Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 19. maí 2016
1. Fundargerð aðalfundar 2015
Fundargerð aðalfundar Lögfræðingafélags Íslands, 26. maí 2015, að Álftamýri 9, Reykjavík
Tíu félagsmenn voru mættir til fundarins.
Kristján Andri Stefánsson setti fundinn og gerði tillögu um Hörð Einarsson sem fundarstjóra og Katrínu Smára Ólafsdóttur sem ritara. Var það samþykkt.
•1. Skýrsla stjórnar
Kristján Andri flutti skýrslu stjórnar þar sem greint var frá starfsemi félagsins á starfsárinu, málþingum og öðrum viðburðum og nýmælum sem tekin voru upp. Fundarstjóri lýsti fundinn löglega boðaðan og gaf að því búnu gjaldkera orðið.
•2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélags Íslands og Tímarits lögfræðinga lagðir fram
Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri kynnti framlagðan ársreikning og fór yfir helstu lykiltölur reikningsins sem og útskýringar sem honum fylgdu. Fram kom m.a. að ásamt því að félagsgjöld vægju sem fyrr þyngst í tekjum félagsins væri það athugunarefni hversu afkoma félagsins ætti mikið undir afkomu Lagadagsins. Þá kynnti Þóra Hallgrímsdóttir kynnti ársreikninga Tímarits lögfræðinga. Reikningar voru þá bornir undir atkvæði og voru þeir samþykktir samhljóða.
•3. Kosning stjórnar og varastjórnar
Kristján Andri Stefánsson var endurkjörinn formaður og Jónína Lárusdóttir varaformaður. Stjórn: Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Kolbrún Sævarsdóttir, Þóra Hallgrímsdóttir og Katrín Smári Ólafsdóttir.
Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Dögg Pálsdóttir og Þór Vilhjálmsson.
•4. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkjörin. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.
Fundarstjóri gaf nýkjörnum formanni orðið.
•5. Önnur mál
Gjaldkeri lagði fram tillögu um hækkun árgjalds Lögfræðingafélags Íslands í 5100 kr. Tillagan var rædd og að því búnu borin undir atkvæði. Núverandi fjárhæð árgjalds er 4300 kr. Tillagan var einróma samþykkt með öllum greiddum atkvæðum fundarmanna.
Að loknum aðalfundarstörfum kynnti Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri LÍ helstu niðurstöður könnunar sem framkvæmd var nýverið af hálfu félagsins meðal lögfræðinga sem útskrifuðust með mastersgráðu frá lagadeildum háskólanna fjögurra á árinu 2014 og höfðu áður lokið BA/BS gráðu í lögfræði. Formaður þakkaði framkvæmdastjóra sérstaklega fyrir framsöguna og vinnu við framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar.
Fleira var ekki rætt. Fundi slitið kl. 18:50.
•2. Almenn stjórnarstörf starfsárið 2015-2016
Kristján Andri Stefánsson var kosinn formaður á aðalfundi 2015 og Jónína S. Lárusdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin að öðru leyti með sér verkum þannig að gjaldkeri er Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Þóra Hallgrímsdóttir, ritari er Katrín Smári Ólafsdóttir og meðstjórnendur eru þau Páll Þórhallsson og Kolbrún Sævarsdóttir.
Á starfsárinu voru haldnir sjö stjórnarfundir.
Haldið var áfram að vinna með þau þrjú leiðarljós sem mörkuð voru á stefnumótunarfundi haustið 2014.
1) Að starfsemi félagsins verði með þeim hætti að lögfræðingar telji áhugvert og eftirsóknarvert að vera í því.
2) Að auka sýnileika félagsins meðal lögfræðinga og huga að leiðum til að gera starfsemina meira áberandi.
3) Að huga að efnahagslegum hvötum til að ganga í félagið (s.s. með afsláttum o.þ.h.)
Þessi vinna hefur borið góðan ávöxt en félagsmönnum hefur haldið áfram að fjölga milli ára. Nýir félagsmenn, á starfsárinu sem er að líða, eru um 100 talsins. Nýstofnuð er undirdeild: FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum sem mun starfa innan vébanda Lögfræðingafélagsins og njóta þjónustu þess með svipuðum hætti og öldungadeildin. Allir félagsmenn í FLF eru jafnframt félagar í Lögfræðingafélaginu.
Þá eru einnig uppi hugmyndir um að breyta lögum félagsins á þann hátt að lögfræðingar með BA/BS gráðu verði með aukaaðild að félaginu án greiðslu félagsgjalda og félagið sinni laganemum á síðari stigum náms með markvissari hætti.
•3. Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni[1]
Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00 en framkvæmdastjóri er Eyrún Ingadóttir.
Félagsmenn LÍ voru 22. maí 2016 eru 1323 (1226) að tölu og hefur því fjölgað um 7% (7%) frá fyrra ári. Félagar í öldungadeild eru 163 (132) en allir sem verða 65 ára á árinu verða sjálfkrafa félagar. Stofnfélagar í FLF - Félagi lögfræðinga í fyrirtækjum í lok apríl voru 45. Facebook síða er með 823 (616) fylgjendur 1. maí 2016.
Áskrifendur að Tímariti lögfræðinga sem samtals eru 477 (508) en þar af eru 277 (300) félagsmenn í LÍ. Þrátt fyrir að áskrifendum að prentaðri útgáfu hafi fækkað talsvert er ekki svo í reynd því boðið er upp á ýmsar rafrænar áskriftarleiðir sem sífellt eru að verða vinsælli.
Alls 8 (0) eru með áskrift í gegnum vefinn FonsJuris sem er ekki í gegnum okkar vefverslun.
Hins vegar eru 72 (58) áskrifendur að rafrænni útgáfu TL í gegnum vefverslun en áskriftarverð fer eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun.
50 (39) eru með einstaklingsáskrift
9 (8) með áskrift fyrir 2-5 lögfræðinga stofu/stofnun.
13 (11) með áskrift fyrir fleiri en 6 lögfræðinga. Þess má geta að stofnanir og fyrirtæki sem eru með mjög marga lesendur, s.s. Alþingi, Seðlabankinn, Háskólinn í Reykjavík og Arion banki greiða hærri upphæð fyrir áskrift.
•4. Fundir og málþing
Á starfsárinu voru haldnir sex málfundir, þar af einn í samstarfi við utanríkisráðuneytið og þrír í samstarfi við Lagastofnun Háskóla Íslands. Þá var farið í þrjár heimsóknir til stofnana og fyrirtækja og lagadagur og jólahádegisverður voru haldnir í samstarfi við LMFÍ og DÍ. Allir málfundirnir voru haldnir í hádeginu. Þá sóttu samtals um 370 manns, um 120 manns tóku þátt í heimsóknum, í heildina komu 672 á lagadaginn 2016 og 70 á jólahlaðborð. Hér verður nánar getið um fundi ársins.
4.1 Málfundir
Flóttamenn í Evrópu og Schengen var umfjöllunarefni fundar sem LÍ efndi til þriðjudaginn 10. nóvember 2015. Tilefni fundarins var hinn mikli fjöldi flóttamanna sem komið hafa til Evrópu síðustu ár, áhrif þess á samvinnu Evrópuþjóða og á Schengen-samstarfið. Framsögumaður var Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu og doktorsnemi í lögfræði, og Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins. Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari og stjórnarmaður í LÍ, var fundarstjóri. Alls mættu 25 manns á fundinn.
Dómur um markaðsmisnotkun var yfirskrift hádegisverðarfundar sem haldinn var 1. mars 2016 og fjallaði um dóm Hæstaréttar í máli nr. 842/2014. Þar voru fjórir fyrrum starfsmenn Landsbankans sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í bankanum á ellefu mánaða tímabili í aðdraganda að falli bankans. Björn Þorvaldsson saksóknari, í forföllum Arnþrúðar Þórarinsdóttur, og Helga Melkorka Óttarsdóttir, hrl. hjá LOGOS, ræddu dóminn en fundarstjóri var Þóra Hallgrímsdóttir, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík og stjórnarmaður í LÍ. Um 90 manns mættu á fundinn sem var hinn fjörlegasti.
Óformlegur umræðufundur undir yfirskriftinni Hver eru áhrif EFTA-dómstólsins á þróun EES-samstarfsins? var haldinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið í Safnahúsinu við Hverfisgötu mánudaginn 14. mars 2016. Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, var framsögumaður en Skúli Magnússon héraðsdómari og fv. dómritari við EFTA-dómstólinn stýrði umræðunni. Fundurinn var sóttur af um 90 manns og hlaut verðskuldaða athygli í fjölmiðlum, þ. á m. Kastljósi.
4.2 Stjórnarskrárfundir
Um miðjan febrúar birti stjórnarskrárnefnd tillögur um breytingar á stjórnarskrá og stóð LÍ fyrir þremur málfundum um þær í samstarfi við Lagastofnun Háskóla Íslands. Fundirnir voru teknir upp og hljóðskrár sem settar voru á heimasíðu félagsins.
Hinn 24. febrúar var fyrsti málfundurinn haldinn í hátíðarsal Háskóla Íslands sem bar yfirskriftina: Tillögur um ný stjórnarskrárákvæði. Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og formaður stjórnarskrárnefndar, kynnti tillögurnar og að því loknu tóku við pallborðsumræður þar sem þátttakendur auk Páls voru Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar HR, og Skúli Magnússon, héraðsdómari, dósent við lagadeild HÍ og formaður Dómarafélags Íslands. Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild HÍ, var fundarstjóri en á annað hundrað manns sótti fundinn.
Hinn 9. mars var haldinn málfundur undir yfirskriftinni: Tillögur stjórnarskrárnefndar um vernd náttúru og umhverfis og náttúruauðlindir. Framsöguerindi héldu þau dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við lagadeild HÍ, sem fjallaði um ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd, og Helgi Áss Grétarsson, dósent við lagadeild HÍ, fjallaði um ákvæði um náttúruauðlindir. María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar HÍ, var fundarstjóri en um 40 manns mættu á fundinn.
Hinn 16. mars var haldinn málfundur undir yfirskriftinni: Tillögur stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslur og virka þátttöku almennings. Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild HÍ, flutti framsögu en í pallborði voru Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst og fv. fulltrúi í Stjórnlagaráði, og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar og fv. formaður Stjórnlagaráðs. Kristján Andri Stefánsson, skrifstofustjóri lagaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og formaður LÍ, var fundarstjóri en um 40 manns mættu á fundinn.
4.3 Heimsóknir
Á vormisseri var fram haldið nýbreytni í starfsemi félagsins sem fólgin er í að bjóða félagsmönnum að heimsækja fyrirtæki og stofnanir sem eru starfsvettvangur lögfræðinga. Á vormisseri voru Héraðsdómur Reykjavíkur og Arion banki heimsótt, en einnig var boðið upp á heimsóknir í tvö fangelsi í tilefni þess að annað þeirra, Hegningarhúsið á Skólavörðustíg, er að loka og hitt, nýja fangelsið á Hólmsheiði, er að opna.
Heimsókn í Héraðsdóm Reykjavíkur var 14. janúar en þar tók Skúli Magnússon, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands, á móti hópnum, leiddi um húsakynni og sagði frá starfsemi dómsins. 28 þátttakendur sóttu viðburðinn en boðið var upp á léttar veitingar í lokin.
Heimsókn í Arion banka var 3. mars og þar tók Jónína S. Lárusdóttir, frkvstj. Lögfræðisviðs og varaformaður LÍ, á móti hópnum, kynnti bankann og starf lögfræðinga innan hans. Þóra Hallgrímsdóttir, stjórnarmaður í Arion banka og LÍ, sagði nokkur orð um hlutverk lögfræðinga í stjórnum. Í lokin leiddi Íris Stefánsdóttir listráðunautur gesti um bankann og sagði frá þeim listaverkum sem þar eru. Boðið var upp á léttar veitingar og nutu þessa 40 þátttakendur.
Heimsókn í nýja fangelsið á Hólmsheiði er fyrirhuguð sama dag og aðalfundur LÍ er haldinn, 19. maí. Þar mun Páll Winkel fangelsismálastjóri taka á móti hópnum en um 30 manns hafa skráð sig á viðburðinn.
Hegningarhúsið á Skólavörðustíg verður skoðað viku síðar, eða 26. maí og verða væntanlega tveir hópar til að allir komist að.
4.4 Sameiginlegir viðburðir með LMFÍ og DÍ: Lagadagur og jólahlaðborð
Lagadagurinn, sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í níunda sinn föstudaginn 15. apríl 2016 á Hilton Nordica. Að þessu sinni var boðið upp á tvær málstofur og rökstóla fyrir hádegi og fjórar eftir hádegi en aðalmálstofa í hádeginu fjallaði að þessu sinni um gildi úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir íslenskum dómstólum undir yfirskriftinni: Hver á síðasta orðið? Framsögumaður var Guido Raimondi, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu en þátttakendur í pallborði voru Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við lagadeild HÍ, Davíð Þór Björgvinsson prófessor og fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ. Fundarstjóri var Ragnhildur Helgadóttir prófessor, deildarforseti lagadeildar HR.
Málstofur og rökstólar fyrir hádegi:
I. Persónuvernd á tímum tæknibyltingar - Breytingar á skyldum og ábyrgð fyrirtækja
II. Bankahrunsdómarnir - Stóðst réttarríkið prófið?
Málstofur og rökstólar eftir hádegi:
III. Eftirlitshlutverk stjórnvalda
IV. Er breytinga þörf á skaðabótalögum?
V. EES samningurinn - Hreyfiafl breytinga?
VI. Örmálstofa þar sem umfjöllunarefni voru: 1. Uppreist æru 2. Sálfræðiskýrslur og sönnunarmat 3. Meðferð mála hælisleitenda 4. Rétturinn til að gleymast.[2]
Með því að hafa hluta af málstofunum fyrir hádegi að þessu sinni gafst þátttakendum kostur á því að taka þátt í fleiri viðburðum en helmingur þeirra nýtti sér það. 341 tók þátt í fundum fyrir hádegi, 500 voru í aðalmálstofu í hádegi og 432 voru á málstofum eftir hádegi.
Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Veislustjórar voru hjónin Arnfríður Einarsdóttir, héraðsdómari, og Brynjar Níelsson, alþingismaður. Karlakórinn Esja tók nokkur lög og sömuleiðis Róbert Spanó, dómari við MDE. Hljómsveitin Amabadama spilaði í eina klukkustund og svo tók Andrea Jónsdóttir við og þeytti skífur inn í nóttina. Alls voru 475 þátttakendur um kvöldið sem er met.
Alls tóku 672 þátt í lagadeginum með einum eða öðrum hætti. Aldrei hefur fjöldinn verið eins mikill og þetta sýnir hversu vel lagadagurinn hefur fest sig í sessi. Þá tóku 35 þátt í málstofum sem framsögumenn, stjórnendur eða í þátttakendur pallborðsumræðum. Í lagadagsnefnd voru stjórnarmennirnir Ólafur Þór Hauksson og Kolbrún Sævarsdóttir fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.
Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 4. desember 2015. Um 100 manns sóttu viðburðinn sem er svipað og síðustu ár. Ari Eldjárn skemmtikraftur fór með gamanmál.
•5. Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupóst þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu u.þ.b. tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og Facebook síðu. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 839 (570) manns „líkar" síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett inn. Einnig er félagið skráð á Linked in.
Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Hafsteinn Þór Hauksson er ritstjóri. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á http://www.timarit.is/ en aðrir árgangar fást keyptir á skrifstofu eða í vefverslun á heimasíðu félagsins http://www.logfraedingafelag.is/. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn http://www.fonsjuris.is/.
•6. Erlend samskipti
6.1 Norræn systurfélög
Framkvæmdastjóri fer árlega á fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var að þessu sinni skipulagður af framkvæmdastjóra og haldinn á Íslandi í ágúst. Farið var með 30 fundarmenn á Húsafell þar sem rætt um hvaða aðferðum félögin beita til að fá fleiri félagsmenn og hvernig félögin geta notað fjölmiðla og netið til að gera sig sýnileg.
Samstarf félaganna er um það bil að taka á sig nýja mynd þar sem félögin veita félögum hvers annars margs konar aðstoð og aukaaðild í eitt ár eftir að félagsmaður flytur á milli landa á Norðurlöndum. Samstarfið nefnist Free membership agreement og verður væntanlega kynnt á haustmánuðum 2016. LÍ er með samkomulag við JUSEK í Svíþjóð og er um það bil að fara skrifa undir samstarfssamning við DJÖF í Danmörku.
6.2 Námsferð til Víetnam
Einn af föstu liðunum í starfsemi Lögfræðingafélags Íslands eru námsferðir sem efnt er til annað hvert ár. Á haustmánuðum 2016 var farið til Víetnam og Kambódíu í tveggja vikna ferð en alls 49 tóku þátt í henni. Í ferðanefnd voru Kristján Andri Stefánsson, skrifstofustjóri lagaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og formaður LÍ, Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari og stjórnarmaður í LÍ, og Benedikt Bogason, hæstaréttardómari. Fagleg dagskrá var fólgin í heimsókn á lögmannsstofu í Hanoi og heimsókn til Lögmannafélags Hanoi, en hluti hópsins fundaði einnig með Lögfræðingafélagi Ho Chi Minh og formaður fundaði með aðstoðarutanríkisráðherra Víetnam ásamt fulltrúm hópsins. Að öðru leyti er vísað í frásögn á heimasíðu Lögfræðingafélags Íslands.
•7. Undirdeildir Lögfræðingafélags Íslands
7.1 Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands
Að jafnaði hittist öldungadeild LÍ einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og vor- og haustferðum út á land.
Starfsárið 2015-2016 var Hörður Einarsson hrl. formaður en auk hans í stjórn voru þau Brynjólfur Kjartansson og Elín Norðdahl. Aðalfundur var haldinn 27. apríl síðastliðinn og Ellert B. Schram kosinn í stjórnina í stað Harðar. Að öðru leyti er vísað í skýrslu stjórnar öldungadeildar um starfsemi deildarinnar á starfsárinu sem er á heimasíðu LÍ.
7.2 FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum
Þann 27. apríl sl. var FLF - Félag lögfræðinga í fyrirtækjum stofnað sem undirdeild í LÍ. Forystumaður félagsins er Árni Sigurjónsson, hdl., hjá Marel, en auk hans í stjórn hins nýja félags eru þau Arna Grímsdóttir lögfræðingur Reita, Birna Hlín Káradóttir lögfræðingur Fossa, Guðríður Svana Bjarnadóttir hdl. hjá Advania og Ólafur Lúther Einarsson hdl. hjá VÍS. Varamenn í stjórn eru Íris Arna Jóhannsdóttir hdl. hjá Virðingu og Tómas Eiríksson hdl. hjá Össuri.
•8. Annað
8.1 Lögverndun starfsheitis
Á lagadaginn 2015 var haldin opin málstofa um þá spurningu hvort þörf væri á að leita eftir lögverndun á starfsheiti lögfræðinga. Um 200 manns sóttu fundinn. Stjórn félagsins þótti þátttaka í fundinum og undirtektir þar gefa skýr skilaboð um að almennur áhugi væri á því meðal félagsmanna að fylgja málinu eftir.
Á vettvangi stjórnar var einhugur um að skýr neytendaverndarsjónarmið væru fyrir því að leita eftir lögverndun fyrir starfsheitið lögfræðingur þannig að einungis þeir hefðu rétt á að kalla sig lögfræðing sem lokið hefðu bæði grunn- og framhaldsgráðu í lögfræði frá háskóla, sem hlotið hefði viðurkenningu ráðherra til að starfa hér á landi og veita háskólamenntun á sviði lögfræði.
Stjórn félagsins var jafnframt einhuga um að leita eftir samstarfi við LMFÍ og DÍ um að standa saman að baki þeirri málaleitan við stjórnvöld að beita sér fyrir lögverndun starfsheitis lögfræðinga. Formanni var því falið að taka málið upp við formenn hinna félaganna á framangreindum grundvelli og hefur samráð við þá þegar farið fram. Af hálfu félaganna liggur næst fyrir að draga upp erindi til innanríkisráðherra í þessu skyni.
Jafnframt hefur stjórn Lögfræðingafélagsins ákveðið að leggja til á næsta aðalfundi að ákvæði um aðildarhæfi félagsmanna verði færð til samræmis við þessa málaleitan. Um leið verði tekið upp ákvæði um aukaaðild þeirra sem einungis hafa lokið annaðhvort grunn- eða framhaldsnámi í lögfræði með það fyrir augum að bjóða þeim þátttöku í starfsemi félagsins á ákveðnum vildarkjörum þar til skilyrði fyrir fullri aðild er náð.
8.2 Tilnefning LÍ í dómnefnd
Innanríkisráðuneytið leitaði á þessu misseri eftir viðhorfi stjórnar Lögfræðingafélagsins til þess að félagið tilnefndi fulltrúa í nefnd sem falið er að meta hæfi og hæfni dómaraefna skv. breytingum á lögum um dómstóla. Stjórn félagsins fjallaði um málið og taldi það fara vel saman við hlutverk félagsins. Í samræmi við það var veitt jákvæð umsögn um áform ráðuneytisins eins og þau birtust í frumvarpsdrögum sem erindinu fylgdi.
Áform um þetta gengu hins vegar ekki eftir í því frumvarpi sem innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi.
•9. Lokaorð
Stjórn félagsins hefur á starfsárinu verið meðvituð um að átaks er þörf til að örva nýliðun í félaginu og að mikilvægt er að nýta öll tækifæri í því skyni. Liður í því er að halda starfsemi félagsins í því horfi að hún skipti félagana máli og þeir láti sig varða þá viðburði sem stjórnin setur á dagskrá. Almennt bendir þátttaka í þeim til að stjórnin sé vel með á nótunum. Samstarf við aðra aðila hefur einnig gefið góða raun og tryggir oft betri kynningu á fundum en annars væri kostur á. Dæmi um það er samstarf við Lagastofnun um fundaröð um tillögur stjórnarskrárnefndar og við utanríkisráðuneytið um umræðufund um EES-samstarfið.
Stjórn félagsins hefur einnig virkjað samfélagsmiðlana í sína þágu og á sér nú vel á eitt þúsund fylgjendur á Facebook. Mikilvægt er að halda áfram að þróa þann vettvang og heimasíðuna til að miðla upplýsingum um starfsemi félagsins til félagsmanna og væntanlegra félagsmanna.
Þá hefur stjórnin markað þá stefnu að gera aðild að félaginu efnahagslega áhugaverða þegar kemur að vinsælum viðburðum, s.s. lagadeginum. Hefur það þegar skilað góðum árangri.
Loks er það fagnaðarefni að nýstofnað Félag fyrirtækjalögfræðinga hefur kosið að fylkja sér undir merki Lögfræðingafélagsins.
Kristján Andri Stefánsson formaður
[1] Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.
[2] Nánar er hægt að lesa um Lagadaginn í Lögmannablaðinu 2.tbl. 2016 sem kemur út í júní.