Frétt

19.05.2021 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands fyrir aðalfund 17. maí 2021

Fundargerð aðalfundar Lögfræðingafélags Íslands
27. maí 2020, að Álftamýri 9, Reykjavík
Ólafur Þór Hauksson setti fundinn og gerði tillögu um Benedikt Bogason sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Var það samþykkt.
1. Skýrsla stjórnar
Ólafur Hauksson formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem greint var frá starfsemi félagsins á starfsárinu. Hann stiklaði á stóru og benti á að hægt væri að nálgast skýrsluna á heimasíðu félagsins.
Fundarstjóri bauð fundarmönnum að tjá sig um skýrslu stjórnar en enginn sá ástæðu til þess.

2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram
Kjartan Bjarni Björgvinsson kynnti framlagðan ársreikning vegna starfsársins í fjarveru Páls Þórhallssonar gjaldkera og fór yfir helstu lykiltölur. Þá fór hann yfir ársreikning Tímarits lögfræðinga. Reikningar voru þá bornir undir atkvæði og voru samþykktir samhljóða.

3. Kosning stjórnar og varastjórnar
Ólafur Þór Hauksson var endurkosinn formaður og Þóra Hallgrímsdóttir sem varaformaður með lófaklappi.

Aðrir voru kosnir í stjórn: Katrín Smári Ólafsdóttir, Hjördís Halldórsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Friðrik Ársælsson og Bryndís Helgadóttir.
Varamenn í stjórn: Gísli Kr. Björnsson og Ragnar Guðmundsson.

Þess má geta að Hjördís er í stjórn Höfundaréttarfélagsins og Friðrik í stjórn FLF – félags lögfræðinga í fyrirtækjum. Þá er Ragnar Guðmundsson Skattaréttarfélasins en með því að fá þessa aðila í stjórn er verið að reyna tengja betur undirdeildir félagsins við stjórnina.

4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkjörin.
Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.

Kjöri lokið samkvæmt lögum félagsins

Að því búnu var fundi slitið.
Ellefu félagsmenn sátu fundinn.
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð.


2. Almenn stjórnarstörf starfsárið 2020-2021

Ólafur Þór Hauksson var kosinn formaður á aðalfundi 2021 og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin með sér störfum þannig að gjaldkeri er Bryndís Helgadóttir, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Kjartan Bjarni Björgvinsson, ritari er Hjördís Halldórsdóttir og meðstjórnendur eru Katrín Smári Ólafsdóttir og Friðrik Ársælsson. Á starfsárinu voru haldnir fimm stjórnarfundir.

3. Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Eyrún Ingadóttir framkvæmdastjóri er í 37% starfshlutfalli eða í 15 tíma á viku.

Félagsmenn LÍ voru 6. maí 2021 eru 1363 (1446). Ástæða fyrir fækkun er sú að gerð var allsherjar tiltekt í félagatali og þeir sem ekki höfðu greitt árgjöld teknir af skrá. Það innheimtust rúmlega 300 þúsund meira í félagsgjöld. Allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar í öldungadeild en félagar voru nú 226 (211). Félagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum voru 95 (104), í Áorku, áhugafélagi um orkurétt 95 (89), í Höfundaréttarfélaginu 60 (57) og í Skattaréttarfélaginu 62 (60). Áhugahópur um tæknirétt var stofnaður á árinu og eru 79 félagar í honum. 26 (26) félagsmenn eru með aukaaðild þar sem þeir uppfylla ekki menntunarkröfur um fulla aðild, sem er meistaragráða í lögfræði.

Áskrifendur að prentuðu Tímariti lögfræðinga eru 370 (393) en þar af eru 219 (235) félagsmenn í LÍ. Boðið er upp á rafrænar áskriftarleiðir í gegnum heimasíðu TL og í gegnum Fonsjuris.

91 (66) er áskrifandi að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun og/eða Fonsjuris en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun.

4. Fundir og ferðir
Covid hafði talsverð áhrif á starfsemi félagsins framan af og til að mynda var Lagadegi 2020 frestað þrisvar þar til hann var blásinn af. Ákveðið hefur verið að halda hann föstudaginn 10. september.

4.1 Fundir
Alls voru haldnir sjö fundir á starfsárinu og allir með fjarfundarsniði. Það form hentar mjög vel og sóttu fundina um 1040 manns.

Ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa, eltingaleikur laga við tækni og fjártæknibylgjan
Haldinn var fjarfundur í tilefni stofnunar áhugahóps um tæknirétt 26. nóvember 2020. Þrjú erindi voru flutt á fundinum um ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, eltingaleik laga við tækni (og menningu) og fjártæknibylgjan – lagalegar áskoranir rafmynta og bálkakeðja. Frummælendur voru Lára Herborg Ólafsdóttir lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, Hafliði K. Lárusson lögmaður hjá lögmannsstofunni BBA//Fjeldco og Kristján Ingi Mikaelsson framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands. Fundarstjóri var Erna Sigurðardóttir lögfræðingur hjá Rapyd Europe sem er jafnframt stofnandi áhugahópsins. Um 100 manns sóttu fjarfundinn.

Niðurstaða MDE í Landsréttarmálinu
Í kjölfar niðurstöðu Grand Chamber Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða stóðu LÍ, LMFÍ og DÍ fyrir fjarfundi 4. desember 2020. Ragnhildur Helgadóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík fór yfir helstu forsendur dómsins og í framhaldinu fóru fram umræður um áhrif hans með þátttöku Berglindar Svavarsdóttur formanns LMFÍ, Kjartans Bjarna Björgvinssonar formanns DÍ og Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns. Fundarstjórn var í höndum Ólafs Þórs Haukssonar formanns LÍ. Alls sóttu fundinn um 200 sóttu hann.

Málþing í tilefni af útgáfu bókarinnar Bótaréttar III
Í tilefni útgáfu bókarinnar Bótaréttar III, eftir Eirík Jónsson og Viðar Má Matthíasson stóð Bókaútgáfan Codex ásamt LMFÍ, LÍ og DÍ að málþingi 4. febrúar 2021 þar sem höfundar, ásamt Valgerði Sólnes dósent við lagadeild Háskóla Íslands, gerðu grein fyrir helstu viðfangsefnum ritsins. Alls sóttu um 170 manns málþingið sem var á Teams.
Meðferð kynferðisafbrota fyrir dómstólum
Þann 16. febrúar 2021 stóðu LÍ og LMFÍ fyrir fjarfundi um meðferð kynferðisafbrota fyrir dómstólum. Framsögumenn voru Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og lögmennirnir Björgvin Jónsson og Kolbrún Garðarsdóttir. Fundarstjóri var Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. Um 120 manns sóttu fundinn.

Hálendisþjóðgarður: Almannaréttur, orkumál og vald sveitarfélaga
Þann 25. mars boðaði LÍ ásamt Áorku – áhugahópi um orkurétt til fjarfundar til að fjalla um frumvarp um hálendisþjóðgarð sem liggur nú fyrir Alþingi og er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd. Fjallað var um hvernig frumvarpið tengist almannarétti, orkumálum og valdi sveitarfélaga og fluttu eftirtaldir aðilar erindi: Ívar Pálsson lögmaður hjá Landslögum, Baldur Dýrfjörð lögfræðingur hjá Samorku og Jón Jónsson lögmaður hjá Sókn lögmannsstofu. Fundarstjóri var Ólafur Þór Hauksson formaður Lögfræðingafélags Íslands. Um 150 manns sóttu fundinn.

Sjálfstæðar úrskurðarnefndir og aðild þeirra að dómsmálum
Fjarfundur var haldinn 14. apríl um úrskurðarnefndir og aðild þeirra að dómsmálum. Tilefnið var að nýverið féll dómur í héraði í máli þar sem íslenska ríkið stefndi einstaklingi til að krefjast þess að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði felldur úr gildi. Trausti Fannar Valsson dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og forseti deildarinnar gaf yfirlit yfir valin álitaefni sem tengjast sjálfstæðum úrskurðarnefndum með áherslu á endurskoðun dómstóla á ákvörðunum þeirra en að því loknu voru Kristín Benediktsdóttir dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og Gizur Bergsteinsson lögmaður hjá LAGASTOÐ með innlegg. Fundarstjóri var Ólafur Þór Hauksson formaður Lögfræðingafélags Íslands. Um 150 manns sóttu fundinn.

Sóttvarnarlög og stjórnarskráin
LÍ og LMFÍ stóðu fyrir fjarfundi um sóttvarnarlög í ljósi ákvæða stjórnarskrár 15. apríl 2021 þar sem rætt var hvort inngrip stjórnvalda á grundvelli sóttvarnarlaga og reglugerða byggðum á þeim, kynnu að ganga gegn reglum um meðalhóf, ákvæðum 4. mgr. 66. gr. og 67. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða hvort um svo ríka almannahagsmuni væri að ræða að þeir gengju framar ákvæðum um einstaklingsfrelsi. Frummælendur voru Ragnhildur Helgasdóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lögmennirnir Reimar Pétursson og Edda Andradóttir. Fundarstjóri var Þóra Hallgrímsdóttir sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík og varaformaður LÍ. Alls sóttu um 150 manns fundinn.


4.2 Námsferðir
Annað hvert ár stendur félagið fyrir námsferðum til fjarlægra landa. Árið 2019 var farið til Marokko og á þessu starfsári er verið að undirbúa ferð til Japan 8.-20. nóvember. Í undirbúningsnefnd eru auk framkvæmdastjóra þeir Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar og Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Þegar þetta er skrifað er nýbúið að auglýsa ferðina og óska eftir því að áhugasamir forskráðu sig. Á hálfum sólarhring var kominn biðlisti en þess ber að geta að enn er ekki víst að af ferðinni geti orðið vegna Covid.

Stjórn hefur enn fremur ákveðið að efna til ferðar í ágúst/september vestur á firði á slóðir Sjöundármorðanna. Í undirbúningsnefnd eru Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar og Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis ásamt framkvæmdastjóra. Ferðin verður réttarsöguferð þar sem þátttakendur velta fyrir sér dómum heimsins í byrjun nítjándu aldar en ekki er reiknað með að setja upp ný réttarhöld eins og þegar farið var á Vatnsnes árið 2017.


5. Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupósta þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 1376 (1304) manns „líkar“ síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked-In.

Útgáfa Tímarits lögfræðinga hefur hökt örlítið en á síðustu tveimur árum hafa einungis þrjú hefti komið út í stað fjögurra. Tvö hefti af árgangi 2020, sem er 70. árgangurinn hvorki meira né minna, hafa komið út þegar þetta er ritað. Ragnhildur Helgadóttir ritstjóri vonast til að fimm hefti komi út í ár og þannig náist að gefa út eitt hefti af árgangi 2021. Í tilefni 70 ára útgáfusögu var ákveðið að bjóða einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum og kaupa „árnað heilla“ auglýsingu og styrkja þannig fjárhag ritsins. Það heppnaðist afar vel.
Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á www.timarit.is en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins www.logfraedingafelag.is. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn www.Fonsjuris.is.

6. Erlend samskipti

6.1 Norræn systurfélög
Vegna Covid varð ekkert úr því að framkvæmdastjóri færi á árlegan fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna.


7. Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
Á síðastliðnu ári bættist eitt undirfélag við innan LÍ og eru þau því orðin sex: öldungadeild, FLF-félag lögfræðinga í fyrirtækjum, Áorka – áhugafélag um orkurétt, Höfundaréttarfélag Íslands, Skattaréttarfélag Íslands og áhugahópur um tæknirétt.
Þetta form hefur gefist vel þar sem lítil áhugafélög hafa fengið ýmsa þjónustu s.s. varðandi félagaskrá og undirbúning funda og atburða. Allir sem eru í undirfélögunum þurfa að vera félagar í LÍ og samstarf sem þetta hefur víkkað út starfsemi félagsins og virkjað „grasrótina“ svo um munar.

7.1 Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Í öldungadeild eru nú 211 félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa settir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2020-2021 var Bogi Nilsson formaður Logi Guðbrandsson og Ásdís Rafnar í stjórn. Í varastjórn voru Þorsteinn Skúlason, Guðríður Þorsteinsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Aðalfundur var haldinn 12. maí sl.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann en vegna Covid voru engir fundir haldnir frá aðalfundi í lok maí 2020 og þar til 5. Mars 2021 er stjórn, varastjórn og öldungaráð hittust til að leggja línur vorsins. Fundir hafa aðeins verið tveir en ein vorferð er í pípum á slóðir Sigríðar í Brattholti með framkvæmdastjóra LÍ.

Fundir
21. apríl: Gelísk áhrif á Íslandi til forna. Gestur fundarins var Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun.
12. maí: Erlend áhrif á íslenska löggjöf frá 1908 til 2008. Gestur fundarins, sem var jafnframt aðalfundur, var Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og doktorsnemi.


7.2 FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Í FLF eru nú 95 félagar.
Stjórn FLF var skipuð á aðalfundi 2020 til tveggja ára: Friðrik Ársælsson (Arion banki), Lilja Jensen (Kvika banki), Halla Björgvinsdóttir (Marel), Sigurlaug H. Pétursdóttir (Reitir) og Haukur Hinriksson (KSÍ). Varamenn: Björg Ásta Þórðardóttir (SI)og Magnús Ásgeirsson (Nasdaq). Vegna Covid 19 lá starfsemi félagsins niðri.

7.3 ÁORKA– áhugafélag um orkurétt
Í ÁORKU eru 89 félagar.
Í stjórn 2018-2020 eru Hilmar Gunnlaugsson formaður (Sókn lögmannsstofa), Elín Smáradóttir (OR), Kristín Haraldsdóttir (HR), Hanna Björg Konráðsdóttir (Orkustofnun) og Baldur Dýrfjörð (Samorka). Vegna Covid var ákveðið að fresta aðalfundi 2020. Áorka hélt einn fjarfund ásamt LÍ um stofnun hálendisþjóðgarðs 25. mars.

7.4. Höfundaréttarfélag Íslands
Í Höfundaréttarfélaginu er 61 (57) félagi.
Í stjórn eru Gunnar Guðmundsson lögmaður, formaður, Rán Tryggvadóttir, Erla S. Árnadóttir, Guðrún Björk Bjarnadóttir og Tómas Þorvaldsson. Hjördís Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins.


7.5 Skattaréttarfélag Íslands
Í Skattaréttarfélaginu eru 62 (60) félagsmenn.
Formaður þess er Ragnar Guðmundsson lögmaður en aðrir í stjórn eru Margrét Ágústa Sigurðardóttir, Unnur Bachmann, Svanhildur Anna Magnúsdóttir og Ásgeir Skorri Thoroddsen. Varamenn eru Lísa Karen Yoder og Páll Jónsson.


7.6 Áhugahópur um tæknirétt
Alls eru 79 félagar skráðir í áhugahópinn.
Áhugahópur um tæknirétt var stofnaður á haustmánuðum 2020 af Ernu Sigurðardóttur lögfræðingi og fleirum en hún er tengiliður hópsins við stjórn. Hópurinn er með Facebook-síðu sem er „líkuð“ af 77 manns en hún hefur verið einkar virk.
Þann 26. nóvember 2020 var haldinn hádegisfundurinn: „Ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa, eltingaleikur laga við tækni og fjártæknibylgjan“ 100 manns sóttu fundinn.


8. Annað
8.1 Mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðinga
Mentorprógramm LÍ er nýkomið af stað í þriðja sinn og tóku eftirtaldir aðilar að sér að vera mentorar: Guðríður Þorsteinsdóttir, Hjördís Halldórsdóttir, Ólafur Lúther Einarsson, Steinunn Guðbjartsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir, Dögg Pálsdóttir, Áslaug Árnadóttir, Ragnar Guðmundsson, Áslaug Björgvinsdóttir, Jóhannes S. Ólafsson og Helga Vala Helgadóttir tóku að sér að leiðbeina 11 ungum lögfræðingum. Prógrammið byrjaði óvenju seint í ár vegna covid en hófst með fjarfundi en síðan verður haldið námskeið í lok maí með Þóru Björgu Jónsdóttur lögfræðingi og markþjálfa um markmiðasetningu. Einnig var stofnaður hópur á Facebook.


8.2. Rafrænt réttarfar – áskorun félaga lögfræðinga
Stjórnir LÍ, LMFÍ, DÍ, Ákærendafélags Íslands og dómstólasýslunnar skoruðu sameiginlega á dómsmálaráðherra að setja aukinn þunga í að laga réttarkerfið að þörfum rafræns nútímasamfélags, koma á rafrænum samskiptum milli dómstólanna, annarra stofnana réttarvörslukerfisins, lögmanna og annarra sem til dómstólanna þurfa að leita.

8.3 Könnun meðal lögfræðinga útskrifaðra 2019
Könnun meðal nýútskrifaðra lögfræðinga sem útskrifuðust árið 2019 var gerð á haustmánuðum og er samskonar og gerð var fimm árum áður. Könnunin var send til 100 lögfræðinga sem útskrifuðust með meistaragráðu úr Háskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst en Háskólinn á Akureyri tók ekki þátt. Alls svöruðu 82% könnuninni en helstu niðurstöður voru þær að betra atvinnuástand var meðal lögfræðinga sem útskrifuðust árið 2019 en 2014 og enginn launamunur mældist milli kynja. Hægt er að nálgast niðurstöður á heimasíðu LÍ.

9. Í lokin
Síðasta starfsár hefur verið óvenjulegt vegna Covid 19 sem hefur meðal annars valdið því að fundir frá og með hausti 2020 urðu með öðru sniði en áður. Ætla má að félagið muni halda áfram í þeirri þróun að vera með fjarfundi en vissulega hefur sá mikilvægi þáttur í starfi félagsins að efla kynni meðal lögfræðinga farið forgörðum síðasta starfsárið.


                                                                                           Ólafur Þór Hauksson formaður









Hafa samband