Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands fyrir aðalfund 27. maí 2020
Fundargerð aðalfundar Lögfræðingafélags Íslands 22. maí 2019, að Álftamýri 9, Reykjavík
Ólafur Þór Hauksson setti fundinn og gerði tillögu um Benedikt Bogason sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Var það samþykkt.
1. Skýrsla stjórnar
Ólafur Hauksson formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem greint var frá starfsemi félagsins á starfsárinu. Hann stiklaði á stóru og benti á að hægt væri að nálgast skýrsluna á heimasíðu félagsins
Fundarstjóri bauð fundarmönnum að tjá sig um skýrslu stjórnar en enginn sá ástæðu til þess.
2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram
Eyrún Ingadóttir kynnti framlagðan ársreikning vegna starfsársins og fór yfir helstu lykiltölur í fjarveru gjaldkera og framkvæmdastjóra Tímarits lögfræðinga. Reikningar voru þá bornir undir atkvæði og voru þeir samþykktir samhljóða.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar
Ólafur Þór Hauksson var endurkosinn formaður og Þóra Hallgrímsdóttir sem varaformaður með lófaklappi.
Aðrir voru kosnir í stjórn: Páll Þórhallsson, Katrín Smári Ólafsdóttir, Hjördís Halldórsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Íris Arna Jóhannsdóttir.
Varamenn í stjórn: Gísli Kr. Björnsson og Hilmar Gunnlaugsson.
Þess má geta að Hjördís er í stjórn Höfundaréttarfélagsins og Íris Arna í stjórn FLF – félags lögfræðinga í fyrirtækjum. Þá er Hilmar Gunnlaugsson stofnandi Áorku en með því að fá þessa aðila í stjórn er verið að reyna tengja betur undirdeildir félagsins við stjórnina.
4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkjörin. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.
Kjöri lokið samkvæmt lögum félagsins
Benedikt Bogason fundarstjóri spurði hvort von væri til þess að félagið stæði fyrir ferð á slóðir Sjöundaármálsins með svipuðu sniði og farið var á Vatnsnes á slóðir síðustu aftökunnar. Framkvæmdastjóri sagði það vel athugandi en fyrst þyrfti að kanna hvort búið væri að prenta upp gögn máls. Að því búnu var fundi slitið.
Einungis fjórir félagsmenn voru á fundinum og allir í stjórn.
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð.
2. Almenn stjórnarstörf starfsárið 2019-2020
Ólafur Þór Hauksson var kosinn formaður á aðalfundi 2020 og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin með sér verkum þannig að gjaldkeri er Páll Þórhallsson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Kjartan Bjarni Björgvinsson, ritari er Hjördís Halldórsdóttir og meðstjórnendur eru Katrín Smári Ólafsdóttir og Íris Arna Jóhannsdóttir. Á starfsárinu voru haldnir fimm stjórnarfundir.
3. Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Eyrún Ingadóttir framkvæmdastjóri hefur undanfarin 16 ár verið 25% starfshlutfalli eða í tíu tíma á viku. Ákveðið var að auka starfshlutfallið í 3 klst. á dag frá og með 1. október. Í haust sá Marín Guðrún Hrafnsdóttir um skrifstofuna í fjarveru framkvæmdastjóra.
Félagsmenn LÍ voru 18. maí 2020 eru 1446 (1435). Þar af voru félagar í öldungadeild 211 (223) en allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar. Félagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum voru 104 (98), í Áorku, áhugafélagi um orkurétt 89 (87), í Höfundaréttarfélaginu 57 (50) og í Skattaréttarfélaginu sem gekk til liðs við LÍ sl. vor 60. Þá eru 26 félagsmenn með aukaaðild þar sem þeir uppfylla ekki menntunarkröfur um fulla aðild, sem er meistaragráða í lögfræði.
Áskrifendur að prentuðu Tímariti lögfræðinga eru 393 (415) en þar af eru 235 (242) félagsmenn í LÍ. Boðið er upp á rafrænar áskriftarleiðir í gegnum heimasíðu TL og í gegnum Fonsjuris.
Alls 42 (26) eru með áskrift í gegnum vefinn FonsJuris. 66 (71) er áskrifandi að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun.
4. Fundir og ferðir
Vegna Covid var á starfsárinu aðeins haldinn einn viðburður og Lagadegi 2020 var frestað til hausts.
4.1 Málfundir
Félagið stóð fyrir fundi í lok októbermánaðar um ástæður og afleiðingar veru Íslands á gráa listanum. Erindi fluttu Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins og Björn Þorvaldsson saksóknari en fundarstjóri var Jónína S. Lárusdóttir. Alls sóttu 50 manns fundinn en getið var um hann í fréttum RÚV og í öðrum fjölmiðlum.
4.2 Námsferðir
Farið var í námsferð 2.-10. nóvember 2019 til Marokkó. Auk framkvæmdastjóra voru í undirbúningsnefnd þeir Benedikt Bogason fv. formaður LÍ, Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í Marokkó og fv. formaður LÍ ásamt Gísla Kr. Björnssyni lögmanni og ræðismanni Marokkó á Íslandi en hann er jafnframt varamaður í stjórn. Alls fóru 49 í ferðina sem var afar vel heppnum. Þátttakendur heimsóttu Hæstarétt Marokkó, Lögmannafélag í Rabat og þjóðþingið auk þess að fara til Casablanca og Fez. Eftir ferðina tóku Eyrún Ingadóttir og Sólveig Pétursdóttir að sér að leiða hugmyndavinnu um með hvaða hætti íslenskar konur í lögfræðistétt gætu aðstoðað réttindabaráttu kvenna í Marokkó fyrir frú Lamia Radi sendiherra Marokkó á Íslandi. Hugmyndir voru sendar til sendiherrans og ekki er vitað hvort hugmyndirnar verði að veruleika.
Lesa má nánar um Marokkóferðina á heimasíðu félagsins: http://logfraedingafelag.is/frontpage/um-li/frettir/frett/2019/12/31/Namsferd-til-Marokko-2019/
4.3 Lagadagurinn
Lagadagurinn, sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, átti að halda í 12. sinn föstudaginn 13. mars 2020 í Hörpunni en vegna Covid var viðburðinum frestað á síðustu stundu og verður haldinn föstudaginn 28. ágúst. Fyrir hönd LÍ sátu Þóra Hallgrímsdóttir og Tómas Eiríksson í lagadagsnefnd ásamt framkvæmdastjóra. Að þessu sinni verður boðið upp á þrjár málstofur fyrir og eftir hádegi.
Málstofur og rökstólar
- Réttarfar – málstofur
- Aðild umhverfisverndarsamtaka að dómsmálum
- Endurupptaka dóma með hliðsjón af MSE
- Peningaþvætti og alþjóðleg regluvarsla - málstofur
- Peningaþvættisreglur og lögmenn
- Alþjóðleg regluvarsla
- Stjórnsýsluréttur – málstofur
- Hið opinbera sem aðili að dómsmáli
- Persónuvernd og upplýsingalöggjöf
- Flutningur mála fyrir dómi - rökstólar
- Hvernig er best að flytja mál fyrir dómi?
- Málarekstur fyrir yfirdeild MDE
- Félagaréttur og verðbréfamarkaðsréttur - málstofur
- Af vettvangi hlutafélagaréttar
- Verðbréfamarkaðsréttur
6. Örmálstofur
- Réttur barna til að skorast undan að bera vitni í sakamálum
- Höfundaréttur í vinnusambandi
- Stofnun hálendisþjóðgarðs
- Tengdir og sjálfkeyrandi bílar – lagalegar áskoranir
Ef Covid setur ekki strik í reikninginn mun lagadagurinn verða í lok ágúst, eins og fyrr segir, og vonandi verður þá líka hægt að hafa kvölddagskrá eins og venjulega. Alls munu 37 taka þátt í málstofum sem framsögumenn, stjórnendur eða í þátttakendur pallborðsumræðum.
5. Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupósta þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 1304 (1235) manns „líkar“ síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked-In.
Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Ragnhildur Helgadóttir er ritstjóri og kom á fund stjórnar á árinu. Þar kom m.a. fram að u.þ.b. helmingi greina er hafnað í ritrýni. Nú fá höfundar 10 stig að hámarki fyrir ritrýnda fræðigrein en góður möguleiki er á því að ná að koma stigum í 15 sem er hámark. Útgáfu tímaritsins hefur seinkað talsvert síðasta árið og er ástæðan væntanlega Afmælisrit Hæstaréttar sem sogaði til sín efni. Nú er komið talsvert framboð greina og vonast er til að gefa út fleiri hefti á árinu.
Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á www.timarit.is en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins www.logfraedingafelag.is. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn www.Fonsjuris.is. Árgangur 2020 verður sá 70. Og eru uppi vangaveltur um með hvaða hætti hægt verður að halda upp á áfangann.
6. Erlend samskipti
6.1 Norræn systurfélög
Framkvæmdastjóri fer árlega á fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var að þessu sinni haldinn í Narva í Eistlandi 25.-27. ágúst. Samstarf sem þetta er afar mikilvægt fyrir lítil félög eins og LÍ þar sem hægt er að leita í reynslubrunn stærri systurfélaga og hugmyndir að þróun félagsstarfsins vakna. Má t.d. nefna að mentorprógramm félagsins, lagadagur og fleira koma beint úr smiðju nágranna okkar.
7. Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
Á síðastliðnu ári bættist eitt undirfélag við innan LÍ og eru þau því orðin fimm; öldungadeild, FLF-félag lögfræðinga í fyrirtækjum, Áorka – áhugafélag um orkurétt, Höfundaréttarfélag Íslands og Skattaréttarfélag Íslands.
Þetta form hefur gefist vel þar sem lítil áhugafélög hafa fengið ýmsa þjónustu s.s. varðandi félagaskrá og undirbúning funda og atburða. Allir sem eru í undirfélögunum þurfa að vera félagar í LÍ og samstarf sem þetta hefur víkkað út starfsemi félagsins. Haldinn var einn fundur 19. september með forsvarsmönnum félaganna til að stilla saman strengi og efla grasrót félagsins.
7.1 Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Í öldungadeild eru nú 211 félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa settir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2019-2020 var Logi Guðbrandsson formaður en Ellert B. Schram og Ásdís Rafnar í stjórn. Í varastjórn voru Bogi Nilsson, Þorsteinn Skúlason og Guðríður Þorsteinsdóttir. Aðalfundur var haldinn hér á undan þessum fundi. Nú eru í aðalstjórn: Logi Guðbrandsson, Ásdís Rafnar og Bogi Nilsson. Varamenn eru Þorsteinn Skúlason, Guðríður Þorsteinsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann en vegna Covid urðu þeir færri en til stóð. Haldnir voru sex fundir og voru þátttakendur á bilinu tólf til fimmtán. Nokkurt áhyggjuefni hefur verið léleg fundarsókn og þarf stjórn að velta fyrir sér hvernig hægt sé að virkja fleiri félagsmenn á næsta starfsári. Þá var haldinn einn samráðsfundur stjórnar og öldungaráðs.
Fundir:
18. sept.: „Þar sem skömmin skellur - Skárastaðamál í dómabókum.“ Anna Dóra Antonsdóttir safnfræðingur flutti erindi um nýlega útkomna bók um þessi áhugaverðu málaferli.
2. okt.: Umskipti í samfélaginu: 25 ár frá gildistöku EES-samningsins. Björn Bjarnason fv. ráðherra og formaður starfshóps sem gerði úttekt á aðild Íslands að EES hélt erindi.
18. nóv.: Ísland fær konung. Sverrir Jakobsson sagnfræðingur hélt erindi.
22. jan.: „Hér segir að þeir eiga að skoða, óttast og varast er dæma skulu.“ Fyrirlesari Páll Skúlason lögfræðingur hélt erindi.
19. feb.: Sagnafundur – sagðar sögur af lögfræðingum fyrr og nú – sannar og ósannar. Stjórnandi var Eyrún Ingadóttir.
27. maí: Aðalfundur og erindi: Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur fjallaði um hvernig hann tekst á við að skrifa 100 ára sögu Hæstaréttar.
7.2 FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Í FLF eru nú 102 félagar.
Stjórn FLF var skipuð á aðalfundi 2018 til tveggja ára: Birna Hlín Káradóttir (Fossar), Árni Sigurjónsson (Marel), Arna Grímsdóttir (Reitir), Íris Arna Jóhannsdóttir (Kvika), Guðríður Svana Bjarnadóttir (Marel). Varamenn: Tómas Eiríksson (Össur) og Ingunn Agnes Kro (Skeljungur).
Engir viðburðir voru á síðasta starfsári en stjórn var skipt út á aðalfundi fyrr í dag. Í stjórn voru kosin: Friðrik Ársælsson (Arion banki), Lilja Jensen (Kvika banki), Halla Björgvinsdóttir (Marel), Sigurlaug H. Pétursdóttir (Reitir) og Haukur Hinriksson (KSÍ). Varamenn: Björg Ásta Þórðardóttir (SI)og Magnús Ásgeirsson (Nasdaq)
Félagið átti fulltrúa í Lagadagsnefnd þar sem sjónarmiðum og áhugasviðum félagsmanna var komið til skila. Vegna Covid 19 var lagadegi frestað til 28. ágúst.
7.3 ÁORKA– áhugafélag um orkurétt
Í ÁORKU eru 90 félagar.
Í stjórn 2018-2020 eru Hilmar Gunnlaugsson formaður (Sókn lögmannsstofa), Elín Smáradóttir (OR), Kristín Haraldsdóttir (HR), Hanna Björg Konráðsdóttir (Orkustofnun) og Baldur Dýrfjörð (Samorka).
Vegna Covid var ákveðið að fresta aðalfundi til hausts 2020.
7.4. Höfundaréttarfélag Íslands
Í Höfundaréttarfélaginu eru 57 (50) félagar.
Í stjórn eru Gunnar Guðmundsson lögmaður, formaður, Rán Tryggvadóttir, Erla S. Árnadóttir, Guðrún Björk Bjarnadóttir og Tómas Þorvaldsson. Hjördís Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins.
Hluti félagsmanna tók þátt í Norræna höfundaréttarþinginu í Visby 5. til 6. september 2019, og þó nokkrir þeirra héldu þar erindi. Þá hefur stjórnarformaður sótt fund ALAI síðan síðasta skýrsla var gerð.
7.5 Skattaréttarfélag Íslands
Í Skattaréttarfélaginu eru 60 (71) félagsmenn.
Félagið gerðist undirdeild LÍ skömmu fyrir aðalfund 2019. Formaður þess er Ragnar Guðmundsson lögmaður en aðrir í stjórn eru Margrét Ágústa Sigurðardóttir, Unnur Bachmann, Svanhildur Anna Magnúsdóttir og Ásgeir Skorri Thoroddsen. Varamenn eru Lísa Karen Yoder og Páll Jónsson.
Í október 2019 hét félagið fund þar sem Veena Parrikar og Páll Jóhannesson fjölluðu um milliverðalagningu, eða Transfer Pricing. Ragnar Guðmundsson formaður var fundarstjóri.
8. Annað
8.1 Mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðinga
LÍ ákvað að ýta úr vör sérstöku mentorprógrammi fyrir nýútskrifaða lögfræðinga árið 2018 sem heppnaðist afar vel. Ákveðið var að halda áfram með prógrammið í ár og tóku eftirtaldir aðilar að sér að vera mentorar: Guðríður Þorsteinsdóttir, Hjördís Halldórsdóttir, Jónína S. Lárusdóttir, Ólafur Lúther Einarsson, Steinunn Guðbjartsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir og Dögg Pálsdóttir tóku að sér að leiðbeina sjö ungum lögfræðingum. Prógrammið byrjaði með því að hópnum var boðið á happy hour eitt fimmtudagssíðdegi til þess að kynnast og fara yfir þær fáu reglur sem settar hafa verið. Einnig var stofnaður hópur á Facebook.
8.2 Könnun meðal nýútskrifaðra lögfræðinga
Ákveðið var að setja í gang könnun meðal lögfræðinga sem útskrifuðust árið 2019, með sama hætti og gert var árið 2015. Stefnt er að því að könnunin verði send í júní 2020.
8.3. Löggilding starfsheitisins „lögfræðingur“
Ákveðið var að senda áskorun til dómsmálaráðherra um löggildingu á starfheitinu „lögfræðingur“. Ólíkt því sem gildir um viðskiptafræðinga, sálfræðinga, arkitekta, heilbrigðisstarfsfólk, svo og tækni- og verkfræðinga eru engin lög sem hindra að einstaklingar með takmarkaða eða jafnvel enga lögfræðimenntun kalli sig lögfræðinga. Nýleg dæmi hafa birst í umfjöllun fjölmiðla um að einstaklingar sem kalla sig lögfræðinga hafi tekið við háum greiðslum fyrir lögfræðiþjónustu án þess að hafa neina menntun að baki á sviði lögfræðinnar. Þá eru einnig dæmi um að aðilar sem útskrifast með BS gráðu í viðskiptalögfræði, og hafa þannig lokið um það bil einu og hálfu ári í lögfræði, kalli sig lögfræðinga.
Lögmenn og lögfræðingar eru þjónar réttarríkisins. Þeir hafa það hlutverk að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og bera víðtækar skyldur og ábyrgðir gagnvart almenningi og samfélaginu í heild.
Réttaröryggis- og neytendasjónarmið styðja það ótvírætt að almenningur geti gengið að því sem vísu sá sem titlar sig lögfræðing uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur. Þeir sem hafa meistarapróf í lögfræði búa yfir sérfræðiþekkingu og hana ber að meta að verðleikum.
Hvorki almenningur né fjölmiðlar gera alltaf greinarmun á lögfræðingum og lögmönnum. Það er því enn alvarlegra þegar menn kalla sig lögfræðinga, án þess að hafa lokið tilskildu námi, að þeir eru jafnvel taldir vera lögmenn með þeirri auknu ábyrgð sem því fylgir og bærir til að reka mál fyrir dómstólum. Stjórn félagsins bauð Stéttarfélagi lögfræðinga, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands að vera með í verkefninu og var það samþykkt hjá þeim öllum. Beðið er fundar með dómsmálaráðherra.
Ólafur Þór Hauksson formaður