Frétt

24.10.2019 -

Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka: Ástæður og afleiðingar veru Íslands á „gráa listanum“

Lögfræðingafélag Íslands heldur hádegisverðarfund fimmtudaginn 31. október í Setrinu á Grand hóteli við Engjateig kl. 12.00-13.30. 

FATF (Financial Action Task Force) hefur sett Ísland á gráan lista (Compliance list) yfir þau lönd sem hafa ekki fullnægjandi varnir gagnvart peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilefnið voru niðurstöður úr fjórðu úttekt FATF á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á Íslandi en úttektin sjálf fór fram á árinu 2017 með komu úttektarnefndar hingað til lands. Í skýrslu nefndarinnar sem var birt á árinu 2018 voru fjölmargar athugasemdir gerðar við varnir Íslands á þessu sviði sem leiddi til þess að landið var sett í ICRG ferli innan FATF.

Í september síðastliðnum fór sérstakur vinnuhópur á vegum FATF (Joint Group) yfir eftirfylgnisskýrslu sem gerð var um framvindu umbóta á Íslandi frá úttekt. Taldi vinnuhópurinn að enn stæðu nokkur atriði út af þrátt fyrir að Ísland væri búið að uppfylla þau flest. Á fundi í París um miðjan október var aðgerðaráætlun um umbætur á Íslandi lögð fyrir Plenary fund FATF sem samþykkti að “grálista” Ísland þrátt fyrir þær umbætur sem hefðu verið gerðar. Þrátt fyrir stuðning margra ríkja við þá afstöðu Íslands að Ísland ætti ekki að vera á gráa listanum þá var engu að síður samþykkt á fundinum að setja landið á listann.

Á fundinum verða eftirtalin atriði til umfjöllunar:
» Hvað er FATF og hverjar eru valdheimildir þess?
» Hvers vegna er svona komið fyrir stöðu peningaþvættismála hér á landi?
» Hvaða áhrif mun þetta hafa á efnahag og stöðu fjármálafyrirtækja/fyrirtækja á Íslandi?
» Hvaða aðgerðir eru í gangi til þess að koma Íslandi af þessum lista?
» Hvaða ráðstafanir munu stjórnvöld grípa til að fyrirbyggja að Ísland lendi í þessum aðstæðum að nýju?
» Hvaða breytingar hafa orðið á rannsókn og saksókn peningaþvættismála undanfarið?

Framsögumenn:

Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins.
Björn Þorvaldsson saksóknari.

Fundarstjóri:

Jónína Lárusdóttir lögfræðingur.

Aðgangseyrir (hádegisverður) er kr. 4.500,- fyrir félaga í LÍ en kr. 5.000,- fyrir aðra.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir kl. 12.00 miðvikudaginn 30. okt.
Einnig er hægt að skrá sig í síma 568 0887.

Skráningu er lokið

Hafa samband