Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands fyrir aðalfund 25. maí 2022
Fundargerð aðalfundar Lögfræðingafélags Íslands 18. maí 2021
Fundurinn var boðaður með tveggja vikna fyrirvara eins og lög gera ráð fyrir með auglýsingu á heimasíðu LÍ þriðjudaginn 4. maí og með tölvupósti á félagsmenn mánudaginn 3. maí.
Ólafur stakk upp á sjálfum sér sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem fundarritara.
samþykkt1. Skýrsla stjórnar.
Ólafur Þór Hauksson formaður flutti skýrslu stjórnar en vísaði að öðru leyti til hennar á heimasíðu félagsins.
2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram.
Kjartan Bjarni Björgvinsson framkvæmdastjóri TL fór yfir reikninga TL. Kjartan nefndi að hagnaður ársins sé til kominn vegna seinkunnar sem orðið hefur á útgáfu annars vegar, þar sem einungis þrjú hefti komu út á síðasta ári og þarsíðasta ári, og að frkvstj. Hafi notað covid til að fara í innheimtuaðgerðir sem heppnuðust vel og að rafrænum áskriftum hefði fjölgað talsvert.
Bryndís Helgadóttir gjaldkeri fer yfir reikninga LÍ. Tap var á rekstri félagsins síðasta starfsár sem kemur fyrst og fremst vegna aukins starfshlutfalls frkvstjr. Þrátt fyrir að félögum hefði fækkað þá innheimtust um 300 þúsund meira í félagsgjöld sem kemur til vegna harðari innheimtuaðgerða. Boðið var upp á umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins og TL.
Ólafur Egilsson spurði hvort ekki hefði komið til tals að skella saman tveimur heftum til að leiðrétta þann halla sem hefði orðið á útgáfu. Kjartan sagði svo ekki vera en ástæður þessa eru fyrst og fremst að í tilefni 100 ára afmælishátíðar Hæstaréttar sem hefðu tekið til sín magn ritrýndra greina.
Engir fleiri tóku til máls. Reikningar voru að því búnu samþykktir.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar
Stjórn gerir að tillögu sinni:
Formaður: Ólafur Þór Hauksson Varaformaður: Þóra Hallgrímsdóttir Stjórn: Katrín Smári Ólafsdóttir, Hjördís Halldórsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Bryndís Helgadóttir og Friðrik Ársælsson.
Varamenn í stjórn: Gísli Kr. Björnsson og Ragnar Guðmundsson
4. Kosning tveggja endurskoðenda og tveggja varamanna
Steinunn Guðbjartsdóttir og Benedikt Bogason. Varamenn: Ingiríður Lúðvíksdóttir og Lára V. Júlíusdóttir
5. Önnur mál
Ólafur þakkaði Eyrúnu fyrir frábær störf. Gísli Kr. Björnsson vildi beina því til stjórnar að athuga með að hefja aftur útgáfu Lögfræðingatals. Það var samþykkt.
Sex félagar mættu á fundinn. Fundargerð ritaði Eyrún Ingadóttir
2. Almenn stjórnarstörf starfsárið 2021-2022
Ólafur Þór Hauksson var kosinn formaður á aðalfundi 2021 og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin með sér störfum þannig að gjaldkeri er Bryndís Helgadóttir, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Kjartan Bjarni Björgvinsson, ritari er Hjördís Halldórsdóttir og meðstjórnendur eru Katrín Smári Ólafsdóttir og Friðrik Ársælsson. Á starfsárinu voru haldnir fimm stjórnarfundir.
3. Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Eyrún Ingadóttir framkvæmdastjóri er í 37% starfshlutfalli eða í 15 tíma á viku.Félagsmenn LÍ voru 11. maí 2022 alls 1391 (1363). Allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar í öldungadeild en félagar voru nú 238 (226). Félagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum voru 112 (95), í Áorku, áhugafélagi um orkurétt 124 (95), í Höfundaréttarfélaginu 89 (60), í Skattaréttarfélaginu 73 (62) og í áhugahópi um tæknirétt 82 (79). 20 (26) félagsmenn eru með aukaaðild þar sem þeir uppfylla ekki menntunarkröfur um fulla aðild, sem er meistaragráða í lögfræði.
Áskrifendur að prentuðu Tímariti lögfræðinga eru 349 (370) en þar af eru 206 (219) félagsmenn í LÍ. Boðið er upp á rafrænar áskriftarleiðir í gegnum heimasíðu TL og í gegnum Fonsjuris.
74 (91) eru áskrifendur að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun og/eða Fonsjuris en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun. Þá hafa 814 lögfræðingar aðgang að TL í gegum Fonsjuris.
4. Fundir og ferðir
Alls voru haldnir tveir fræðafundir, lagadagur og ein námsferð og tóku alls 830 manns þátt í viðburðunum.4.1 Fundir
Staða réttarvörslukerfisins í ljósi umræðu um kynferðisbrotamál – samtal um lausnir
Sameiginlegur fundur LÍ, LMFÍ, DÍ og ÁFÍ var haldinn í Iðnó 18. mars. Sigurður Tómas Magnússon var fundarstjóri og þátttakendur voru Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Halldóra Þorsteinsdóttir dómari við Héraðsdóm Reykjaness, Kristín Benediktsdóttir dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Inga Lillý Brynjólfsdóttir lögmaður og Almar Þór Möller lögmaður. Alls 140 manns sóttu fundinn.
Þarf að breyta reglum skaðabótaréttar?
LÍ hélt ásamt TL hádegisverðarfund 28. apríl í Nauthól. Þóra Hallgrímsdóttir var fundarstjóri en þeir Eiríkur Jónsson landsréttardómari og Guðmundur Sigurðsson prófessor við Háskólann í Reykjavík héldu erindi. 90 manns sóttu fundinn.
4. 2 Lagadagur
Lagadagur var haldinn föstudaginn 10. september en honum hafði verið frestað þrisvar sinnum vegna Covid. Ákveðið var að bjóða upp á fjarfund á öllum málstofum og svo var „street food“ stemning í hádeginu en kvölddagskrá var felld niður. Málstofurnar voru:
I.Réttarfar
a) Aðild umhverfisverndarsamtaka að dómsmálum
b) Endurupptaka dóma með hliðsjón af MSE
II.Peningaþvætti og alþjóðleg regluvarsla
a) Peningaþvættisreglur og lögmenn
b) Alþjóðleg regluvarsla
III.Örmálstofur
a) Persónuvernd og upplýsingalöggjöf
b) Tengdir og sjálfkeyrandi bílar – lagalegar áskoranir
c) Stangast nýsamþykktar endurupptökuheimildir í þjóðlendulögum á við lög og meginreglur réttarfars?
IV.Flutningur mála fyrir dómi
a) Hvernig er best að flytja mál fyrir dómi?
b) Málarekstur fyrir yfirdeild MDE
V. Félagaréttur og verðbréfamarkaðsréttur
a) Af vettvangi hlutafélagaréttar
b) Verðbréfamarkaðsréttur
VI.Stjórnsýsluréttur – Hið opinbera sem aðili að dómsmáli
Fulltrúar LÍ í Lagadagsnefnd árið 2021 voru Tómas Eiríksson og Þóra Hallgrímsdóttir en alls sóttu 540 viðburðinn.
4.3 Námsferðir
Til stóð að fara til Japans árið 2021 en vegna Covid hefur ferðinni verið frestað enn um sinn, a.m.k. til 2023.Efnt var til ferðar 6.-8. maí vestur á firði, á slóðir Sjöundármorða sem áttu sérstað árið 1802. Í undirbúningsnefnd voru Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar og Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis ásamt framkvæmdastjóra. Ferðin var réttarsöguferð þar sem þátttakendur veltu fyrir sér dómum heimsins í byrjun nítjándu aldar en stofnaður var sérstakur hópur á Facebook þar sem dómskjölum var dreift sem og öðrum upplýsingum. Þátttakendur voru 100 talsins.
Dagskráin hófst með því að farin var vettvangsferð að Sjöundá undir leiðsögn Gísla Más Gíslasonar prófessors emeritus og annars höfunda Árbókar FÍ 2020 um Rauðasandshrepp hinn forna. Að því loknu var hópum boðið í vestfirskan hádegisverð hjá Sigríði Snævarr og Kjartani Gunnarssyni að Saurbæ. Svo var farið í félagsheimilið á Patreksfirði þar sem velt var upp spurningum um sekt eða sakleysi, sókn og vörn, sem og hvaða dóm sakborningarnir tveir, Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir, hefðu fengið ef þau hefðu verið sakfelld í nútímanum.
Fundarstjóri var Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Þátttakendur í pallborði voru Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar, Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis og Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður hjá ríkislögmanni. Þá var Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur með hugleiðingar um skoðunargerðir líkamsleifa Jóns Þorgrímssonar og Guðrúnar Egilsdóttur og Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur með hugleiðingar um hvort falskar játningar hefðu verið í Sjöundármálinu. Um niðurstöðu fundarins verður fjallað á öðrum vettvangi en í lokin borðaði hópurinn saman kvöldverð í félagsheimili Patreksfjarðar.
5. Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupósta þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 1403 (1376) manns „líkar“ síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked-In.Útgáfa Tímarits lögfræðinga hökti örlítið árin 2019 og 2020 en nú hefur náðst að gefa út sex hefti á tiltölulega stuttum tíma. Ragnhildur Helgadóttir ritstjóri fékk gestaritstjóra til að taka að sér ritstjórn og voru þau Halldóra Þorsteinsdóttir, Sindri M. Stephensen og Valgerður Sólnes fengin til þess. Nú hefur Valgerður Sólnes tekið að sér ritstjórn árganga 2022 og 2023 en að því loknu hefur stjórn samþykkt að Sindri M. Stephensen verði ritstjóri árganga 2024 og 2025. Með þessu næst það markmið að ritstjórn TL hafi breiðari skírskotun út í lögfræðingasamfélagið. Þá hefur Valgerður yfirfarið verklagsreglur TL og endurnýjað í takt við nýja tíma.
Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á www.timarit.is en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins www.logfraedingafelag.is. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn www.Fonsjuris.is.
6. Erlend samskipti
6.1 Norræn systurfélög Framkvæmdastjóri fór á árlegan fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna til Kaupmannahafnar 31. okt-2. nóv. Rætt var um post-covid tímann, fjarvinnu starfsmanna í framtíðinni og starf félaganna almennt. Næsti fundur verður síðan haldinn á Íslandi dagana 28.-31. ágúst.7. Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
Undirfélög LÍ eru sex talsins: öldungadeild, FLF-félag lögfræðinga í fyrirtækjum, Áorka – áhugafélag um orkurétt, Höfundaréttarfélag Íslands, Skattaréttarfélag Íslands og áhugahópur um tæknirétt.
Þetta form hefur gefist vel þar sem lítil áhugafélög hafa fengið ýmsa þjónustu s.s. varðandi félagaskrá og undirbúning funda og atburða. Allir sem eru í undirfélögunum þurfa að vera félagar í LÍ og samstarf sem þetta hefur víkkað út starfsemi félagsins og virkjað „grasrótina“ svo um munar.7.1 Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Í öldungadeild eru nú 238 (211) félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa settir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2021-2022 var Bogi Nilsson formaður, Ásdís Rafnar og Guðríður Þorsteinsdóttir í stjórn. Í varastjórn voru Þorsteinn Skúlason, Sigríður Ólafsdóttir og Þorleifur Pálsson. Aðalfundur var haldinn 4. maí sl.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann en vegna Covid urðu fundir færri en til stóð. Haldnir voru fjórir fundir að aðalfundi meðtöldum og voru þátttakendur á bilinu tólf til fimmtán.
Ferð:
15. maí 2021 fóru 18 félagar öldungadeildar á slóðir Sigríðar í Brattholti með Eyrúnu Ingadóttur frkvstj.sem skrifaði bókina „Konan sem elskaði fossinn“.
Fundir:
20. október 2021: Geir H. Haarde fv. sendiherra ræddi um samband Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina.
8. desember 2021: Magnús Hannesson ræddi um upphaf og þróun regluverks alþjóða samfélagsins.
30. mars 2022: Heimsókn til Hæstaréttar hafði verið frestað vegna smita í samfélaginu.
4. maí 2022: Ólafur Egilsson fv. sendiherra rifjar upp sitthvað úr áhugaverðum störfum sínum í utanríkisþjónustunni til 40 ára.
Golfmót:
Fyrsta golfmót öldungadeildar og vina var haldið mánudaginn 16. maí 2022. Átta tóku þátt í mótinu sem fór fram í blíðskaparveðri hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar. Sigurvegari var Páll Arnór Pálsson.
7.2 FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Í FLF eru nú 112 félagar.
Stjórn FLF var skipuð á aðalfundi 2019 til tveggja ára: Friðrik Ársælsson (Arion banki), Lilja Jensen (Kvika banki), Halla Björgvinsdóttir (Marel), Sigurlaug H. Pétursdóttir (Reitir) og Haukur Hinriksson (KSÍ). Varamenn: Björg Ásta Þórðardóttir (SI) og Magnús Ásgeirsson (Nasdaq). Vegna Covid 19 lá starfsemi félagsins niðri.
7.3 ÁORKA– áhugafélag um orkurétt
Í ÁORKU eru 124 félagar.
Í stjórn 2018-2020 eru Hilmar Gunnlaugsson formaður (Sókn lögmannsstofa), Elín Smáradóttir (OR), Kristín Haraldsdóttir (HR), Hanna Björg Konráðsdóttir (Orkustofnun) og Baldur Dýrfjörð (Samorka). Vegna Covid var ákveðið að fresta aðalfundi 2020. Áorka hélt einn fjarfund 20. Október 2021: Nýr dómur Evrópusambandsins um sjálfstæði raforkueftirlits.
Hanna Björg Konráðsdóttir lögfræðingur Orkustofnunar fjallaði um dóminn og möguleg álitaefni út frá löggjöfinni á Íslandi. Að því loknu var Kristín Haraldsdóttir lögfræðingur með innlegg. Hilmar Gunnlaugsson lögmaður hjá lögmannsstofunni Sókn og formaður Áorku, mun stjórna fundi og umræðum.
7.4. Höfundaréttarfélag Íslands
Í Höfundaréttarfélaginu er 90 (61) félagar.
Í stjórn eru Hjördís Halldórsdóttir lögmaður, formaður, Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs, varaformaður, Erla S. Árnadóttir, Gunnar Guðmundsson, Rán Tryggvadottir og Tómas Þorvaldsson.
Þriðjudaginn 18. Janúar 2022 var haldinn fræðafundur um dóm um brot gegn höfundarétti
Framsögumenn voru Erla S. Árnadóttir lögmaður hjá LEX lögmannsstofu og Tómas Þorvaldsson lögmaður hjá VÍK lögmannsstofu. Fundarstjóri var Hjördís Halldórsdóttir lögmaður á LOGOS og formaður félagsins.
7.5 Skattaréttarfélag Íslands
Í Skattaréttarfélaginu er 71 (62) félagsmaður.
Formaður þess er Ragnar Guðmundsson lögmaður en aðrir í stjórn eru Margrét Ágústa Sigurðardóttir, Unnur Bachmann, Svanhildur Anna Magnúsdóttir og Ásgeir Skorri Thoroddsen. Varamenn eru Lísa Karen Yoder og Páll Jónsson.
Þann 1. júní nk. verður umræðufundur um fyrirsjáanleika í skattamálum og aðalfundur í kjölfarið. Framsögumenn verða Bjarnfreður Ólafsson lögaður hjá LOGOS og Vilmar Freyr Sævarsson lögfræðingur á skrifstofu skattamála í Fjármálaráðuneytinu.
7.6 Áhugahópur um tæknirétt
Alls eru 83 félagar skráðir í áhugahópinn. Erna Sigurðardóttir lögfræðingur er tengiliður hópsins við stjórn. Engin starfsemi var á yfirstandandi starfsári.
8. Annað
8.1 Mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðingaÁrið 2021 fengu 11 þátttakendur mentora á vegum félagsins en þrír þeirra hættu þátttöku á miðju tímabili. Þegar prógrammið gengur vel er það mikil aðstoð við nýlega útskrifaða lögfræðinga og umsagnir þeirra um prógrammið er á þennan veg: „Búin að fá góða stuðning“, „Alsæl“, „Þetta er algjör snilld“ „Hefur aðstoðað helling“.
Mentorprógrammið fór aftur af stað í febrúar í þriðja sinn og fengu níu þátttakendur mentora. Eftirtaldir aðilar tóku að sér að vera mentorar: Dögg Pálsdóttir, Hjördís Halldórsdóttir, Ólafur Lúther Einarsson, Áslaug Árnadóttir, Áslaug Björgvinsdóttir, Björn Þorvaldsson, Elín Árnadóttir, Erla Þuríður Pétursdóttir og Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir. Prógrammið hófst með fundi þar sem Þóra Björg Jónsdóttir lögfræðingur og markþjálfi var með stutt námskeið um markmiðasetningu. Ekki var stofnaður hópur á Facebook að þessu sinni enda gafst það ekki nógu vel.
9. Í lokin
Hið síðara kovid starfsár gerði að verkum að fundir voru ekki eins margir og stjórn hefði viljað . Ætla má að félagið muni halda áfram í þeirri þróun að vera með fjarfundi en vissulega hefur sá mikilvægi þáttur í starfi félagsins að efla kynni meðal lögfræðinga farið forgörðum síðasta starfsárið.Ólafur Þór Hauksson formaður