Samþykktir Vinnuréttarfélags Íslands

1.gr.
Heiti félagsins er Vinnuréttarfélag Íslands. Félagið starfar innan Lögfræðingafélags Íslands og er lögheimili félagsins, varnarþing og póstfang hið sama og Lögfræðingafélags Íslands.

2. gr.
Tilgangur félagsins er:
-að vinna að kynningu, umfjöllun og rannsóknum á sviði vinnuréttar
-að efla samskipti milli lögfræðinga og annarra sem starfa að vinnuréttarmálum
-að stuðla að útgáfu greina og rita um vinnurétt
-að vera þátttakandi í fjölþjóðlegu samstarfi vinnuréttarfélaga

3. gr.
Félagar geta orðið allir lögfræðingar í Lögfræðingafélagi Íslands.

4.gr.
Heimilt er að ákveða, til viðbótar árgjaldi til Lögfræðingafélags Íslands, sérstakt árgjald fyrir Vinnuréttarfélagið. Skal það ákveðið á aðalfundi.
Hyggist stjórn leggja tillögu fyrir aðalfund um upptöku sérstaks árgjalds eða breytingu á því, skal þess sérstaklega getið í fundarboði.

5. gr.
Æðsta vald í málefnum félagsins hefur aðalfundur sem halda skal árlega eigi síðar en 31. maí ár hvert.
Aðalfund skal boða rafrænt með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í boði til aðalfundar skal greina dagskrá og stuttlega gerð grein fyrir tillögum sem borist hafa.

Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar.
3. Skýrsla um fjárhag.
4. Umræður um skýrslur.
5. Kosning stjórnar.
6. Ákvörðun um sérstakt árgjald
7. Lagabreytingar
8. Önnur mál

Breytingar á lögum félagsins skulu bornar upp á aðalfundi og skulu tillögur hafa borist stjórn tveimur vikum fyrir aðalfund. Ákvörðun um breytingu á lögum félagsins er því aðeins lögmæt að hún hafi hlotið samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæða.

Við ákvörðun um slit félagsins skal einnig ákveða hvernig fjármunum þess skuli ráðstafað.

Stjórn félagsins getur boðað til aukafunda og skal gera það ef henni berst skrifleg ósk þar að lútandi frá a.m.k. 10 félagsmönnum. Boða skal til aukafunda með sama hætti og sama fyrirvara og aðalfundar.

Atkvæðagreiðsla á aðal- og aukafundum fer fram með handauppréttingu nema óskað sé leynilegrar atkvæðagreiðslu. Hver félagsmaður fer með eitt atkvæði.

6. gr.
Stjórn skal skipuð þremur aðalmönnum og tveimur til vara. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Formaður skal kosinn sérstaklega annað hvert ár en meðstjórnendur og varamenn hitt árið. Stjórn skiptir með sér verkum.

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem samþykktir þessar setja og ber ábyrgð á fjárreiðum þess.

Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirritun formanns og gjaldkera nægileg til þess.

Stjórnin er ályktunarhæf ef tveir stjórnarmenn sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Fundir stjórnar skulu færðir til bókar.

Stjórn er heimilt að skipa í nefndir til að sinna ákveðnum verkefnum.

Stjórn félagsins skal gefa aðalfundi Lögfræðingafélagsins skýrslu um störf félagsins árlega.

8. gr.
Félagsfundi skal boða með viku fyrirvara og skulu þeir færðir til bókar.

9. gr.
Reikningsár félagsins skal vera það sama og Lögfræðingafélags Íslands. Lögfræðingafélagið skal halda sérstakan bókhaldslykil um fjárreiður félagsins í bókhaldi sínu.

Bráðabirgðaákvæði
Vegna breytinga á formi félagsins skal kosning stjórnar félagsins á þessum aðalfundi, 06.03.2023, fara þannig fram að formaður skal kosinn til aðalfundar 2025 en meðstjórnendur og varamenn til aðalfundar 2024.

Samþykktir þessar eru samþykktar á aðalfundi félagsins þann 6. mars 2023.