Frétt

21.11.2017 -

Námsferð til Parísar 2017

Námsferð LÍ til Parísar 21.-26. nóvember 2017:

 

Þjóðþing Frakka

Lagt var af stað til Parísar í bítið þann 21. nóvember. Úr hávaðaroki í Keflavík lentum við í París í blíðskaparveðri, ca 15 stiga hita. Strax fyrsta morguninn var lagt af stað frá hótelinu í til þjóðþings Frakka, Assamblée Nationale. Þingið samanstendur af 577 þingmönnum þar sem flokkur Macron forseta, ,,Áfram Lýðveldið" (La Republique En March) hefur hreinan meirihluta með 308 þingmenn. Samstarfsflokkur Macron á þinginu Lýðræðishreyfingin (Mouvement Démocrate) er með 42 þingmenn og telur meirihlutinn því 350 þingmenn. Alveg með ólíkindum þar sem rúmt ár er síðan Macron stofnaði sinn flokk gagngert til að bjóða fram til þings. Þinghúsið er glæsilegt og íburðarmikið eins og vænta mátti.


Rifjuð var upp sagan um tilurð hugtakanna ,,vinstri og hægri". Eftir byltinguna 1789 skipuðu stuðningsmenn byltingarinnar, hinir róttæku, (party of movement) sér vinstra megin við þingforsetann. Þeir þóttu háværir og til að forðast öskrin og lætin skipuðu stuðningsmenn konungs sér hægra megin við þingforsetann og helst sem lengst frá hinum róttæku, ,,vinstra liðinu". Þetta hafa svo sannarlega verið róstusamir tímar og í fundarherbergi þingforseta átti þingforseti fast sæti við miðju borðs og þess var gætt að hann sæi alltaf hurðina, m.ö.o. sneri aldrei baki við henni líkt og mafíuforingjar í hættulegum heimi. Í einum salnum var skrifborð sem Napoleon Bonaparte sat við þegar hann undirritaði lög og tók á móti hinum ýmsu embættismönnum. Leyfi var gefið til að setja sig í spor Napoleons við borðið og var sérstaklega til þess tekið hve Sigurður Sigurjónsson tók sig vel út sem staðgengill Napóleons.

 

Hæstiréttur
Frá þjóðþinginu var haldið til Hæstaréttar Frakklands, Cour de Cassation, sem er í hluta af Palais de Justice eða dómhúsi Parísar. Eins og Baldvin Björn Haraldsson hdl. kom inn á, í kynningu sinni fyrir ferðina, er Hæstiréttur Frakka margskiptur eftir málefnum. Má þar nefna vinnumarkaðsrétt, tiltekin einkamál og sakamál. Að undanförnu hefur dregið úr vægi munnlegs málflutnings og er næstum alfarið stuðst við greinargerðir lögmanna. Dómarar geta farið fram á frekari skýringar þeirra munnlega, og hafa lögmenn í þeim tilvikum hámark 15 mínútur til að koma að frekari athugasemdum. Sá dómari sem tók á móti okkur sagði þetta fyrirkomulag hafa verið gagnrýnt, m.t.t. þess stutta tíma sem lögmönnum væri gefinn til að skýra frekar sjónarmið skjólstæðinga sinna. Dómsniðurstaða er þannig fengin að hver og einn dómari skilar áliti sínu og síðan greiða dómararnir atkvæði um álitin. Meirihluti atkvæða dómaranna ræður dómsniðurstöðu. Út á við er ekki gefið upp hvort dómararnir hafi verið ósammála heldur er aðeins ein lokaniðurstaða birt, þ.e. álit réttarins. Hæstiréttur Frakklands er til jafns skipaður báðum kynjum. Hins vegar eru konur fjölmennari á landsvísu í dómarastéttinni.

 

Lögmannafélag Parísar
Næsta dag var Lögmannafélag Parísar heimsótt, Ordre des Avocats. Þar vakti helst athygli hin margvíslegu verkefni sem félagið sinnir. Má þar nefna að félagið styrkir lögmenn, einkum unga lögmenn, til að standa straum af hárri húsaleiguí París. Einnig borga lögmenn mishá gjöld til félagsins eftir umfangi rekstrar þeirra. Loks skiptast félagsmenn á að standa símavaktir til að svara fólki í alls kyns vandræðum, ekki aðeins vegna réttaraðstoðar, heldur einnig sem liður í forvörn gegn sjálfsvígum, einhvers konar,,vinalína" Rauða Krossins.

 

Dómhöll Parísar
Í beinu framhaldi var dómhöll Parísar eða Palais de Justice heimsótt. Þarna eru lægri dómstig til húsa ásamt nokkrum áfrýjunardómstólum. Þarna er einnig sem fyrr segir Hæstaréttur Frakklands, Cour de Cassation. Elsti hlutinn er kirkja eða kapella, byggð 1240. Nú er hún nýtt til ýmissa hluta, svo sem tónleikahalds þar sem Björk hefur m.a. troðið upp. Þetta var áður konungshöll Frakka og þinghús Parísar, en snemma á 15. öld yfirgaf konungur byggingarnar og þær urðu vettvangur dómskerfisins.

Hluti Palais de Justice var einnig nýttur sem fangelsi og þar sat Marie Antoinette, eiginkona Loðvíks 16, inni í fjögur ár áður en hún var hálshöggvin árið 1793 í viðurvist tveggja barna sinna. Byltingardómstóll dæmdi hana til dauða í kjölfar frönsku byltingarinnar 1789. En öllu er afmörkuð stund. Sarkosy ákvað í forsetatíð sinni að flytja allt dómskerfið í eina byggingu fyrir utan borgarmörkin. Flutningi skal lokið um mitt næsta ár, eða í mai 2018. Óhætt er að segja að hin nýja bygging sé ólík hinum glæsilegu húsakynnum Palais de Justice. Um er að ræða nýtísku glerhöll (marga ferhyrninga) sem teygja anga sína upp til himins. Sumir eru jákvæðir og nefna að byggingin með öllu sínu gleri hleypi dagsbirtunni inn. Ekki veiti af. Þeir eru hins vegar fleiri sem finna byggingunni allt til foráttu. Hún hefur verið kölluð ,,ófreskja andstæð lögum". Þá hefur verið lagt til að koma arkitektinum, Renzo Piano, bak við lás og slá og koma þannig í veg fyrir að hann teikni fleiri hús.

OECD og sendiherrabústaður
Seinna sama dag voru höfuðstöðvar OECD skoðaðar og hlustað á kynningu á stofnuninni. Að því loknu var haldið í sendiherrabústað Íslands þar sem Kristján Andri Stefánsson sendiherra og Davíð Samúelsson tóku höfðinglega á móti okkur. Loks var sameiginlegur kvöldverður á Le Chalet des Iles sem er á lítilli eyju á litlu vatni í Boulogne skógi. Fínn matur og skemmtilegt kvöld.

 

Strassborg
Næsta dag var farið í lest til Strassborgar þar sem Jon Fridrik Kjølbro dómari frá Danmörku fræddi okkur um starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu en síðan var Evrópuráðið skoðað í fylgd Sonju Ágústsdóttur starfsmanns fastanefndar Íslands. Um kvöldið vorum við viðstödd opnun elsta og stærsta jólamarkaðar Evrópu, en Ísland var sérstakur gestur markaðarins. Kristján Andri sendiherra hélt opnunarávarp og kveikti á jólatré. Þar voru nokkur lítil hús með íslenskum varningi svo sem SS pylsum, lopapeysum og íslenskum bjór.

 

Tígrísdýr í París
Síðasti dagurinn var ,,frídagur" og engin dagskrá. Í morgunmatnum þennan dag fréttist af vef Moggans að tígrisdýr hefði sloppið úr búri frá sirkus í borginni um sexleytið daginn áður. Dýrið fór beint í Metró þar sem uppi varð fótur og fit og það fljótlega vegið. Fólki brá í brún og prísaði sig sælt að hafa verið í Strassborg þegar tígri gekk laus í París. Ónefndur dómstjóri á Akureyri benti mjög ábúðarfullur á að enda þótt Mogginn lygi ekki væri hann ónákvæmur í erlendum fréttum. Staðreyndin væri sú að um tvö tígrisdýr hefði verið að ræða, annað var fellt í Metró en hitt gengi enn laust. Svo sannfærandi var dómstjórinn að sumir höfðu á orði að ekkert vit væri í að fara út fyrr en örlög hins dýrsins væru örugglega ráðin.

Okkur fannst París taka vel á móti okkur. Fólkið alúðlegra en maður á að venjast og allt viðmót hefur breyst. En hryðjuverkin undanfarin misseri hafa valdið hruni í ferðamennskunni. Okkur fannst Frakkarnir mun viljugri að beita enskunni en áður (þrátt fyrir yfirlýsingu Macron forseta um að gera frönsku að alheimstungumáli!). Eftir að stjanað hafði verið við okkur á veitingahúsi, með hitalömpum og öðru, var okkur t.d. sérstaklega þakkað fyrir að hafa valið París sem áfangastað.

Við Ragnhildur þökkum fyrir okkur og notalega samveru. Ferðin var afar ánægjuleg í alla staði og allt eins og best á kosið undir styrkri stjórn Eyrúnar og Jónínu.

Kópavogi, 15. desember 2017

Einar Baldvin Stefánsson

Myndir með frétt

Hafa samband