Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands fyrir aðalfund 22. maí 2019
1. Fundargerð aðalfundar Lögfræðingafélags Íslands, 17. maí 2018, að Álftamýri 9, Reykjavík
Jónína Lárusdóttir setti fundinn og gerði tillögu um Benedikt Bogason sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Var það samþykkt.
1. Skýrsla stjórnar
Jónína Lárusdóttir formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem greint var frá starfsemi félagsins á starfsárinu. Sagði hún m.a. að fáir hádegisverðarfundir hefðu verið á árinu enda oft mikið framboð af þeim hjá öðrum. Lögð var meiri áhersla á aðra starfsemi s.s. heimsóknir til stofnana og svo var farin ferð á Vatnsnes á slóðir síðustu aftökunnar og sett upp ný réttarhöld í máli Agnesar, Friðriks og Sigríðar en þau tvö fyrrnefndu voru hálshöggvin á Þrístöpum árið 1830. Þá var farið í námsferð til Parísar og Lagadagurinn, sem er sameiginlegt verkefni LÍ, LMFÍ og DÍ, haldinn með miklum sóma. Það nýmæli er nú í starfsemi félagsins að stofnaður hefur verið áhugahópur um orkurétt – Áorka og Höfundaréttarfélagið er komið sem undirdeild innan þess. Laganemum með BA próf gefst nú kostur á því að fá aukaaðild að félaginu og stefnt er að því að hlúa betur að því.
Fundarstjóri bauð fundarmönnum að tjá sig um skýrslu stjórnar en enginn sá ástæðu til þess.
2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram
Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri kynnti framlagðan ársreikning vegna stafsársins og fór yfir helstu lykiltölur reikningsins sem og útskýringar sem honum fylgdu. Þá kynnti hann í fjarveru Þóru Hallgrímsdóttur ársreikninga Tímarits lögfræðinga. Reikningar voru þá bornir undir atkvæði og voru þeir samþykktir samhljóða.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar
Jónína S. Lárusdóttir og Ólafur Lúther Einarsson ákváðu að hætta í stjórn. Í stað Jónínu var Ólafur Þór Hauksson kosinn formaður og Þóra Hallgrímsdóttir var endurkjörin varaformaður með lófaklappi.
Aðrir voru kosnir í stjórn: Páll Þórhallsson, Katrín Smári Ólafsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Hjördís Halldórsdóttir og Íris Arna Jóhannsdóttir.
Varamenn í stjórn: Gísli Kr. Björnsson og Hilmar Gunnlaugsson.
Þess má geta að Hjördís er í stjórn Höfundaréttarfélagsins og Íris Arna í stjórn FLF – félags lögfræðinga í fyrirtækjum. Þá er Hilmar Gunnlaugsson stofnandi Áorku en með því að fá þessa aðila í stjórn er verið að reyna tengja betur undirdeildir félagsins við stjórnina.
4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkjörin. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.
Kjöri lokið samkvæmt lögum félagsins
Fundarstjóri gaf Jónínu, fráfarandi formanni orðið og hún þakkaði stjórn og framkvæmdastjóra samstarfið á liðnum árum og sagði starfið hafa verið ótrúlega skemmtilegt. Hápunktur síðasta árs hefði verið ferðin á Vatnsnes og námsferð til Parísar eftirminnileg. Að því búnu fékk Ólafur Þór Hauksson, nýkjörinn formaður, orðið og þakkaði traustið sem honum var sýnt með kjörinu. Lögfræðingafélagið væri vel statt félag sem hefði tekið þá stefnu að þróast áfram, taka ákvarðanir til framtíðar með mannauð sinn.
Að því búnu var fundi slitið.
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð
2. Almenn stjórnarstörf starfsárið 2018-2019
Ólafur Þór Hauksson var kosinn formaður á aðalfundi 2018 og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin með sér verkum þannig að gjaldkeri er Páll Þórhallsson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Íris Arna Jóhannsdóttir, ritari er Hjördís Halldórsdóttir og meðstjórnendur eru Katrín Smári Ólafsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir.
Á starfsárinu voru haldnir sex stjórnarfundir.
3. Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Síðastliðinn vetur hefur skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands verið opin á mánudögum frá kl. 15.00-18.00 en Eyrún Ingadóttir framkvæmdastjóri hefur sinnt félaginu utan skrifstofutíma aðra daga. Framkvæmdastjóri hefur undanfarin ár verið 25% starfshlutfalli eða í tíu tíma á viku. Ákveðið hefur verið að auka starfshlutfallið í 3 klst. á dag frá og með 1. september.
Félagsmenn LÍ voru 17. maí 2019 eru 1435 (1411). Þar af voru félagar í öldungadeild 223 (209) en allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar. Félagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum voru 98 (96), í Áorku, áhugafélagi um orkurétt 87 (68), og í Höfundaréttarfélaginu sem gekk til liðs við LÍ á árinu samtals 50. Þá er Skattaréttarfélagið að ganga til liðs við LÍ um þessar mundir en það á eftir að gefa upp fjölda félagsmanna. Þá eru 18 félagsmenn með aukaaðild þar sem þeir uppfylla ekki menntunarkröfur um fulla aðild, sem er meistaragráða í lögfræði.
Áskrifendur að prentuðu Tímariti lögfræðinga eru 415 (430) en þar af eru 242 (250) félagsmenn í LÍ. Boðið er upp á rafrænar áskriftarleiðir í gegnum heimasíðu TL og í gegnum Fonsjuris.
Alls 26 (33) eru með áskrift í gegnum vefinn FonsJuris. 71 (70) er áskrifandi að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun.
• 38 (42) eru með einstaklingsáskrift
• 14 (13) með áskrift fyrir 2-5 lögfræðinga stofu/stofnun.
• 19 (15) með áskrift fyrir fleiri en 6 lögfræðinga. Þess má geta að stofnanir og fyrirtæki sem eru með mjög marga lesendur, s.s. Alþingi, Seðlabankinn, Háskólinn í Reykjavík og Arion banki greiða hærri upphæð fyrir áskrift.
Ný heimasíða
Ráðist var í gerð nýrrar heimasíðu og vefverslunar á árinu og var samið við Advania um verkefnið. Var hún send í loftið í september.
4. Fundir, heimsóknir og ferðir
Á starfsárinu voru haldnir fjórir viðburðir, farið í þrjár heimsóknir og Lagadagurinn 2019 haldinn í samstarfi við LMFÍ og DÍ að venju.
4.1 Málfundir
Samtal um siðmennningu
Í lok maí var félagið með hádegisverðarfund ásamt LMFÍ og DÍ um #metoo byltinguna sem var sóttur af um 80 manns undir yfirskriftinni Samtal um siðmenningu: #metoo byltingin og lögfræðingastéttin.
Kynningarfundur fyrir laganema
Þann 11. október sl. stóð Lögfræðingafélag Íslands fyrir kynningarfundi fyrir laganema háskólanna fjögurra um þau störf sem lögfræðingar sinna í samfélaginu. Kynningarfundurinn var haldinn í samstarfi við Arion banka og voru um 90 laganemar viðstaddir - ýmist í salnum eða í fjarfundi. Auk þess að kynna störf sín gáfu lögfræðingarnir laganemum góð ráð fyrir framtíðina. Lögfræðingarnir sem kynntu störf sín starfa í fjármálafyrirtæki, háskóla, fyrirtæki, stjórnsýslu, ríkisstofnun, lögmennsku, dómskerfi og saksóknara. Þetta voru Jónína Sigrún Lárusdottir framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka, Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, Þóra Hallgrímsdóttir sérfræðingur hjá lagadeild Háskólans í Reykjavík, Páll Þórhallsson skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu, Hjördis Halldórsdóttir lögmaður hjá lögmannsstofunni LOGOS, Ragnheiður Bragadóttir dómari við Landsrétt, Valgeir Þór Þorvaldsson lögfræðingur hjá útlendingastofnun og Hildur Sif Haraldsdóttir forstöðumaður lögfræðiráðgjafar VÍS.
Innleiðing þriðja orkupakkans
Fundur um hvort innleiðing þriðja orkupakkans myndi þýða skerðingu á forræði íslenskra stjórnvalda í orkumálum var haldinn 27. nóvember í samstarfi við LÍ.
Hver er tilgangur birtinga dóma á netinu?
Var yfirskrift fundar sem LÍ stóð fyrir í samstarfi við Lögmannafélag Íslands og dómstólasýsluna 28. Nóvember.
Fundaröð sem ekki varð
Mikið var reynt að fá lögfræðinga til að vera með í fundaröð vegna tíu ára frá efnahagshruni en þrátt fyrir margar tilraunir virtist enginn vilja tjá sig um þau mál að sinni. Hugmyndir voru uppi um fundarefni eins og: „Tíu ár frá hruni: Blessaði Guð Ísland?“ „Hvernig stóðst réttarvörslukerfið álagið?“ „Áhrif hruns á stjórnsýslu og stjórnkerfi, hafa reglur breyst til að koma í veg fyrir efnahagshrun til framtíðar?“
Er vonandi hægt að ræða þessi atriði þegar 20 ár verða liðin frá hruni.
4.2 Heimsóknir
Á vormisseri var haldið áfram að bjóða félagsmönnum að heimsækja fyrirtæki og stofnanir. Aðsókn að heimsóknum sem þessu hefur dalað mjög og hefur verið ákveðið að hætta með þær nema að vel athuguðu máli.
Heimsókn til dómstólasýslunnar var farin 30. janúar. Benedikt Bogason formaður stjórnar dómstólasýslunnar tók á móti hópnum og kynnti stofnunina en 15 komu í heimsóknina.
Heimsókn í Kviku banka var farin í samstarfi við FLF – félag lögfræðinga í fyrirtækjum 15. mars. Íris Arna Jóhannsdóttir forstöðumaður skipulagsþróunar samstæðu og Lilja Jensen yfirlögfræðingu tóku á móti 23 þátttakendum í heimsókninni.
Heimsókn í Landsvirkjun í samstarfi við Áorku var farin 2. maí. Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri tók á móti 15 lögfræðingum.
4.3 Námsferðir
Ákveðið var að efna til námsferðar 2.-10. nóvember 2019 til Marokkó. Auk framkvæmdastjóra eru í undirbúningsnefnd þeir Benedikt Bogason fv. formaður LÍ, Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í Marokkó og fv. formaður LÍ ásamt Gísla Kr. Björnssyni lögmanni og ræðismanni Marokkó á Íslandi en hann er jafnframt varamaður í stjórn. Undirbúningur stendur nú yfir og hafa 65 líst áhuga á því að fara.
4.4 Lagadagurinn
Lagadagurinn, sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í ellefta sinn föstudaginn 29. mars 2019 í Hörpunni. Fyrir hönd LÍ sátu Íris Arna Jóhannsdóttir og Valgeir Þór Þorvaldsson í lagadagsnefnd ásamt framkvæmdastjóra.
Að þessu sinni var boðið upp á þrjár málstofur fyrir og eftir hádegi.
Málstofur og rökstólar
1. Tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsi.
2. Úrlausn ágreiningsmála utan dómstóla: Raunhæfur valkostur við lausn réttarágreinings?
3. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir stjórnvalda: Samspil ráðherra og sjálfstæðra úrskurðarnefnda.
4. Hádegi: Áhrif dóms MDE á Landsrétt – stöðumat og ýmis praktísk úrlausnarefni.
5. Rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála: Hvað má betur fara í íslensku réttarkerfi?
6. Ábyrgð og réttaröryggi stjórnenda og stjórnarmanna með hliðsjón af dómum um umboðssvik.
7. Örmálstofur
I. Ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
II. Höfundaréttur og gervigreind.
III. Allt er vænt ssem vel er grænt, en hvað eru græn skuldabréf?
IV. Brexit.
Alls tóku 460 þátt í dagskrá Lagadagsins að þessu sinni.
Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Veislustjórar voru stuðboltarnir Auður Björg Jónsdóttir og Eggert Páll Ólason. Páll Óskar Hjálmtýsson hélt svo uppi stuðinu. Alls voru 450 þátttakendur.
Þá tóku 42 þátt í málstofum sem framsögumenn, stjórnendur eða í þátttakendur pallborðsumræðum.
5. Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupósta þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 1235 (1151) manns „líkar“ síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked-In.
Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Hafsteinn Þór Hauksson var ritstjóri fyrstu þriggja hefta ársins en þá tók Ragnhildur Helgadóttir við ritstjórn. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á www.timarit.is en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins www.logfraedingafelag.is. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn www.Fonsjuris.is.
6. Erlend samskipti
6.1 Norræn systurfélög
Framkvæmdastjóri fer árlega á fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var að þessu sinni haldinn í Noregi. Samstarf sem þetta er afar mikilvægt fyrir lítil félög eins og LÍ þar sem hægt er að leita í reynslubrunn stærri systurfélaga og hugmyndir að þróun félagsstarfsins vakna.
7. Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
Á síðastliðnu ári bættist eitt undirfélag við innan LÍ og eru þau því orðin fimm; öldungadeild, FLF -félag lögfræðinga í fyrirtækjum, Áorka – áhugafélag um orkurétt, Höfundaréttarfélag Íslands og Skattaréttarfélag Íslands.
Þetta form hefur gefist vel þar sem lítil áhugafélög hafa fengið ýmsa þjónustu s.s. varðandi félagaskrá og undirbúning funda og atburða. Allir sem eru í undirfélögunum þurfa að vera félagar í LÍ og samstarf sem þetta hefur víkkað út starfsemi félagsins.
7.1 Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Í öldungadeild eru nú 223 félagar en allir sem verða 65 ára á árinu eru sjálfkrafa settir í félagið og fá póst þar um á haustin. Ef þeir biðjast undan veru í deildinni þá er að sjálfsögðu orðið við því.
Starfsárið 2018-2019 var Logi Guðbrandsson formaður en Ellert B. Schram og Ásdís Rafnar í stjórn. Í varastjórn voru Bogi Nilsson, Þorsteinn Skúlason og Ingibjörg Benediktsdóttir. Aðalfundur var haldinn hér á undan þessum fundi og var stjórn endurkjörin að því undanskyldu að Guðríður Þorsteinsdóttir var kosin í varastjórn í stað Ingibjargar Benediktsdóttur.
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Á síðasta starfsári voru haldnir sex fundir og voru þátttakendur á bilinu sex til 14. Nokkurt áhyggjuefni hefur verið léleg fundarsókn og þarf stjórn að velta fyrir sér hvernig hægt sé að virkja fleiri félagsmenn á næsta starfsári.
Fundir:
17. okt: Meginstef í þróun þjóðaréttar frá því Ísland varð fullvalda ríki: Fyrirlesari: Davíð Þór Björgvinsson dómari við Landsrétt. 12 félagar mættu.
18. des: Heimsókn í dómstólasýsluna. Benedikt Bogason formaður stjórnar og Ólöf Finnsdóttir framkvæmdastjóri tóku á móti aðeins fimm félögum.
23. jan.: Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Fyrirlesari Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur. 12 félagar mættu.
20. feb.: Dauði geirfuglsins. Fyrirlesari: Gísli Pálsson prófessor í mannfræði. Sjö félagar mættu.
13. mars: Brot úr réttarsögu: Konungur í tvennum líkama og á faraldsfæti. Fyrirlesari: Viðar Pálsson sagnfræðingur. 14 félagar mættu.
22. maí: Aðalfundur og erindi: Ingólfur B. Kristjánsson og Aðalsteinn Júlíus Magnússon, forsvarsmenn www.hlusta.is segja frá tilurð og starfsemi hljóðbókaútgáfunnar.
7.2 FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Í FLF eru nú 98 félagar.
Stjórn FLF var skipuð á aðalfundi 2018 og samanstendur af: Árni Sigurjónsson (Marel), Birna Hlín Káradóttir (Fossar), Arna Grímsdóttir (Reitir), Íris Arna Jóhannsdóttir (Kvika), Guðríður Svana Bjarnadóttir (Marel). Varamenn: Tómas Eiríksson (Össur) og Ingunn Agnes Kro (Skeljungur). Stjórn var kosin til tveggja ára aðalfundi 2018.
Stjórn hittist að jafnaði mánaðarlega, nema yfir sumartímann. Einnig eru regluleg samskipti með tölvupósti milli funda.
Helstu viðburðir á vegum félagsins á starfsárinu:
• Hádegisfundur um hjá Háskólanum í Reykjavík í október 2018 um 10 velgengnisvörður. Fyrirlesari var Björgvin Ingi Ólafsson sem sagði sögur af farsælu fólki og tvinnaði við framaráð fyrir framsækið fólk sem er að koma út á vinnumarkaðinn, vill breyta til eða hefur áhuga á að efla sig á vinnumarkaðnum sem stjórnendur í framtíðinni.
• Heimsókn til Kviku í mars 2019, þar sem Íris Arna Jóhannsdóttir, forstöðumaður skipulagsþróunar samstæðu og Lilja Jensen, yfirlögfræðingur kynntu starfsemi bankans.
Félagið átti fulltrúa í Lagadagsnefnd þar sem sjónarmiðum og áhugasviðum félagsmanna var komið til skila. Dagurinn tókst vel, var afar vel sóttur og voru nokkrar málstofur þar sem farið var yfir málefni sem bera hátt í störfum félagsmanna FLF, m.a. Ábyrgð og réttaröryggi stjórnenda og stjórnarmanna, Umboðssvik og í örmálstofum: Peningaþvætti, Höfundarréttur og gervigreind og Allt er vænt sem vel er grænt – en hvað eru græn skuldabréf?
Fleiri viðburðir hafa verið í deiglunni en ekki gefist tími til að halda, þeir munu vafalaust bíða næsta starfsárs.
7.3 ÁORKA– áhugafélag um orkurétt
Í ÁORKU eru 87 félagar.
Fundur um hvort innleiðing þriðja orkupakkans myndi þýða skerðingu á forræði íslenskra stjórnvalda í orkumálum var haldinn 27. nóvember í samstarfi við LÍ. Um 30 manns mættu á fundinn. Að loknum fundi var haldinn stofnfundur Áorku og mættu 15 manns á hann. Eftirfarandi voru kosin í stjórn: Hilmar Gunnlaugsson lögmaður hjá Sókn, formaður, Elín Smáradóttir lögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur, Kristín Haraldsdóttir dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Hanna Björg Konráðsdóttir lögfræðingur hjá Orkustofnun og Baldur Dýrfjörð lögfræðingur hjá Samorku skipi stjórn. Þá setti félagið sér lög sem eru aðgengileg á heimasíðu LÍ ásamt stofnfundargerð.
Áorka hélt fund 12. apríl í Húsi verslunarinnar atvinnulífsins, Borgartúni, þar sem rætt var um þriðja orkupakkann og hvort hann stæðist stjórnarskrá. Um 20 manns sótti fundinn.
Heimsókn í Landsvirkjun í samstarfi við Áorku var farin 2. maí. Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri tók á móti 15 lögfræðingum.
Stjórn ÁORKU hefur haldið þrjá stjórnarfundi frá kjöri.
7.4. Höfundaréttarfélag Íslands
Í Höfundaréttarfélaginu eru 50 félagar.
Í stjórn eru Gunnar Guðmundsson lögmaður, formaður, Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Stefs , Rán Tryggvadóttir, Erla S. Árnadóttir og Tómas Þorvaldsson. Hjördís Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins.
Aðalfundur Höfundaréttarfélagsins var haldinn fimmtudaginn 7. febrúar 2019. Að loknum aðalfundarstörfum kynnti formaður dagskrá Norræna höfundaréttarþingsins 2019 og framkvæmdastjóri kynnti dóm Hæstaréttar í málinu nr. 329/2017, Sýn hf. gegn Símanum hf.
Höfundaréttarfélagið hélt fræðslufund 2. maí sl. þar sem Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður og Dr. Rán Tryggvadóttir fjölluðu um samspil höfundaréttar og Evrópuréttar.
7.5 Skattaréttarfélag Íslands
Í Skattaréttarfélaginu eru 71 félagsmaður.
Félagið gerðist undirdeild LÍ skömmu fyrir aðalfund og á eftir að skila inn lista yfir félagsmenn. Formaður þess er Elín Árnadóttir lögmaður en aðrir í stjórn eru Ásmundur G Vilhjálmsson, Ingibjörg Ingvadóttir, Soffía Eydís Björgvinsdóttir, Guðmundur Skúli Hartvigsson og Ólafur Kristinsson.
Þann 31. janúar hélt félagið félagsfund þar sem rætt var um nýgerðar breytingar í skattkerfinu.
8. Annað
8.1 Mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðinga
Djoef í Danmörku hefur um margra ára skeið verið með sérstakt mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðinga og LÍ ákvað að ýta úr vör svipuðu prógrammi. Hugmyndin er sú að bjóða lögfræðingum sme eru ekki með tengsl í lögfræðingastétt að fá mentor í eitt ár. Á þessum tíma hittast þeir fjórum til sex sinnum og ræða um starf viðkomandi lögfræðings sem og það sem hann er að velta fyrir sér.
Þar sem verið var að prufa prógrammið í fyrsta sinn var ákveðið að hafa fáa mentora og „lærlinga“. Hjördís Halldórsdóttir, Íris Arna Jóhannsdóttir, Gísli Kr. Björnsson, Þórunn Guðmundsdóttir og Dögg Pálsdóttir tóku að sér að leiðbeina sex ungum lögfræðingum. Prógrammið byrjaði með því að hópnum var boðið á happy hour eitt fimmtudagssíðdegi til þess að kynnast og fara yfir þær fáu reglur sem settar hafa verið. Einnig var stofnaður hópur á Facebook.
8.2 Siðareglur félagsins
Stjórn ræddi um hvort ástæða væri til að setja siðareglur félagsins. Skoðanir voru skiptar meðal stjórnarmanna, m.a. í ljósi tilgangs Lögfræðingafélagsins sem er áhugafélag lögfræðinga, fyrst og fremst.
Ólafur Þór Hauksson formaður