Frétt

26.03.2021 -

Sjálfstæðar úrskurðarnefndir og aðild þeirra að dómsmálum - hádegisfundur í streymi 14. apríl

Lögfræðingafélag Íslands boðar til Teams fundar miðvikudaginn 14. apríl kl. 12.00-13.00.

Nýverið féll dómur í héraði í máli þar sem íslenska ríkið stefndi einstaklingi til að krefjast þess að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði felldur úr gildi. Óháð niðurstöðu málsins, sem áfrýjað hefur verið til Landsréttar, hefur það vakið spurningar um aðild sjálfstæðra úrskurðarnefnda að dómsmálum.

Í íslenskum rétti hafa ýmis álitamál sem varða fjölda, hlutverk og valdheimildir úrskurðarnefnda og um endurskoðun dómstólanna á úrskurðum þeirra verið til umræðu. Nýleg dæmi eru skýrsla um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem gefin var út af forsætisráðuneytinu í desember 2019 og skýrsla um dómstóla og stjórnsýslunefndir sem sama ráðuneyti gaf út í janúar 2021.

Á fundinum mun Trausti Fannar Valsson dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og forseti deildarinnar gefa yfirlit yfir valin álitaefni sem tengjast sjálfstæðum úrskurðarnefndum með áherslu á endurskoðun dómstóla á ákvörðunum þeirra. Að loknu erindi munu Kristín Benediktsdóttir dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og Gizur Bergsteinsson lögmaður hjá LAGASTOÐ vera með innlegg en fundarstjóri verður Ólafur Þór Hauksson formaður Lögfræðingafélags Íslands.

 

Skráning hér


Hafa samband