Frétt

31.05.2017 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 31. maí 2017

1.     Fundargerð aðalfundar 19. maí 2016
Tíu félagsmenn voru mættir til fundarins.

Kristján Andri Stefánsson setti fundinn og gerði tillögu um Benedikt Bogason sem fundarstjóra og Katrínu Smára Ólafsdóttur sem ritara. Var það samþykkt.

Fundarstjóri lýsti fundinn löglega boðaðan og gaf að því búnu formanni orðið.



1.       Skýrsla stjórnar

Formaður flutti skýrslu stjórnar sem þegar hefur verið birt á heimasíðu félagsins. Þar var greint frá starfsemi félagsins á starfsárinu, málþing sem haldin hafa verið og öðrum viðburðum s.s. Lagadeginum, erlendum samskiptum og samstarfi við systurfélög á Norðurlöndunum, námsferð til Víetnam o.fl. Einnig greindi hann frá útgáfustarfsemi félagsins og undirdeildum Lögfræðingafélagsins. Þá var vikið að öðrum málum s.s. lögverndun starfsheitis sem og tillögu til breytinga á lögum félagsins til samræmis við það. Loks kynnti formaður að hann hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. Var honum þakkað kærlega fyrir störf sín í þágu félagsins.

 

2.       Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram

Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri kynnti framlagðan ársreikning og fór yfir helstu lykiltölur reikningsins sem og útskýringar sem honum fylgdu. Fram kom að sem fyrr vægju félagsgjöld þyngst í tekjum félagsins. Þá kynnti Þóra Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga framlagða ársreikninga Tímarits lögfræðinga. Reikningar voru að því búnu bornir undir atkvæði og voru þeir samþykktir samhljóða.

 

3.       Kosning stjórnar og varastjórnar

Tillaga stjórnar um að Jónína Lárusdóttir verði formaður var samþykkt og hún kjörin formaður í stað Kristjáns Andra Stefánssonar sem nú lætur af störfum. Þá var Þóra Hallgrímsdóttir kjörin varaformaður. Stjórn: Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Kolbrún Sævarsdóttir, Katrín Smári Ólafsdóttir og Ólafur Lúther Einarsson.

            Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason,  Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Dögg Pálsdóttir og Kristján Andri Stefánsson.

 

4.       Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.

Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkjörin. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.

 

5.       Tillaga stjórnar um breytingu á lögum félagsins.

Fyrir fundinn lá frammi tillaga stjórnar um breytingu á lögum félagsins sem lýtur að breytingu á skilyrðum fyrir aðild að félaginu. Fundarstjóri greindi frá því að fundarsókn væri ekki nægjanleg til að unnt væri að samþykkja breytinguna skv. lögum félagsins. Af þeim sökum þarf að boða til framhaldsaðalfundar í því skyni og var það ákveðið.

            Fráfarandi formaður gerði að því búnu nánar grein fyrir hinni fram lögðu lagabreytingartillögu. Tillagan var borin upp til samþykktar og greiddu allir fundarmenn henni atkvæði sitt. Hún verður borin upp að nýju á framhaldsaðalfundi sem boðað verður til sérstaklega til atkvæðagreiðslu um tillöguna lögum samkvæmt:

Fleira var ekki rætt.  

Fundi slitið kl. 16:13 og skundað á Hólmsheiði

 

 

2.     Almenn stjórnarstörf starfsárið 2016-2017
Jónína S. Lárusdóttir var kosin formaður á aðalfundi 2016 og Þóra Hallgrímsdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin með sér verkum þannig að gjaldkeri er Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Þóra Hallgrímsdóttir, ritari er Katrín Smári Ólafsdóttir og meðstjórnendur eru þau Páll Þórhallsson, Kolbrún Sævarsdóttir og Ólafur Lúther Einarsson.

Á starfsárinu voru haldnir tíu stjórnarfundir. Þess ber að geta að ekkert varð af því að framhaldsaðalfundur yrði haldinn og er ástæðan fyrst og fremst sú að á hugarflugsfundi haustið 2016 fannst stjórnarmönnum nauðsynlegt að gera þyrfti gagngera endurskoðun á lögum félagsins.

 

3.     Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni[1]
Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00 en framkvæmdastjóri er Eyrún Ingadóttir.

 

Félagsmenn LÍ voru 24. maí 2017 eru 1398 (1323) að tölu og hefur því fjölgað um 5% (7%) frá fyrra ári. Félagar í öldungadeild eru 196 (163) en allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar. Félagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum voru 83 (45). Facebook síða er með 1.074 (823) fylgjendur.

 

Áskrifendur að Tímariti lögfræðinga sem samtals eru 456 (477) en þar af eru  269 (277) félagsmenn í LÍ. Þrátt fyrir að áskrifendum að prentaðri útgáfu hafi fækkað talsvert er ekki svo í reynd því boðið er upp á ýmsar rafrænar áskriftarleiðir sem sífellt eru að verða vinsælli.

 

Alls 32 (8) eru með áskrift í gegnum vefinn FonsJuris. 67 (72) eru áskrifendur að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun.

44 (50) eru með einstaklingsáskrift
10 (9) með áskrift fyrir 2-5 lögfræðinga stofu/stofnun.
13 (13) með áskrift fyrir fleiri en 6 lögfræðinga.Þess má geta að stofnanir og fyrirtæki sem eru með mjög marga lesendur, s.s. Alþingi, Seðlabankinn, Háskólinn í Reykjavík og Arion banki greiða hærri upphæð fyrir áskrift.
 

4.     Fundir, heimsóknir og ferðir
Á starfsárinu voru haldnir sex málfundir, þar af tveir í samstarfi við FLF og fjórir í samstarfi við Tímarit lögfræðinga. Farið var í þrjár heimsóknir, boðið upp á tvær ferðir og lagadagur var haldinn í samstarfi við LMFÍ og DÍ. Alls sóttu 188 fundina og 136 heimsóknirnar. 486 tóku þátt í dagskrá Lagadagsins 2017 og 330 voru um kvöldið.

 

4.1      Málfundir
Átt þú ólesna grein í Tímariti lögfræðinga?

Fjórir fundir voru haldnir í tengslum við útgáfu TL en þar gerður höfundar stutta grein fyrir efni rannsókna sinna. Fundirnir voru haldnir á morgnana, fyrir vinnu, í húsnæði LMFÍ og boðið upp á morgunverð. Á bilinu 12-20 manns mætti á fundina sem þótti skemmtileg nýjung í starfsemi félagsins.

 

Hádegisverðarfundur um rafræn viðskipti og sönnun var haldinn 3. Nóvember 2016 með FLF - félagi lögfræðinga í fyrirtækjum.  Ásgeir Helgi Jóhannsson hdl., deildarstjóri lögfræðiþjónustu fyrir viðskiptabankastarfsemi Landsbankans, fjallaði um möguleika í rafvæðingu ferla og skjalagerðar hjá fjármálafyrirtækjum og opinberum aðilum sem og um notkun rafrænna samninga og undirskrifta í viðskiptum. Að loknu erindi var Hörður Helgi Helgason hdl. hjá Landslögum með innlegg en fundarstjóri var Birna Hlín Káradóttir hdl., yfirlögfræðingur hjá Fossum mörkuðum hf., og stjórnarmaður í FLF. Alls sátu 73 fundinn.

 

Þá stóð LÍ ásamt FLF fyrir hádegisverðarfundi 20. janúar 2017 um ábyrgar fjárfestingar - samfélagsábyrgð. Eva Margrét Ævarsdóttir hdl. á lögfræðisviði Arion banka hélt fyrirlestur og Árni Sigurjónsson yfirlögfræðingur hjá Marel var fundarstjóri. 51 sat fundinn.

 

4.2      Heimsóknir
Á vormisseri var haldið áfram að bjóða félagsmönnum að heimsækja fyrirtæki og stofnanir.

 

Embætti héraðssaksóknara var heimsótt 1. desember 2016 og flutti Ólafur Þ. Hauksson héraðssaksóknari erindi um embættið. 20 félagsmenn tóku  þátt í henni.

 

Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands var heimsóttur á Bessastaði 2. janúar 2017 og ræddi við gesti um hlutverk þjóðhöfðingja í íslenskri stjórnskipan. Alls tóku 86 félagar þátt í heimsókninni.

 

Ráðhús Reykjavíkur var heimsótt 23. Mars 2017 og fengu félagar kynningu á störfum lögfræðinga sem þar starfa. Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður tók á móti félögum LÍ ásamt Helgu Björk Laxdal skrifstofustjóra borgarstjórnar og Stefán Eiríkssyni borgarritara. Alls 30 félagar tóku þátt í heimsókninni.

 

4.3 Ferðir
Haustið 2016 var boðið upp á tvær ferðir í samstarfi við félagsdeild LMFÍ; annars vegar á Þingvelli og hins vegar í gönguferð í Þórsmörk. Báðar þessar ferðir féllu niður vegna lítillar aðsóknar.

 

Byrjað var að skipuleggja ferð norður í Húnavatnssýslu á slóðir síðustu aftökunnar og „endurupptöku" máls sem fara á laugardaginn 9. september 2017. Öflugt lið lögfræðinga hefur samþykkt að taka þátt en dómarar verða þau Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við MDE, Ingibjörg Benediktsdóttir fv. hæstaréttardómari og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari. Saksóknari verður Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og verjendur Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. hjá ríkislögmanni og Gestur Jónsson hrl. hjá Mörkinni lögmannsstofu. Gríðarlegur áhugi er á ferðinni og verið að reyna fá rútur frá svæðinu svo sem flestir geti komið með. Þá er áhugi fyrir því að taka „réttarhöldin" upp og gera heimildarmynd.

 

Þá var hafinn undirbúningur að námsferð félagsins til Parísar sem farin verður 21.-26. nóvember 2017. Um 50 manns hafa þegar skráð sig í ferðina.

 

Námsferð

Síðustu námsferðir LÍ hafa verið farnar til fjarlægra heimshluta og hafa staðið allt upp í hálfan mánuð. Ákveðið var að breyta til að þessu sinni og fara styttri ferð og þar með ódýrari. París varð fyrir valinu og er búið að auglýsa námsferð þangað 21.-26. nóvember 2017. 55 þátttakendur hafa þegar skráð sig. Við búum svo vel að Kristján Andri Stefánsson, fv. formaður LÍ, er sendiherra og við stefnum að því að opna dyr sem annars eru lokaðar venjulegum ferðamönnum.

  
4.4      Lagadagurinn
 

Lagadagurinn, sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í tíunda sinn föstudaginn 5. maí 2017 í Hörpunni.

Að þessu sinni var boðið upp á þrjár málstofur fyrir og eftir hádegi en í stað aðalmálstofu með hádegismatnum var lagt upp úr því að menn gætu hist yfir hádegisverði.

 

Málstofur og rökstólar

1. Rafrænt réttarkerfi

2. Upplýsingalöggjöfin - frá hverju verða stjórnvöld að segja og um hvað verða þau að þegja?

3. Sjálfstæði lögmannastéttar

4. Af vettvangi dómstólanna

5. Ábyrgð stjórnarmanna og starfsmanna fyrirtækja

6. Örmálstofur

            I. Geta landaheiti verið vörumerki?

            II. Verndun verkþekkingar í hugverka- og vinnurétti

            III. Skipting ellilífeyrisréttinda

            IV. Hrelliklám

Alls tóku 486 þátt í dagskrá Lagadagsins að þessu sinni; þar af 285 í dagskránni bæði fyrir og eftir hádegi og 201 annað hvort fyrir eða eftir hádegi.

 

Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik.Veislustjórar voru Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir lögfræðingur og aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra og Árni Helgason hdl. á Cato. Jón Jónsson skemmti gestum yfir borðhaldi en síðan spilaði Rokkabillýbandið undir söng hjá Helga Björns, Ágústu Evu og Eyþóri Inga. Alls voru 330 þátttakendur.

 

Þá tóku 32 þátt í málstofum sem framsögumenn, stjórnendur eða í þátttakendur pallborðsumræðum. Í lagadagsnefnd voru stjórnarmennirnir Ólafur Þór Hauksson og Ólafur Lúther Einarsson fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.

 

 

 

5.     Útgáfustarfsemi
 

Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupósta þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu u.þ.b. tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 1076 (839) manns „líkar" síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked-In.

 

 

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári.Hafsteinn Þór Hauksson er ritstjóri. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á http://www.timarit.is/ en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins http://www.logfraedingafelag.is/. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn http://www.fonsjuris.is/ en samningur TL við FJ var nýverið endurnýjaður til næstu þriggja ára.

 

6.     Erlend samskipti
 

Norræn systurfélög
Framkvæmdastjóri fer árlega á fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var að þessu sinni haldinn í Svíþjóð.

Samstarf félaganna hefur m.a. leitt af sér að félögin veita félagsmönnum sínum aukaaðild í eitt ár eftir að félagsmaður flytur á milli landa á Norðurlöndum. Samstarfið nefnist Free membership agreement og var kynnt á haustmánuðum 2016.

 

7.     Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
 

6.1      Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og vor- og haustferðum út á land.

Starfsárið 2016-2017 var Ellert B. Schram formaður en auk hans í stjórn voru þau Brynjólfur Kjartansson og Elín Norðdahl. Aðalfundur var haldinn 17. maí sl. og Logi Guðbrandsson í stjórn í stað Elínar. Að öðru leyti er vísað í skýrslu stjórnar öldungadeildar um starfsemi deildarinnar á starfsárinu sem er á heimasíðu LÍ.

 

6.2      FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Þann 30. maí sl. hélt FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum sinn fyrsta aðalfund. Formaður félagsins er Árni Sigurjónsson, hdl., hjá Marel, en auk hans í stjórn eru þau Arna Grímsdóttir lögfræðingur Reita,  Birna Hlín Káradóttir lögfræðingur Fossa, Guðríður Svana Bjarnadóttir hdl. hjá Advania og Ólafur Lúther Einarsson hdl. hjá VÍS.Varamenn í stjórn eru Íris Arna Jóhannsdóttir hdl. hjá Virðingu og Tómas Eiríksson hdl. hjá Össuri. Stjórnin var kosin til tveggja ára svo ekki var kosið að þessu sinni.

Auk þess að halda tvo hádegisfundi með LÍ, sem getið er um í skýrslunni, hélt félagið einn fund 30. maí sl. um markaðssvik - áhrif nýrrar reglugerðar ESB um markaðssvik (MAR) á íslenska verðbréfaviðskiptalöggjöf. Alls mættu 62 á þann fund en alls eru 83 skráðir í FLF.  Þá sóttu fimm félagsmenn ársfund Association of Corporate Counsel Europe sem haldinn var í Róm í maí 2016 og Formanni var boðið að sækja ársfund ECLA (European Company Lawyers Association) sem fram fór í Róm í mars sl. en vegna anna gat ekki orðið af því. Boð liggur þegar fyrir varðandi næsta fund sem verður haldinn með haustinu. ECLA hefur sýnt því mikinn áhuga að fá FLF inn sem meðlim í samtökin og verður það skoðað vandlega. Þá hafa skandinavískir meðlimir ECLA boðið fulltrúum FLF að taka þátt í starfi þeirra, en fyrirhugaður er fundur í Noregi á haustmánuðum.

FLF átti fulltrúa í undirbúningsnefnd Lagadags 2017 og hefur Lögfræðingafélagið tekið félagsskapnum opnum örmum, sem er þakkarvert. Nokkrir viðburðir hafa þegar verið planaðir fyrir næsta starfsár, s.s. fyrirtækjaheimsóknir, og mikil plön um frekari eflingu starfsins.

 

8.     Annað
 

8.1 Hugarflugsfundur
Stjórn var með stefnumótunarfund laugardaginn 3. september 2016. Þar var ímynd félagsins rædd og hlutverk ásamt því að ákveðið var að vinna að því að breyta lögum þess meira en gert var á aðalfundi.

Stjórn ákvað ennfremur að setja sér það takmark að félagsmenn yrðu 1500 haustið 2017 (voru 1323) og reyna að markaðssetja félagið með því að útbúa auglýsingu: „hvað færðu fyrir 5000 kallinn". Auglýsingin var gerð og hefur gefist vel en markmið um fjölda voru heldur háleit.

Fram kom á fundinum að innan félagsins væru 500 lögmenn, 160 öldungar, 60 fyrirtækjalögfræðingar og velt upp hvort tækifæri væri til að sinna fleiri hópum lögfræðinga, með sama hætti og öldungadeild og nýstofnað FLF.

Þá var rætt um að bjóða laganemum með BA/BS gráðu á fund þar sem lögfræðingar úr ýmsum greinum myndu kynna störf sín, s.s. lögfræðingar innan banka, fyrirtækja, lögmennsku, háskólaumhverfis, dómkerfis eða hjá ríki og sveitarfélögum. Ekkert varð af þessari góðu hugmynd en það stendur til bóta á nýju starfsári. Ennfremur var velt upp þeirri hugmynd að laganema skólanna fjögurra myndu vera í sérstakri deild LÍ en breyting á lögum, sem ekki var lokið á starfsárinu, er grundvöllur fyrir slíku.

 

8.2      Lögverndun starfsheitis
Á vettvangi stjórnar var einhugur um að vinna að lögverndun fyrir starfsheitið lögfræðingur þannig að einungis þeir hefðu rétt á að kalla sig lögfræðing sem lokið hefðu bæði grunn- og framhaldsgráðu í lögfræði frá háskóla, sem hlotið hefði viðurkenningu ráðherra til að starfa hér á landi og veita háskólamenntun á sviði lögfræði. Vegna stjórnarskipta var ákveðið að hinkra með að senda bréfið og meta stöðuna.

 

 

8.3 Samruni við félagsdeild LMFÍ eða nánara samstarf?
Stjórn Lögfræðingafélagsins telur að þeir kraftar sem fara í að sinna fræðslu- og félagsmálum lögfræðinga á Íslandi séu of dreifðir. Þannig geti það stuðlað að bættum árangri að efna til nánara samstarfs Lögfræðingafélagsins við félagsdeild Lögmannafélagsins.  Til þess að opna þessa umræðu hittust formenn félaganna tveggja á fundi í maímánuði.  Félagið bíður nú viðbragða frá Lögmannafélaginu.

Jónína S. Lárusdóttir formaður


[1]Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Hafa samband