Frétt

01.11.2018 -

Vettvangsferð á slóðir síðustu aftökunnar og ný réttarhöld í máli Agnesar, Friðriks og Sigríðar

Haustið 2017 fór Lögfræðingafélag Íslands í vettvangsferð á Vatnsnes í Húnavatnssýslu, á slóðir síðustu aftökunnar. Að því loknu var farið í félagsheimilið á Hvammstanga og sett upp ný réttarhöld í máli Agnesar, Friðriks og Sigríðar. Á annað hundrað félagsmenn LÍ og fylgdarfólk þeirra tók þátt í viðburðinum sem vakti mikla athygli.

Við skipulagningu á réttarhöldunum höfðum við í huga hvernig réttarhöld í opinberum málum fara fram í dag en auk þess voru lesnir upp valdir kaflar úr skýrslutökum af sakborningum eins og þau birtast í dómabókum.  Loks var kveðinn upp dómur í beinu framhaldi af ræðum sækjenda og verjanda og dómarar fóru í stuttu máli yfir þær forsendur sem þeir lögðu til grundvallar við samningu dómsins.

Ef um væri að ræða raunveruleg réttarhöld hefði dómur vera kveðinn upp nokkru síðar og einungis dómsorðið lesið upp, þ. e. niðurstaða dómsins um sekt eða sýknu, mögulega refsingu og sakarkostnað.

Verjendur voru hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Guðrún Sesselja Arnardóttir.

Saksóknari var Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.

Dómarar voru Ingibjörg Benediktsdóttir fv. hæstaréttardómari, Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og verðandi dómari við Landsrétt og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

Hér er upptaka af réttarhöldunum

Hér er dómur endurupptökumálsins

 

Hér koma myndir af viðburðinum:

                

 

 

Hafa samband