Fundargerð aðalfundar 21. maí 2024
Guðríður Þorsteinsdóttir formaður setti fund og stakk upp á Páli Arnóri Pálssyni sem fundarstjóra og Margréti Hauksdóttur sem ritara. Það var samþykkt.
Það voru þrír félagsmenn sem sóttu aðalfundinn: Guðríður Þorsteinsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Páll Arnór Pálsson.
Dagskrá aðalfundar:
1. Skýrsla stjórnar.
Í öldungadeild eru nú 254 (250) félagar, en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa skráðir í félagið og fá póst þar um í upphafi ársins. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því. Formaður öldungadeildarinnar starfsárið 2023-2024 var Guðríður Þorsteinsdóttir, aðrir stjórnarmenn voru; Jónína Bjartmarz, Othar Örn Petersen, Páll Arnór Pálsson og Sigríður Ólafsdóttir. Í varastjórn voru Ólafur Egilsson, Þorsteinn A. Jónsson og Gestur Steinþórsson.
Á aðalfundi deildarinnar 24. maí 2023 varð talsverð umræða um lög deildarinnar og komu fram ýmsar tillögur um breytingar. Samþykkt var að fresta aðalfundi og nota tímann til að undirbúa tillögur að lagabreytingum. Á framhaldsaðalfundi sem haldinn var 19. október 2023 voru lagðar fram tillögur um heildarendurskoðun laga deildarinnar, þar sem m.a. var lagt til að stjórnarmönnum yrði fjölgað úr þremur í fimm og öldungaráð lagt niður. Tillögurnar voru samþykktar samhljóða.
Þátttaka í viðburðum deildarinnar hefur verið dræm í allmörg ár og erfitt reyndist að virkja hópinn eftir covid tímabilið. Í stað fræðslufunda, sem yfirleitt voru fámennir, var því reynt að efna til annars konar viðburða, svo sem heimsókna á söfn, gönguferða, skoðunarferða, leikhús o.fl. og þá gjarnan farið á kaffihús á eftir. Þátttaka hefur þó ekki verið nægilega góð og stundum hefur þurft að fella niður auglýsta viðburði. Þannig mættu t.d. ekki nema fimm félagsmenn á púttmót sem efnt var til í desember sl. Óvenju góð þátttaka var hinsvegar í skoðunarferð í Eddu, hús íslenskunnar í mars eða um 22 manns.
2. Skýrsla um fjárhag
Engin félagsgjöld eru í öldungadeild og því ekki um fjárhag að ræða.
3. Kosning stjórnar
Aðalmenn: Guðríður kvaðst láta af formennsku eftir tvö ár sem formaður. Dögg Pálsdóttir var kjörin formaður. Páll Arnór Pálsson kvaðst fara úr stjórn. Fyrir áttu Jónína Bjartmars og Othar Örn Petersen eitt ár eftir af kjörtíma sínum. Lagt var til að Guðríður Þorsteinsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir sætu áfram sem aðalmenn í stjórn til næstu tveggja ára og var það samþykkt.
Varamenn: Lagt var til að Þorsteinn A. Jónsson og Gestur Steinþórsson væru kosnir sem varamenn í stjórn til næstu tveggja ára og var það samþykkt. Fyrir átti Ólafur Egilsson eitt ár eftir af kjörtíma sínum.
4. Ákvörðun árgjalds
Þar sem ekki er rukkað árgjald að öldungadeild var ekki ákveðin upphæð.
5. Önnur mál
Vísað er til nýrrar stjórnar að ræða um starfsemi öldungadeildarinnar og framtíð.
Fundargerð ritaði Margrét Hauksdóttir
Fundargerð aðalfundar 24. maí og framhaldsaðalfundar 19. október 2023
Fundargerð aðalfundar öldungadeildar LÍ 24. maí 2023
6 manns sóttu aðalfundinn: Guðríður Þorsteinsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Páll Arnór Pálsson, Ólafur Egilsson, Þórður S. Gunnarsson og Þorsteinn A. Jónsson.
Guðríður Þorsteinsdóttir formaður setti fund og stakk upp á Páli Arnóri Pálssyni sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Það var samþykkt
Dagskrá aðalfundar:
1. Skýrsla stjórnar. –
Í öldungadeild eru nú 250 (238) félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa skráðir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2022-2023 var Guðríður Þorsteinsdóttir formaður, aðrir stjórnarmenn voru Páll Arnór Pálsson og Sigríður Ólafsdóttir. Í varastjórn voru Þorleifur Pálsson, Þorsteinn A. Jónsson og Gestur Steinþórsson. Aðalfundur verður haldinn 24. maí nk.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann en eftir Covid hefur reynst erfiðara að virkja hópinn. Auglýstir voru sex viðburðir.
Starfsemi
Þann 18. október 2022 var ganga undir heitinu Glæpur og refsing í Elliðaárdalnum. Þá gekk Eyrún Ingadóttir frkvstj. LÍ með félögum um dalinn og sagði frá Elliðaármálum, morðinu á bóndanum í Árbæ og drekkingu vinnukonunnar Vigdísar Þórðardóttur í Skötufossi. Síðan tók Margrét Hugadóttir á móti hópnum og leiddi um húsakynni Orkuveitunnar og í lokin var farið á kaffihús listamiðstöðvar í Kartöflugeymslunum. Alls tóku16 manns þátt í viðburðinum.
Í október var auglýst ferð í Hellana á Hellu en ekki fékkst næg þátttaka.
Þann 9. nóvember 2022 var farið í Gróttugöngu sem endaði í kaffihúsinu í Ráðagerði. Alls tóku 15 manns þátt í göngunni.
Þann 7. desember 2022 var farið í Byggðasafnið í Hafnarfirði til að skoða Pakkhúsið, Beggubúð og Sívertsenshús og tóku 8 félagar þátt í viðburðinum
Í febrúar 2023 var auglýst heimsókn í Rithöfundasamband Íslands en vegna vondrar færðar var hætt við hana.
25. mars 2023 fóru 11 félagar öldungadeildar og fylgifiskar á Njálsbrennusögu í Landnámssetrinu í Borgarnesi.
2. Skýrsla um fjárhag
Engin félagsgjöld eru í öldungadeild önnur en að vera í Lögfræðingafélaginu og enginn fjárhagur.
3. Umræður um skýrslur
Formaður ræddi um lög öldungadeildar og mikilvægi þess að endurskoða þau þar sem það hefur ekki verið gert frá stofnun deildarinnar.
Ákveðið var að byrja skoða lögin og gerðu fundarmenn tillögu að breytingum sem ritara var falið að senda þeim að loknum fundi.
Samþykkt með öllum atkvæðum að fresta aðalfundi til ágústloka en að nota tímann til að yfirfara lögin. Var ritara falið að senda fundarmönnum drögin.
Aðalfundi frestað
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð
Fundargerð framhaldsaðalfundar öldungadeildar LÍ 19. október 2023
5 manns sóttu framhaldsaðalfundinn: Guðríður Þorsteinsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Páll Arnór Pálsson, Jakob Möller og Jónína Bjartmarz (í fjarfundi).
Guðríður Þorsteinsdóttir formaður setti fund og stakk upp á Páli Arnóri Pálssyni sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Það var samþykkt.
Páll Arnór sagði fundinn löglega boðaðan með tölvupósti til félaga.
7. Lagabreytingar
Fyrir fund voru tillögur aðalfundar frá því í maí sendar félagsmönnum með fundarboði. Nú var farið yfir hverja lagagrein fyrir sig.
|
Lög öldungadeilar samþykkt 28. nóvember 2007 |
Tillaga að breytingu laga öldungadeildar 2023 samþykkt á framhaldsaðalfundi 19. október 2023 |
1.grein |
Öldungadeildin starfar innan Lögfræðingafélags Íslands. Lögheimili hennar, varnarþing og póstfang er hið sama og Lögfræðingafélags Íslands.
|
óbreytt |
2.grein |
Tilgangur deildarinnar er að gæta hagsmuna eldri lögfræðinga, fjalla um áhugaefni þeirra innan lögfræði og stuðla að auknum samskiptum meðal þeirra, svo og að efla samskipti lögfræðinga almennt.
|
Tilgangur deildarinnar er að gæta hagsmuna eldri lögfræðinga, fjalla um áhugaefni þeirra, stuðla að auknum samskiptum þeirra og efla samskipti lögfræðinga almennt.
|
3.grein |
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að standa að fræðslu og samkomuhaldi í deildinni og með öðrum félögum innan lögfræðingasamtakanna.
|
Grein felld niður |
4.grein |
Félagar geta orðið allir lögfræðingar sem náð hafa 65 ára aldri og eru í Lögfræðingafélagi Íslands.
|
3.grein: Félagar eru allir lögfræðingar sem náð hafa 65 ára aldri og eru í Lögfræðingafélagi Íslands, nema þeir óski að standa utan deildarinnar. |
5.grein |
Stofnfélagar teljast þeir sem mættu á undirbúningsfund deildarinnar 17. október 2007 eða stofnfund og þeir aðrir sem láta skrá sig í deildina innan mánaðar frá stofnfundi.
|
Grein felld niður |
6.grein |
Stjórn skal skipuð þremur aðalmönnum og þremur til vara og skiptir stjórn með sér verkum. Skal einn stjórnarmaður vera formaður, annar gjaldkeri og hinn þriðji ritari. Stjórn skal kosin á aðalfundi til tveggja ára í senn, þó á þann hátt að fyrst þegar kjörið er í stjórn skulu tveir stjórnarmenn aðeins kosnir til eins árs. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmann einu sinni.
|
4.grein: Stjórn skal skipuð fimm aðalmönnum og þremur til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum. Formaður skal kosinn til eins árs í senn en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára í senn.
|
7.grein |
Stjórnin hefur sér til ráðgjafar sex manna öldungaráð sem kjörið er á aðalfundi til eins árs í senn og má endurkjósa ráðsmann einu sinni. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna ákveðnum verkefnum.
|
5.grein: Stjórninni er heimilt að skipa nefndir eða ráð til að sinna ákveðnum verkefnum. |
8.grein |
Deildin skal gefa aðalfundi Lögfræðingafélagsins skýrslu árlega.
|
6.grein: Deildin skal gefa aðalfundi Lögfræðingafélagsins skýrslu árlega.
|
9.grein |
Heimilt er að ákveða sérstakt árgjald fyrir deildina, skal það ákveðið á aðalfundi. Hyggist stjórn leggja tillögu fyrir aðalfund um upptöku árgjalds eða breytingu á því, skal þess sérstaklega getið í fundarboði.
|
7.grein: Heimilt er að ákveða sérstakt árgjald fyrir deildina, skal það ákveðið á aðalfundi. Hyggist stjórn leggja tillögu fyrir aðalfund um upptöku árgjalds eða breytingu á því, skal þess sérstaklega getið í fundarboði.
|
10.grein |
Aðalfund skal halda árlega í mánuðinum fyrir aðalfund Lögfræðingafélagsins og skal til hans boða með viku fyrirvara. Stefnt skal að því að halda félagsfundi kl. 15 fyrsta miðvikudag í mánuði á tímabilinu 1. september til 31. maí eða oftar ef tilefni gefst til og skal til hans boðað með dagskrá.
|
8.grein: Aðalfund skal halda árlega í apríl eða maí og skal til hans boðað rafrænt með tölvupósti með minnst viku fyrirvara. Í fundarboði skal kynna dagskrá aðalfundar.
|
11.grein |
Aðalfund og aðra deildarfundi skal boða með bréfi, rafrænt eða í pósti, á hæfilegum fresti. Í boði til aðalfundar skal greina dagskrá og umfjöllunarefni skal tilkynna í öðrum fundarboðum.
|
Grein felld niður |
12.grein |
Dagskrá aðalfundar skal vera: 1. Skýrsla stjórnar. 2. Skýrsla um fjárhag. 3. Umræður um skýrslur. 4. Kosning stjórnar. 5. Kosning öldungaráðs og tveggja endurskoðenda, sé þeirra þörf. 6. Ákveðið árgjald 7. Lagabreytingar 8. Önnur mál.
|
9.grein: Dagskrá aðalfundar skal vera: 1. Skýrsla stjórnar. 2. Skýrsla um fjárhag. 3. Umræður um skýrslur. 4. Kosning stjórnar. 5. Kosning tveggja endurskoðenda. 6. Ákvörðun árgjalds. 7. Lagabreytingar 8. Önnur mál.
|
|
Ný grein: |
10.grein: Stefnt skal að því að halda félagsfundi eða aðra viðburði mánaðarlega yfir vetrartímann eða oftar ef tilefni gefst til og skal til hans boðað með dagskrá. Félagsfundir og viðburðir skulu boðaðir rafrænt með hæfilegum fyrirvara. |
Að lagabreytingum loknum var samþykkt að kjósa stjórn eftir nýju lögunum.
4. Kosning stjórnar
Aðalmenn: Guðríður Þorsteinsdóttir var kjörin formaður. Fyrir áttu Sigríður Ólafsdóttir og Páll Arnór Pálsson eitt ár eftir af kjörtíma sínum. Lagt var til að Jónína Bjartmarz og Othar Örn Petersen kæmu ný sem aðalmenn í stjórn til næstu tveggja ára og var það samþykkt.
Varamenn: Þorsteinn A. Jónsson og Gestur Steinþórsson áttu eitt ár eftir af kjörtíma sínum. Lagt var til að Ólafur Egilsson yrði kosinn sem varamaður í stjórn til næstu tveggja ára og var það samþykkt.
5. Kosning tveggja endurskoðenda
Endurskoðendur: Eiríkur Tómasson og Kristjana Jónsdóttir voru kosin sem endurskoðendur reikninga.
6. Ákvörðun árgjalds
Þar sem ekki er rukkað árgjald að öldungadeild var ekki ákveðin upphæð.
7. Önnur mál
Skoðaðar voru tillögur að vetrardagskrá sem Guðríður hafði tekið saman og fundarmenn bættu nú við í miklu hugarflugi. Ákveðið var að vinna áfram með eftirtaldar tillögur:
· Golf – púttnámskeið-púttkeppni?
· Elliðaárdalurinn og nýi veitingastaðurinn
· Heiðmörk og Elliðavatn
· Um Thorvaldsen- Sigurður Þorvaldsson lýtalæknir. (Jakob)
· Leikhúsferð – fyrirlestur/kynning á undan – orð gegn orði borða á undan?
· Hellisheiðarvirkjun
· Hvalfjörður, hernámssetrið og Hvammsvík
· Ásgrímsleið – Hveragerði listasafn Árnesinga/Húsið á Eyrarbakka og …
· Oddi á Rangárvöllum – Þór Játvarður Jakobsson (Jakob)
· Skotlandsferð (Orkneyjar)-fyrir vorið?
· Öldungar láta ljós sitt skína: Félagar í öldungadeild rifja upp bernskubrek.
Fleira var rætt en ekki ritað
Fundargerð ritaði Eyrún Ingadóttir
Fundargerð aðalfundar öldungadeildar LÍ 4. maí 2022
Bogi Nilsson formaður setti fund og stakk upp á Ragnari Hall sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Það var samþykkt
9 manns sóttu aðalfundinn
Dagskrá aðalfundar:
- Skýrsla stjórnar. - Bogi flutti hana
Í öldungadeild eru nú 238 félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa settir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2021-2022 var Bogi Níelsson formaður en Ásdís Rafnar og Guðríður Þorsteinsdóttir í stjórn.
Í varastjórn voru Þorsteinn Skúlason, Sigríður Ólafsdóttir og Þorleifur Pálsson.
Í öldungaráði voru: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Gestur Steinþórsson, Jakob R. Möller, Hjörtur Torfason, Hörður Einarsson og Othar Örn Petersen.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann en vegna Covid urðu fundir færri en til stóð. Haldnir voru fjórir fundir að aðalfundi meðtöldum og voru þátttakendur á bilinu tólf til fimmtán.
Ferð:
15. maí 2021 fóru 18 félagar öldungadeildar á slóðir Sigríðar í Brattholti með Eyrúnu Ingadóttur frkvstj.sem skrifaði bókina „Konan sem elskaði fossinn“.
Fundir:
20. október 2021: Geir H. Haarde fv. sendiherra ræddi um samband Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina.
8. desember 2021: Magnús Hannesson ræddi um upphaf og þróun regluverks alþjóða samfélagsins.
30. mars 2022: Heimsókn til Hæstaréttar hafði verið frestað vegna smita í samfélaginu. Benedikt Bogason forseti og Ingveldur Einarsdóttir varaforseti Hæstaréttar tóku á móti hópnum ásamt Ólöfu Finnsdóttur skrifstofustjóra.
4. maí 2022: Ólafur Egilsson fv. sendiherra rifjar upp sitthvað úr áhugaverðum störfum sínum í utanríkisþjónustunni til 40 ára.
Að auki hefur öldungadeild nú auglýst fyrsta golfmót deildarinnar sem haldið verður á golfvelli Golfklúbbs Þorlákshafnar mánudaginn 16. maí.
- Skýrsla um fjárhag
Engin félagsgjöld eru í öldungadeild önnur en að vera í Lögfræðingafélaginu og enginn fjárhagur.
- Umræður um skýrslur
Engin umræða var um skýrslu stjórnar.
4. Kosning stjórnar
Skv. 6.gr. skal stjórn skipuð þremur aðalmönnum og þremur til vara. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn.
Aðalmenn
Guðríður Þorsteinsdóttir var kosin sem aðalmaður 2021 til tveggja ára. Sigríður Ólafsdóttir og Páll Arnór Pálsson gefa kost á sér sem aðalmenn í stjórn.
Engar fleiri tillögur komu fram og voru þau því sjálfkjörin
Varamenn
Þorleifur Pálsson var kosinn varamaður í stjórn 2021 til tveggja ára. Þorsteinn A. Jónsson og Gestur Steinþórsson gefa kost á sér í varastjórn.
Engar fleiri tillögur komu fram og voru þeir því sjálfkjörnir.
5. Kosning öldungaráðs og tveggja endurskoðenda, sé þeirra þörf
Sex manna öldungaráð er kosið til eins árs í senn:
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Hjörtur Torfason, Jakob Þ. Möller og Hörður Einarsson, Othar Örn Petersen og Ásdís Rafnar.
Samþykkt með lófaklappi.
- ekki kosnir endurskoðendur þar sem enginn fjárhagur er í félaginu.
6. Ákveðið árgjald
Félagið hefur engan fjárhag og því ekkert árgjald heldur greiða félagsmenn árgjald í LÍ.
7. Lagabreytingar
Engin tillaga gerð um lagabreytingar. Því var beint til nýrrar stjórnar að endurskoða lög félagsins fyrir næsta aðalfund.
8. Önnur mál
Engin önnur mál voru tekin fyrir. Alls sátu 9 manns fundinn og eru nöfn þeirra rituð í fundargerðarbók deildarinnar.
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð
Fundargerð aðalfundar öldungadeildar LÍ 12. maí 2021
Bogi Nilsson formaður setti fund en frestaði aðalfundarstörfum að því búnu og gaf orðið til gests fundarins; Kristrúnar Heimisdóttur lögfræðings og doktorsnema. Að loknu erindi héldu aðalfundarstörf áfram og stakk Bogi upp á Ragnari Hall sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara.
Samþykkt.
Dagskrá
- Skýrsla stjórnar. - Bogi flutti hana
Í öldungadeild eru nú 211 félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa settir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2020-2021 var Bogi Nilsson formaður Logi Guðbrandsson og Ásdís Rafnar í stjórn. Í varastjórn voru Þorsteinn Skúlason, Guðríður Þorsteinsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Aðalfundur var haldinn 12. maí sl.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann en vegna Covid voru engir fundir haldnir frá aðalfundi í lok maí 2020 og þar til 5. Mars 2021 er stjórn, varastjórn og öldungaráð hittust til að leggja línur vorsins. Fundir hafa aðeins verið tveir en ein vorferð er í pípum á slóðir Sigríðar í Brattholti með framkvæmdastjóra LÍ.
Fundir
21. apríl: Gelísk áhrif á Íslandi til forna. Gestur fundarins var Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun.
12. maí: Erlend áhrif á íslenska löggjöf frá 1908 til 2008. Gestur fundarins, sem var jafnframt aðalfundur, var Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og doktorsnemi.
Bogi fór yfir upphaf öldungadeildar en 25 mættu á stofnfund 28. nóvember 2007. Hann velti upp hvaða umfjöllunarefni ættu að vera á fundum, hvort það ættu að vera dægurmál eða mál sem snerta lögfræðinga.
- Skýrsla um fjárhag
Engin félagsgjöld eru í öldungadeild önnur en að vera í Lögfræðingafélaginu og enginn fjárhagur.
- Umræður um skýrslur
Engin umræða var um skýrslu stjórnar.
4. Kosning stjórnar
Skv. 6.gr. skal stjórn skipuð þremur aðalmönnum og þremur til vara. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn.
Aðalmenn
Logi Guðbrandsson hefur nú lokið tveimur kjörtímabilum og fer því úr stjórn. Ásdís Rafnar og Bogi Nilsson voru kosin í stjórn á síðasta ári til tveggja ára. Lagt er til að kjósa Guðríði Þorsteinsdóttur sem aðalmann.
Samþykkt með lófaklappi.
Varamenn
Þorsteinn Skúlason var kosinn í fyrra og á því eitt ár eftir sem varamaður í stjórn. Sigríður Ólafsdóttir var sömuleiðis kosin í fyrsta sinn í varastjórn á síðasta ári. Lagt er til að kjósa Þorleif Pálsson sem nýjan varamann í stjórn.
Samþykkt með lófaklappi.
5. Kosning öldungaráðs og tveggja endurskoðenda, sé þeirra þörf
Sex manna öldungaráð er kosið til eins árs í senn: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Gestur Steinþórsson, Hjörtur Torfason, Jakob Þ. Möller og Hörður Einarsson og Othar Örn Petersen.
Samþykkt með lófaklappi.
- ekki kosnir endurskoðendur þar sem enginn fjárhagur er í félaginu.
6. Ákveðið árgjald
-Félagið hefur engan fjárhag og því ekkert árgjald heldur greiða félagsmenn árgjald í LÍ.
7 . Lagabreytingar
Engin tillaga gerð um lagabreytingar. Því var beint til nýrrar stjórnar að endurskoða lög félagsins fyrir næsta aðalfund.
8. Önnur mál
Engin önnur mál voru tekin fyrir. Alls sátu 15 manns fundinn og eru nöfn þeirra rituð í fundargerðarbók deildarinnar.
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð