Frétt

15.11.2015 -

Námsferð LÍ til Víetnam og Kambódíu 2015


Víetnam

Námsferð Lögfræðingafélagsins  2015

Annað hvert ár fer Lögfræðingafélag Íslands í námsferðir erlendis. Fyrsta ferðin var farin til Washington árið 1997 og hefur félagið farið víða síðan þá; til Kúbu, Suður-Afríku, Argentínu og Indlands svo nokkur lönd séu nefnd. Sunnudaginn 15. nóvember 2015 lögðu 49 lögfræðingar og makar af stað í námsferð áleiðis til Víetnam í tíu daga ferð og bauðst þeim sem vildu að fara einnig til Kambódíu.   

 

 

Hanoi er höfuðborgin

Fyrsti viðkomustaður okkar í Víetnam var höfuðborgin Hanoi. Það var magnað eftir langt flug að fara beint brjálaða umferðarómenningu í hjólakerrum. Þannig rúntuðum við um gamla bæinn og franska hverfið en Víetnamar eru 90 milljón manna þjóð sem á 57 milljón mótorhjól og við vorum stödd einhvers staðar innan í þeirri hringiðu, eins og í 1400 snúninga þvottavél.

 

Ho frændi

Grafhýsi Ho Chi Minh leiðtoga Víetnam, var einn af viðkomustöðum okkar og það var hátíðlegt að ganga áður um Ba Dinh torgið þar sem hann lýsti yfir sjálfstæði Víetnam árið 1945. Þar er nú miðstöð stjórnsýslu landsins en Ho frændi, eins og Víetnamar kalla hann var forsætisráðherra norðursins 1945-1955 og forseti 1945-1969. Hann lét þó af völdum árið 1965 af heilsufarsástæðum en var til dauðadags leiðtogi Víetnama.

Við grafhýsið stóðu ungir hermenn heiðursvörð og þegar hópurinn kom hófst dálítil athöfn með stórglæsilegan blómakrans sem hópurinn hafði víst splæst í af tilefni komu sinnar. Svo var gengið inn í helgidóminn, einn vörður sussaði á gesti, annar benti þeim á að hafa hendur niður með síðu, sá þriðji vildi að þeir læddust og svo loks, þegar komið var upp tröppur og inn í kulda grafhýsisins gengu allir inn í svo mikilli andakt að það var eins og þeir byggjust við því að Ho gæti hrokkið upp af værum svefni þá og þegar. Það var ekki að sjá að hann hefði legið þarna látinn síðustu 46 árin eða svo. Miklu fremur var eins og hann hefði tekið sér blund eins og Þyrnirós í ævintýrinu forðum, ætti eftir að sofa í eins og 54 ár í viðbót og vakna upp við koss.

Við vorum heppin því nýbúið var að opna grafhýsið á ný. Í tvo mánuði á ári er ásjóna hins mikla leiðtoga Víetnam ekki til sýnis heldur hefur hópur manna þann starfa að gera hann upp og það kostar þúsundir dollara á ári hverju. Sennilega er það þess virði því Ho frændi er sameiningartákn 54 þjóðarbrota sem búa í landinu.

Ho sjálfur var hógvær maður og vildi ekkert svona tilstand. Sem dæmi þá vildi hann eftir valdatökuna árið 1945 ekki búa í forsetahöllinni, sem frönsku nýlenduherrarnir höfðu byggt árið 1906 fyrir stjórnarherra Indókína, heldur valdi að búa í látlausu hliðarhúsi sem ætlað var fyrir þjónustufólkið. Síðar lét hann byggja íbúðarhús í stíl við bændabýli á landsbyggðinni og þar bjó hann sem einsetumaður frá 1958 og til dauðadags 1969, tók á móti börnum sem voru dugleg að læra og veiddi með þeim í tjörn sem þar er. Við fengum alveg nýja sýn á það hvernig andláti Ho bar að.

Hann dó opinberlega 2. september 1969, 24 árum eftir að hann lýsti yfir sjálfstæði landsins upp á dag. Reyndar dó hann 3. september en slíkir smámunir eru ekkert til að tala um. Þótt Ho hafi verið orðinn 79 ára gamall dó hann ekki úr elli eða hjartveiki heldur úr sorg. Hann hafði í ársbyrjun 1968 fyrirskipað árás á Suður-Víetnam sem mistókst eða kostaði mikið mannfall. Hann tók það svo nærri sér að hann lést rúmlega ári síðar.

     

Fangelsi

Hoa La Prison Museum var einnig heimsótt sem kallað var „Hanoi Hilton“ eða „Hell´s hole“ á tímum Víetnamstríðsins. Fangelsið var byggt af Frökkum í lok 19. aldar á meðan Víetnam var enn hluti af Indókína. Upphaflega voru þar pólitískir fangar sem voru þar pyntaðir grimmúðlega og drepnir og var löngum yfirfullt. Það varð að tákni fyrir yfirgang frönsku stjórnarherranna en í Víetnamstríðinu var fangelsið notað fyrir bandaríska fanga og fékk viðurnefnið „Hanoi Hilton“ enda var vistin þar býsna ömurleg.

Árið 1967 var byggð ný álma fyrir ameríska fanga sem nefnd var „Little Vegas“. Hluti af fangelsinu er nú safn en mestur hluti þess hefur verið rifinn. Þess má geta að John McCain var þar fangi um tíma árið 1968 eftir að flugvél hans var skotin niður yfir borginni. Hann átti þar illa vist í byrjun en þegar Víetnamar komust að því að hann væri sonur háttsetts manns í Ameríkunni var farið betur með hann.

    

Lögfræðingar í Hanoi

Eitt af því sem gerir námsferðir LÍ sérstakar er hin faglega dagskrá þar sem lögfræðingar hitta starfsfélaga sína og fá kynningu á dóms- og réttarkerfi landa. Óvenju erfiðlega gekk að fá heimsóknir í Víetnam og spilaði þar inní að Kommúnistaflokkur Víetnam var með flokksþing sitt í borginni og allir dómarar og lögfræðingar landsins sem eitthvað máttu sín uppteknir á því. Í gegnum einn ferðafélaga fékkst á endanum heimsókn til lögmannsstofunnar Tilleke & Gibbins sem sérhæfir sig í vörumerkjum.

Í landinu eru lögfræðingafélög og staðbundin lögmannafélög en ferðinni var heitið til Vietnam Bar Fereration að lokinni heimsókn á lögmannsstofuna. Árið 2006 voru fyrst sett lög um lögmenn í Víetnam og tveimur árum síðar var Lögmannafélag Víetnam stofnað þar sem allir lögmenn í 63 sýslum landsins eru félagar. Þá eru 11.000 lögmenn nú í Víetnam. Lögfræðingar þurfa að hafa stundað 12 mánaða nám til að fá lögmannsréttindi og einnig verið í tólf mánaða starfsþjálfun. Erfitt reyndist að fá svör við spurningum okkar um sjálfstæði dómstóla enda er réttarkerfið gegnsýrt af spillingu og það virðist vera hægt að kaupa þá niðurstöðu sem menn hafa efni á. Réttlæti til sölu.  

   
 

Í spor drekans á Halong flóa

Haldið var að hinum ævintýralega Halong flóa sem er 1.500 m2 að flatarmáli með um þrjú þúsund eyjum. Heimili drekamóðurinnar segir goðsögnin en eldgos og landmótun segja fararstjórar um flóann sem er á heimsminjaskrá UNESCO og tilheyrir einu fallegasta náttúrusvæði jarðar. Siglt var milli eyjanna og notið einstakrar náttúrufegurðar, kvöldverður var snæddur um borð, stungið sér til sunds í hlýjum sjónum og farið á litlum bátum í fljótandi þorp þar sem var skóli, heimili og sölubátar sem seldu Coca cola. Börn sigldu um í bala og allt var þetta framandi og fallegt.  

 

Fyrrum höfuðborgin Hue

Næst var flogið til borgarinnar Hue sem er í miðju landinu. Árið 1802 flutti  Gia Long Nguyen konungur höfuðborgina frá Hanoi til Hue til að reyna sameina norður- og suðurhluta Víetnams. Konungshöllin var reist þar árið 1845 af Thieu Tri konungi en var síðan breytt í safn árið 1923. Konungshöllin, eða öllu heldur borgin, er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.

Árið 1884 var skrifað undir sáttmála í Hue milli keisarans og Frakka sem varð grundvöllur að nýlendustjórn þeirra í Víetnam næstu sjö áratugi en franska Indókína var síðan stofnað árið 1887 og samanstóð af Víetnam og Kambódíu. Frakkar létu formleg völd í hendur innlendra valdhafa sem voru keisarinn í Víetnam, konungur Kambódíu og konungurinn í Luang Prabang en í raun notuðu þeir konungana sem leppa. Laos bættist svo við árið 1893 eftir stríð Frakka við Síam (Thailand). Hue var höfuðborg Víetnam til ársins 1945. 

Á tímum Víetnamstríðsins, eða Ameríkustríðsins eins og Víetnamar kalla það, lá víglínan oft hjá Hue og var mestan tímann á yfirráðasvæði Suður-Víetnam. Árið 1968 beindust augu heimsins að borginni þegar norðrið náði henni á sitt vald um eins mánaðar skeið og voru þúsundir manna teknir af lífi fyrir að vera grunaðir um þjónkun við Suður-Víetnam og Bandaríkjamenn. Ameríkanar hentu þá m.a. Napalm sprengjum á konunghöllina/borgina en það hafði djúpstæð áhrif á viðhorf almennings á Vesturlöndum til stríðsins.    

        Búið er að reisa hluta borgarinnar aftur í fyrri mynd en enn á eftir að ljúka þeirri vinnu undir stjórn UNESCO. Í stríðsminjasafninu í Ho Chi Minh City eru áhrifamiklar myndir frá Hue þegar stríðið var þar í hámarki, lík á götum úti og eyðilegging.  


Hótelið í Hoi An

Næsti viðkomustaður okkar var Hoi An en þar vorum við á hóteli sem er eins og himnaríki á jörðu. Þeir sem vildu gátu hvílt sig, baðað sig í sjónum eða legið við sundlaugarbakka en hinir hittu klæðskera í bænum. Það vantaði einn dag upp á ferðina til að njóta betur þess sem þessi forna borg, sem var öldum saman ein mikilvægasta hafnarborg suðaustur Asíu, hafði upp á að bjóða. Enn má sjá áhrif frá Kína og Japan jafnt sem Evrópu. Borgin, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, missti skyndilega stöðu sína um 1800 þegar stærri skip þurftu meira dýpi og næstu 200 ár varðveittist hún svo til óbreytt. Nú er borgin þekkt fyrir forna frægð og fallegan arkitektúr.  

 

Hafnarborgin Da Nang

Ekið var ekið til Da Nang sem tók við af Hoi An sem mesta hafnarborg Suðaustur Asíu og er hún það enn í dag. Þar hóf Frakkland landvinninga sína í Indókína þegar franski herinn réðst á höfnina árið 1847 til að hefna fyrir kaþólskra trúboða sem Thieu Tri´s keisari lét taka höndum. Frakkar tóku svo Saigon 1859 og þremur árum síðar, árið 1862, ritaði keisarinn undir samning þar sem Frakkar fengu suðurhluta Víetnam sem franska nýlendu. Flestir þeirra sem eldri voru í ferðinni þekktu til Da Nang því á tímum Víetnamstríðsins voru herstöðvar Suður-Víetnama og bandaríska flughersins staðsettar í borginni og hún oft nefnd í fréttum. Þá var flugvöllurinn þar einn sá fjölfarnasti í heimi.

Skoðað var stórmerkilegt safn um sögu og menningu Chamríkisins en konungsríki hindúa, Champa var til í kringum 2. öld ekr. Þar sem töluð var sanskrít og indversk áhrif ríkjandi í list og menningu. Safnið var stofnað árið 1919 og er stærsta safn af styttum um þessa merku þjóð. Chamfólkið er ennþá sérstakur þjóðflokkur með sína siði, hefðir og menningu, klæðaburð og líta öðruvísi út en Víetnamar. Þar er til dæmis til siðs að við giftingu fara karlarnir til fjölskyldna eiginkvenna sinna, sem er öfugt á við menningu Víetnama.  


Saigon sem aldrei sefur

Hún heitir Ho Chi Minh borg en Saigon er hún kölluð meðal Suður-Víetnama og íbúanna sjálfra. Borgin var endurskírð eftir Ho frænda eftir sameiningu landsins sem þrátt fyrir að vera löngu farinn yfir móðuna miklu lifir enn í hugum Víetnama. Saigon er vestrænni en Hanoi og þar er greinilega meiri velmegun, hægt að kaupa allt milli himins og jarðar og háhýsin glæsileg. Þar búa níu milljónir manna en fyrir aldarfjórðungi voru þar þrjár milljónir. Þar eru hærri laun og betri lífsskilyrði og þar langar alla til að búa.  


Minjar stríðs

Í tveggja klst akstri frá Saigon eru Cu Chi göngin sem Víet Cong liðar grófu hundruð kílómetra af á tímabilinu 1945-1970 og voru nokkurs konar samgöngunet neðanjarðar. Þau eru gott dæmi um ótrúlega útsjónarsemi Víetnama í baráttu við ofureflið en talið er að milli tvær og þrjár milljónir Víetnama og 58.000 bandarískir hermenn hafi fallið í stríðinu.           

Einnig var farið í stríðsminjasafnið í Saigon sem hét víst stríðsglæpasafnið þangað til botnfrosin samskipti Víetnama og Bandaríkjamanna þiðnuðu árið 1995 og Clinton og John McCain komu í heimsókn til Víetnam árið 2000. Þótt flestir ferðalanga hefðu lesið sig vel til um þetta stríð þá var fróðlegt og óhuggulegt að skoða safnið sem sagði sögu eiturefnahernaðar og afleiðingar þess, jarðsprengna sem enn er nóg eftir af í Víetnam og munu limlesta og drepa landsmenn um ókomna tíð ef ekkert er að gert.  


Ekta Pleður og leður

Loks var boðið upp á frjálsan tíma fyrir þreytta ferðalanga en sumir völdu að fara í dagsferð að ósárbökkum Mekong fljótsins og komu alsælir til baka. Aðrir fóru á markaðinn og duttu í verslunargírinn, keyptu „ekta pleður“ og „ekta feik“. Eða horfðu á mannlífið og mótorhjólin sem voru milli fóta á næstum því hverjum einasta Víetnama í borginni.   


Í lokin

Víetnam vakti aðdáun með okkur ferðalöngum. Sjálfsbjargarviðleitni og dugnaður einkennir þessa þjóð sem hefur þurft að berjast hart og lengi fyrir tilvist sinni með kínverska nágrannann sem kúgaði hana í meira en þúsund ár. Svo nýlenduveldi Frakka sem arðrændi þá áður en þeir urðu peð í valdatafli kommúnista og kapítalista á tímum kalda stríðsins.

Árið 1986 var efnahagskerfi landsins endurskipulagt, landsmenn gátu keypt land og eignaréttur var viðurkenndur. Árið 1995 hófust samskipti á ný við Bandaríkin sem hætti að beita landið efnahagsþvingunum. Síðan þá hefur verið uppgangur í Víetnam, sem fengu fyrst sjónvarp árið 1997 og nú eru flestir með farsíma og tölvur. Nútíminn fór á tvöföldum hraða til þeirra. Víetnamar flytja orðið út kaffi og hrísgrjón svo dæmi sé tekið en ennþá vantar upp á gæðin. Eins eru slys tíð í landi mótorhjólsins og þeir rétt að byrja á þeirri vegferð að auka öryggi en oft mátti sjá heilu fjölskyldurnar hjálmlausar á mótorhjóli.         

Vissulega er kommúnistastjórn í Víetnam en tilfinningin sem við fórum með þaðan er sú að það er vandfundið eins peningadrifið samfélag. Ef þú átt peninga getur þú keypt réttlæti jafnt sem annað í spilltu stjórnkerfi þar sem allir rétta „Dong“ að öllum opinberum starfsmönnum, kennurum jafnt sem heilbrigðisstarfsmönnum og lögreglu. Ef þú átt ekki "Dong" er öllum sama um þig. Það er skrítinn kommúnismi.

 

 

 

Kambódía

24.-28. nóvember

Siem Reap (Angkor Wat)

Aðeins fjórir af 49 ferðalöngum fóru heim að lokinni Víetnamferð en hinir flugu til Kambódíu og byrjaði ferðin í Siem Reap. Angkor hofin eru spölkorn frá flugvellinum og þar eru einar mögnuðustu fornminjar í Suðaustur Asíu. Þær eru leifar af höfuðborg hindú-búdda veldis Khmera frá 9.-15. öld sem náði yfir Kambódíu, hluta af því sem núna er Laos, Taíland og Víetnam. Menningu gamla Kmer-ríkisins má líkja við hámenningu Egypta, og nær yfir 400 km2 svæði.

Á mesta blómaskeiði sínu er talið að Angkor hafi verið stærsta borg heims með milljón íbúa á sama tíma og London, stærsta borgin í Evrópu, var með 50.000 íbúa. Angkor Wat, Angkor Thom og Bayon hofin voru skoðið, hvert öðru merkilegra. Angkor Wat er þeirra stærst og glæsilegast og maður skilur ekki hvernig öll þessi hof gátu týnst og gleymst í skóginum, eins og þau gerðu eftir að veldið leið undir lok á 15. öld.

Angkor Thom snart mann djúpt, það var ótrúlegt að sjá tré vaxa í kringum veggina, töfrum líkast. Hofin eru á heimsminjaskrá UNESCO og mörg lönd eru að aðstoða landsmenn við að endurbyggja þau og varðveita. Hópurinn fór einnig í bátsferð á Tonle Sap vatni sem er stærsta stöðuvatn suðaustur Asíu og jafnframt auðugasta ferskvatn í heimi af fiski. Þar heimsóttum við fljótandi þorp, gripum andann á lofti yfir börnum að leik og foreldrum að sinna sínum daglegu störfum. 

 

 

Höfuðborgin

Phnom Penh var áður talin fegursta borgin á því svæði sem kallaðist Indókína en nýlendutími Frakka hafði mikil áhrif á byggingarstílinn. Lítið af gömlu nýlendubyggingunum hefur varðveist vegna hörmungatíma í sögu þjóðarinnar en borgin er nú að rísa upp sem nútímaborg. Afleiðing ógnarstjórnar Pol Pots og Rauðu Khmeranna, sem réðu landinu 1975-1978 var skoðuð með heimsókn í S-21. Þar var miðstöð pyntinga og a.m.k. 17.000 manns voru fluttir þaðan í útrýmingarbúðirnar sem eru þekktar undir nafninu „The Killing Fields“ og eru í um 15 kílómetra frá miðborginni. 


     

Þjóðarmorð rauðu khmeranna

Á meðan nágrannarnir í Víetnam bárust á banaspjótum reyndu stjórnvöld í Kambódíu með Sihanouk prins við stjórnvölinn að halda hlutleysi. Kommúnistar í Norður-Víetnam notuðu kambódískt yfirráðasvæði til að til að ráðast gegn Suður-Víetnam og amerískar hersveitir svöruðu fyrir sig með árásum sem drápu þá ekki aðeins Víetnama heldur einnig almenning í Kambódíu. Talið er að á tímum Víetnamstríðsins hafi allt að 500.000 manns dáið í Kambódíu vegna þessa. Margir vildu berjast gegn innrásarher Víetnama og spilltir herforingjar sáu sæng sína útbreidda til að græða fé. Þegar Sihanouk prins fór úr landi vorið 1970 notuðu nokkrir hægrisinnaðir leiðtogar tækifærið og veltu honum úr sessi. Þetta var gert án blóðsúthellinga en setti af stað 30 ára blóðugt stríð. Sihanouk var sannfærður af kínverskum stjórnvöldum um að leggja traust sitt á kambódíska kommúnista sem kölluðu sig rauðu khmerana og þar með hófst borgarastyrjöld þar sem Kínverjar studdu khmera og Ameríkanar studdu spillt stjórnvöld.

Rauðu khmerarnir byrjuðu á því að taka svæði á landsbyggðinni og á  örskömmum tíma flúðu þúsundir heimili sín til Phnom Penh þar sem íbúum fjölgaði úr 600.000 í tvær milljónir. Þann 17. apríl 1975 náðu rauðu Khmerarnir Phnom Penh. Allir voru reknir úr höfuðborginni með því að segja að bandaríkjamenn ætluðu að ráðast á hana og eyða öllu kviku. Þegar borgarbúar, sem voru eitur í beinum rauðu kmeranna, fóru á landsbyggðina var þeim komið fyrir í vinnubúðum, börn voru tekin af foreldrum, eldra fólk var drepið og allir sem höfðu einhverja menntun.

Talið er að þriðjungur þjóðar hafi verið tekið af lífi og dáið úr hungri og sjúkdómum milli 1975-1978/9 og hefur það verið skilgreint þjóðarmorð. Rauðu Khmerunum var stjórnað af Pol Pot, sem var dulnefni og fjölskylda hans vissi ekki einu sinni hver hann var. Allir leiðtogarnir tóku sér önnur nöfn og var ætlun þeirra að stofna sósíalískt ríki sem byggði á landbúnaði. Hugmyndafræði spilaði stóran þátt í þjóðarmorðinu í Kambódíu þar sem ráðist var á minnihlutahópa sem tilheyrðu kristni, budda  og múslimum. T.d. fækkaði fólki úr Cham ættbálknum úr 700.000 í 200.000. Ráðist var á minnihlutahópa af kínversku bergi sem og víetnömsku og það varð á endanum til þess að Víetnamar réðust inn í Kambódíu.

Kínverjar studdu rauðu khmerana fram til 1990 en Pol Pot framdi sjálfsmorð 15. apríl 1998, eða var eitrað fyrir honum,  þar sem hann dvaldi í felum í skógi við landamæri Thaílands. Fáum mánuðum áður neitaði hann í viðtali að vera ábyrgur fyrir þjóðarmorðinu og leit svo á að hann væri misskilinn og hefði fengið ósanngjarna meðferð. Árið 2001 settu stjórnvöld í Kambódíu ný lög og reyndu þar með að koma í veg fyrir að fyrrum rauðir khmerar sætu við stjórnvölinn. Réttarhöld yfir nokkrum þeirra hófust árið 2009 og þann 7. ágúst 2014 voru tveir þeirra, Nuon Chea og Khieu Samphan dæmdir í ævilangt fangelsi fyrir glæpi gegn mannkyni. Síðan 2013 hefur verið bannað skv. lögum í Kambódíu að afneita þjóðarmorðinu og öðrum glæpum sem rauðir khmerar frömdu.  

 

Leiðsögumennirnir

Við vorum með tvo leiðsögumenn í höfuðborginni sem sögðu okkur sínar örlagasögur um leið og þeir fóru með okkur í S-21 og "Killing fields". Annar þeirra var örugglega ekki hærri en 1,50 metra á hæð. Hann var fæddur 1964 og var því 11 ára þegar hann var rekinn úr borginni ásamt móður sinni og systkinum. Pabbi hans var þá dáinn en hafði verið hermaður og það mátti aldrei minnast á það. Hann svalt í búðum ásamt öðrum börnum og í lok stríðsins var hann orðinn svo illa haldinn að ef hermenn Víetnama hefðu ekki gefið honum lyf þá hefði hann dáið. Móðir hans leitaði hans og fann og eftir stríð laug hann um aldur, sagðist vera 11 ára og fékk að fara í skóla í staðinn fyrir að vera gerður að hermanni 15 ára gamall. Í byrjun voru skólasystkini hans hvött til að segja frá því sem þau upplifðu á tímum kmeranna en það leið yfir þau við að segja frá hörmungunum, pyntingunum sem þau og fjölskyldur þeirra þurftu að líða. Heil þjóð líður enn fyrir glæpi kmeranna, allir misstu ástvini og liðu hörmungar sem eru ofar mannlegum skilningi.  

 

Hátíðarhöld í borg

Það var ekki einungis velt sér upp úr hörmungum í höfuðborginni. Við fórum um í „rickshaw“ vögnum, skoðuðum konungshöllina, sem var byggð um 1860 á bökkum Mekong árinnar og helstu dýrgripi Kambódíu. Í höfuðborginni voru lok þriggja daga buddahátíðar og mannfjöldinn á götum eins og á menningarnótt í Reykjavík. Það var sannkölluð upplifun að ganga um á meðal ungra Kambódíumanna sem hlustuðu á tónleika og nutu lífsins.

Það sem stakk okkur ferðalangana voru öfgarnar á götum úti, fátæktin og ríkidæmið. Þá var spillingin augljós en eðalvagnar keyrðu númerslausir um götur án þess að lögregla skipti sér af því. Fararstjóri upplýsti okkur að enginn væri sviptur ökuréttindum vegna ölvunaraksturs svo framalega sem viðkomandi mútaði lögreglu með 100 bandaríkjadollar greiðslu. Sagt er að forsætisráðherra Kambódíu fari reglulega til Víetnam og gefi ráðamönnum þar skýrslu og leiðsögumenn okkar óttuðust mjög áhrif stóra bróður sem þeir sögðu allt vilja kaupa og hrifsa til sín. Svipað viðhorf var reyndar uppi í Víetnam gagnvart Kína. 

Í lokin 

Eftir hálfs mánaðar ferð til þessara merku þjóða í Asíu var haldið heim í jólaundirbúning, frost og klaka. Mikil dagskrá var í ferðinni, flogið tíu sinnum alls og ferðalangar komu lúnir og búnir heim. Síðan þá hefur undirmeðvitundin verið að melta ferðina; sögunar og þjóðirnar tvær sem voru heimsóttar. Dásamlega fallegt landslag, örlög þjóða, dugnaður og seigla þeirra stendur upp úr. Og svo auðvitað góður matur, ekki má gleyma því. 

Skrifað í desember 2015.

Eyrún Ingadóttir

  

   

Hafa samband