Ísland sýknað í Icesave-málinu

þriðjudagur, 28. nóvember 2023

Á fundinum mun Tim Ward lögmaður rifja upp málflutninginn og með hvaða hætti hann lagði grunn að þeim vörnum sem tryggðu Íslandi að lokum fullnaðarsigur í viðureign sem skekið hafði þjóðina um árabil.

Á fundinum mun Tim Ward lögmaður rifja upp málflutninginn og með hvaða hætti hann lagði grunn að þeim vörnum sem tryggðu Íslandi að lokum fullnaðarsigur í viðureign sem skekið hafði þjóðina um árabil.

Á þessu ári eru 10 ár liðin frá því EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm í Icesave-málinu. Með því lauk margra ára baráttu sem hafði ekki aðeins reynt á samstarf Íslands við önnur ríki og alþjóðlegar stofnanir heldur einnig skekið þjóðina og valdið harðvítugri stjórnmálaátökum en dæmi eru um í seinni tíð. Til marks um það er að samningum í málinu var tvívegis hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir að ríflegur meirihluti á Alþingi hefði stutt þá. Samstaðan sem tókst að skapa um styrkan og stöðugan málflutning Íslands í málinu var áþreifanleg og óhætt að segja að dómurinn hafi markað ákveðin tímamót í sögu þjóðarinnar í kjölfar fjármálahrunsins. 

Meðal þeirra mörgu sem lögðu hönd á plóg til að undirbúa málflutning í Icesave-málinu er óumdeilt að málflytjandi Íslands, Tim Ward lögmaður í Bretlandi, er sá sem mesta ábyrgð bar á að tryggja Íslandi farsæla niðurstöðu í þessu úrslitamáli. Tim varði löngum stundum á Íslandi við að kynna sér málið og lagði sig sérstaklega fram um að setja sig inn í og skilja íslenskar aðstæður. Hann gerði sér far um að ræða við stóran hóp fólks sem hafði látið sig málið varða og hann ræddi óhikað við fjölmiðla þegar eftir því var leitað. Með þessu móti ávann hann sér traust og trúnað viðmælenda sinna og lagði grunn að því óskoraða trausti sem hann naut til að verja málstað Íslands á ögurstundu. Frammistaða hans í málflutningnum vakti verðskuldaða athygli og engum blandaðist hugur um að hann lagði allt undir til að tryggja Íslandi þá farsælu niðurstöðu sem raunin varð.

Að máli hans loknu mun Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fjalla um dóminn í sögulegu ljósi og áhrif hans á endurreisn efnahagslífsins.

Fundarstjóri verður Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu. 

Verð kr. 6.500,- fyrir félaga í LÍ og LMFÍ en kr. 7.500,- fyrir aðra. Hádegisverður innifalinn.

Takmarkaður fjöldi kemst á fundinn.