Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands fyrir aðalfund 17. maí 2018
1. Fundargerð aðalfundar 31. maí 2017 að Álftamýri 9, Rvík.
Jónína Lárusdóttir setti fundinn og gerði tillögu um Hörð Einarsson sem fundarstjóra og Katrínu Smára Ólafsdóttur sem ritara. Var það samþykkt. Sex félagar mættu á aðalfundinn.1. Skýrsla stjórnar
Jónína Lárusdóttir formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem greint var frá starfsemi félagsins á starfsárinu, málþingum og öðrum viðburðum og nýmælum sem tekin voru upp. Þá gerði hún grein fyrir því að athygli LMFÍ hefði verið vakin á því að efni gætu verið til þess að sameina félagsdeild LMFÍ og LÍ. Fyrir stjórn LMFÍ hefur verið lagt fram minnisblað þar að lútandi sem LÍ lét taka saman. Formaður hafði orð á því hversu bjartir tímar væru framundan, Parísarferð félagsins í nóvember og spennandi viðburður í september að Vatnsnesi þar sem farið verður á slóðir síðustu aftökunnar á Íslandi og hin frægu réttarhöld ,,sviðsett“. Fundarstjóri lýsti fundinn löglega boðaðan og gaf að því búnu gjaldkera orðið.
2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram
Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri kynnti framlagðan ársreikning vegna stafsársins og fór yfir helstu lykiltölur reikningsins sem og útskýringar sem honum fylgdu. Fram kom m.a. að ásamt því að félagsgjöld vægju sem fyrr þyngst í tekjum félagsins væri það athugunarefni hversu afkoma félagsins ætti mikið undir afkomu Lagadagsins. Óvenju mikill fjöldi þátttakenda var á lagadeginum 2016 og því nokkur hagnaður og ennfremur var gerð grein fyrir sérstökum útgjaldaliði sem lýtur að kvikmyndun viðburðar félagsins í september að Vatnsnesi. Þá kynnti Þóra Hallgrímsdóttir ársreikninga Tímarits lögfræðinga. Lausasala hefur dregist nokkuð saman, sem ekki þarf að koma á óvart þar sem sífelld aukning er í rafrænni áskrift. Reikningar voru þá bornir undir atkvæði og voru þeir samþykktir samhljóða.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar
Jónína Lárusdóttir var endurkjörin formaður og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Stjórn: Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Katrín Smári Ólafsdóttir, Ólafur Lúther Einarsson og Ragnheiður Bragadóttir. Kolbrún Sævarsdóttir gaf ekki kost á sér áfram.
Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Kristján Andri Stefánsson, Bogi Nilsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson og Dögg Pálsdóttir.
4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkjörin. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.
Kjöri lokið samkvæmt lögum félagsins
Fundarstjóri gaf formanni orðið.
5. Lagabreytingar
Stjórn hefur lagt fram tillögur til lagabreytinga sem kynntar hafa verið skv. 15. gr. laga félagsins
Formaður mælti fyrir lagabreytingunum og kynnti efni þeirra. Fram kom að tilefnið var að stjórn félagsins var einhuga um að fara þyrfti yfir lög félagsins. Fundarstjóri fór að því búnu yfir efni hverrar og einnar breytingar og bar undir atkvæði mættra. Var hver og ein lagabreytingartillaga samþykkt einróma af viðstöddum fundarmönnum.
Greint var frá því að fundarsókn væri ekki nægjanleg til þess að lagabreytingar þessar tækju gildi samkvæmt atkvæðagreiðslu þessari. Helmingur félagsmanna þarf að sækja slíkan fund en félagsmenn eru 1400 talsins. Til fundarins voru mættir 10 félagsmenn. Af þeim sökum var kynnt að boðað verði til aukafundar í haust þar sem tillögurnar verða bornar undir atkvæði að nýju í samræmi við lög félagsins.
Önnur mál:
Formaður tók að lokum til máls. Þakkaði hún Kolbrúnu Sævarsdóttur vel unnin störf í gegnum árin hjá félaginu og bauð nýjan stjórnarmann velkominn.
Fleira ekki gert og var fundi slitið kl. 18:00
Fundargerð aukaaðalfundar Lögfræðingafélags Íslands, 14. september 2017, að Álftamýri 9, Reykjavík
Fimm félagsmenn mættu til fundarins
Jónína Lárusdóttir setti fundinn og gerði tillögu um Benedikt Bogason sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Var það samþykkt.
Fyrir fundinum lágu fyrir tveir dagskrárliðir
1. Lagabreytingar
Á aðalfundi 31. Maí síðastliðnum var samþykkt breyting á lögum félagsins. Þar sem fundarsókn væri ekki nægjanleg til þess að lagabreytingar þessar tækju gildi, en helmingur félagsmanna þarf að sækja slíkan fund, var boðað til aukaaðalfundar í samræmi við lög félagsins.
Formaður fór yfir breytingarnar og var hver og ein lagabreytingartillaga samþykkt einróma af viðstöddum fundarmönnum.
Engin fleiri mál voru tekin fyrir og fundi slitið.
Eyrún Ingadóttir ritaði fundargerð
2. Almenn stjórnarstörf starfsárið 2017-2018
Jónína S. Lárusdóttir var kosin formaður á aðalfundi 2017 og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin með sér verkum þannig að gjaldkeri er Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Þóra Hallgrímsdóttir, ritari er Katrín Smári Ólafsdóttir og meðstjórnendur eru þau Páll Þórhallsson, Ólafur Lúther Einarsson og Ragnheiður Bragadóttir.
Á starfsárinu voru haldnir sex stjórnarfundir.
3. Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00 en framkvæmdastjóri er Eyrún Ingadóttir. Á vorönn var í fyrsta skipti auglýst eftir laganema til að starfa tímabundið á skrifstofunni. Stefán Snær Stefánsson meistaranemi við lagadeild Háskóla Ísands hefur verið í hlutastarfi frá áramótum og hefur það létt mjög á framkvæmdastjóra sem á eingöngu að vera í 25% starfi.
Félagsmenn LÍ voru 24. maí 2017 eru 1411 (1398) að tölu. Félagar í öldungadeild eru 209 (196) en allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar. Félagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum voru 96 (83) og í hinum nýstofnaða áhugahópi Áorku 68.
Áskrifendur að prentuðu Tímariti lögfræðinga sem samtals eru 430 (456) en þar af eru 200 (269) félagsmenn í LÍ. Þrátt fyrir að áskrifendum að prentaðri útgáfu hafi fækkað talsvert er ekki svo í reynd því boðið er upp á ýmsar rafrænar áskriftarleiðir í gegnum heimasíðu TL sem og í gegnum Fonsjuris.
Alls 33 (32) eru með áskrift í gegnum vefinn FonsJuris. 70 (67) eru áskrifendur að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun.
• 42 (44) eru með einstaklingsáskrift
• 13 (10) með áskrift fyrir 2-5 lögfræðinga stofu/stofnun.
• 15 (13) með áskrift fyrir fleiri en 6 lögfræðinga. Þess má geta að stofnanir og fyrirtæki sem eru með mjög marga lesendur, s.s. Alþingi, Seðlabankinn, Háskólinn í Reykjavík og Arion banki greiða hærri upphæð fyrir áskrift.
4. Fundir, heimsóknir og ferðir
Á starfsárinu var haldinn einn málfundur í samstarfi við FLF. Farið var í fjórar heimsóknir, boðið upp á tvær ferðir og Lagadagurinn 2018 var haldinn í samstarfi við LMFÍ og DÍ. Alls sóttu 127 heimsóknir á vegum félagsins, 180 tóku þátt í ferð á slóðir síðustu aftökunnar og 44 fóru með til Parísar. Þá sóttu 516 málstofur Lagadasins 2018 og um 360 manns voru um kvöldið.
4.1 Málfundir
Lítið hefur verið um málfundi á starfsárinu en á síðasta ári var bryddað á þeirri nýbreytni að hafa útgáfufundi að morgni dag þegar TL kom út. Höfundar kynntu þá sín efni en þrátt fyrir áhugaverða fyrirlestra þá var aðsókn það lítil að ákveðið var að hætta með þá.
Í lok maí stefnir félagið að því að vera með fund ásamt LMFÍ og DÍ um #metoo byltinguna. Verið er að vinna að dagskrá fyrir fundinn, m.a. að reyna fá aðila frá Svíþjóð til að ræða um viðbrögð þar.
4.2 Heimsóknir
Á vormisseri var haldið áfram að bjóða félagsmönnum að heimsækja fyrirtæki og stofnanir.
Heimsókn til ríkissaksóknara var farin 31. janúar. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari kynnti embættið og veitti 30 lögfræðingum innsýn í störf kollega sinna hjá embættinu.
Heimsókn í hinn nýja Landsrétt var farin 15. mars. Þar tók Hervör Þorvaldsdóttir forseti réttarins og Björn L. Bergsson skrifstofustjóri á móti 42 lögfræðingum, kynntu réttinn og sýndu húsakynni.
Heimsókn í dómsmálaráðuneytið var farin 18. apríl. Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra tók á móti 20 lögfræðingum en að lokinni heimsókn var farið í nálægt öldurhús og fagnað vetrarlokum.
4.3 Ferðir
Ferð á slóðir síðustu aftökunnar
Laugardaginn 9. september 2017 var boðið upp einstakan viðburð þar sem farið var á slóðir síðustu aftökunnar á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu og mál Agnesar, Friðriks og Sigríðar endurupptekið að því loknu. Félagið fékk aðgang að prentuðum málsgögnum frá ættingjum Eggerts Þórs Bernharðssonar sagnfræðings heitins sem hafði látið prenta þau upp.
Öflugt lið lögfræðinga tók þátt í viðburðinum en dómarar voru þau Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við MDE og dómari við Landsrétt, Ingibjörg Benediktsdóttir fv. hæstaréttardómari og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari. Saksóknari var Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og verjendur Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. hjá ríkislögmanni og Gestur Jónsson hrl. hjá Mörkinni lögmannsstofu. Öll lögðu þau mikla vinnu í undirbúning „réttarhaldanna“ sem vöktu athygli út fyrir landsteinana.
Gríðarlegur áhugi var á því að taka þátt í ferðinni og réttarhöldunum og þurftu menn frá að hverfa. Alls fóru 115 manns í tveimur rútum hringinn í kringum Vatnsnesið þar sem Eyrún Ingadóttir frkvstj. Og sagnfræðingur og Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur voru leiðsögumenn. Á „réttarhöldin“, sem haldin voru í félagsheimilinu á Hvammstanga mættu 180 manns.
Lögfræðingafélagið styrkti ásamt Ferðamálafélagi Húnavatnssýslu upptöku á viðburðinum sem kvikmyndagerðarfyrirtækið Landmark gerði, og mun fá til eignar grófklippta upptöku. Síðar mun koma í ljós hvort gerð verður heimildarmynd um viðburðinn.
Í desember fór stór hópur á vegum LÍ á leiksýninguna Natan sem var í Borgarleikhúsinu. Að lokinni sýningu voru umræður þar sem framkvæmdastjóri LÍ tók þátt ásamt leikstjóra verksins og leikendum.
Námsferð til Parísar
Alls fóru 44 þátttakendur til Parísar 21.-26. nóvember 2017. Þeir Kristján Andri Stefánsson sendiherra og fv. formaður LÍ. og Baldvin Björn Haraldsson lögmaður aðstoðuðu við framkvæmdina. Þjóðþing Frakka, Hæstiréttur, Palais de Justice, Lögmannafélag Parísarborgar og lagasvið OECD voru heimsótt. Þá fór hópurinn í móttöku til íslenska sendiherrans og svo í dagsferð til Strassborgar þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu var heimsóttur og Evrópuráðið. Hin mikla faglega dagskrá, þar sem þátttakendur fóru í heimsóknir á staði sem almennt eru ekki opnir fyrir venjulega ferðamenn, gerði ferðina mjög eftirminnilega.
4.4 Lagadagurinn
Lagadagurinn, sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í tíunda sinn föstudaginn 27. apríl 2018 í Hörpunni.
Að þessu sinni var boðið upp á þrjár málstofur fyrir og eftir hádegi.
Málstofur og rökstólar
1. Lagasetning – Hvað má gera betur?
2. Framtíðarsýn á fjármálamarkaði. Samspil greiðsluþjónustutilskipunarinnar og persónuverndar.
3. Málstofa og rökstólar: I. Málsforræði versus málshraði. II. Rannsókn sakamála í stafrænum heimi.
4. Framtíðarlögfræði – Hver verða verkefni lögfræðinga í veröld vaxandi sjálfvirkni og tækniframfara?
5. Skipun dómara
6. Örmálstofur
I. Persónuverndarfulltrúi – hlutverk og ábyrgð
II. Fjölskylduábyrgð í starfsumhverfi lögmanna
III. Dómstólar og fjölmiðlar
IV. Upprunaábyrgðir raforku: Stenst lög að selja þær úr landi?
V. #metto byltingin: Hvað svo?
Alls tóku 516 þátt í dagskrá Lagadagsins að þessu sinni; þar af 326 í dagskránni bæði fyrir og eftir hádegi og 185 annað hvort fyrir eða eftir hádegi.
Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Veislustjóri var Logi Bergmann og Hrafnkell Ásgeirsson laganemi var með uppistand. Hljómsveit Tomma Tomm lék undir söng hjá Birni Jörundi, Sölku Sól og Matta Matt. Alls voru 360 þátttakendur.
Þá tóku 37 þátt í málstofum sem framsögumenn, stjórnendur eða í þátttakendur pallborðsumræðum. Í lagadagsnefnd voru Katrín Smári Ólafsdóttir og Árni Sigurjónsson fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.
5. Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupósta þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu u.þ.b. tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 1151 (1076) manns „líkar“ síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked-In.
Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Hafsteinn Þór Hauksson er ritstjóri. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á www.timarit.is en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins www.logfraedingafelag.is. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn www.Fonsjuris.is en samningur TL við FJ var nýverið endurnýjaður til næstu þriggja ára.
6. Erlend samskipti
Norræn systurfélög
Framkvæmdastjóri fer árlega á fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var að þessu sinni haldinn í Finnlandi. Samstarf sem þetta er afar mikilvægt fyrir lítil félög eins og LÍ þar sem hægt er að leita í reynslubrunn stærri systurfélaga og hugmyndir að þróun félagsstarfsins vakna.
7. Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
Síðastliðin ár hafa tvö undirfélög verið innan LÍ; öldungadeild og FLF. Þetta form hefur gefist vel þar sem lítil áhugafélög hafa fengið ýmsa þjónustu s.s. varðandi félagaskrá og undirbúning funda og atburða. Allir sem eru í undirfélögunum þurfa að vera félagar í LÍ og samstarf sem þetta hefur víkkað út starfsemi félagsins. Því var ákveðið að bjóða fleiri félögum að vera undir hatti LÍ. Var Höfundaréttarfélaaginu, Vátryggingaréttarfélaginu og Vinnuréttarfélaginu send boð um aðild og nýverið ákvað Höfundaréttarfélagið að þiggja boð um að vera undirfélag. Áorka – áhugahópur um orkurétt var stofnaður í mars og hefur nú stofnað Facebook síðu.
7.1 Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og vor- og haustferðum út á land. Á síðasta starfsári voru haldnir sjö fundir og voru þátttakendur á bilinu sex til 20.
Starfsárið 2017-2018 var Ellert B. Schram formaður en auk hans í stjórn voru þau Logi Guðbransson og Brynjólfur Kjartansson. Aðalfundur var haldinn 18. Apríl sl. og var Ásdís Rafnar kosin í stjórn í stað Brynjólfs. Að öðru leyti er vísað í skýrslu stjórnar öldungadeildar um starfsemi deildarinnar á starfsárinu sem er á heimasíðu LÍ.
7.2 FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Formaður félagsins er Árni Sigurjónsson hjá Marel, en auk hans í stjórn eru Arna Grímsdóttir hjá Reitum, Birna Hlín Káradóttir hjá Fossum, Guðríður Svana Bjarnadóttir og Ólafur Lúther Einarsson hjá VÍS. Varamenn í stjórn eru Íris Arna Jóhannsdóttir hjá Kviku og Tómas Eiríksson hjá Össuri. Stjórnin var kosin til tveggja ára og er stefnt að því að aðalfundur verði í lok mánaðar.
Heimsókn til Íslenskrar erfðagreiningar var farin 22. mars. Tanya Zharov aðstoðarforstjóri og kollegar hennar í lögfræðideild kynntu fyrirtækið og ræddu um þau lögfræðilegu mál sem eru efst á baugi hjá þeim. Alls tóku 35 þátt í heimsókninni.
Heimsókn til Össurar var farin 12. Október. Þar kynnti Frank Norgaard, yfirmaður fyrirtækjaþróunar Computershare regluvörslukerfi sem er ætlað að auðvelda fyrirtækjum að uppfylla auknar kröfur nýrri reglugerð ESB um markaðssvik. Tómas Eiríksson yfirlögfræðingur Össurar kynnti að því búnu fyrirtækið og hvernig lögfræðideild þess hefur tekist á við þær áskoranir sem hafa fylgt örum vexti síðustu ár.
Þá má geta þess að Árni Sigurjónsson sat fyrir hönd FLF og LÍ í undirbúningsnefnd Lagadags 2018.
7.3 Áorka – áhugafélag um orkurétt
Áorka var stofnað af Hilmari Gunnlaugssyni lögmanni í apríl sl. og hafa 68 skráð sig í hópinn. Stofnuð var lokaður hópur á Facebook sem deilir ýmsum upplýsingum fyrir félaga og eru nú 46 meðlimir. Áhugahópurinn mun ákveða síðar með hvaða hætti honum verði stjórnað, með grasrótarfyrirkomulagi eða hvort stjórn verði skipuð.
7.4. Höfundaréttarfélag Íslands
LÍ bauð Höfundaréttarfélagi Íslands að vera undirfélag í LÍ og þekktist stjórnin það. 47 félagsmenn Höfundaréttarfélagsins munu þurfa að vera í LÍ en félagið verður með eigin fjárhag sem hingað til. Hjördís Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins en í stjórn eru: Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Guðmundsson lögmaður, Rán Tryggvadóttir, Erla S. Árnadóttir og Tómas Þorvaldsson.
8. Annað
8.1 Aukaaðild laganemaÁ síðasta aðalfundi var gerð breyting á lögum félagsins þannig að laganema geta nú verið með aukaaðild á hálfu gjaldi. Þeir öðlast öll réttindi félagsmanna að öðru leyti en því að þeir hafa ekki atkvæðarétt á fundum. Enn hefur ekki verið gerð gangskör að því að kynna aukaaðildina fyrir laganemum. Ástæðan eru annir en ætlunin var að bjóða þeim til starfskynningar þar sem lögfræðingar í lögmennsku, fyrirtækjum, saksókn, dómstóla, innan háskólasamfélags, fjármálastofnana og stjórnsýslu myndu kynna störf sín. Stefnt er að slíkum fundi næsta haust.
8.2 Mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðinga
Djoef í Danmörku hefur um margra ára skeið verið með sérstakt mentorprógramm fyrir nýútskrifaða lögfræðinga og LÍ hefur áhuga á að prufa slíkt til reynslu. Hugmyndin er sú að bjóða lögfræðingum sme eru ekki með tengsl í lögfræðingastétt að fá mentor í eitt ár. Á þessum tíma hittast þeir fjórum til sex sinnum og ræða um starf viðkomandi lögfræðings sem og það sem hann er að velta fyrir sér. Stefnt er að því að koma á slíku prógrammi haustið 2018.
Jónína S. Lárusdóttir formaður