Frétt

19.03.2018 -

ÁORKA - áhugahópur um orkurétt

Ákveðið hefur verið að setja á stofn áhugahóp lögfræðinga um orkulögfræði innan Lögfræðingafélags Íslands.

Tilgangur hans er að skapa vettvang fyrir lögfræðinga með áhuga á orkulögfræði til að skiptast á upplýsingum og skoðunum, efla faglega umræðu á sviði orkumála, byggja upp og styrkja alþjóðleg tengsl á sviði orkuréttar og styðja við uppbyggingu innanlands sem utan á orkusviðinu.

Ísland er um margt sérstakt þegar kemur að orkumálum og byggst hefur upp sérþekking á grundvelli íslenskra aðstæðna sem er verðmæt. Að sama skapi geta íslensk stjórnvöld, sveitarfélög og fyrirtæki lært margt af reynslu og sérþekkingu annarra landa á þessu sviði.

Orkumál eru áberandi á heimsvísu vegna aukinnar eftirspurnar eftir orku og áhrifum orkuframleiðslu og notkunar á umhverfið. Evrópulöggjöf á sviði orkuréttar hefur mikil og bein áhrif á íslenskan rétt og nú eru breytingar í farvatninu á því sviði, með „Vetrarpakkanum" svonefnda.

Margir íslenskir lögfræðingar starfa nú þegar á þessu sviði, ýmist alfarið eða að hluta til, og við viljum stuðla að faglegum og félagslegum framförum á þessu sviði og hvetjum félagsmenn Lögfræðingafélags Íslands sem áhuga hafa á þessu réttarsviði að skrá sig í hópinn.

Stefnt er að boða til stofnfundar, verði undirtektir viðunandi, sem yrði haldinn í apríl. Þá er ætlunin að nýta mátt samfélagsmiðla og tölvutækninnar í þágu starfsins. Hugsunin er að hafa þetta frekar óformbundinn áhugahóp, en ef mikil ásókn verður í félagsskapinn má vera að stofnað verði sérstakt formlegt undirfélag Lögfræðingafélagsins eins og þegar hefur verið gert með FLF - félag lögfræðinga í fyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veita Hilmar Gunnlaugsson - hilmar@sokn.is  og Baldur Dýrfjörð -baldur@samorka.is

Áhugahópurinn er opinn öllum félagsmönnum Lögfræðingafélags Íslands sem hafa áhuga á orkumálum en þátttaka kostar ekkert.

Áhugasamir skrái sig hér.

f.h. undirbúningsnefndar

Hilmar Gunnlaugsson lögmaður.

Baldur Dýrfjörð lögfræðingur.

Hafa samband