Viðburðaskráning

Allir viðburðir á næstunni

Um sekt eða sakleysi í Sjöundármálum

21.06.2022
Réttarsöguferð að Sjöundá og fundur Lögfræðingafélags Íslands á Patreksfirði 7. maí 2022. Laugardaginn 7. maí fór 100 manna hópur á vegum Lögfræðingafélags Íslands á slóðir Sjöundármála en fyrir 220 árum voru Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir dæmd fyrir morð á mökum sínum fyrir héraði sem svo var staðfest fyrir Landsyfirrétti og Hæstarétti Danmerkur. Steinunn lést skömmu áður en flytja átti þau utan til Kristianssand en þar var Bjarni höggvinn árið 1805.

Réttarsöguferð að Sjöundá og fundur Lögfræðingafélags Íslands á Patreksfirði 7. maí 2022.

Laugardaginn 7. maí fór 100 manna hópur á vegum Lögfræðingafélags Íslands á slóðir Sjöundármála en fyrir 220 árum voru Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir dæmd fyrir morð á mökum sínum fyrir héraði sem svo var staðfest fyrir Landsyfirrétti og Hæstarétti Danmerkur. Steinunn lést skömmu áður en flytja átti þau utan til Kristianssand en þar var Bjarni höggvinn árið 1805
.

Gísli Már Gíslason próferssor emeritus var leiðsögumaður ferðarinnar Við steininn en talið er að Guðrún Egilsdóttir hafi verið myrt undir honum. F.v. Ólafur Þór Hauksson formaður LÍ, Kjartan Gunnarsson og Sigríður Snævarr

Gísli Gíslason var fararstjóri í vettvangsferð LÍ en að henni lokinni var hópnum boðið í vestfirskan hádegisverð hjá Kjartani Gunnarssyni og Sigríði Snævarr í Saurbæ.

Að lokinni vettvangsferð að Sjöundá í leiðsögn Gísla Má Gíslasonar, prófessors og annars höfunda Árbókar FÍ um Rauðasand hins forna, var farið í félagsheimilið á Patreksfirði þar Ingibjörg Þorsteinsdóttirsem rætt var um sekt eða sakleysi þeirra Bjarna og Steinunnar.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur var fundarstjóri og kynnti til leiks þau fimm sem fluttu fyrirlestra og sagði að þeim loknum vonast til þess að við yrðum nokkurs vísari um þetta gamla og klassíska sakamál.

Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis, fv. héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ fjallar um réttarfar á þeim tíma sem þau Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir voru dæmd til dauða.

Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinalæknir, sérfræðingur í manndrápum og ofbeldisbrotum og hefur sérhæft sig í áverkum á hálsi sem kemur sér vel í þessu máli þar sem talið er að annar hinna látnu hafi verið drepinn með stungu. Við fáum nokkurs konar yfirmatsgerð á líkum þeirra Guðrúnar og Jóns.

Jón Friðrik Sigurðsson prófessor við HR og prófessor emeritus við HÍ, sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í trúverðugleika játninga. Hann mun fjalla um játningar Bjarna og Steinunnar, hvort þær séu trúverðugar og hvort það séu veikleikar í sönnunargildi þeirra. Ef til vill getur erindi hans varpað ljósi á hvernig það kom til að Bjarni og Steinunn játuðu á sig brotin á ögurstundu, eftir að hafa neitað fram að því.

Guðrún Sessselja Arnardóttir lögmaður hjá embætti ríkislögmanns, sem hefur langa reynslu af því að vera bæði sækjandi og verjandi, ætlar nú 220 árum eftir dauða þeirra Guðrúnar Egilsdóttur og Jóns Þorbjörnssonar að grípa til varna fyrir þau dæmdu en varnirnar voru afar fábrotnar á sínum tíma. Guðrún Sesselja mun fara yfir hvernig þetta lítur út í umhverfi þar sem menn eru saklausir uns sekt er sönnuð.

Lokaerindið flytur Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar og prófessor við Háskóla Íslands. Hans hlutverk er að leggja mat á það hvernig dómsniðurstaða myndi hljóma í nútímanum sem er innlendur, mildur og nútímalegur.

Hér er hægt að nálgast dómskjöl fyrir héraði, Landsyfirrétti og Hæstarétti

Skúli Magnússon: Réttarfar á tímum Sjöundármála

Skúli MagnússonMér falið það verkefni að fjalla um réttarfar á tíma er réttarheimildir þóttu æði brotakenndar og allur gangur á því hvernig lög höfðu verið birt á Íslandi hvað þá dómar. Almennt er hægt að lýsa ástandinu ástandinu sem svo að það hafi ríkt ákveðin réttaróvissa.

Á tímum Jónsbókar voru það einkaaðilar sem sóttu refsimál og báru ábyrgð á þeim en norsku lögum 1687, sem innleidd voru á Íslandi hvað snerti réttarfar upp úr 1719, urðu ýmsar umbætur á opinberu réttarfari, einkum að því er snerti sönnun. Með tilskipun árið 1751 var gerð afdráttarlaus krafa til yfirvalda um að grípa strax til aðgerða þegar grunsemdir um brot vöknuðu og það gat varðað sýslumann sektum ef hann vanrækti þessar skyldur sínar. Hér varð refsiréttarfarið því „opinbert“ því hið opinbera átti að sjá um þessi mál. Hert var á skilvirkni og skyldum dómenda til rannsókna með tilskipun 1796 og þar kom fram að taka ætti skýrslu af mönnum innan 24 tíma. Þanni hvíldi skylda á yfirvöldum til frumkvæðis og yfirvöldin hér á landi voru sýslumenn. Það er því afdráttarlaust að sýslumaður átti að hefja rannsókn þess máls sem hér um ræðir og að hann átti að gera það innan skamms tíma. Til samanburðar má geta þess að í hinum svokölluðu Skúlamálum 1893 var það metið Skúla Thoroddsen m.a. til embættismissis að hann tók skýrslu af grunaða fimm dögum eftir að hann fékk tilkynningu um grun og var það eftir fyrirmælum sömu tilskipunar. Í samræmi við þær kröfur sem gerðar voru til rannsóknar á tíma Sjöundármálanna er það er sýslumaður sem skipar hreppstjórum að hefjast handa en sýslumaður á einnig að sjá til þess að líkin séu skoðun af lækni, þ.e. kirurg. Það er því e.t.v. ekkert skrítið að Guðmundur Scheving, settur sýslumaður, skuli vera sektaður af hinum nýlega stofnaða Landsyfirrétti fyrir vanhöld við rannsókn málsins.

Hér er rannsókn og dómsvald á sömu hendi, rannsóknar og sannleiksreglan er komin til sögunnar þannig að sönnun er ekki formbundin. Með tilkomu réttarfars norsku laga varð sönnun að meginstefnu óformbundin þótt leifar af eiðum héldust í framkvæmd fram á 19. öld, jafnvel í opinberum málum.

Auðvitað vaknar ákveðinn grunur um harðræði í þessu máli. Með konungsbréfi, sem ekki var birt á Íslandi árið 1795, voru tekin af tvímæli um að pyntingar væru almennt óheimilar. Úrræði dómarans var takmarkað við vist á „vatn og brauð“ en þá bar að vara og áminna sakborning og þetta mátti eingöngu nota til að fá hann til að svara spurningum, ekki til að játa. Það eimir eftir af hinu forna réttarfari þegar Guðmundur sýslumaður vísar til þess í héraðsdómi að „tortura“ komi ekki til greina en hann ákveður að heimila Bjarna synjunareið gagnvart því að hafa banað Jóni með þessum broddstaf. Í Landsyfirrétti er þessu svo snúið við, væntanlega vegna þess að menn hafi ekki talið þetta vera lögum samkvæmt. Almennt var talið að aðildareiðar væru ekki heimilir við þessar aðstæður samkvæmt réttum lögum. Þetta var gert lengur í þjófnaðarmálum og í meiðyrðamálum og einkamálum eins og við þekkjum úr okkar réttarfarsnámi en sem sagt aðildareiður til synjunar manndrápi var tæpast heimill eftir tilkomu fyrrgreindra tilskipana. Reglan um að vafa skuli meta sakborningi í hag er að einhverju leyti komin til með áherslu á hinar efnislegu sönnun í stað hinnar formbundnu en sönnunarbyrði ákæruvaldsins er tæplega sú sem hún er í dag. Spyrja má hvort Steinunn hefði verið sakfelld fyrir samverknað eða hlutdeild í andláti Jóns í dag og væntanlega er svarið neitandi.

Bjarna og Steinunni var skipaður einn og sami verjandinn, Guðmundur Sigmundsson bóndi á Vaðli, sem var frekar slælegur. Þegar ljóst var að hagsmunir Bjarna og Steinunnar í málinu fóru ekki lengur saman bar að sjálfsögðu að gera þar bragarbót á samkvæmt nútímahugsun.

Málshraðareglan er hér höfð í hávegum. Þarna ber að hraða rannsókn og rannsaka á meðan sönnunargögn eru tiltæk. Það að Guðmundur sýslumaður ákveður við þetta tækifæri að fara suður til Reykjavíkur er á mjög gráu svæði, svo ekki sé meira sagt. Það verður þó að teljast gott að búið sé að rétta í málinu tæpum tveimur mánuðum eftir að lík Jóns rekur á land og það er kominn Landsyfirréttardómur rúmu ári síðar. Og læri nú ýmsir af því!

Það sem vekur einnig athygli er það aðhald sem er gagnvart embættismönnum. Embættismenn kasta hnútum hver í annan enda var ekki óalgengt að þeir væru í málaferlum hver við annan. Landsyfirrétti var hins vegar uppálagt með tilskipunum að hafa eftirlit með þeim og ætlað að sekta héraðsdómara sem ekki sinnti sínum skyldum. Eins átti héraðsdómari, þ.e. sýslumaður, að hafa eftirlit með sínum undirmönnum. Ákvæði um presta og hina geistlegu stétt voru í norsku lögum og var þeim ætlað þar margvíslegt hlutverk við sálgæslu, uppfræðslu o.fl. Það er síðan annað mál hvort að Jón Ormsson prófastur hafi mátt ljóstra upp um það sem að honum hafði verið trúað fyrir, það er að segja ef að hann hefði sinnt skyldum sínum að heimsækja Sjöundá og reyna að afstýra því hneyksli sem samdráttur Bjarna og Steinunnar var. Það má efast um það en hefur auðvitað ekki þýðingu í málinu vegna þess að Jón Ormsson ákveður að gefa skýrslu samt sem áður. Í Landsyfirrétti lýkur þætti Jóns Ormssonar þannig að biskupi er sett fyrir að taka hann til bæna og beita hann viðurlögum. Það má spyrja hvort það sé í verkahring Landsyfirréttar að gefa slíka ordru og væntanlega er svarið við neikvætt.

Refsing Bjarna og Steinunnar sem sumum finnst forneskjuleg er samt sem áður í samræmi við ítrekuð fyrirmæli konungs í alvarlegum manndrápsmálum á þessum tíma, pyntingar frá aftökustað, handarhögg o.s.frv. Magnús Stephensen, dómstjóri Landsyfirréttar, var ekki þekktur fyrir refsigleði og mun hann hafa verið í minnihluta dómsins þegar refsing Bjarna var þyngd úr þremur í fimm klípingar. Svo er það dæmigert fyrir Hæstarétt ákveðið er að hafa að hafa klípingarnar fjórar og þannig farið miðja vegu milli dóms í héraði og Landsyfirrétti. Konungur náðaði svo Bjarna af klípingunum en það var skylda að áfrýja dauðadómum til Hæstaréttar sem svo skyldi bera undir konung. Má af því marka að menn treystu ekki dómstólum varlega í þessu efni og endanlegt dómsvald var ótvírætt í höndum konungs í samræmi við einveldisskipulag tímans.Pétur Guðmann Guðmannsson: Réttarlæknisfræðileg greining á líkum Jóns Þorgrímssonar og Guðrúnar Egilsdóttur

Pétur Guðmann GuðmannssonHér er hægt að nálgast matsgerð Péturs

Ég ætla að byrja á því að þakka Lögfræðingafélaginu fyrir að muna eftir réttarlæknisfræðinni. Ef við fáum líkama í nútímanum þar sem grunur er um manndráp fer fram líkskoðun, mjög nákvæm ytri skoðun, þar sem allt líkamsyfirborð er skoðað. Síðan er líkið krufið og skoðað að innan. Í krufningsskýrslu myndum við kannski vera með 100-200 skoðunarpunkta sem við myndum fjalla um í niðurstöðu okkar. Í dómskjölum vegna Sjöundármála liggja fyrir svona 3-5 skoðunarpunktar sem eitthvað er hægt að vinna með sem hrátt gagn. Það er lítið en óskaplega freistandi að gera það.

Lík Jóns Þorgrímssonar
Það er lítið í dómskjölum um lík Jóns Þorgrímssonar. Þó er sagt að það sé skaddað að skinni og holdi á höfðinu. Ég túlka það þannig að mjúkvefir séu þá af eða að miklu leyti burt á þessu svæði. Það er talað um að hendur og tær séu á burt. Það er hola á hálsinum framanverðum, líklega neðanverðum, og hvort að þessi hola sé eiginleg hola vegna þess að þegar brúnum sársins sé lýst kemur fram að holdið sé „ekki frá étið“. Þetta er eiginlega eina orðið sem lýsir því hvernig holan er. Þetta er ofboðslega mikilvægt þegar greina á áverka. Við sjáum ekki holu eða vefjareyðu í áverkum og ég velti fyrir mér hvort holan sé eyða í vef eða rof í vef? Við stungusár þá hefði orðið rof í vef og enginn vefur væri á burt. Við sjáum ekki holu eða vefjareyðu í áverkum eftir til dæmis stungu. Ef þetta er vefjareyða á líki sem hefur verið í sjó, og markvikindi af ýmsu tagi hafa komist í það, má ætla að margar vefjareyður séu á því. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði.

Ég nefni í matsgerðinni að við gætum talað um holuna sem mögulegan áverka en það er mjög langsótt, myndi ég ætla. Á meðfylgjandi mynd [á glæru sem ekki fylgir hér með] sést hola á líki sem velktist um í sjó í örfáa daga og marflær hafa gert í holur en þær vinna mjög hratt. Þær éta vefi og herja á viðkvæmari svæði þar sem húðin er þynnst og bestur aðgangur inn í holdið sjálft, til dæmis augun. Þess vegna er það ekki óalgengt að andlit og höfuðmjúkvefirnir séu á burt fyrst við rotnun. Hér er annað lík [á glæru sem ekki fylgir hér með] með áverka eftir krabbadýr og á því eru margar holur, þetta eru klassísk dæmi. Hér er þriðja dæmið [á glæru sem ekki fylgir hér með] um lík sem hefur velkst um í sjó í marga mánuði. Þarna sjáið þið holu og það er alveg víst að hún er komin til vegna markvikinda. Hún er í fullkomnu samhengi við þessa náttúrukrafta.

Úr hverju dó Jón? Hann dó líklega í apríl og er dáinn í hálft ár áður en hann finnst. Við gefum okkur það að hann sé með miklar rotnunarbreytingar hvernig svo sem hann hefur verið geymdur. Þessi hola er að öllum líkindum breyting út af aðstæðum líksins svo það er ekkert sem að situr eftir og gefur okkur dánarorsökina, hvort honum hafi verið komið fyrir eða hann hnigið niður, runnið til eða hvort hann hafi bara drukknað.

Það að hann hafi verið sleginn með staf í höfuðið einu sinni og dáið af því er ótrúverðugt. Ef það er rétt, sem skoðunarmenn líksins segja, að höfuðbeinin séu óbrotin þá hefur hann ekki hlotið þeim mun meiri höfuðáverka við eitt högg. Bjarni talar um eitt högg og líka það að stafurinn hafi gengið í sundur og sá kraftur sem að Jóni er veittur er því þeim mun minni. Ég held að það sé ótrúverðugt að hann hafi dáið af þessu eina höggi ef það hefur ekki orðið neitt rof á höfuðkúbubeininu. Það passar ekki. Það getur alveg verið að hann hafi rotast og Bjarni kannski haldið að hann væri dauður og sett hann í sjóinn eins og hann lýsir, svona gróflega. Kannski er bara líklegra að hann hafi rotað hann og tekið hann hálstaki eins og hann gerði við Guðrúnu. En það er ekkert á líkinu sem að bendir sterklega á eitthvað eitt. Það er þó mikilvægt að hann er ekki með stórkostlega höfuðáverka og virðist ekki vera beinbrotinn. Ég tek því þó aðeins með fyrirvara því það getur dulist mjög. Húðin hefur tilhneigingu til að halda sér þrátt fyrir fall úr mikilli hæð. Maður veit ekki hversu vel þeir þukluðu hann og þreifuðu. Þannig er það með Jón.

Lík Guðrúnar Egilsdóttur
Snúum okkur að Guðrúnu. Hún var í ferskara ástandi þegar hún var skoðuð og mann klæjar í puttana að skoða líkið mjög vel. Þá hefði verið hægt að finna út úr hverju hún dó. Því er lýst að hún sé með bláma efst hægra megin á brjóstinu og að þau sem skoðuðu líkið hafi þuklað blámann. Ég myndi halda að þetta sé mar.

Því er líka lýst að hún sé með uppþemdan kvið og að hún sé með „drisblöðrur“. Það tóku ekki allir eftir því að það voru blöðrur undir bolnum á brjóstinu. [sjá glæru] Þetta er klassískt fyrirbæri og það sem við sjáum þegar lík byrja að þenjast út vegna rotnunar. Kviðurinn er fyrsti parturinn sem þenst út, bakteríur í iðrunum fara að leika lausum hala og búa til loft.

Menn standa oft á blístri viku eftir andlátið. Blöðrurnar eru á yfirhúð og eru að losna af. Það er engin stjórnun á dánum líkama, vökvi flyst úr einu hólfi í annað, þrýstist út úr líkamsvefjunum og undir yfirhúðina sem losnar af og þá verða þessar vökvafylltu blöðrur. Ég held að menn hafi verið að horfa á Guðrúnu rotna, ekki það að hún hafi verið þunguð eins og þeir veltu fyrir sér í dómskjölum. Mér telst til að vika hafi liðið áður en hún var skoðuð.

Hér er mynd [á glæru] sem sýnir fórnarlamb kyrkingar, undirtegund sem hefur verið nefnd „burking“ þegar gerandinn leggst ofan á brjóst fórnarlambsins og hindrar öndunarhreyfingar. Þá sér maður meira og minna húðblæðingar á brjósti eða herðablöðum út af þeirri pressu sem er fyrir neðan hálsinn. Stundum er það jafnvel það eina sem er sýnilegt. Þess vegna er áhugavert að lesa lýsingu á líkama Guðrúnar sem er með mar á sérkennilegum stað. Í dómskjölum lýsir Bjarni því í lokin hvernig þau fara með hana og það passar vel við að hann hafi lagt hana á jörðina, haldið um vit hennar og háls með höndum og lagst svo ofan á hana. Hann þarf svo að biðja Steinunni um að koma og halda henni. Því miður er líkið ekki skoðað nákvæmlega, til dæmis hvort verið hafi punktblæðingar í augum og andliti. Dánarorsök Guðrúnar er ekki augljós og það væri gaman að geta fyllt í allar þessar eyður.

Jón Friðrik Sigurðsson: Trúverðugleiki framburðar sakborninga

Ég ætla að fjalla um hvort hægt sé að treysta játningunum í Sjöundármálinu. Þetta mál byggir á sveitaorðrómi sem við þekkjum í nútímanum sakamál sem byggja fyrst og fremst á orðrómi þar sem vettvangurinn er í raun og veru ekki til. Það hafa fleiri velt fyrir sér játningunum í Sjöundármálinu og ég bendi á skemmtilega grein Þórs Vilhjálmssonar í Guðrúnarbók. Þar segir hann: „Á fyrsta degi neituðu þau bæði…“ svo segir Þór: „… vekja sinnaskipti Bjarna og Steinunnar sérstaka athygli.“ Hann bendir á að ef þau hefðu ekki játað, ef þau hefðu haldið sig við upphaflegan framburð, þá hefðu þau ekki verið líflátin, jafnvel sýknuð. Það er skemmtileg síðasta setningin: „Sjálfsagt hafa þau ekki haft fulla sjálfsstjórn, en varla svo brenglaða að það hafi leitt þau til að breyta framburði sínum.“ Það er það sem er áhugavert að skoða. Var sjálfsstjórn þeirra svona brengluð? Játuðu Bjarni og Steinunn á sig rangar sakir? Eru játningar þeirra falskar? Það verður mitt hlutverk að svara þessu eins og hægt er.

Aðeins að fræðunum og fölskum játningum. Skilgreiningin á falskri játningu er viðurkenning á sekt, auk frásagnar af broti sem viðkomandi framdi ekki. Þið takið eftir „auk frásagnar“. Við þekkjum fjölmörg dæmi um að fólk játar á sig rangar sakir og lýsir brotinu þannig að það verður trúverðugt svo yfirvöld efast ekki um að viðkomandi hafi verið á staðnum og framkvæmt verknaðinn.

Viðurkenning á broti sem að maður hefur ekki framið á sér venjulega stað við yfirheyrslur hjá lögreglu. En fólk gefur líka falskar játningar af fúsum og frjálsum vilja. Það þekkjum við líka hér á Íslandi að þegar framið er alvarlegt brot eins og manndráp og lögreglan hefur ekki upplýst, málið er í rannsókn, þá kemur fólk inn á lögreglustöð og segist hafa framið glæpinn. Það er eitt þekkt mál þar sem ungur maður játaði á sig sakir, játaði að hafa myrt fullorðinn mann sem gekk eftir Ægissíðu snemma árs, en svo kom í ljós að hann vissi nákvæmlega ekkert um atvikið og var sakfelldur fyrir rangan framburð. Það eru fleiri svona dæmi sem við eigum.

Það eru þrjár mismunandi ástæður fyrir því að fólk játar falskt. Sumir gera það sjálfviljugir, eins og ég var að nefna og það geta verið einstaklingar sem að eiga ekki auðvelt með að greina ímyndanir frá veruleikanum. Játningar af undanlátssemi eiga sér síðan stað við yfirheyrslur ef fólk finnur fyrir of miklum þrýstingi, til að losna undan yfirheyrslunni og bjarga sér í burtu. Þá játar það en er fullvisst um að það hafi ekki framið brotið. Þriðja tegundin er sú sem gæti átt við í þessu máli. Hún er fengin fram með þvingun á þann hátt að viðkomandi, sá sem er yfirheyrður, er sannfærður um það að hann hafi framið brotið. Það eru til fjölmörg dæmi um þetta í sögunni. Viðkomandi fer að vantreysta minni sínu. Í Sjöundármálum var málsmeðferðarhraðinn mjög mikill og við stöldrum því ekki við að þetta hafi gleymst og rifjist svo upp löngu seinna eins og gerist í sumum málum. Það er ákveðin dýnamík sem á sér stað við yfirheyrslur og er dálítið háð eðli málsins. Er um að ræða einfaldan þjófnað eða mjög alvarlegt mál sem kallar á þungar refsingar? Við þurfum að skoða bæði yfirheyrandann og þann sem er yfirheyrður, bæði aðferðirnar og einkennin. Svo eru það viðbrögð hins yfirheyrða við yfirheyrslunni.

Þetta eru upplýsingarnar sem við höfum um Bjarna og Steinunni: Bjarna er lýst sem bráðlyndum, raungóðum og heimskum. Það eru hlutir sem að við verðum að hafa í huga í svona málum. Einnig segir í dómskjölunum: „Ekki þekktur af skelmisstykkjum“ – eftir því sem ég kemst næst á þetta við um hrekkjabrögð sem eru alvarlegs eðlis. Steinunni er lýst þéttlyndri, þ.e. alvörugefinni, spakri og skýrri og hún var álitin „skikkanleg“ manneskja. Þarna voru átta börn. Þór minnist á þetta í sinni grein: „Áður en brotin voru framin höfðu hvorki Bjarni né Steinunn framið brot, svo séð verði.“ Við getum einnig haft í huga að þau voru fátækt bændafólk en vitum ekki hvort þau voru læs eða skrifandi. Það hefur líka áhrif á dýnamík við yfirheyrslur hvaða burði fólk hefur greindarfarslega eða þekkingarlega séð.

Það sem vekur athygli úr dómskjölum er að það er gengið út frá sekt Bjarna. Neitun hans er merki um sekt, en ekki að hann sé að segja satt, því þarf að fá hann til að játa og ef hann gerir það ekki þá þarf að fá prestinn til að ganga á hann og reyna fá hann til að játa. Og ef hann hikar, eins og gerist stundum þegar fólk er yfirheyrt fyrir dómi, þá er það merki um að hann sé sekur. Það er ekki merki um að hann sé óöruggur, í þessu tilviki illa gefinn, og truflist þess vegna. Hann er staðfastur í upphafi, hann ítrekar fyrir réttinum staðinn sem hann sagði Jón hafa runnið niður skriðuna. Presturinn var fenginn til að ganga á hann „… þá truflaðist hann nokkuð í þrætu sinni við það að ég sagði að það væri ómögulegt að maðurinn hefði hrapað þar af Hlíðunum.“ Ef hann hikar eða truflast „í þrætu sinni“ þá er hann ekki að segja sannleikann. Neitun Bjarna var merki um sekt og það þurfti að fá hann til að játa. Ef hann játaði ekki þurfti að fá prestinn til að „ganga á hann“ og reyna fá hann til játa, ef hann hikaði eða truflaðist „í þrætu sinni“ þá var hann ekki að segja sannleikann. Svo er spurningin: Kom sannleikurinn í ljós eftir að presturinn hafði sannfært þau?

Síðan koma skilaboð frá séra Eyjólfi Kolbeinssyni um að Bjarni og Steinunn séu ekki lengur „… forstokkuð heldur hefðu þau í gærkvöldi viknað og til staðið heimuglega fyrir sér sínar misgjörðir og sagt frá öllum að mestu sannsýnilegum kringumstæðum og atvikum við bæði morðin, af hálfu hvors þeirra, og staðfest sína sömu meðkenningu nú í morgun fyrir sér og svo heimuglega.“

Það eru sex atriði sem réttinum fannst gefa til kynna að framburður þeirra í fyrsta þinghaldinu væri ekki sannleikanum samkvæmur. Það var að Bjarni staðfesti upphaflegu frásögn sína, neitaði sekt, þau leituðu ekki að Jóni og svo var misræmi í framburðinum, t.d. varðandi skinnbuxurnar. Þetta stendur í dómskjölunum: „Vitnisburður hans [Bjarna] um buxur Jóns er gjörvallur svo villulegur.“ Gætu skýringarnar verið þær að Steinunn hafi haft meiri þekkingu á fötum heldur en Bjarni? Sagan segir að hún hafi verið annáluð hannyrðakona. Svo sagði Bjarni að skinnbuxurnar hefðu fundist um sumarmál en Steinunn þegar jörð var farin að grænka. Ég átta mig ekki á tímamuninum, er þetta ekki lýsing á svipuðum tíma.

Svo er það þetta sem skiptir máli: Þegar fólk er yfirheyrt um eitthvað sem það átti ekki von á að vera yfirheyrt um þá leggur það atburðarrásina kannski ekki sérstaklega á minnið fyrirfram. Í málinu er gengið út frá því að það hefðu verið samantekin ráð að neita öllu. Misræmið getur stafað af því að þau höfðu ekki farið nákvæmlega yfir atburðarrásina þessa daga sem að Jón og Guðrún létust þannig að þau gætu samræmt sig.

Förum aftur yfir þetta: Hér er um að ræða morðmál og refsingarnar skýrar. Yfirheyrendur eru tveir, sýslumaður og prestur. Við getum ímyndað okkur að Bjarni og Steinunn hafi verið hrædd. Við getum líka hugsað um sektarkennd. Þau áttu mörg börn og hvað yrði um börnin ef að þetta færi á versta veg? Bjarni var sagður heimskur og bráðlyndur. Ef við hugsum þetta út frá því sjónarhorni að játningarnar hefðu verið ótrúverðugar, þá getum við velt fyrir okkur; hvernig líður fólki þegar orðrómurinn segir að þau hafi verið völd að dauða tveggja einstaklinga? Ef það er ekki satt, hvernig hefur þeim liðið? Svo eru það tengslin við börnin. Mér finnst mjög skrýtið í málinu að það er ekkert talað um börnin. Þau voru átta og við sem höfum nú farið á staðinn sjáum að umhverfið er mjög þröngt og tvö morð hafa verið framin þarna á þessum tíma án þess að það truflaði eitthvað börnin, eða hvað? Það er erfitt að trúa því. Hvernig voru aðstæðurnar í varðhaldinu? Kalt, dimmt, drungalegt og óvistlegt? Voru þau höfð í járnum? Það getur haft áhrif á líðan þeirra þegar þau komu inn í yfirheyrslurnar. Prestur var látinn tala um fyrir þeim. Hvaða aðferðir notaði hann? Ræddi hann við þau sitt í hvoru lagi? Bar hann á milli þeirra? Við lestur gagnanna virðist hann hafa verið viss um sök þeirra. Reyndi hann þess vegna að sannfæra Bjarna um að hann hefði myrt þau? Var það aðferðin sem að hann notaði? Ól hann á sektarkennd vegna sambands þeirra og löngunar til að eigast? Höfðaði hann til trúar þeirra eins og Þór Vilhjálmsson fjallar um, til eilífðar útskúfunar? Þau gætu hafa verið hrædd um að missa börnin sín. Voru þau með sektarkennd vegna barnanna? Þau voru búin að koma sér og fleirum í vanda. Voru þau haldin vonleysi vegna framgangs yfirvaldsins? Við verðum að hafa í huga að þetta var fátækt bændafólk en prestur og sýslumaður menntaðir. Bjarni gæti hafa verið óöruggur. Hvað hafði Steinunn sagt? Í svona málum skiptir það máli. Svo var haldin samprófun. Það er eitt af því sem gert var í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu þar sem Sævar og Erla voru yfirheyrð saman. Látin þræta um framburð hvors annars. Út úr þessu kom játning sem er ekki alveg ljóst hvort sé fölsk. En það er hæpið að segja, eins og kemur fram í dómskjölum, að Bjarni hafi játað óneyddur.

Hver er niðurstaðan? Játuðu þau Bjarni og Steinunn á sig rangar sakir? Ýmsu er ósvarað. Ég segi eins og Pétur, það hefði verið gaman að hafa fleiri gögn, hafa þau fyrir framan sig og spyrja þau spjörunum úr. Ef menn gengu út frá því að þau væri sek í upphafi þá hefur það haft áhrif á yfirheyrslurnar, það er alveg ljóst. Hvaða áhrif hafði þessi hneykslanlegi samdráttur þeirra, eins og hann er orðaður? Þau eru líka dæmd fyrir hann.

Það sem við vitum í fræðunum er það að það eru tvær meginástæður fyrir því að fólk játar eftir að hafa neitað staðfastlega. Önnur ástæðan er sú að sá yfirheyrði áttar sig á því að yfirheyrandi hefur sannanir, að það þýði ekkert að vera að neita meira. Hin ástæðan er að fólk upplifir þrýsting. Ég er ekki að tala um barsmíðar eða hótanir heldur að fyrst og fremst skapa aðstæðurnar og aðstöðumunurinn þrýsting. Þá skulum við velta fyrir okkur í lokin niðurstöðu Þórs: „Ekki verður séð að neitt sé að athuga við þingbókina og ekki rök til að gruna sýslumann eða aðra um að kúga fangana til að játa á sig morð sem þau höfðu ekki framið“.

Ég lík þessu með spurningunni: Getum við fallist á niðurstöðu Þórs? Ef við tökum þetta sjónarhorn, þá er svo augljóst að það er ákveðið fyrirfram að þau séu sek; „… eftir að Bjarna varð snúið með prestsins fortölum frá upptekinni þrjósku og þeirra innbyrðis samningi að leyna hvort eftir öðru…“. Ég tek það þó fram að það er af og frá að hægt sé að slá því föstu að um falskar játningar sé að ræða.


Guðrún Sesselja Arnardóttir: Hvaða vörn hefðu þau Bjarni og Steinunn átt að fá?

Hér á undan höfum við hlustað á mjög áhugaverð erindi þeirra Péturs og Jóns Friðriks sem hafa hreinlega lagt málið upp í hendurnar á vörninni. Góður maður, mér nákominn, var þekktur fyrir að segja við sína skjólstæðinga; „játaðu bara, svo skal ég verja þig“ en hér um árið virðist vörn Guðmundar bónda Sigmundssonar skipaðs defensor hafa farið fyrir ofan garð og neðan.

Förum aðeins yfir hvernig þetta byrjaði allt saman. Það kom bréf frá sýslumanni til hreppstjóranna á Rauðasandi 28. september 1802 þar sem hann fól þeim að rannsaka málið. Tónninn er strax gefinn í þessu bréfi Schevings sem gefur fyrirmæli um að spyrja hvort Bjarni þekki ekki þar sín verk og meðkenni ekki morð Jóns. Þetta er svona: „Ertu ekki ennþá að berja konuna þína“ spurningar. Síðar í bréfinu segir: „Játi hann þessu á sig þá er gott en þræti hann, verðið þér að biðja prestinn að ganga á hann og í öllu falli að flytja hann að Haga“.

Það er búið að fara yfir það hér að það var staðföst neitun hjá Bjarna og Steinunni frá upphafi. Fyrri skýrslan er tekin 8. nóvember og enn á ný þræta þau bæði. Eftir þennan fyrri dag þá eru teknar saman grunsemdir réttarins í sjö liðum. Segir svo: “Ásetur því sýslumaðurinn að biðja E. Kolbeinsson prest, ásamt sér, að tala um fyrir þeim Bjarna og Steinunni og reyna að snúa þeim frá rímlegast upptekinni þrætni til sannleikans skýlausrar viðurkenningar.“

Það var búið að gefa sér fyrirfram að þau væru sek og þessar játningar Bjarna og Steinunnar um kvöldið og nóttina, þegar séra Eyjólfur og mögulega sýslumaður sjálfur setjast yfir þau, eru auðvitað fengnar með ólögmætum hætti. Er verið að tala við þau í sitt hvoru lagi? Eða, eins og við sjáum stundum í bíómyndum, er verið að segja við Steinunni að Bjarni sé búinn að játa og öfugt?

Þá erum við komin að vörninni. Játningarnar voru klárlega ólögmætar, þau voru þarna upp á vatn og brauð, hann í járnum ef mér skjátlast ekki en vörnin kemur einungis að því að krefjast málskostnaðar. Hvernig byrjaði svo vörnin hjá Guðmundi Sigmundssyni defensor? Í dómskjölum kemur fram: „Án þess að vilja fegra þann viðurstyggilegasta glæp, sem Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir á Sjöundá eru nú eftir eigin meðkenning orðin opinber að fyrir þessum rétti …” Einar ber helst í bætifláka fyrir Steinunni og segir: „… viðvíkjandi morði Jóns heitins Þorgrímssonar - Steinunnar Sveinsdóttur vitund og launung með Bjarna á báðum morðunum mætti máski afsakast með þeirri þykkju, sem hún af Jóns heitins sífelldu nöldri hafði til hans fengið …“ Jón var náttúrulega bara leiðinlegur, það er hægt að lesa það úr þessu og vona að það séu ekki margir nákomnir ættingjar hans hér. Svo segir: „ … og ekki minna af hennar elsku til Bjarna …“. Hún var auðvitað skotin í Bjarna: „… og ótta fyrir honum, hefði hún opinberað hann, þegar menn setja sér fyrir…“ Verjandinn er að biðja dóminn um að setja fyrir sér: „… sjón kvenlegra tilhneiginga óstjórnleika… „ Hún gat ekki haft stjórn á sér af því að hún var kona og því fékk hann hana til þess að taka þátt í glæpnum. Ég held að þetta hafi verið öðruvísi af því að Bjarni lýsti því nú að það var hún sem eggjaði hann mjög að drepa Guðrúnu úr því að hann var búinn að drepa Jón – ef við eigum að trúa játningunum sem við getum ekki gert því þær voru fengnar með ólögmætum hætti.

Það sem fram kemur hjá Jóni Friðriki um að sú síðari meðkenning þeirra væri óneydd og staðfest af þeim fyrir réttinum. Niðurstaðan er sú að það var búið að ákveða fyrirfram að þau væru sek, þetta var undirmálsfólk, fátækt fólk, sem er búið að vera á milli tannanna á fólki, bera þau út um allar sveitir, meðal annars hafði Guðrún Egilsdóttir kona Bjarna borið út að þau ættu í sambandi enda kannski erfitt að leyna framhjáhaldi í bæ eins og á Sjöundá. Þau voru umtöluð, standa þarna frammi fyrir yfirvaldinu og ekki nóg með það heldur er skriftafaðir þeirra, séra Eyjólfur Kolbeinsson, sem fær þau til þess að játa á sig sakir sem þau að sjálfsögðu áttu ekki að gera. Ég vísa til þess sem kom fram hjá Jóni Friðrik um að þetta séu falskar játningar og mögulega hafi þau sjálf verið orðin sannfærð um það eftir nóttina að þau hafi gert þetta. Þau hafa verið með sektarkennd yfir því að hafa verið í framhjáhaldi og svo er það yfirvaldið. Ég held að niðurstaðan hefði aldrei orðið sú sama í dag eins og þarna, fyrir 220 árum. Það eru engin sönnunargögn gegn þeim önnur en þau sem fengin voru fram með vafasömum hætti. Ekkert fast í hendi varðandi þessar ófullkomnu líkskoðanir. Ég tel að það hefði ekki verið möguleiki á að sakfella þau í dag, byggt á þessum gögnum. Takk fyrir.

Benedikt Bogason: Hvaða dóm hefðu Bjarni og Steinunn fengið ef að dæmt hefði verið í málinu í dag?

Það kemur í minn hlut að fjalla um hvaða dóm Bjarni og Steinunn hefðu fengið ef dæmt hefði verið í dag. Hvað höfum við á borðinu? Við erum með skýrslurnar sem eru raktar nokkuð ítarlega í þingbókinni, spurningar og svör við þeim, vitnisburði og álit í undanfara málsins. Þetta eru aðgengileg gögn.

Það sem er til viðbótar, og hefur kannski mesta gildi núna, eru upplýsingar sem hafa komið fram hér á fundinum. Pétur Guðmann fór yfir málið með réttarfræðilegri matsgerð, sem er upp á nokkrar blaðsíður, þar sem farið er yfir allt sem liggur fyrir og dregnar ályktanir af því. Þær skipta máli þegar lagt er mat á málið. Svo hefur Jón Friðrik farið yfir aðstæður þeirra Bjarna og Steinunnar og hvernig staðið var að því að fá fram játningar þeirra. Þetta tvennt er nýtt í málinu. Hvernig horfir þetta þá við?

Fyrst ber að nefna, sem áhugavert og myndi aldrei viðgangast í dag, að það er framganga yfirvaldsins í þinghaldinu 8. nóvember, þegar presturinn er notaður til að knýja fram játningar. Bjarna og Steinunni var ekki trúað og það voru í sjálfu sér alveg ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi kannaðist Steinunn við að hafa gefið Guðrúnu graut þar sem búið var að setja í einhverja ólyfjan í yfirheyrslu 8. nóvember. Það kviknuðu sterkar grunsemdir, hlýtur að vera, þegar þetta var sagt. Hún játaði svo 9. nóvember. Þetta var í sjálfu sér í samræmi við það sem Guðrún hafði sjálf sagt þannig að Steinunn gengst við því. Síðan er talið að frásögn Bjarna sé ótrúverðug í ljósi líkskoðunar. Hans fyrsta frásögn var að Jón hafi farið inn að Skor að sækja hey. Hann segist hafa séð hvar hann hafði fallið niður. Það sem gengur hins vegar ekki upp er skoðun á líkama Jóns sem samrýmist því ekki að hann hafi hrapað einhverja 100 metra niður Skorarhlíðar. Svo var ekki farið að leita að Jóni en ef hann hefði týnst með þessum hætti hefðu menn sennilega gert það. Grunsemdir vakna vegna þessa.

Presturinn er gerður út af dóminum til að fá þau til að viðurkenna. „… og reyna að snúa þeim frá rímlegast upptekinni þrætni til sannleikans skýlausrar viðurkenningar“. Af hverju var presturinn valinn? Hvaða tæki skyldi hann nú hafa haft? Til að skoða þennan þátt þurfum við auðvitað að setja okkur inn í það þjóðfélag sem þá var og þankagang. Trúin hafði miklu meira vægi og að brenna á báli helvítis til eilífðar voru viðurlög sem voru miklu verri en allt annað, þetta hlýtur að hafa bitið á þeim tíma og hlýtur að hafa verið tæki sem beit á þá sem voru í raun sekir. Það að beita prestinum með þessum hætti myndi ekki viðgangast í dag og meira að segja orkaði þetta tvímælis á þeim tíma. Í norsku lögum mátti prestur ekki greina frá því sem skriftað var fyrir honum og gat hann misst hempuna fyrir vikið. Fræðimenn í kirkjurétti töldu að þetta væri óheimilt og Jón Pétursson, sem var dómari við Landsyfirrétt í tæp 40 ár og kenndi í prestaskólanum í rúm 30 ár, skrifaði kirkjurétt þar sem hann fullyrðir að þessi regla norsku laganna væri enn í gildi. Samt gerir Landsyfirrétturinn ekki athugasemd, jafn tamt og honum var að finna að einu og öðru.

Hefðu þeir ekki hnýtt í þetta í Landsyfirrétti og falið biskupi að taka á þessu? Af hverju ekki? Maður spyr sig; af hverju var það ekki gert? Vildi Landsyfirréttur ekki grafa undan játningum sem réðu niðurstöðu málsins? Afleiðing af þessu hefði átt að vera hempumissir fyrir séra Eyjólf.

En jafnvel þótt að annmarki hafi verið á öflun sönnunargagna á þessum tíma, og varla í dag, þá er ekki hægt að slá þau út af borðinu. Þessar játningar koma daginn eftir að prestur hafði verið að eiga við sakborningana, hvernig horfa þær við? Maður spyr sig. Aðalgrunsemdin beindist gegn þessari stungu í hálsi Jóns og Bjarni neitaði alltaf að hafa valdið henni, féll aldrei frá þeirri neitun sinni. Ef að hann var að gangast við einhverju sem hann hafði hvort sem ekki gert, af hverju gekkst hann ekki bara við því? Af hverju stóð hann svona fastur á því? Hefði hann ekki átt að játa þá bara allt saman? Var ekki það sem hann bar nokkuð trúverðugt? Og þá líka það sem Steinunn sagði? Er ástæða til að ætla að ef þetta hefðu verið falskar játningar að þau hefðu bæði gefið eftir í einu? Hefði ekki annað viknað og bognað undan þessu?

Þau gefa bæði eftir. Það að Bjarni gengst aldrei við stungunni, að hafa valdið þessum áverka, gerir framburð hans nokkuð trúverðugan. Sú neitun Bjarna styðst svo við það sem Pétur Guðmann sagði okkur um þessa holu. Það er samhengi þar á milli. Niðurstaða Péturs bakkar upp það sem Bjarni sagði.

Bjarni kemst í mótsögn, gerist ótrúverðugur og verður margsaga varðandi hvernig þetta gerist og líkið styður ekki framburð hans um að Jón hafi fallið niður hamra. Niðurstaða Péturs, að þetta eina högg með sljóu verkfæri hafi tæplega getað valdið því að Jón datt niður dauður eins og höfuðkúpan var, grefur líka undan því sem hann gengst við og þess vegna virðist óhætt að ganga út frá því að Bjarni hafi gengið harðar fram þarna í fjörunni en hann gengst við. Það er mjög algengt í sakamálum að menn drag úr innan ákveðinna marka. Sennilega hefur hann borið meiri ábyrgð á dauða Jóns en þetta eina högg sem hann viðurkenndi að hafa slegið. Það kann að vera að átökin í fjörunni hafi gengið lengra og að lokum kannski leitt til dauða Jóns án þess endilega að það hafi verið ásetningur í upphafi. Ég held að það sé freistandi að komast að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 218.gr., sem er líkamsárás sem leiðir til bana, eigi við um lát Jóns.

Það sem Pétur sagði áðan um að áverki á ofanverðu brjósti Guðrúnar styðji síðan frásögn þeirra Bjarna og Steinunnar um að þau hafi drepið hana.

Ég hallast að því að þótt ýmsir gallar hefðu verið á málinu, bæði það að nota prestinn og sækja ekki lækni til að skoða líkin, þá bendir flest heldur til þess að Bjarni beri ábyrgð á dauða Jóns og þau saman á dauða Guðrúnar. Ég held síðan að aðkoma Steinunnar að dauða Jóns sé þunnur þrettándi, að minnsta kosti sé hún óveruleg og erfitt að gera hana ábyrga þar þó hún hafi kannski vitað að þetta væri í bígerð eða til umræðu. Þá er hennar aðkoma að því að minnsta kosti óveruleg. Hún hins vegar gekkst við því að hafa haldið höndunum á Guðrúnu þegar Bjarni var að kæfa hana og það er þá bein þátttaka í því drápi. Þetta held ég að sé nú niðurstaðan.

Í bókmenntum liggur gjarnan samúðin með gerendum en faglega er erfitt annað en að virða þetta með þessum augum.

Eyrún Ingadóttir frkvstj. LÍ tók saman.

Ferð á slóðir Sjöundármorða 7. maí 2022

17.03.2022
Laugardaginn 7. maí 2022 efnir Lögfræðingafélag Íslands til ferðar á slóðir Sjöundármorða. Að lokinni vettvangsferð að Sjöundá verður haldin málstofa þar sem velt verður upp spurningum um sekt eða sakleysi Bjarna Bjarnasonar og Steinunnar Sveinsdóttur.

Laugardaginn 7. maí 2022 efnir Lögfræðingafélag Íslands til ferðar á slóðir Sjöundármorða. Að lokinni vettvangsferð að Sjöundá verður haldin málstofa í félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem velt verður upp spurningum um sekt eða sakleysi, sókn og vörn, sem og hvaða dóm sakborningarnir tveir, Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir, hefðu fengið ef þau hefðu verið sakfelld fyrir sama glæp í nútímanum.

Fyrir ferðina verður málsgögnum deilt með þátttakendum á Facebook sem munu svo geta tekið virkan þátt í vangaveltum um málið.

Dagskrá laugardaginn 7. maí


Kl. 9.30
Lagt af stað frá Fosshóteli á Patreksfirði í vettvangsferð að Sjöundá. Hópurinn mun ýmist fara í rútu eða á eigin bílum. Ekið verður að Melanesi og gengið þaðan u.þ.b. 2 km að Sjöundá.

Leiðsögumaður verður Gísli Már Gíslason prófessor emeritus en hann þekkir hverja þúfu á þessum slóðum og er m.a. annar höfundur Árbókar Ferðafélags Íslands fyrir árið 2020 um Rauðasand hinn forna.

Kl. 12.30 Boðið verður upp á vestfirskar veitingar í hlöðunni á Saurbæ ásamt kaffi. Húsráðendur, Kjartan Gunnarsson og Sigríður Snævarr, munu sýna þátttakendum Saurbæjarkirkju. Að því búnu verður farið aftur á Patreksfjörð.

Kl. 15.00 Fundur í Félagsheimilinu á Patreksfirði um morðin þar sem velt verður upp sekt eða sakleysi Steinunnar og Bjarna.

Fundarstjóri:

• Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í pallborði verða:
• Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar
• Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis
• Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður hjá ríkislögmanni

„Matsgerðir“ sérfræðinga:
• Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur: Hugleiðingar um skoðunargerðir líkamsleifa Jóns Þorgrímssonar og Guðrúnar Egilsdóttur.
• Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur: Hugleiðingar um hvort falskar játningar gætu hafa verið í Sjöundármálinu.

Fundargestum verður svo einnig boðið upp á að tjá sig. Áætlað er að slíta fundi kl. 17.00

Kl. 20.00 Kvöldverður í félagsheimili Patreksfjarðar.Facebook
Fljótlega verður stofnaður hópur á Facebook þar sem dómskjölum og fleiru verður deilt með þeim sem hafa skráð sig til ferðar.


Undirbúningsfundur þriðjudaginn 15. mars
Kl. 17.00-19.00
Jón Karl Helgason prófessor í bókmenntafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands ræða um bókmenntaverkið Svartfugl. Hann mun svo fara með okkur á slóðir Sjöundármorða.

Verð kr. 35.000,- á mann.
Innifalin er leiðsögn á slóðir morðanna, málþing, hádegisverður, miðdagshressing og kvöldverður. Kr. 10.000,- staðfestingargjald á mann verður að greiða fyrir 15. febrúar.

Athugið að þátttakendur þurfa sjálfir að útvega sér gistingu á Patreksfirði

Skráning hér

Aðeins örfáir komast í viðbót með í ferðina og því verða þeir sem skrá sig að bíða eftir staðfestingarpósti frá félaginu um laust pláss áður en staðfestingargjald er greitt. 

Námsferð til Japan 8.-20. nóvember 2021

05.05.2021
Námsferð Lögfræðingafélags Íslands til Japans, sem fyrirhuguð var í nóvember, hefur verið frestað um ár.

Námsferð Lögfræðingafélags Íslands til Japans, sem fyrirhuguð var í nóvember, hefur verið frestað um ár.

Lögfræðingafélag Íslnads undirbýr nú námsferð til Japans í nóvember. Flogið verður í gegnum Helsinki til Tokyo og til baka sömu leið frá Osaka. 

 

Fyrstu dagana dveljum við í Tokyo en stefnt er að því að kynnast réttarkerfi landsins jafnt sem sögu, menningu, landslagi og fjölbreyttu mannlífi. 

Að því búnu verður farið með hraðlest til Hiroshima í eina nótt og svo dvalið í Kyoto áður en haldið er til Osaka. 

 

Reikna má með að ferðin kosti um kr. 850.000,- mv. 2 í herbergi á mann og kr. 950.000,- mv. 1 í herbergi. 

Takmarkaður fjöldi kemst með í ferðina en áhugasamir eru beðnir um að forskrá sig hér fyrir 15. maí. 

Skráning hér

Námsferð Lögfræðingafélags Íslands til Marokkó 2019

31.12.2019
Annað hvert ár stendur Lögfræðingafélag Íslands fyrir námsferðum til fjarlægra landa til að gefa íslenskum lögfræðingum kost á því að kynnast dóms- og lagakerfi þeirra. Ferðir sem þessar auka víðsýni lögfræðinga og kynni á milli þeirra sjálfra sem og á milli landa. Haustið 2019 fór 49 manna hópur lögfræðinga og fylgifiska á vegum félagsins í sjö daga ferð til Marokkó og byrjaði ferðina í höfuðborginni Rabat.

Annað hvert ár stendur Lögfræðingafélag Íslands fyrir námsferðum til fjarlægra landa til að gefa íslenskum lögfræðingum kost á því að kynnast dóms- og lagakerfi þeirra. Ferðir sem þessar auka víðsýni lögfræðinga og kynni á milli þeirra sjálfra sem og á milli landa. Haustið 2019 fór 49 manna hópur lögfræðinga og fylgifiska á vegum félagsins í sjö daga ferð til Marokkó og byrjaði ferðina í höfuðborginni Rabat.
Örlítið um landið
Í Marokkó búa um 34,3 milljónir manna en 99% eru af arabískum og berbískum uppruna. Um 31% landsmanna eru yngri en 25 ára. Þar er þingbundin konungsstjórn en marokkóska þingið er þjóðkjörið. Múhameð VI. konungur hefur mikil völd, sérstaklega í málefnum hersins, í utanríkis- og trúmálum. Hann getur gefið út konunglegar tilskipanir sem hafa lagagildi og leyst upp þing ef svo ber við.


 

Casablanca
Byrjað var á því að eyða sunnudegi í Casablanca sem er helsta miðstöð viðskipta Marokkó, með stærstu höfn landsins, og auk þess fjölmennasta borgin. Casablanca þýðir „hvíta húsið“ en upphaflega hét bærinn Anfa sem varð miðstöð sjóræningja sem réðust á skip kristinna manna. Árið 1468 eyddu Portúgalir bænum en svo komu þeir aftur árið 1515 og byggðu nýjan sem þeir kölluðu Casa Branca, eða „Hvíta húsið“. Eftir jarðskjálfta sem varð árið 1755 eyðilagðist borgin og íbúar fóru á brott en seint á 19. öld endubyggðu Marokkómenn hana. Spænskir kaupmenn settust þar að og hófu að kalla borgina Casablanca og fljótlega fylgdu fleiri evrópskir höndlarar í kjölfarið enda góð hafnaraðstaða og stutt yfir til Miðjarðarhafsins.

Marokkómenn hafa byggt hina risastóru Hassan II mosku sem er stærsta moska í Afríku og sú þriðja stærsta í heimi. Moskan er ótrúlega falleg þar sem marokkóskur byggingastíll er látinn njóta sín en byggingu hennar lauk árið 1993.

Kvikmyndin Casablanca hefur svo sannarlega haldið nafni borgarinnar á lofti en hún var samt ekki tekin í Marokkó enda frumsýnd árið 1942, í miðri heimstyrjöld. Rick´s Cafe er þó til í borginni og er nákvæm eftirgerð af staðnum í kvikmyndinni en því miður gátum við ekki farið þangað. Það var kannski eins gott því vonbrigðin að sjá ekki Ingrid Bergman í hlutverki Elsu að segja við Dooley Wilson, í hlutverki Sam: „Play it again, Sam“

Þá komu þeir Winston Churchill, Franklin D. Roosevelt og Charles de Gaulle til Casablanca í ársbyrjun 1943 til að ráða ráðum sínum hvernig hægt væri að sigra Þjóðverja í stríðinu og ókum við framhjá hvíta húsinu þar sem þeir funduðu. Jósef Stalín afþakkaði hins vegar boðið, var víst upptekinn.

 

Heill dagur af heimsóknum
Að morgni mánudags var farið til Lögmannafélags Marokkó þar sem við fengum kynningu á starfi lögmanna í landinu. Lögmannafélagið í Rabat er nú 100 ára gamalt og í því eru 1900 lögmenn. Sextán önnur félög eru í landinu og mynda þau saman Lögmannafélag Marokkó sem í eru 17.000 félagar. Í Rabat eru 3 af 22 stjórnarmönnum lögmannafélagsins konur og er það meira en í öðrum félögum en konur virðast eiga á brattann að sækja í lögmennsku. Aðspurðir um hver væri mesta áskorunin í starfi félagsins um þessar mundir sögðu gestgjafar okkar það vera efnahagsmál og starf lögmanna annars vegar og sjálfstæði lögmanna hins vegar. Lögmenn væru sjálfstætt starfandi og væru því ekki með sjúkratryggingar og eftirlaun eins og ríkisstarfsmenn. Einnig var spurt út í dauðarefsingar en það er mikill áróður fyrir því nú í Marokkó að afnema þær með öllu. Þá var einnig fjallað um rétt Marokkó til yfirráða í Vestur-Sahara.

Okkur var tekið með kostum og kynjum í Hæstarétti Marokkó en það vakti undrun hve mikla athygli heimsókn félagsins vakti hjá fjölmiðlum í landinu.
Breytingar voru gerðar á stjórnarskrá Marokkó árið 2011 sem tryggðu sjálfstæði dómstóla landsins en sérstakt dómstólaráð sér um stjórn þeirra þar sem konungur og dómstólar eiga fulltrúa. Réttarkerfi Marokkó byggir á Sharia lögum sem þó er mun frjálslegra en í öðrum arabalöndum. Þar eru sérstakir dómstólar sem takast á við stjórnsýslumál, fjármálaglæpi, viðskiptamál og fjölskyldumálefni en einnig er réttur gyðinga til sérstaks dómstóls á sviði fjölskylduréttar tryggður í stjórnarskránni.

Við fengum afar áhugavert erindi um stöðu marokkóskra kvenna í dómskerfinu en fyrsta konan var skipuð dómari árið 1961. Konum hefur verið að fjölga í dómarastöðum síðustu ár en Marokkó hefur undirritað átta af níu alþjóðlegum samþykktum sem varða mannréttindi, þar á meðal eru samþykktir sem fjalla um að ekki megi mismuna konum vegna kynferðis. Alls eru 895 konur dómarar en 2.323 karlar og 172 konur eru saksóknarar en 919 karlar. Síðastliðin tíu ár hefur þeim fjölgað um 100%.

Sagnfræðingur frá Vestur-Sahara kom að því búnu og sagði frá tengslum Saharasvæðisins við marokkóska konunga í gegnum tíðina. Hann sýndi okkur því til sönnunar bréf frá höfðingum Sahrawi til konunga þar sem þeir voru að biðja m.a. um vernd. Að þessu loknu sáum við kvikmynd þar sem fjallað var um samband Marokkó og Vestur-Sahara um „grænu gönguna“ svokölluðu en árið 1975 fóru um 350.000 vopnlausir Marokkómenn til Vestur-Sahara ásamt 30.000 hermönnum og tóku landið af Spánverjum. Í lokin borðuðum svo hádegisverð með forseta Hæstaréttar.

Næstu heimsóknir voru til „National Human Rights Council“ eða Mannréttindaráðs Marokkó og „Economic, Social and Environment Council“ eða Efnahags, félags- og umhverfisráðs.
Mannréttindaráðið var stofnað til að styrkja réttarríkið og fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum marokkóskra stjórnvalda varðandi réttindi og frelsi borgaranna. Ráðið fylgist með mannréttindabrotum og getur rannsakað og komið með tilmæli til stjórnvalda. Það hefur einkum sinnt réttindum kvenna, fanga og flóttamanna. Samkvæmt þeim eru nú 64 fangar á dauðadeild en enginn hefur verið líflátinn síðan árið 1993 og hefur ráðið beitt sér fyrir því að afnema dauðarefsingar. Spurt var út í mál sem hafa hlotið athygli umheimsins s.s. mál Hajar Raissouni blaðamanns sem fékk dóm fyrir kynlíf utan hjónabands og að hafa farið í fóstureyðingu sem bæði er andstætt lögum í Marokkó. Konungur var búinn að náða hana þegar hér var komið við sögu en svör voru á þá leið að hún hefði sannanlega brotið lög. Eins var spurt út í mál mál Malika Oufkir sem var í fangelsi ásamt fjölskyldu sinni í 20 ár, til 1991, í kjölfar þess að faðir hennar reyndi að steypa Hassan II af stóli. Okkur var sagt að mál hennar hefði síðar verið tekið fyrir hjá svokallaðri sannleiksnefnd en hún var stofnuð eftir andlát Hassan II, í sama anda og gert var í Suður-Afríku eftir að aðskilnaðarstefnan þar var afnumin. Mannréttindaráðið var síðan stofnað á þeim grunni. Efnahags, félags- og umhverfisráðið er ráðgefandi fyrir stjórnvöld um þessa þrjá þætti og beitir sér fyrir rannsóknum fyrir ríkisstjórn eða þing eða að eigin frumkvæði.

Klukkan fimm síðdegis var komið að síðustu heimsókninni, í sjálft þjóðþing Marokkó þar sem forseti þingsins tók á móti hópnum. Hann fór yfir störf þingsins sem er í tveimur deildum en ellefu stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa á þingi. Í neðri deild eru 395 þingmenn sem eru kosnir af þjóðinni til fimm ára. Þá eru í efri deild 120 þingmenn sem eru kosnir til sex ára. Þar af eru 72 valdir af konungi og aðrir eftir ákveðnum reglum. Þingforseti var spurður út í hvort hið svokalla „arabíska vor“ hefði haft áhrif á stjórnun Marokkó og svaraði hann því til að breytingar á stjórnarskrá landsins árið 2011 hefðu meðal annars tekið mið af því og sem betur fer hefðu þær róstur sem urðu í mörgum löndum ekki náð þangað. Í lokin færði þingforsetinn rök fyrir yfirráðum Marokkó yfir Vestur-Sahara og vilja stjórnvalda til að leysa hina 44 ára gömlu deilu.

Allar þessar heimsóknir voru afar áhugaverðar og við fengum frábærar móttökur þar sem reynt var að svala forvitni okkar um marokkóskt dómskerfi og löggjöf. Það sem kom okkur helst á óvart er hve mikil frönsk áhrif eru í allri stjórnsýslu í Marokkó. Frakkar réðu yfir landinu frá 1912 til 1956 og þrátt fyrir hve langt er síðan virðast allir sem starfa í stjórnsýslu og eru í viðskiptum tala frönsku.


  

Fez
Næstu dögum eyddi hópurinn í Fes en á leiðinni þangað, sem er um þriggja tíma akstur, var farið til Volubilis sem var eitt sinn blómleg rómversk borg, núna rústir einar sem áhugavert er að ganga um. Borgin var reist á 1. öld fyrir krist en hún var yfirgefin árið 285.
Hin sögufræga gamla höfuðborg Marokkó, Fez, er bæði falleg og heillandi. Innan múra gömlu medínunnar búa um það bil jafn margir og á öllu höfuðborgarsvæðinu á Íslandi, og það er lítið mál að villast innan veggja hennar. Við fórum í skoðunarferð með Samiu leiðsögumanni sem heillaði okkur upp úr skónum með sagnagleði og húmor. Síðar fórum nokkrar konur með henni í Hammam sem er vinsælt meðal Fezkvenna og bundust systralagi. Þar vorum við skrúbbaðar hátt og lágt. Timinn var vel nýttur í borginni en á laugardegi var haldið til baka til Rabat og svo heim á leið.


Enginn kom heim ósnortinn frá fallegu Marokkó með sína heillandi menningu sem er okkur svo framandi. Við vorum heppin með veður, leiðsögumenn og samferðamenn.


Skrifað 27. nóvember 2019
Eyrún Ingadóttir, frkvstj. Lögfræðingafélags Íslands


Vettvangsferð á slóðir síðustu aftökunnar og ný réttarhöld í máli Agnesar, Friðriks og Sigríðar

01.11.2018
Haustið 2017 fór Lögfræðingafélag Íslands í vettvangsferð á Vatnsnes í Húnavatnssýslu, á slóðir síðustu aftökunnar. Að því loknu var farið í félagsheimilið á Hvammstanga og sett upp ný réttarhöld í máli Agnesar, Friðriks og Sigríðar. Hér er hægt að nálagst "dóminn" sem féll sem og upptöku af vettvanginum.

Haustið 2017 fór Lögfræðingafélag Íslands í vettvangsferð á Vatnsnes í Húnavatnssýslu, á slóðir síðustu aftökunnar. Að því loknu var farið í félagsheimilið á Hvammstanga og sett upp ný réttarhöld í máli Agnesar, Friðriks og Sigríðar. Á annað hundrað félagsmenn LÍ og fylgdarfólk þeirra tók þátt í viðburðinum sem vakti mikla athygli.

Við skipulagningu á réttarhöldunum höfðum við í huga hvernig réttarhöld í opinberum málum fara fram í dag en auk þess voru lesnir upp valdir kaflar úr skýrslutökum af sakborningum eins og þau birtast í dómabókum.  Loks var kveðinn upp dómur í beinu framhaldi af ræðum sækjenda og verjanda og dómarar fóru í stuttu máli yfir þær forsendur sem þeir lögðu til grundvallar við samningu dómsins.

Ef um væri að ræða raunveruleg réttarhöld hefði dómur vera kveðinn upp nokkru síðar og einungis dómsorðið lesið upp, þ. e. niðurstaða dómsins um sekt eða sýknu, mögulega refsingu og sakarkostnað.

Verjendur voru hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Guðrún Sesselja Arnardóttir.

Saksóknari var Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.

Dómarar voru Ingibjörg Benediktsdóttir fv. hæstaréttardómari, Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og verðandi dómari við Landsrétt og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

Hér er upptaka af réttarhöldunum

Hér er dómur endurupptökumálsins

 

Hér koma myndir af viðburðinum:

                

 

 

Námsferð til Parísar 2017

21.11.2017
Annað hvert ár býður Lögfræðingafélagið upp á námsferðir þar sem þátttakendur kynna sér réttarkerfi og lagaumhverfi annarra þjóða. Árið 2017 var farið til Parísar og fóru alls 44, lögfræðingar og fylgifiskar þeirra. Þótt flestir hefðu áður farið til heimsborgarinnar þá má segja að þetta hafi verið öðruvísi Parísarferð því heimsóttir voru staðir sem almennt standa ekki opnir fyrir ferðamenn. Einar Baldvin Stefánsson lögfræðingur skrifaði ferðasögu.

Námsferð LÍ til Parísar 21.-26. nóvember 2017:

 

Þjóðþing Frakka

Lagt var af stað til Parísar í bítið þann 21. nóvember. Úr hávaðaroki í Keflavík lentum við í París í blíðskaparveðri, ca 15 stiga hita. Strax fyrsta morguninn var lagt af stað frá hótelinu í til þjóðþings Frakka, Assamblée Nationale. Þingið samanstendur af 577 þingmönnum þar sem flokkur Macron forseta, ,,Áfram Lýðveldið" (La Republique En March) hefur hreinan meirihluta með 308 þingmenn. Samstarfsflokkur Macron á þinginu Lýðræðishreyfingin (Mouvement Démocrate) er með 42 þingmenn og telur meirihlutinn því 350 þingmenn. Alveg með ólíkindum þar sem rúmt ár er síðan Macron stofnaði sinn flokk gagngert til að bjóða fram til þings. Þinghúsið er glæsilegt og íburðarmikið eins og vænta mátti.


Rifjuð var upp sagan um tilurð hugtakanna ,,vinstri og hægri". Eftir byltinguna 1789 skipuðu stuðningsmenn byltingarinnar, hinir róttæku, (party of movement) sér vinstra megin við þingforsetann. Þeir þóttu háværir og til að forðast öskrin og lætin skipuðu stuðningsmenn konungs sér hægra megin við þingforsetann og helst sem lengst frá hinum róttæku, ,,vinstra liðinu". Þetta hafa svo sannarlega verið róstusamir tímar og í fundarherbergi þingforseta átti þingforseti fast sæti við miðju borðs og þess var gætt að hann sæi alltaf hurðina, m.ö.o. sneri aldrei baki við henni líkt og mafíuforingjar í hættulegum heimi. Í einum salnum var skrifborð sem Napoleon Bonaparte sat við þegar hann undirritaði lög og tók á móti hinum ýmsu embættismönnum. Leyfi var gefið til að setja sig í spor Napoleons við borðið og var sérstaklega til þess tekið hve Sigurður Sigurjónsson tók sig vel út sem staðgengill Napóleons.

 

Hæstiréttur
Frá þjóðþinginu var haldið til Hæstaréttar Frakklands, Cour de Cassation, sem er í hluta af Palais de Justice eða dómhúsi Parísar. Eins og Baldvin Björn Haraldsson hdl. kom inn á, í kynningu sinni fyrir ferðina, er Hæstiréttur Frakka margskiptur eftir málefnum. Má þar nefna vinnumarkaðsrétt, tiltekin einkamál og sakamál. Að undanförnu hefur dregið úr vægi munnlegs málflutnings og er næstum alfarið stuðst við greinargerðir lögmanna. Dómarar geta farið fram á frekari skýringar þeirra munnlega, og hafa lögmenn í þeim tilvikum hámark 15 mínútur til að koma að frekari athugasemdum. Sá dómari sem tók á móti okkur sagði þetta fyrirkomulag hafa verið gagnrýnt, m.t.t. þess stutta tíma sem lögmönnum væri gefinn til að skýra frekar sjónarmið skjólstæðinga sinna. Dómsniðurstaða er þannig fengin að hver og einn dómari skilar áliti sínu og síðan greiða dómararnir atkvæði um álitin. Meirihluti atkvæða dómaranna ræður dómsniðurstöðu. Út á við er ekki gefið upp hvort dómararnir hafi verið ósammála heldur er aðeins ein lokaniðurstaða birt, þ.e. álit réttarins. Hæstiréttur Frakklands er til jafns skipaður báðum kynjum. Hins vegar eru konur fjölmennari á landsvísu í dómarastéttinni.

 

Lögmannafélag Parísar
Næsta dag var Lögmannafélag Parísar heimsótt, Ordre des Avocats. Þar vakti helst athygli hin margvíslegu verkefni sem félagið sinnir. Má þar nefna að félagið styrkir lögmenn, einkum unga lögmenn, til að standa straum af hárri húsaleiguí París. Einnig borga lögmenn mishá gjöld til félagsins eftir umfangi rekstrar þeirra. Loks skiptast félagsmenn á að standa símavaktir til að svara fólki í alls kyns vandræðum, ekki aðeins vegna réttaraðstoðar, heldur einnig sem liður í forvörn gegn sjálfsvígum, einhvers konar,,vinalína" Rauða Krossins.

 

Dómhöll Parísar
Í beinu framhaldi var dómhöll Parísar eða Palais de Justice heimsótt. Þarna eru lægri dómstig til húsa ásamt nokkrum áfrýjunardómstólum. Þarna er einnig sem fyrr segir Hæstaréttur Frakklands, Cour de Cassation. Elsti hlutinn er kirkja eða kapella, byggð 1240. Nú er hún nýtt til ýmissa hluta, svo sem tónleikahalds þar sem Björk hefur m.a. troðið upp. Þetta var áður konungshöll Frakka og þinghús Parísar, en snemma á 15. öld yfirgaf konungur byggingarnar og þær urðu vettvangur dómskerfisins.

Hluti Palais de Justice var einnig nýttur sem fangelsi og þar sat Marie Antoinette, eiginkona Loðvíks 16, inni í fjögur ár áður en hún var hálshöggvin árið 1793 í viðurvist tveggja barna sinna. Byltingardómstóll dæmdi hana til dauða í kjölfar frönsku byltingarinnar 1789. En öllu er afmörkuð stund. Sarkosy ákvað í forsetatíð sinni að flytja allt dómskerfið í eina byggingu fyrir utan borgarmörkin. Flutningi skal lokið um mitt næsta ár, eða í mai 2018. Óhætt er að segja að hin nýja bygging sé ólík hinum glæsilegu húsakynnum Palais de Justice. Um er að ræða nýtísku glerhöll (marga ferhyrninga) sem teygja anga sína upp til himins. Sumir eru jákvæðir og nefna að byggingin með öllu sínu gleri hleypi dagsbirtunni inn. Ekki veiti af. Þeir eru hins vegar fleiri sem finna byggingunni allt til foráttu. Hún hefur verið kölluð ,,ófreskja andstæð lögum". Þá hefur verið lagt til að koma arkitektinum, Renzo Piano, bak við lás og slá og koma þannig í veg fyrir að hann teikni fleiri hús.

OECD og sendiherrabústaður
Seinna sama dag voru höfuðstöðvar OECD skoðaðar og hlustað á kynningu á stofnuninni. Að því loknu var haldið í sendiherrabústað Íslands þar sem Kristján Andri Stefánsson sendiherra og Davíð Samúelsson tóku höfðinglega á móti okkur. Loks var sameiginlegur kvöldverður á Le Chalet des Iles sem er á lítilli eyju á litlu vatni í Boulogne skógi. Fínn matur og skemmtilegt kvöld.

 

Strassborg
Næsta dag var farið í lest til Strassborgar þar sem Jon Fridrik Kjølbro dómari frá Danmörku fræddi okkur um starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu en síðan var Evrópuráðið skoðað í fylgd Sonju Ágústsdóttur starfsmanns fastanefndar Íslands. Um kvöldið vorum við viðstödd opnun elsta og stærsta jólamarkaðar Evrópu, en Ísland var sérstakur gestur markaðarins. Kristján Andri sendiherra hélt opnunarávarp og kveikti á jólatré. Þar voru nokkur lítil hús með íslenskum varningi svo sem SS pylsum, lopapeysum og íslenskum bjór.

 

Tígrísdýr í París
Síðasti dagurinn var ,,frídagur" og engin dagskrá. Í morgunmatnum þennan dag fréttist af vef Moggans að tígrisdýr hefði sloppið úr búri frá sirkus í borginni um sexleytið daginn áður. Dýrið fór beint í Metró þar sem uppi varð fótur og fit og það fljótlega vegið. Fólki brá í brún og prísaði sig sælt að hafa verið í Strassborg þegar tígri gekk laus í París. Ónefndur dómstjóri á Akureyri benti mjög ábúðarfullur á að enda þótt Mogginn lygi ekki væri hann ónákvæmur í erlendum fréttum. Staðreyndin væri sú að um tvö tígrisdýr hefði verið að ræða, annað var fellt í Metró en hitt gengi enn laust. Svo sannfærandi var dómstjórinn að sumir höfðu á orði að ekkert vit væri í að fara út fyrr en örlög hins dýrsins væru örugglega ráðin.

Okkur fannst París taka vel á móti okkur. Fólkið alúðlegra en maður á að venjast og allt viðmót hefur breyst. En hryðjuverkin undanfarin misseri hafa valdið hruni í ferðamennskunni. Okkur fannst Frakkarnir mun viljugri að beita enskunni en áður (þrátt fyrir yfirlýsingu Macron forseta um að gera frönsku að alheimstungumáli!). Eftir að stjanað hafði verið við okkur á veitingahúsi, með hitalömpum og öðru, var okkur t.d. sérstaklega þakkað fyrir að hafa valið París sem áfangastað.

Við Ragnhildur þökkum fyrir okkur og notalega samveru. Ferðin var afar ánægjuleg í alla staði og allt eins og best á kosið undir styrkri stjórn Eyrúnar og Jónínu.

Kópavogi, 15. desember 2017

Einar Baldvin Stefánsson

Námsferð LÍ til Víetnam og Kambódíu 2015

15.11.2015
Annað hvert ár fer Lögfræðingafélag Íslands í námsferðir erlendis. Fyrsta ferðin var farin til Washington árið 1997 og hefur félagið farið víða síðan þá; til Kúbu, Suður-Afríku, Argentínu og Indlands svo nokkur lönd séu nefnd. Sunnudaginn 15. nóvember 2015 lögðu 49 lögfræðingar og makar af stað í námsferð áleiðis til Víetnam í tíu daga ferð og bauðst þeim sem vildu að fara einnig til Kambódíu.


Víetnam

Námsferð Lögfræðingafélagsins  2015

Annað hvert ár fer Lögfræðingafélag Íslands í námsferðir erlendis. Fyrsta ferðin var farin til Washington árið 1997 og hefur félagið farið víða síðan þá; til Kúbu, Suður-Afríku, Argentínu og Indlands svo nokkur lönd séu nefnd. Sunnudaginn 15. nóvember 2015 lögðu 49 lögfræðingar og makar af stað í námsferð áleiðis til Víetnam í tíu daga ferð og bauðst þeim sem vildu að fara einnig til Kambódíu.   

 

 

Hanoi er höfuðborgin

Fyrsti viðkomustaður okkar í Víetnam var höfuðborgin Hanoi. Það var magnað eftir langt flug að fara beint brjálaða umferðarómenningu í hjólakerrum. Þannig rúntuðum við um gamla bæinn og franska hverfið en Víetnamar eru 90 milljón manna þjóð sem á 57 milljón mótorhjól og við vorum stödd einhvers staðar innan í þeirri hringiðu, eins og í 1400 snúninga þvottavél.

 

Ho frændi

Grafhýsi Ho Chi Minh leiðtoga Víetnam, var einn af viðkomustöðum okkar og það var hátíðlegt að ganga áður um Ba Dinh torgið þar sem hann lýsti yfir sjálfstæði Víetnam árið 1945. Þar er nú miðstöð stjórnsýslu landsins en Ho frændi, eins og Víetnamar kalla hann var forsætisráðherra norðursins 1945-1955 og forseti 1945-1969. Hann lét þó af völdum árið 1965 af heilsufarsástæðum en var til dauðadags leiðtogi Víetnama.

Við grafhýsið stóðu ungir hermenn heiðursvörð og þegar hópurinn kom hófst dálítil athöfn með stórglæsilegan blómakrans sem hópurinn hafði víst splæst í af tilefni komu sinnar. Svo var gengið inn í helgidóminn, einn vörður sussaði á gesti, annar benti þeim á að hafa hendur niður með síðu, sá þriðji vildi að þeir læddust og svo loks, þegar komið var upp tröppur og inn í kulda grafhýsisins gengu allir inn í svo mikilli andakt að það var eins og þeir byggjust við því að Ho gæti hrokkið upp af værum svefni þá og þegar. Það var ekki að sjá að hann hefði legið þarna látinn síðustu 46 árin eða svo. Miklu fremur var eins og hann hefði tekið sér blund eins og Þyrnirós í ævintýrinu forðum, ætti eftir að sofa í eins og 54 ár í viðbót og vakna upp við koss.

Við vorum heppin því nýbúið var að opna grafhýsið á ný. Í tvo mánuði á ári er ásjóna hins mikla leiðtoga Víetnam ekki til sýnis heldur hefur hópur manna þann starfa að gera hann upp og það kostar þúsundir dollara á ári hverju. Sennilega er það þess virði því Ho frændi er sameiningartákn 54 þjóðarbrota sem búa í landinu.

Ho sjálfur var hógvær maður og vildi ekkert svona tilstand. Sem dæmi þá vildi hann eftir valdatökuna árið 1945 ekki búa í forsetahöllinni, sem frönsku nýlenduherrarnir höfðu byggt árið 1906 fyrir stjórnarherra Indókína, heldur valdi að búa í látlausu hliðarhúsi sem ætlað var fyrir þjónustufólkið. Síðar lét hann byggja íbúðarhús í stíl við bændabýli á landsbyggðinni og þar bjó hann sem einsetumaður frá 1958 og til dauðadags 1969, tók á móti börnum sem voru dugleg að læra og veiddi með þeim í tjörn sem þar er. Við fengum alveg nýja sýn á það hvernig andláti Ho bar að.

Hann dó opinberlega 2. september 1969, 24 árum eftir að hann lýsti yfir sjálfstæði landsins upp á dag. Reyndar dó hann 3. september en slíkir smámunir eru ekkert til að tala um. Þótt Ho hafi verið orðinn 79 ára gamall dó hann ekki úr elli eða hjartveiki heldur úr sorg. Hann hafði í ársbyrjun 1968 fyrirskipað árás á Suður-Víetnam sem mistókst eða kostaði mikið mannfall. Hann tók það svo nærri sér að hann lést rúmlega ári síðar.

     

Fangelsi

Hoa La Prison Museum var einnig heimsótt sem kallað var „Hanoi Hilton“ eða „Hell´s hole“ á tímum Víetnamstríðsins. Fangelsið var byggt af Frökkum í lok 19. aldar á meðan Víetnam var enn hluti af Indókína. Upphaflega voru þar pólitískir fangar sem voru þar pyntaðir grimmúðlega og drepnir og var löngum yfirfullt. Það varð að tákni fyrir yfirgang frönsku stjórnarherranna en í Víetnamstríðinu var fangelsið notað fyrir bandaríska fanga og fékk viðurnefnið „Hanoi Hilton“ enda var vistin þar býsna ömurleg.

Árið 1967 var byggð ný álma fyrir ameríska fanga sem nefnd var „Little Vegas“. Hluti af fangelsinu er nú safn en mestur hluti þess hefur verið rifinn. Þess má geta að John McCain var þar fangi um tíma árið 1968 eftir að flugvél hans var skotin niður yfir borginni. Hann átti þar illa vist í byrjun en þegar Víetnamar komust að því að hann væri sonur háttsetts manns í Ameríkunni var farið betur með hann.

    

Lögfræðingar í Hanoi

Eitt af því sem gerir námsferðir LÍ sérstakar er hin faglega dagskrá þar sem lögfræðingar hitta starfsfélaga sína og fá kynningu á dóms- og réttarkerfi landa. Óvenju erfiðlega gekk að fá heimsóknir í Víetnam og spilaði þar inní að Kommúnistaflokkur Víetnam var með flokksþing sitt í borginni og allir dómarar og lögfræðingar landsins sem eitthvað máttu sín uppteknir á því. Í gegnum einn ferðafélaga fékkst á endanum heimsókn til lögmannsstofunnar Tilleke & Gibbins sem sérhæfir sig í vörumerkjum.

Í landinu eru lögfræðingafélög og staðbundin lögmannafélög en ferðinni var heitið til Vietnam Bar Fereration að lokinni heimsókn á lögmannsstofuna. Árið 2006 voru fyrst sett lög um lögmenn í Víetnam og tveimur árum síðar var Lögmannafélag Víetnam stofnað þar sem allir lögmenn í 63 sýslum landsins eru félagar. Þá eru 11.000 lögmenn nú í Víetnam. Lögfræðingar þurfa að hafa stundað 12 mánaða nám til að fá lögmannsréttindi og einnig verið í tólf mánaða starfsþjálfun. Erfitt reyndist að fá svör við spurningum okkar um sjálfstæði dómstóla enda er réttarkerfið gegnsýrt af spillingu og það virðist vera hægt að kaupa þá niðurstöðu sem menn hafa efni á. Réttlæti til sölu.  

   
 

Í spor drekans á Halong flóa

Haldið var að hinum ævintýralega Halong flóa sem er 1.500 m2 að flatarmáli með um þrjú þúsund eyjum. Heimili drekamóðurinnar segir goðsögnin en eldgos og landmótun segja fararstjórar um flóann sem er á heimsminjaskrá UNESCO og tilheyrir einu fallegasta náttúrusvæði jarðar. Siglt var milli eyjanna og notið einstakrar náttúrufegurðar, kvöldverður var snæddur um borð, stungið sér til sunds í hlýjum sjónum og farið á litlum bátum í fljótandi þorp þar sem var skóli, heimili og sölubátar sem seldu Coca cola. Börn sigldu um í bala og allt var þetta framandi og fallegt.  

 

Fyrrum höfuðborgin Hue

Næst var flogið til borgarinnar Hue sem er í miðju landinu. Árið 1802 flutti  Gia Long Nguyen konungur höfuðborgina frá Hanoi til Hue til að reyna sameina norður- og suðurhluta Víetnams. Konungshöllin var reist þar árið 1845 af Thieu Tri konungi en var síðan breytt í safn árið 1923. Konungshöllin, eða öllu heldur borgin, er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.

Árið 1884 var skrifað undir sáttmála í Hue milli keisarans og Frakka sem varð grundvöllur að nýlendustjórn þeirra í Víetnam næstu sjö áratugi en franska Indókína var síðan stofnað árið 1887 og samanstóð af Víetnam og Kambódíu. Frakkar létu formleg völd í hendur innlendra valdhafa sem voru keisarinn í Víetnam, konungur Kambódíu og konungurinn í Luang Prabang en í raun notuðu þeir konungana sem leppa. Laos bættist svo við árið 1893 eftir stríð Frakka við Síam (Thailand). Hue var höfuðborg Víetnam til ársins 1945. 

Á tímum Víetnamstríðsins, eða Ameríkustríðsins eins og Víetnamar kalla það, lá víglínan oft hjá Hue og var mestan tímann á yfirráðasvæði Suður-Víetnam. Árið 1968 beindust augu heimsins að borginni þegar norðrið náði henni á sitt vald um eins mánaðar skeið og voru þúsundir manna teknir af lífi fyrir að vera grunaðir um þjónkun við Suður-Víetnam og Bandaríkjamenn. Ameríkanar hentu þá m.a. Napalm sprengjum á konunghöllina/borgina en það hafði djúpstæð áhrif á viðhorf almennings á Vesturlöndum til stríðsins.    

        Búið er að reisa hluta borgarinnar aftur í fyrri mynd en enn á eftir að ljúka þeirri vinnu undir stjórn UNESCO. Í stríðsminjasafninu í Ho Chi Minh City eru áhrifamiklar myndir frá Hue þegar stríðið var þar í hámarki, lík á götum úti og eyðilegging.  


Hótelið í Hoi An

Næsti viðkomustaður okkar var Hoi An en þar vorum við á hóteli sem er eins og himnaríki á jörðu. Þeir sem vildu gátu hvílt sig, baðað sig í sjónum eða legið við sundlaugarbakka en hinir hittu klæðskera í bænum. Það vantaði einn dag upp á ferðina til að njóta betur þess sem þessi forna borg, sem var öldum saman ein mikilvægasta hafnarborg suðaustur Asíu, hafði upp á að bjóða. Enn má sjá áhrif frá Kína og Japan jafnt sem Evrópu. Borgin, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, missti skyndilega stöðu sína um 1800 þegar stærri skip þurftu meira dýpi og næstu 200 ár varðveittist hún svo til óbreytt. Nú er borgin þekkt fyrir forna frægð og fallegan arkitektúr.  

 

Hafnarborgin Da Nang

Ekið var ekið til Da Nang sem tók við af Hoi An sem mesta hafnarborg Suðaustur Asíu og er hún það enn í dag. Þar hóf Frakkland landvinninga sína í Indókína þegar franski herinn réðst á höfnina árið 1847 til að hefna fyrir kaþólskra trúboða sem Thieu Tri´s keisari lét taka höndum. Frakkar tóku svo Saigon 1859 og þremur árum síðar, árið 1862, ritaði keisarinn undir samning þar sem Frakkar fengu suðurhluta Víetnam sem franska nýlendu. Flestir þeirra sem eldri voru í ferðinni þekktu til Da Nang því á tímum Víetnamstríðsins voru herstöðvar Suður-Víetnama og bandaríska flughersins staðsettar í borginni og hún oft nefnd í fréttum. Þá var flugvöllurinn þar einn sá fjölfarnasti í heimi.

Skoðað var stórmerkilegt safn um sögu og menningu Chamríkisins en konungsríki hindúa, Champa var til í kringum 2. öld ekr. Þar sem töluð var sanskrít og indversk áhrif ríkjandi í list og menningu. Safnið var stofnað árið 1919 og er stærsta safn af styttum um þessa merku þjóð. Chamfólkið er ennþá sérstakur þjóðflokkur með sína siði, hefðir og menningu, klæðaburð og líta öðruvísi út en Víetnamar. Þar er til dæmis til siðs að við giftingu fara karlarnir til fjölskyldna eiginkvenna sinna, sem er öfugt á við menningu Víetnama.  


Saigon sem aldrei sefur

Hún heitir Ho Chi Minh borg en Saigon er hún kölluð meðal Suður-Víetnama og íbúanna sjálfra. Borgin var endurskírð eftir Ho frænda eftir sameiningu landsins sem þrátt fyrir að vera löngu farinn yfir móðuna miklu lifir enn í hugum Víetnama. Saigon er vestrænni en Hanoi og þar er greinilega meiri velmegun, hægt að kaupa allt milli himins og jarðar og háhýsin glæsileg. Þar búa níu milljónir manna en fyrir aldarfjórðungi voru þar þrjár milljónir. Þar eru hærri laun og betri lífsskilyrði og þar langar alla til að búa.  


Minjar stríðs

Í tveggja klst akstri frá Saigon eru Cu Chi göngin sem Víet Cong liðar grófu hundruð kílómetra af á tímabilinu 1945-1970 og voru nokkurs konar samgöngunet neðanjarðar. Þau eru gott dæmi um ótrúlega útsjónarsemi Víetnama í baráttu við ofureflið en talið er að milli tvær og þrjár milljónir Víetnama og 58.000 bandarískir hermenn hafi fallið í stríðinu.           

Einnig var farið í stríðsminjasafnið í Saigon sem hét víst stríðsglæpasafnið þangað til botnfrosin samskipti Víetnama og Bandaríkjamanna þiðnuðu árið 1995 og Clinton og John McCain komu í heimsókn til Víetnam árið 2000. Þótt flestir ferðalanga hefðu lesið sig vel til um þetta stríð þá var fróðlegt og óhuggulegt að skoða safnið sem sagði sögu eiturefnahernaðar og afleiðingar þess, jarðsprengna sem enn er nóg eftir af í Víetnam og munu limlesta og drepa landsmenn um ókomna tíð ef ekkert er að gert.  


Ekta Pleður og leður

Loks var boðið upp á frjálsan tíma fyrir þreytta ferðalanga en sumir völdu að fara í dagsferð að ósárbökkum Mekong fljótsins og komu alsælir til baka. Aðrir fóru á markaðinn og duttu í verslunargírinn, keyptu „ekta pleður“ og „ekta feik“. Eða horfðu á mannlífið og mótorhjólin sem voru milli fóta á næstum því hverjum einasta Víetnama í borginni.   


Í lokin

Víetnam vakti aðdáun með okkur ferðalöngum. Sjálfsbjargarviðleitni og dugnaður einkennir þessa þjóð sem hefur þurft að berjast hart og lengi fyrir tilvist sinni með kínverska nágrannann sem kúgaði hana í meira en þúsund ár. Svo nýlenduveldi Frakka sem arðrændi þá áður en þeir urðu peð í valdatafli kommúnista og kapítalista á tímum kalda stríðsins.

Árið 1986 var efnahagskerfi landsins endurskipulagt, landsmenn gátu keypt land og eignaréttur var viðurkenndur. Árið 1995 hófust samskipti á ný við Bandaríkin sem hætti að beita landið efnahagsþvingunum. Síðan þá hefur verið uppgangur í Víetnam, sem fengu fyrst sjónvarp árið 1997 og nú eru flestir með farsíma og tölvur. Nútíminn fór á tvöföldum hraða til þeirra. Víetnamar flytja orðið út kaffi og hrísgrjón svo dæmi sé tekið en ennþá vantar upp á gæðin. Eins eru slys tíð í landi mótorhjólsins og þeir rétt að byrja á þeirri vegferð að auka öryggi en oft mátti sjá heilu fjölskyldurnar hjálmlausar á mótorhjóli.         

Vissulega er kommúnistastjórn í Víetnam en tilfinningin sem við fórum með þaðan er sú að það er vandfundið eins peningadrifið samfélag. Ef þú átt peninga getur þú keypt réttlæti jafnt sem annað í spilltu stjórnkerfi þar sem allir rétta „Dong“ að öllum opinberum starfsmönnum, kennurum jafnt sem heilbrigðisstarfsmönnum og lögreglu. Ef þú átt ekki "Dong" er öllum sama um þig. Það er skrítinn kommúnismi.

 

 

 

Kambódía

24.-28. nóvember

Siem Reap (Angkor Wat)

Aðeins fjórir af 49 ferðalöngum fóru heim að lokinni Víetnamferð en hinir flugu til Kambódíu og byrjaði ferðin í Siem Reap. Angkor hofin eru spölkorn frá flugvellinum og þar eru einar mögnuðustu fornminjar í Suðaustur Asíu. Þær eru leifar af höfuðborg hindú-búdda veldis Khmera frá 9.-15. öld sem náði yfir Kambódíu, hluta af því sem núna er Laos, Taíland og Víetnam. Menningu gamla Kmer-ríkisins má líkja við hámenningu Egypta, og nær yfir 400 km2 svæði.

Á mesta blómaskeiði sínu er talið að Angkor hafi verið stærsta borg heims með milljón íbúa á sama tíma og London, stærsta borgin í Evrópu, var með 50.000 íbúa. Angkor Wat, Angkor Thom og Bayon hofin voru skoðið, hvert öðru merkilegra. Angkor Wat er þeirra stærst og glæsilegast og maður skilur ekki hvernig öll þessi hof gátu týnst og gleymst í skóginum, eins og þau gerðu eftir að veldið leið undir lok á 15. öld.

Angkor Thom snart mann djúpt, það var ótrúlegt að sjá tré vaxa í kringum veggina, töfrum líkast. Hofin eru á heimsminjaskrá UNESCO og mörg lönd eru að aðstoða landsmenn við að endurbyggja þau og varðveita. Hópurinn fór einnig í bátsferð á Tonle Sap vatni sem er stærsta stöðuvatn suðaustur Asíu og jafnframt auðugasta ferskvatn í heimi af fiski. Þar heimsóttum við fljótandi þorp, gripum andann á lofti yfir börnum að leik og foreldrum að sinna sínum daglegu störfum. 

 

 

Höfuðborgin

Phnom Penh var áður talin fegursta borgin á því svæði sem kallaðist Indókína en nýlendutími Frakka hafði mikil áhrif á byggingarstílinn. Lítið af gömlu nýlendubyggingunum hefur varðveist vegna hörmungatíma í sögu þjóðarinnar en borgin er nú að rísa upp sem nútímaborg. Afleiðing ógnarstjórnar Pol Pots og Rauðu Khmeranna, sem réðu landinu 1975-1978 var skoðuð með heimsókn í S-21. Þar var miðstöð pyntinga og a.m.k. 17.000 manns voru fluttir þaðan í útrýmingarbúðirnar sem eru þekktar undir nafninu „The Killing Fields“ og eru í um 15 kílómetra frá miðborginni. 


     

Þjóðarmorð rauðu khmeranna

Á meðan nágrannarnir í Víetnam bárust á banaspjótum reyndu stjórnvöld í Kambódíu með Sihanouk prins við stjórnvölinn að halda hlutleysi. Kommúnistar í Norður-Víetnam notuðu kambódískt yfirráðasvæði til að til að ráðast gegn Suður-Víetnam og amerískar hersveitir svöruðu fyrir sig með árásum sem drápu þá ekki aðeins Víetnama heldur einnig almenning í Kambódíu. Talið er að á tímum Víetnamstríðsins hafi allt að 500.000 manns dáið í Kambódíu vegna þessa. Margir vildu berjast gegn innrásarher Víetnama og spilltir herforingjar sáu sæng sína útbreidda til að græða fé. Þegar Sihanouk prins fór úr landi vorið 1970 notuðu nokkrir hægrisinnaðir leiðtogar tækifærið og veltu honum úr sessi. Þetta var gert án blóðsúthellinga en setti af stað 30 ára blóðugt stríð. Sihanouk var sannfærður af kínverskum stjórnvöldum um að leggja traust sitt á kambódíska kommúnista sem kölluðu sig rauðu khmerana og þar með hófst borgarastyrjöld þar sem Kínverjar studdu khmera og Ameríkanar studdu spillt stjórnvöld.

Rauðu khmerarnir byrjuðu á því að taka svæði á landsbyggðinni og á  örskömmum tíma flúðu þúsundir heimili sín til Phnom Penh þar sem íbúum fjölgaði úr 600.000 í tvær milljónir. Þann 17. apríl 1975 náðu rauðu Khmerarnir Phnom Penh. Allir voru reknir úr höfuðborginni með því að segja að bandaríkjamenn ætluðu að ráðast á hana og eyða öllu kviku. Þegar borgarbúar, sem voru eitur í beinum rauðu kmeranna, fóru á landsbyggðina var þeim komið fyrir í vinnubúðum, börn voru tekin af foreldrum, eldra fólk var drepið og allir sem höfðu einhverja menntun.

Talið er að þriðjungur þjóðar hafi verið tekið af lífi og dáið úr hungri og sjúkdómum milli 1975-1978/9 og hefur það verið skilgreint þjóðarmorð. Rauðu Khmerunum var stjórnað af Pol Pot, sem var dulnefni og fjölskylda hans vissi ekki einu sinni hver hann var. Allir leiðtogarnir tóku sér önnur nöfn og var ætlun þeirra að stofna sósíalískt ríki sem byggði á landbúnaði. Hugmyndafræði spilaði stóran þátt í þjóðarmorðinu í Kambódíu þar sem ráðist var á minnihlutahópa sem tilheyrðu kristni, budda  og múslimum. T.d. fækkaði fólki úr Cham ættbálknum úr 700.000 í 200.000. Ráðist var á minnihlutahópa af kínversku bergi sem og víetnömsku og það varð á endanum til þess að Víetnamar réðust inn í Kambódíu.

Kínverjar studdu rauðu khmerana fram til 1990 en Pol Pot framdi sjálfsmorð 15. apríl 1998, eða var eitrað fyrir honum,  þar sem hann dvaldi í felum í skógi við landamæri Thaílands. Fáum mánuðum áður neitaði hann í viðtali að vera ábyrgur fyrir þjóðarmorðinu og leit svo á að hann væri misskilinn og hefði fengið ósanngjarna meðferð. Árið 2001 settu stjórnvöld í Kambódíu ný lög og reyndu þar með að koma í veg fyrir að fyrrum rauðir khmerar sætu við stjórnvölinn. Réttarhöld yfir nokkrum þeirra hófust árið 2009 og þann 7. ágúst 2014 voru tveir þeirra, Nuon Chea og Khieu Samphan dæmdir í ævilangt fangelsi fyrir glæpi gegn mannkyni. Síðan 2013 hefur verið bannað skv. lögum í Kambódíu að afneita þjóðarmorðinu og öðrum glæpum sem rauðir khmerar frömdu.  

 

Leiðsögumennirnir

Við vorum með tvo leiðsögumenn í höfuðborginni sem sögðu okkur sínar örlagasögur um leið og þeir fóru með okkur í S-21 og "Killing fields". Annar þeirra var örugglega ekki hærri en 1,50 metra á hæð. Hann var fæddur 1964 og var því 11 ára þegar hann var rekinn úr borginni ásamt móður sinni og systkinum. Pabbi hans var þá dáinn en hafði verið hermaður og það mátti aldrei minnast á það. Hann svalt í búðum ásamt öðrum börnum og í lok stríðsins var hann orðinn svo illa haldinn að ef hermenn Víetnama hefðu ekki gefið honum lyf þá hefði hann dáið. Móðir hans leitaði hans og fann og eftir stríð laug hann um aldur, sagðist vera 11 ára og fékk að fara í skóla í staðinn fyrir að vera gerður að hermanni 15 ára gamall. Í byrjun voru skólasystkini hans hvött til að segja frá því sem þau upplifðu á tímum kmeranna en það leið yfir þau við að segja frá hörmungunum, pyntingunum sem þau og fjölskyldur þeirra þurftu að líða. Heil þjóð líður enn fyrir glæpi kmeranna, allir misstu ástvini og liðu hörmungar sem eru ofar mannlegum skilningi.  

 

Hátíðarhöld í borg

Það var ekki einungis velt sér upp úr hörmungum í höfuðborginni. Við fórum um í „rickshaw“ vögnum, skoðuðum konungshöllina, sem var byggð um 1860 á bökkum Mekong árinnar og helstu dýrgripi Kambódíu. Í höfuðborginni voru lok þriggja daga buddahátíðar og mannfjöldinn á götum eins og á menningarnótt í Reykjavík. Það var sannkölluð upplifun að ganga um á meðal ungra Kambódíumanna sem hlustuðu á tónleika og nutu lífsins.

Það sem stakk okkur ferðalangana voru öfgarnar á götum úti, fátæktin og ríkidæmið. Þá var spillingin augljós en eðalvagnar keyrðu númerslausir um götur án þess að lögregla skipti sér af því. Fararstjóri upplýsti okkur að enginn væri sviptur ökuréttindum vegna ölvunaraksturs svo framalega sem viðkomandi mútaði lögreglu með 100 bandaríkjadollar greiðslu. Sagt er að forsætisráðherra Kambódíu fari reglulega til Víetnam og gefi ráðamönnum þar skýrslu og leiðsögumenn okkar óttuðust mjög áhrif stóra bróður sem þeir sögðu allt vilja kaupa og hrifsa til sín. Svipað viðhorf var reyndar uppi í Víetnam gagnvart Kína. 

Í lokin 

Eftir hálfs mánaðar ferð til þessara merku þjóða í Asíu var haldið heim í jólaundirbúning, frost og klaka. Mikil dagskrá var í ferðinni, flogið tíu sinnum alls og ferðalangar komu lúnir og búnir heim. Síðan þá hefur undirmeðvitundin verið að melta ferðina; sögunar og þjóðirnar tvær sem voru heimsóttar. Dásamlega fallegt landslag, örlög þjóða, dugnaður og seigla þeirra stendur upp úr. Og svo auðvitað góður matur, ekki má gleyma því. 

Skrifað í desember 2015.

Eyrún Ingadóttir

  

   

Argentína 2013

01.11.2013

Lögfræðingafélags Íslands 1.-12. nóvember 2013

Lögfræðingafélagið hefur um árabil staðið fyrir ferðum á framandi slóðir fyrir félagsmenn sína. Við, sem höfum tekið þátt í þessum ferðum, erum mjög þakklát fyrir þennan þátt í starfsemi félagsins. Ferðirnar hafa gert okkur kleift að kynnast fólki og stöðum sem við hefðum ella aldrei sótt heim. Þær hafa víkkað okkar heim og áhugasvið og ekki síst veitt ógleymanlegar skemmtistundir með kollegum og mökum þeirra. Þátttakendur starfa á ýmsum sviðum lögfræðinnar og eru samtaka um að hafa gagn og gaman af samveru og ferðalögum.

Lengi hafði staðið til að sækja Argentínu heim en vegna efnahagshrunsins 2008 var ferðinni frestað. Það var eftirvæntingarfullur hópur sem sté inn í morgunvélina til London 1. nóvember sl. Fyrir flesta yrðu þetta fyrstu kynni af heimsálfunni Suður Ameríku. Skemmst er frá því að segja að ferðin stóð fullkomlega undir væntingum eins og þær hafa reyndar allar gert, hver á sinn hátt.

Argentína er heillandi land og margbreytilegt. Það er næstum þrír milljón km2 að stærð og íbúar eru um 42 milljónir. Við náðum auðvitað aðeins að sjá brot af landinu. Vorum aðallega í Buenos Aires en skoðuðum líka Iguazu fossana í norðausturhluta landsins við landamæri Brasilíu og Paraguay.

Evrópsk-amerískur suðupottur

Einn þriðji hluti íbúa Argentínu býr í Buenos Aires og borgin iðar af orku og lífi. Yfirbragðið á fólki og umhverfi er suður-evrópskt. Það var ekki mikið um frumbyggja á því svæði sem varð Argentína og því er haldið fram að Argentínumenn séu evrópskari en íbúar Evrópu í dag. Blómatími Argentínu var frá 1860 til 1920 og þá voru reistar byggingar og breiðstræti í Buenos Aires sem tóku mið af París. Í dag eru þetta minnismerki um góðæri sem gekk þjóðinni úr greipum og hún hefur ekki geta endurskapað þrátt fyrir gjöfult land. Argentínumenn fagna í ár 30 ára lýðræði eftir kvalafullt tímabil herræðis og niðurlægingu Falklandseyjastríðsins. Spilling og misskipting auðs stendur í vegi fyrir framförum. Þó er enn að nokkru leyti byggt á arfleifð Evu Peron og eiginmanns hennar sem stóðu fyrir félagslegum umbótum. Eva Peron er alls staðar nálæg í umhverfi og tali fólks.

Efnahagsástand Argentínu minnir á íslenskan veruleika en okkar úrlausnarefni verða smá í samanburðinum. Það eru ströng gjaldeyrishöft í Argentínu og dollarar eftirsóttir. Ferðamenn, freistast til að skipta við ólöglega gjaldeyrisbraskara í skuggasundum til að fá helmingi fleiri pesóa fyrir dollarana sína og taka áhættuna af að fá í hendur falsaða seðla.

Hæstiréttur, dómarafélag og þjóðþing Argentínu

Íslenski hópurinn heimsótti argentínska þingið. Verið var að vinna að endurbótum á þinghúsinu sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar en fjárveitingar til viðhalds höfðu greinilegar ekki verið miklar í gegnum árin.

Stjórnskipulag Argentínu líkist bandarísku stjórnskipulagi. Þingið starfar í tveimur deildum, einni allsherjardeild og einni héraðadeild. Þingkosningar voru rétt afstaðnar og nýtt þing ekki enn komið saman. Dómarafélag Argentínu tók höfðinglega á móti okkur í virðulegum húsakynnum sínum þar sem áhugaverðar umræður sköpuðust. Við heimsóttum einnig Hæstarétt Argentínu sem er til húsa í glæsilegu dómshúsi sem reist var í byrjun 20. aldar. Varaforseti dómsins, Elena Inés Highton de Nolasco, tók á móti okkur. Þrátt fyrir að árin hefðu beygt þessa konu þannig að hún var nánast í keng þá geislaði hún af persónutöfrum, greind og húmor. Henni fannst með endemum að svona stór hópur frá slíkri örþjóð væri að þvælast alla leið til Argentínu.

Undir, yfir og allt í kring um stórkostlega regnskógarfossa

Eftir nokkra daga í miðborg Buenos Aries, með yfirþyrmandi mannhafi og bílaumferð, var ekki laust við að íslenskum eyjarskeggum þætti góð tilbreyting að lenda í friðsælli sveit við Iguazu fossanna þar sem við bjuggum á ævintýralegu hóteli með hengibrúm á milli bygginga og sundlaugum inni í regnskóginum. Regnskógarnir skila þarna af sér gífurlegu vatni sem mynda þvílíka fossa að Dettifoss og Gullfoss til samans eru hjóm í samanburðinum. Þessa fossa skoðuðum við frá öllum sjónarhornum, gangandi, siglandi og fljúgandi í þyrlu. Sú upplifun að horfa á hvíta iðuna krýnda regnboga í grænni umgjörð regnskógarins, sjá ótal fugla, stóra og smáa, leika sér að ofurkröftum vatnsins, mun aldrei gleymast.

Bocca Junior og forseti akandi um á bjöllu

Síðasta hluta ferðarinnar bjuggum við í gamla hafnarhverfi Buenos Aries þar sem gömlum hafnarhúsum hefur verið breytt í veitingastaði og glæsihótel hafa verið reist. Þar voru kvöldin nýtt vel til að snæða lungamjúkt argentínskt nautakjöt með dýrðlegu argentínsku víni og reyna fyrir sér í tangó en dagarnir til skoðunarferða, m.a. bátsferð um „delta" svæði Buenos Aries og hjólaferð um borgina. Nokkrir komust m.a.s. á fótboltaleik hjá Bocca Junior og gátu fengið eiginhandaráritun hjá fótboltastjörnunum sem gistu á hótelinu okkar fyrir leikinn. Stór hópur fór í dagsferð til Uruguay til að skoða portugölsku borgina Colonia. Það var áhugavert að fá innsýn í aðstæður í Uruguay sem eru allt aðrar og betri en í Argentínu. Uruguay er lítið land með aðeins 3,5 millj. íbúa sem eru margir afkomendur Svisslendinga og Þjóðverja. Þeir virðast hafa byggt upp blómlegt samfélag, m.a. á svissneskri banka- og ostahefð. Forsetinn ekur um á Volkswagen bjöllu og gefur hluta af launum sínum til góðgerðarmála.

Ekkert mál fyrir Jón Pál

Það var mjög ánægður hópur sem yfirgaf vorið í Buenos Aires til að takast á við myrkrið, veturinn og daglegt streð á Íslandi. Í ferðinni náðum við bara að sjá brot af Argentínu og örbrot af Uruguay, Brasilíu og Paraguay en það hefur opnast glufa fyrir okkur sem við getum stækkað með því að fylgjast með fréttum frá þessum löndum, kvikmyndum og bókum og vonandi sækja þau aftur heim með ákveðnari hugmyndir um hvað við viljum sjá.

Við tókum með okkur heim í farteskinu margar góðar minningar, ekki síst minningar um allt það frábæra fólk sem hafði orðið á vegi okkar og aðstoðað okkur. Til dæmis um þjóninn sem við hittum síðasta daginn á veitingahúsi á móti hótelinu okkar. Hann kveikti þegar í stað á íslenskunni og af hverju? Jú heimildarmynd um kraftajötuninn  Jón Pál Sigmarsson hafði náð að heilla þennan stillilega og fínlega argentínska þjón. Ekkert mál fyrir Jón Pál hljómaði þegar við kvöddum hann. Já er ekki heimurinn smá saman að þróast í eitt og sama heimilið?

Anna Guðrún Björnsdóttir lögfræðingur

Nokkrar myndir úr Argentínuför

Þinghús 1

Þinghús 2

Þinghús 3

Þinghús 4 

Tangó

Bocca Junior

San Telmo

Iguazu

Regnskógur

Námsferð til Færeyja 2009

04.09.2009

Frá því Lögfræðingafélag Íslands hóf að gangast fyrir námsferðum árið 1997 hefur verið farið um langan veg og jafnan á framandi staði, síðast til Indlands árið 2007. Snemma á síðastliðnu ári var af hálfu félagsins hafinn undirbúningur ferðar til Argentínu. Vegna efnahagshamfaranna í október það ár varð stjórn félagsins morgunljóst að ekkert yrði úr þessum ferðaáformum með öllum þeim kostnaði sem því myndi fylgja fyrir þátttakendur. Ekki þótti mega láta við það sitja að leggja niður ferð í ár, en jafnframt lá fyrir að hún yrði að vera minni í sniðum en fyrri ferðir. Að athuguðu máli þótti við hæfi að heimsækja frændur vora og vini í Færeyjum. Skipulögð var ferð með ferðaþjónustunni Færeyjaferðum sem Davíð Samúelsson rekur en hann var jafnframt leiðsögumaður og fórst það afar vel úr hendi.

Hafinn var undirbúningur fyrir ferðina í árslok 2008 og stefnt á hana um miðjan september. Hátt í 40 mann skráðu sig í ferðina, en því miður þurfti á síðari stigum að breyta dagsetningum vegna flugs og við það fækkaði nokkuð í hópnum. Síðdegis föstudaginn 4. september hélt 26 manna góður hópur frá Reykjavíkurflugvelli með færeyska flugfélaginu Atlantic Airways. Lent var í Vogum (Vágar) 80 mínútum síðar þaðan sem haldið var í rútu til Þórshafnar.

Kerlingin og risinn voru myndaðir í bak og fyrir Kerlingin og risinn

Landsbyggðarferð á laugardegi

Þórshöfn er á Straumey (Streymoy) sem er stærsta eyjan í Færeyjum. Daginn eftir var farið í landsbyggðaferð til Austureyjar. Ekið var norður á Eiði og upp með rótum Slattartinds, sem er hæsta fjall Færeyja, 880 metra hátt. Áð var á þessari leið og steindrangarnir „kerlingin og risinn" barðir augum. Giskuðu ferðalangar á hvor dranginn væri hvað og höfðu flestir rangt fyrir sér. Þaðan var farið yfir í Gjá (Gjóvg) þar sem snæddur var færeyskur matur, brauð með ýmsum áleggstegundum, sem bragðaðist vel. Gjá er gamalt sjávarþorp þar sem var blómleg útgerð fyrr á öldum, en nafn staðarins er dregið hinu forna, náttúrugerða hafnarstæði. Byggð hefur nú lagst af þar mestu leyti. Frá Gjá var haldið yfir í Fuglafjörð og komið við í Piddasahandil sem er gömul verslun og handverkshús þar sem kenndi margra grasa. Þá var ljósmyndasýning í hliðarsal hvar sjá mátti fagrar myndir af Fróni. Fuglafjörður er fallegur bær, stærsti bærinn eynni, en þar búa um 1550 manns, en alls búa um 11.000 manns á Austurey. Frá Fuglafirði var haldið til byggða á austanverðri eynni og þær skoðaðar, m.a. heimaslóðir Þrándar í Götu og Eyvarar Pálsdóttur, söngkonu og Íslandsvinar. Þrándur í Götu er færeysk þjóðhetja sem barðist gegn kristnitöku og skattskyldu Noregskonungs á árunum 990-1002. Þekkt er hérlendis orðtakið „að vera einhverjum Þrándur í Götu", þ.e. hindrun eða erfiður viðureignar. Er eftir var leitað meðal Færeyinga könnuðust þeir ekki við þetta orðtak og merkingu þess. Ferðin tók um 7 klukkustundir og var hin ánægjulegasta. Náttúran minnir um margt á hina íslensku Vestfirði, djúpir firðir, vogskornar strendur og lítið undirlendi. Eyjan er iðagræn frá fjöru til fjalls og fé á beit út um allar trissur. Er sagt að sauðfé sé jafn ginnheilagt í Færeyjum og kýr eru á Indlandi, enda er heiti landsins dregið af þessari dýrmætu skepnu (Fjáreyjar). Mér fannst snyrtimennska áberandi hvert sem litið var. Færeyingar hafa varðveitt hús sín vel og hugsað  um þau af kostgæfni. Við nánast hvert hús er hjallur þar sem kjöt er hengt upp og þurrkað (skerpukjöt) og þykir herramannsmatur. Undirritaður fékk að bragða á sýnishorni af þessum þjóðarrétti eyjarbúa sem og grindhval. Verður að segjast eins og er að oft hefur meira góðgæti kitlað bragðlauka smakkarans, grindhvalurinn þótti honum þó ágætur.  

Sveinur Tómasson á skansinum  Hópurinn hlustar á Svein í andakt  

Sveinur Tómasson leiðsögumaður gekk með hópinn um Þórhöfn endilanga

Sunnudagsganga um Þórshöfn

Á sunnudagsmorgninum var siglt með skútu kringum  Nólseyjar (Nólsoy eða Nálarey á íslensku). Eftir hádegi var gönguferð um Þórshöfn með leiðsögn. Þórshöfn (Tórshavn, í daglegu tali stytt sem Havn) er höfuðstaður Færeyja þar sem búa um 18.000 manns, en alls búa um 48.000 manns í Færeyjum. Bærinn, sem er miðsvæðis í eyjaklasanum, myndaðist í kringum Þingnesið (Tinganes) þar sem landnámsmenn stofnuðu þing Færeyja um árið 900. Leiðsögumaður okkar var Sveinur Tómasson en hann er þjóðfræðingur að mennt og hefur ritað nokkrar bækur. Fyrst uppfræddi Sveinur okkur örlítið um sögu Færeyja. Fyrsti landnámsmaðurinn hét Grímur Kamban og er hann talinn hafa numið land árið 825. Sveinur var þó harður á því að Papar, írskir munkar, hefðu náð fótfestu á eyjunum í kringum 500. Þá væri útbreiddur sá misskilningur að munkarnir hefðu verið einsetumenn. Næst var áð við styttu að Nólseyjar-Páli (1766-1809). Sá maður er þjóðhetja í Færeyjum, en hann barðist fyrir niðurfellingu á höftum og einokunarverslun Dana. Í ljós kom að Sveinur er mikill aðskilnaðarsinni og að fyrrnefnd þjóðhetja er í miklum hávegum höfð af hans hálfu. Frá styttunni af þessum merka manni var haldið í Tinganes, hins forna þingstaðar Færeyinga, og skoðaðar byggingar frá miðöldum sem  hýsa m.a. skrifstofur lögmanns Færeyja. Þá var haldið út með Strönd að Skansanum, svo farið í miðbæinn þar sem skoðuð voru gömul og merk hús og styttur. Þá var haldið að „Plantasjunni", skrúðgarði Þórshafnarbúa. Ferðin endaði í Norræna húsinu þar sem verið var að opna myndlistasýningu íslensks listamanns. Gönguferð þessa var afar fróðleg og skemmtileg, þökk sé okkar frábæra leiðsögumanni sem fór á kostum í lýsingu sinni á staðháttum, mönnum og málefnum.

Jóannes Patursson segir frá sögu Kirkjubæjar  Helgi I. Jónsson formaður LÍ heldur ræðu 

Jóannes Paturson sagði sögu Kirkjubæjar. Helgi I. Jónsson formaður LÍ hélt tölu.

Kirkjubær

Um kvöldið var farið út í Kirkjubæ (Kirkjuböur). Kikjubær er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá Þórshöfn og er sögufrægur staður frá miðöldum. Sagt er að þegar hæst lét hafi verið um 50 hús í Kirkjubæ en megninu af þeim var skolað burtu í ofsaroki á 16. öld. Tvær merkar kirkjubyggingar eru þarna, annars vegar Magnúsarmúrinn (Mururin) sem var reistur um 1300 og Ólafskirkja (Olavskirkjan) sem var byggð á 12. öld og er eina kirkjan frá miðöldum sem enn er í notkun í Færeyjum. Á móti hópnum tók Jóannes Patursson kóngsbóndi, en ætt hans hefur búið á jörðinni frá miðöldum og er Jóannes 17. ættliðurinn. Jóannes fór með hópinn inn í Ólafskirkju og fræddi um sögu hennar . Að því loknu var haldið inn í hina 900 ára gömlu Reykstofu (Roykstovan), en hún er hluti af húsaþyrpingu sem nefnist Kóngsgarðurinn (Kongsgardurin). Eftir að skyggnst hafði verið um gáttir var haldið til matstofu og snæddur þjóðlegur, gómsætur þriggja rétta kvöldverður.

Kirkjubær6
Friðgeir Björnsson tekur lagið ásamt Davíð Samúelssyni við undirleik Lárentsínusar Kristjánssonar.

Henrik Möller tekur við þakklætisvotti Helga I. Jónssonar að lokinni kynningu í dómstól Færeyja  Í dómstól Færeyja

Henrik Möller dómstjóri í Færeyjum tók við þakklætisvotti frá Helga I. Jónssyni.

Fagleg dagskrá í Færeyjum

Fagleg dagskrá fór fram á mánudag. Um morguninn var Dómstóll Færeyja (Sórenskrivarin) heimsóttur. Tók þar á móti okkur Henrik Möller dómstjóri sem uppfræddi okkur um starfsemi dómstólsins. Kom þar meðal annars fram að dómarar eru tveir, fjórir dómarafulltrúar og að aðrir starfsmenn eru átján. Alls eru starfsmenn því tuttugu og fjórir. Dómstóllinn býr við þröngan húsakost, en til stendur að stækka annan tveggja lítilla dómsala, þann stærri, og innrétta kjallara. Þingmálið er jöfnum höndum færeyska og danska. Þrír dómarar úr áfrýjunardómstólnum,  Östre-Landsret, koma þrisvar á ári í réttinn og þinga 14 daga í senn. Kviðdómur er í alvarlegum sakamálum og er torvelt að koma honum fyrir þröngum húsakynnunum.

Kaj Leo Johannesen lögmaður Færeyja bauð hópinn velkominn í Tinganes  Lögþing Færeyja

Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, bauð hópinn velkominn.
Hópurinn hlustaði á kynningu í Tinganesi en gekk að því búnu til Lögþings Færeyja.

Eftir hádegið var haldið í Þinganes til lögmannsins (Lagmanden), en það embætti á rætur að rekja allar götur til 13. aldar. Þar tók lögmaður Færeyja, Kaj Leo Johannesen, á móti hópnum og bauð hann velkominn. Við svo búið var haldið í fallegan fundarsal þar sem Sjúrður Rasmussen, Barbara á Tjaldraflötti, Nella Festirstein og Sörin Pram Sörensen fluttu fróðleg erindi um stjórnskipun og stjórnsýslu í Færeyjum. Frá því Færeyingar fengu heimstjórnarlög árið 1948 er meðal hlutverka lögmannsins að vera æðsti maður færeysku heimastjórnarinnar (forsætisráðherra), tilnefna aðra ráðherra, leysa þá frá störfum, ef þurfa þykir og staðfesta lög. Með heimastjórnarlögunum var þinginu (lagtinget) og landsstjórninni (landsstýrið) gert kleift að ráða ýmsum innri málum. Færeyingar eru sem hluti Danaveldis beinir og óbeinir aðilar að flestum alþjóðasamþykktum og stofnunum, en eru ekki aðilar að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisbarátta Færeyinga hefur verið eitt helsta deilumálið í Færeyjum frá fyrri hluta 20. aldar. Er að sjá að þjóðin skiptist jafnt í þá sem vilja sjálfstæði og þá sem kjósa áfram að tilheyra Danmörku.

Frá lögmannsembættinu var haldið í löggjafarþingið þar sem Súsanna Danielsson, framkvæmdastjóri þess, tók á móti gestum, ásamt Kristina Samuelsen ráðgjafa (konsulent), en hlutverk hinnar síðarnefndu er að fara yfir lagafrumvörp og gæta þess að þau sé stjórnskipunar- og málfarslega hæf til framlagningar. Kristina er formaður Lögfræðingafélags Færeyja sem stofnað var fyrir einu og hálfu ári. Þingið starfar í einni deild og eru þingmenn 33, þar af þrjár konur. Ráðherrar sitja fremst í þingsalnum og snúa fram en ekki andsælis þingmönnum eins og háttar til á Alþingi. Næst ráðherrum sitja þingmenn þess flokks sem er fjölmennastur og svo koll af kolli. Þingsalurinn er vel búinn tækjum og tólum. Þinghúsið er gamalt, en var gert upp árið 2002. Þá hefur nýtískulegri viðbyggingu verið skeytt við það, en þar er meðal annars aðsetur þingnefnda og þingflokka. Þingstörf fara um flest fram á svipaðan hátt og hérlendis. Þess skal getið að Færeyjar voru gerðar að einmenningskjördæmi árið 2007.

Þeir embættismenn, sem tóku á móti hópnum, lögðu sig fram um að uppfræða hann sem best um þá málaflokka sem þeir sinna og ríkti mikil ánægja meðal manna með móttökurnar.

Í lokin

Fyrir utan náttúrufegurð fannst mér áberandi hið hlýja viðmót eyjarbúa í garð Íslendinga, stóísk ró þeirra, nægjusemi, góð umgengni um náttúruna og virðing fyrir varðveislu gamalla húsa. Þá kom fram hjá fyrrnefndum leiðsögumanni okkar í gönguferðinni um Þórshöfn að innbrot tíðkuðust varla í bænum, hvað þá annars staðar, og til að mynda væru meiri líkur á að maður týndi bíllyklinum tæki maður hann úr kveikjulásnum og setti í vasann í stað þess að skilja hann eftir í ólæstri bifreiðinni. Þá munu Færeyingar enn skilja hús sín eftir ólæst.   

Haldið var heim að morgni þriðjudags í grenjandi rigningu og roki, en lent í Reykjavík í blíðskaparveðri. Ekki var annað að heyra á ferðalöngum en að almenn ánægja ríkti meðal þeirra með vel heppnaða ferð.

Helgi I. Jónsson, formaður Lögfræðingafélags Íslands

Námsferð til Suður-Afríku 2005

06.11.2005

Dagana 6.-16. nóvember 2005 fór hópur á vegum Lögfræðingafélags Íslands í námsferð til Suður Afríku. Eftir langan undirbúningstíma var haldið af stað en faglegur fararstjóri ferðarinnar var Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Sú sem þetta ritar fór einnig með í ferðina á vegum félagsins en þátttakendur voru 41, lögfræðingar og fylgifiskar þeirra.

Nokkrir ferðalangar í SOWETO. Til hægri er hluti af minnismerki vegna atburðanna 1976 þegar herlögregla landsins skaut á skólabörn sem mótmæltu því að læra á afrikans. 

Eftir næturflug frá London var lent að morgni dags í Jóhannesarborg og farið til Soweto. Sumir höfðu á orði að það væri nokkurs konar sjokk-meðferð að fara beint úr flugvélinni að skoða bárujárnsklæddan veruleika margra svartra íbúa Suður Afríku. Það kom á óvart hve stór Soweto er en þar búa 3,5 milljónir manna. Hún hefur að geyma bæði fátækrahverfi og hverfi ríkra manna þótt fá séu. Auk þess að skoða fátækrahverfi, þar sem óhætt var að ganga um, var farið á einu götuna í heiminum þar sem tveir friðarverðlaunahafar Nóbels hafa búið; Desmond Tutu biskup og Nelson Mandela, fyrrum forseti landsins. Hópurinn sá barnaskólann fræga þar sem atburðirnir 1976 áttu sér stað, þegar skólabörn mótmæltu því að þurfa læra á afrikans, tungumáli hvítra, og lögreglan hóf skothríð á þau. Fjöldi barna lést í árásinni og hún markaði tímamót í réttindabaráttu svartra þar sem margir hvítir snérust á sveif með þeim eftir þetta og umheimurinn fordæmdi atburðina.

Lögfræðidagskrá ferðarinnar var skipulögð af hjónunum Davíð Þór Björgvinssyni og Svölu Ólafsdóttur en þau dvöldu í Suður Afríku í fjóra mánuði árið 1992. Næsta dag var háskólinn í Jóhannesarborg heimsóttur en þar fékk hópurinn góðar móttökur, próf. Derek van der Merwe sem er aðstoðarrektor skólans og próf. Jan Neels, og hlustaði á afar áhugaverða fyrirlestra um réttarkerfið í Suður Afríku og vernd mannréttinda.

Efir hádegi þann sama dag var stjórnlagadómstóll Suður-Afríku heimsóttur. Var sú heimsókn að margra mati hápunktur ferðarinnar. Stjórnlagadómstóllinn „The Constitutional Court of South Africa" var stofnaður 1994 en hin nýja stjórnarskrá landsins tók gildi árið 1996 og þykir ein sú framsæknasta í heiminum. Helsta hlutverk dómstólsins er að dæma um samræmi laga og ákvarðana stjórnvalda við stjórnarskrá landsins. Gestgjafi hópsins var Albie Sachs, sem er dómari við dómstólinn. Flutti hann erindi um hlutverk dómstólsins og dómaframkvæmd til þessa. Lagði hann sérstaka áherslu á þýðingu dómstólsins fyrir hina marglitu þjóð (Rainbow Nation) sem byggir Suður Afríku, en af orðum hans mátti merkja að dómstóllinn gegnir afar mikilvægu hlutverki við vernd mannréttinda og uppbyggingu réttarríkis í landinu eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok. Hann gekk einnig með okkur um húsakynni dómstólsins, en þar er hvert atriði úthugsað og hlaðið merkingu. Dómhúsið er byggt uppi á hæð á rústum fangelsis sem þar stóð áður og er það táknrænt fyrir hvernig þjóðin tekst á við sársauka fortíðar með sáttarhug. Útsýni á hæðinni til allra átta vísar til víðsýni sem dómurum er nauðsynleg. Dómsalurinn er einnig um margt sérstakur en við hönnun hans var talið mikilvægt að víkja frá þeim hefðum og venjum sem víða ríkja í þeim efnum. Þannig var það talið mikilvægt að sá sem gengi í salinn fengi ekki á tilfinninguna að hann væri í réttarsal enda fylgdi því þrúgandi tilfinning margra í Suður Afríku. Enn fremur má nefna að sæti þeirra níu dómarar sem sitja í dómi eru ekki á upphækkuðum palli, heldur í sömu hæð og málflytjendur, þar sem allir eru jafnir fyrir lögunum.

Albie Sachs tekur við gjöf frá Davíð Þór Björgvinssyni sem var faglegur fararstjóri í ferðinni.

Albie Sachs dómari, sem er hvítur, er þekktur maður í Suður Afríku og raunar víðar. Hann var frá unga aldri virkur þátttakandi í réttindabaráttu blökkumanna í Suður Afríku. Hann hefur greitt dýru verði fyrir hugsjónir sínar eins og margir svartir samlandar hans. M.a. var hann landflótta í tvo áratugi og bjó þá í Englandi og síðar í Mósambik. Árið 1988 reyndi öryggislögregla Suður Afríku að ráða hann af dögum er hún kom fyrir sprengju í bifreið hans. Eiginkona hans fórst í árásinni, en sjálfur missti hann hægri hendi og sjón á öðru auga. Sachs var mjög persónulegur og opinskrár í tali um hugmyndir sínar um hlutverk dómstólsins og þýðingu hans fyrir þróun réttarríkisins í Suður Afríku eftir endalok aðskilnaðarstefnunnar. Var öllum ljóst sem viðstaddir voru að þar fer maður með háleitar hugsjónir um framtíð Suður Afríku og afar sterka réttlætiskennd. Voru hinir íslensku gestir sammála um að heimsóknin í dómstólinn hafi verið sérstaklega fróðleg og áhrifamikil.

Næsta dag fór hópurinn í heimsókn til einnar af þremur höfuðborgum Suður Afríku, Pretoríu, er þar er aðsetur æðstu stjórnsýslunnar í landinu. Dómsmálaráðuneytið var heimsótt og þar var fjallað um þróun stjórnarskrárinnar og helstu verkefni sem eru á döfinni við uppbyggingu laga- og réttarkerfisins í Suður Afríku. Í Háskóla Pretoríu var kynning á laganáminu en háskólinn var stofnaður árið 1907. Árið 1992 var byrjað að kenna á ensku auk afrikans, sem var opinbert tungumál landsins undir stjórn hvítra. Í lagadeildinni eru 1600 nemendur en grunnnám tekur fjögur ár. Síðan býður skólinn upp á LL.M. nám og doktorsnám. Margir nemendur koma frá öðrum Afríkuríkjum, og nokkrir frá Evrópu, en skólinn býður m.a. upp á sérstakt nám í mannréttindum. Það var áhugavert að vita að svipaður fjöldi nemenda sækir kennslu sem fer fram á ensku og afrikans en 80% enskumælandi nemenda eru svartir og konur eru í miklum meirihluta nemenda! Sagt var að nýútskrifaðir svartir lögfræðingar sem væru með gott próf hefðu góða atvinnumöguleika að loknu námi því að stóru lögmannsstofurnar vildu gjarnan fá slíka til að „laga" sig að þjóðfélaginu. Hluti hópsins heimsótti lögmannsstofu í Pretoríu á meðan hinir hlustuðu á fyrirlestur um fjárfestingarmöguleika í Suður Afríku.Þessum annasama degi lauk með móttöku kollega lögfræðingafélagsins í „Northern Provinces" og var mjög skemmtilegt og áhugavert að hitta afríska lögmenn, lögfræðinga og dómara sem tóku afar vel á móti hópnum. Síðan var haldið til þjóðgarðsins í Pilanesberg þar sem dvalið var næstu tvo dagana og farið í safaríferðir. Að því búnu var haldið til Höfðaborgar, vínhéruðin heimsótt og gerð árangurslaus tilraun til að fara upp á hið fræga Borðfjall.

Sunnudaginn 13. nóvember var siglt var til hinnar alræmdu Robben Island þar sem Nelson Mandela var hafður í haldi í 27 ár ásamt fleiri pólitískum föngum á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Öllum pólitískum föngum var sleppt úr haldi árið 1991, en þessi svokallaða „hola helvítis" var gerð að safni nokkrum árum síðar og leiðsögumaður okkar þar var fyrrverandi fangi. Upplifunin að heimsækja þennan stað, sem hafði verið notaður sem fangelsi frá því á 17. öld, og þar af sem öryggisfangelsi fyrir pólitíska fanga frá 1959, var mjög sterk og ógleymanleg.

Mánudaginn 14. nóvember var þingið, sem hefur aðsetur í Höfðaborg, heimsótt en það ber með sér ákaflega sterk bresk áhrif. Á þinginu eru þrjár deildir; „national, province og local level" en þar sitja 400 þingmenn. Kosið er á fimm ára fresti og er landið allt eitt kjördæmi. Heimsókn í háskólann í Höfðaborg, þar sem Davíð Þór hélt erindi um Mannréttindadómstól Evrópu, var um margt svipuð og í háskólann í Pretoriu. Endað var á heimsókn til lögmannsstofu í miðborg Höfðaborgar en þar hlustuðu lögfræðingar á erindi og gátu spurt um ýmis atriði sem var áhugavert. Móttaka lögmannsstofunnar markaði svo endalok lögfræðidagskrár á vegum lögfræðingafélagsins í ferðinni enda var lagt af stað heim kvöldið eftir.

Í námsferðum sem þessari kynnast þátttakendur samfélagi, innviðum þess og sögu, á annan hátt en þeir fá tækifæri til sem venjulegir ferðamenn. Ekki er nauðsynlegt að vera lögfræðingur til að hafa gagn og gaman af slíkum ferðum. Það þarf einungis að hafa einlægan áhuga á kynnast ólíkum menningarheimi. Fyrir mér var þessi ferð merkileg og ógleymanleg og vona ég að svo hafi verið með ferðafélaga mína.

Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands

Hafa samband