sjálft þjóðþing Marokkó þar sem forseti þingsins tók á móti hópnum. Hann fór yfir störf þingsins sem er í tveimur deildum en ellefu stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa á þingi. Í neðri deild eru 395 þingmenn sem eru kosnir af þjóðinni til fimm ára. Þá eru í efri deild 120 þingmenn sem eru kosnir til sex ára. Þar af eru 72 valdir af konungi og aðrir eftir ákveðnum reglum. Þingforseti var spurður út í hvort hið svokalla „arabíska vor“ hefði haft áhrif á stjórnun Marokkó og svaraði hann því til að breytingar á stjórnarskrá landsins árið 2011 hefðu meðal annars tekið mið af því og sem betur fer hefðu þær róstur sem urðu í mörgum löndum ekki náð þangað. Í lokin færði þingforsetinn rök fyrir yfirráðum Marokkó yfir Vestur-Sahara og vilja stjórnvalda til að leysa hina 44 ára gömlu deilu.
Allar þessar heimsóknir voru afar áhugaverðar og við fengum frábærar móttökur þar sem reynt var að svala forvitni okkar um marokkóskt dómskerfi og löggjöf. Það sem kom okkur helst á óvart er hve mikil frönsk áhrif eru í allri stjórnsýslu í Marokkó. Frakkar réðu yfir landinu frá 1912 til 1956 og þrátt fyrir hve langt er síðan virðast allir sem starfa í stjórnsýslu og eru í viðskiptum tala frönsku.
Enginn kom heim ósnortinn frá fallegu Marokkó með sína heillandi menningu sem er okkur svo framandi. Við vorum heppin með veður, leiðsögumenn og samferðamenn.
Skrifað 27. nóvember 2019
Eyrún Ingadóttir, frkvstj. Lögfræðingafélags Íslands