Frétt

26.05.2015 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 26. maí 2015

Fundargerð aðalfundar LÍ  26. maí 2015 í húsakynnum LMFÍ, Álftamýri 9.

Alls mættu 15 félagar á aðalfundinn.

Kristján Andri Stefánsson setti fundinn og stakk upp á Herði Einarssyni sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara og var það samþykkt.

1.      Skýrsla stjórnar

Kristján Andri flutti skýrslu stjórnar.

2.      Reikningar LÍ og TL lagðir fram

Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri LÍ fylgdi ársreikningum LÍ úr hlaði og Þóra Hallgrímsdóttir reikningum TL. Reikningar voru samþykktir samhljóða.

3.      Stjórnarkosning

Tillaga um stjórn: Kristján Andri Stefánsson formaður, Jónína Lárusdóttir varaformaður. Stjórnarmenn: Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Þóra Hallgrímsdóttir, Katrín Smári Ólafsdóttir og Kolbrún Sævarsdóttir. Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason,  Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Dögg Pálsdóttir og Þór Vilhjálmsson. Samþykkt samhljóða.

4.      Endurskoðendur

Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson. Samþykkt samhljóða.

5.      Önnur mál

Kristján Andri þakkaði það traust sem honum er sýnt með formannskjöri.

Fundi slitið.

Skýrsla stjórnar

Almenn stjórnarstörf

Kristján Andri Stefánsson var kosinn formaður á aðalfundi 2014 og Jónína S. Lárusdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi skipti stjórnin að öðru leyti með sér verkum þannig að gjaldkeri er Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga er Þóra Hallgrímsdóttir, ritari er Katrín Smári Ólafsdóttir og meðstjórnendur eru þau Páll Þórhallsson og Kolbrún Sævarsdóttir.

Á starfsárinu voru haldnir átta stjórnarfundir auk hugarflugsfundar sl. haust þar sem stjórnin velti fyrir sér sóknarfærum og markaði stefnu fyrir starfsárið. Félagsmönnum hafði fækkað milli áranna 2013 og 2014 og ljóst að brýnt væri að örva nýliðun í félaginu.

Stefnumótun

Á haustmánuðum 2014 fór stjórnin ásamt framkvæmdastjóra í stefnumótun fyrir félagið og velti fyrir sér nýjum sóknarfærum. Það olli áhyggjum að á sama tíma og lögfræðingum fjölgaði um 160 á ári þá fækkaði félagsmönnum LÍ milli ára og það þrátt fyrir að félagsgjöldum væri stillt í hóf.

Í því skyni kom stjórnin saman til hugarflugsfundar sl. haust þar sem fjallað var um hvernig örva mætti nýliðun í félaginu. Til undirbúnings fundinum skipti stjórnin með sér verkum þannig að mynduð voru tvö teymi sem undirbjuggu umfjöllun um tvö meginverkefni: Annars vegar var það nýliðun og fjölgun í félaginu og hins vegar hver væri markhópur félagsins.

Á hugarflugsfundinn kom einnig sérfræðingur í samfélagsmiðlum sem leiðbeindi stjórn um hvernig mætti virkja samfélagsmiðlana í þágu starfseminnar.

Niðurstaðan af hugarfluginu var í grófum dráttum tvenns konar. Annars vegar þyrfti starfsemi félagsins að vera með þeim hætti að lögfræðingar teldu áhugvert og eftirsóknarvert að eiga að því aðild. Hins vegar þyrfti að auka sýnileika félagsins meðal lögfræðinga og huga að leiðum til að gera starfsemina meira áberandi í daglegu lífi lögfræðinga. Þriðja niðurstaðan var svo e.t.v. að huga að efnahagslegum hvötum til að ganga í félagið (s.s. með afsláttum oþh.)

Í kjölfar hugarflugsfundar stjórnar var ákveðið að opna Face-book síðu til að ná til breiðari hóps og gera félagið og starfsemi þess sýnilegri. Síðan fékk strax mikla athygli og á sér nú 616 áhangendur.

Ákveðinn kjarni í starfi félagsins er að stuðla að fræðilegri umræðu meðal félagsmanna um lögfræðileg efni sem eru ofarlega á baugi á hverjum tíma. Stjórnin setti sér markmið um að halda að lágmarki 3 fræðafundi á hvoru misseri. Það gekk eftir og gott betur eins og nánar verður komið að síðar í þessari yfirferð.

Á vormisseri var einnig bryddað upp á þeirri nýjung að sækja heim grunnstoðir samfélagsins. Hugmyndin með því var að gefa félagsmönnum kost á að kynna sér hvernig að þeim er búið og kynnast starfsemi þeirra frá fyrstu hendi en allar eru þær vettvangur starfa lögfræðinga í verulegum mæli.

Af efnahagslegum hvötum til ganga í félagið má nefna að samið var um að frá 1. janúar 2015 fengju félagar LÍ 10% afslátt af námskeiðum sem LMFÍ heldur og nýtti 31 félagsmaður sér það.

Hærra verð var líka ákveðið fyrir þá sem standa utan félaganna þriggja sem standa að Lagadeginum.

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til því félagið hefur náð vopnum sínum á ný þar sem félögum hefur fjölgað um 80 á starfsárinu.

Stjórn hefur einnig áform um að kanna áhuga á stofnun fleiri deilda í svipuðum anda og öldungadeildin er starfrækt. Hugmyndin er að hópar lögfræðinga, s.s. eins og þeir sem starfa hjá fyrirtækjum, gætu nýtt sér þjónustu með sama hætti enda eru flestir þeirra félagar í LÍ.

Þá eru einnig uppi hugmyndir um að breyta lögum félagsins á þann hátt að lögfræðingar með BA/BS gráðu verði með aukaaðild að félaginu án greiðslu félagsgjalda og félagið sinni laganemum á síðari stigum náms með markvissari hætti.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00 en framkvæmdastjóri er Eyrún Ingadóttir. Félagsmenn LÍ voru 15. maí 2015 eru 1226 (1148) að tölu og hefur því fjölgað um 7% frá fyrra ári. Þar af eru 300 (302) félagsmenn áskrifendur að Tímariti lögfræðinga, en samtals eru áskrifendurnir 508 (509). Auk þess eru 58 (44) áskrifendur að rafrænni útgáfu af TL en verð ferð eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun. 39 eru með einstaklingsáskrift, átta með áskrift fyrir 2-5 lögfræðinga stofu/stofnun og ellefu með áskrift fyrir fleiri en 6 lögfræðinga. Félagar í öldungadeild eru 132 (134). Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Fundir og málþing

Alls 310 manns hafa mætt á  sex málfundi á starfsársinu, 100 manns komu á jólahlaðborð, 470 á lagadaginn 2015 og 120 manns í heimsóknir.

Réttarfarssektir - réttlátar eða ranglátar? var yfirskrift fundar sem haldinn var fimmtudaginn 5. júní 2014. Sigurður Tómas Magnússon prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Brynjar Níelsson alþingismaður og fv. formaður LMFÍ fluttu framsögur en fundarstjóri var Kristján Andri Stefánsson skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu og formaður LÍ. (45 manns)

Fimmtudaginn 6. nóvember 2014 var haldinn fundur undir yfirskriftinni Tjáningarfrelsi fjölmiðla og æruvernd - í ljósi nýfallins dóms MDE. Gunnar Ingi Jóhannsson, hrl. hjá Lögmönnum Höfðabakka, sem flutti málið hjá MDE, og Halldóra Þorsteinsdóttir, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, sem skrifaði grein um kröfur til sönnunar ummæla í meiðyrðamálum í Úlfljót 2012 voru frummælendur en Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu og sérfræðingur við Háskólann í Reykjavík, sem og stjórnarmaður í LÍ, var fundarstjóri. (42 manns)

Miðvikudaginn 26. nóvember 2014 var haldinn fundur um Ráðgefandi álit EFTA dómstólsins um verðtryggingu var efni hádegisverðarfundar. Stefán A. Svensson hrl. fór yfir álit dómstólsins og leitaðist við að meta hvaða þýðingu þau hefðu en Þóra Hallgrímsdóttir, sérfræðingur við lagadeild HR og stjórnarmaður í LÍ stjórnaði fundi. (48 manns)

Á vormisseri voru líka þrír fundir

Nýskipan ákæruvalds var fundarefni 12. febrúar 2015 og var tilefnið frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og á lögreglulögum. Framsögumaður var Sigurður Tómas Magnússon prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík en að erindi loknu lýsti Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari viðhorfi til breytinganna frá sjónarhóli embættisins. KAS var fundarstjóri (58 manns)

Ráðstefna um mannréttindaskrá ESB, áhrif hennar á EES-rétt og framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu var haldin af lagadeild Háskólans í Reykjavík í samstarfi við Lögfræðingafélagið, innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið þann 6. mars 2015. Dagskráin hófst með setningu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra en erindi héldu Arnar Þór Jónsson fyrir hönd dr. Gunnars Þórs Péturssonar dósents við lagadeild HR, dr. Halvard Haukeland Fredriksen prófessor við lagadeild Háskólans í Bergen, dr. Xavier Groussot, gestaprófessor við lagadeild HR og Kristín Haraldsdóttir aðstoðarmaður innanríkisráðherra og lektor við lagadeild HR. Fundarstjóri var Kristján Andri Stefánsson formaður LÍ. (60 manns)

Gildi vottorða sálfræðinga um áfallastreituröskun við úrlausn dómsmála var yfirskrift fræðslufundar sem LÍ hélt með námsnefnd Sálfræðingafélags Íslands 22. apríl 2015. Fyrirlesarar voru sálfræðingarnir Þóra Sigríður Einarsdóttir og Sjöfn Evertsdóttir. Fundarstjóri var Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari og stjórnarmaður í LÍ en hún var jafnframt með inngangserindi. Fundurinn heppnaðist afar vel og er ástæða til að huga að fleiri slíkum samstarfsverkefnum með öðrum starfsstéttum. (57 manns)


Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 5. desember 2014. Um 100 manns viðburðinn sem er svipað og síðustu ár. Gestur jólafundarins var Gerður Kristný skáld sem las úr verkum sínum. Fundarstjóri var Jónína S. Lárusdóttir frkvstj. lögfræðisviðs Arionbanka og varaformaður LÍ.

Lagadagurinn, sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í áttunda sinn 30. apríl 2015 á Hilton Nordica. Dagurinn hófst með opinni málstofu eða rökstólum þar sem fjallað var um hvort leita ætti eftir lögverndun starfsheitis lögfræðinga.

Að þeim loknum var sameiginleg málstofa í hádegi sem fjallaði um tjáningarfrelsið, hatursáróður, guðlast og lýðræðislega umræðu.

Fimm minni málstofur og rökstólar voru í boði milli kl. 14:30-16:15 sem þátttakendur völdu um:

I. Tvíeðliskenningin, framsal fullveldis og eftirlit með fjármálafyrirtækjum
II. Lagaleg ábyrgð ráðherra og starfshættir í ráðuneytum
III. Framtíðarskipan dómsvalds
IV. Umferðarréttur almennings
V. Örmálstofur
1. Upplýsingaöryggi í skýjunum
2. Hver er þessi X? - Um nafnbirtingu í dómum
3. Hvað heftir höftin? Lagaleg álitamál við tilvist og losun gjaldeyrishafta
4. Sönnunargögn á svarta markaðnum?
Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Veislustjóri var Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. hjá embætti ríkislögmanns, leikarinn Björn Thors tróð upp sem Kenneth Máni - uppistand en Páll Óskar Hjálmtýsson þeytti svo skífur fram á rauða nótt.

Alls lögðu 30 lögfræðingar hönd á plóginn sem framsögumenn, stjórnendur eða í þátttakendur panel-umræðum. Í lagadagsnefnd voru Kristján Andri Stefánsson og Jónína Lárusdóttir fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.

470 lögfræðingar tóku þátt í dagskrá yfir daginn og 450 um kvöldið.

Heimsóknir

Á vormisseri bryddaði stjórn LÍ upp á þeirri nýbreytni að bjóða félagsmönnum að sækja nokkrar grunnstoðir samfélagsins heim. Hugmyndin var að gefa félagsmönnum kost á að kynna sér hvernig að þeim er búið og kynnast starfsemi þeirra innanfrá en allar eru þær vettvangur starfa lögfræðinga í verulegum mæli.

Félagið heimsótti Alþingi 15. janúar og leiddi Helgi Bernódusson skrifstofustjóri gesti um alþingishúsið. Að því loknu tóku lögfræðingar þingsins við og sögðu frá störfum sínum. Um 30 manns tóku þátt í viðburðinum.

Hinn 26. febrúar var hæstiréttur heimsóttur. Margrét Harðardóttir, annar arkitekt hússins, leiddi gesti um réttinn og sagði frá hugmyndafræði við hönnun hans. Að því loknu sögðu Markús Sigurbjörnsson forseti hæstaréttar, Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðlaug Jónasdóttir aðstoðarmaður dómara  frá störfum sínum en nánar má lesa um heimsóknina í Lögmannablaðinu 1. hefti 2015. Um 60 manns komu í heimsóknina og komust færri að en vildu.

Í lokin var stjórnarráðshúsið sótt heim 22. apríl. Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri bauð gesti velkomna en svo kynntu lögfræðingar í forsætisráðuneyti störf sín. Um 30 manns tóku þátt í heimsókninni.

Útgáfustarfsemi

Lögfræðingafélagið sendir félagsmönnum reglulega tölvupóst þar sem auglýstir eru þeir viðburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu uþb. tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og í stað rafræns fréttabréfs sem gefið hefur verið út af og til síðustu ár þá var Facebook síða félagsins opnuð á haustmánuðum. Síðan hefur gefið góða raun en hún er opin öllum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Um 570 „líkar" síðan og fylgjast þannig með öllu sem þar er sett. Einnig er félagið skráð á Linked in.

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Hafsteinn Þór Hauksson er ritstjóri. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást ókeypis á http://www.timarit.is/ en aðrir árgangar fást keyptir í vefverslun á heimasíðu félagsins http://www.logfraedingafelag.is/. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn Fonsjuris.is.

Á árinu missti félagið lagerhúsnæði sitt sem er í eigu Landsbanka Íslands og það hafði haft án þess að þurfa inna greiðslu af hendi í tólf ár. Ljóst var að kostnaður við að leigja lagerhúsnæði myndi reynast tímaritinu ofviða og því var ákveðið að henda lagernum. Félagsmönnum LÍ var þó áður gefinn kostur á að sækja þau hefti sem þar voru til ársins 2005 og nýttu um 30 manns sér það. Nú eru eftir um fimm heildarsöfn Tímarits lögfræðinga á skrifstofu Lögfræðingafélagsins og verða þau sett í sölu í sumar. 

Slit útgáfufélags Lögfræðingatals

Í ársskýrlsu 2014 er getið um slit útgáfufélags Lögfræðingatals sem var stofnað vorið 2004 af Dögg Pálsdóttur, Skúla Guðmundssyni og Gunnlaugi Haraldssyni sem fljótlega fengu Jón Thors til liðs við sig. Útgáfufélagið gaf út V. bindi Lögfræðingatals sem náði til þeirra lögfræðinga sem útskrifuðust með kandídatspróf frá Háskóla Íslands árin 1995-2004 en ritið kom út vorið 2005. Í ársreikningum er upphæðin sem afhent var stjórn LÍ á síðasta ári, kr. 339.556,-.

Erlend samskipti

Norræn systurfélög

Framkvæmdastjóri fer árlega á fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var að þessu sinni haldinn í Danmörku um miðjan september. Á fundinum var rætt um með hvaða hætti best sé að ná sambandi við félagsmenn, m.a. í gegnum samfélagsmiðla og hvernig félögin ná best til ungra lögfræðinga.

Til stóð að halda norrænan fund formanna sömu félaga í Osló í apríl sl. en honum var frestað af óljósum ástæðum.

Fundur með rússneskum lögfræðingum

Tveir fulltrúar Lögfræðingafélagsins, þau Kristján Andri Stefánsson og Kolbrún Sævarsdóttir, hittu á fundi hóp frá rússneskra lögfræðingafélaginu  (The All Russia Lawyers Association) sem var staddur á Íslandi dagana 10.-14. ágúst 2014 að kynna sér íslenskt réttarkerfi.

Leitað var eftir að gera rammasamning um samstarf félaganna. Stjórn félagsins tók vel í að auka samstarf félaganna en taldi ekki tilefni til að ganga frá skriflegum samningi um það að svo stöddu. Lausleg athugun benti ekki til að hin norrænu félögin hefðu gert slíkan samning.

Námsferð LÍ til Víetnam

Einn af föstu liðunum í starfsemi Lögfræðingafélags Íslands eru námsferðir sem efnt er til annað hvert ár. Á haustmánuðum 2014 var ákveðið að hefja undirbúning ferðar til Víetnam og Kambódíu. Alls hafa 49 greitt staðfestingargjald í ferðina sem verður farin 15. nóvember 2015. Af þeim hafa 45 ákveðið að framlengja ferðina og fara einnig til Kambódíu. Í ferðanefnd eru Kristján Andri Stefánsson, Kolbrún Sævarsdóttir og Benedikt Bogason.

Öldungadeild

Í öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands er nú 131 félagsmaður en hún var stofnuð haustið 2007. Að jafnaði heldur öldungadeildin fundi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann um ýmis efni og venjulega mæta á þriðja tug lögfræðinga 65 ára og eldri. Formaður deildarinnar er Hörður Einarsson hrl. sem drífur starfið áfram af mikilli elju. Auk hans sitja í stjórn Elín Norðdahl og Brynjólfur Kjartansson. Varamenn í stjórn eru Bogi Nilsson, Ellert B. Schram og Logi Guðbrandsson. Öldungaráð skipa þau Drífa Pálsdóttir, Guðný Björnsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Ingimundur Sigfússon og Jón Ólafsson.

Úr skýrslu stjórnar öldungadeildar

Fyrsta verkefni starfsársins var að halda í stutta vorferð 14. maí 2014. Að þessu sinni var farið um Suðurland og var Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra leiðsögumaður. Aðaláfangastaður var starfsstöð Landgræðslunnar í Gunnarsholti þar sem Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri tók á móti ferðalöngum og leiddi um sagnagarð Landgræðslunnar. Hann greindi frá baráttu þjóðarinnar við náttúruöflin og landeyðingu af völdum náttúruhamfara og veðurs. Á leiðinni austur var komið við í Bókakaffinu á Selfossi og hlýtt á stuttan upplestur Bjarna Harðarsonar úr Merði, litið við í Laugardælakirkju og skoðuð mannvirki Flóaáveitunnar.

Hinn 3. september 2014 kom dr. Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur á fund hjá deildinni og flutti erindi, sem hann nefndi: Jöklar á Íslandi, fyrr, nú og á komandi tímum.

Miðvikudaginn 8. október 2014 flutti dr. Gunnar Karlsson prófessor emeritus erindi um rannsóknarsögu landnáms á Íslandi síðustu öldina.

Þann 19. nóvember 2014 kom dr. Ævar Petersen fuglafræðingur. Hans erindi var margvíslegur fróðleikur um íslenska sjófugla.

Hinn 3. desember 2014 kom Eggert Þór Bernharðsson prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands á fund. Hann flutti erindi sem hann nefndi „Sveitin í sálinni" er byggði á samnefndri bók hans um horfinn heim Reykjavíkur.

Fyrsti gestur ársins 2015 var Jón G. Friðjónsson prófessor emeritus við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann flutti erindi, sem hann nefndi „Margar eru fjölskyldur heims" en þar fjallaði hann aðallega um hið mikla málsháttaverk sitt Orð að sönnu.

Hinn 4. febrúar 2015 kom Gunnar Hersveinn heimspekingur og rithöfundur á fund og ræddi efnið „Höfuðgildi Íslendinga", um þau gildi eða dyggðir sem helst hafa sett mark sitt á uppeldi og hugsun Íslendinga í gegnum aldirnar.

Óveðursdaginn 4. mars 2015 heimsóttu svo fáeinir öldungadeildarmenn Ásgrímssafn við Bergstaðastræti. Rakel Pétursdóttir safnafræðingur sýndi hús Ásgríms Jónssonar, sagði frá verkum hans og stöðu í íslenskri listasögu.

Þann 25. mars 2015 var haldinn sameiginlegur fundur stjórnar, varastjórnar og öldungaráðs öldungadeildar til þess að ræða starfsemi deildarinnar á næstu misserum.

Á aðalfundi öldungadeildar 22. apríl 2015 hélt Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins með erindið: Samkeppniseftirlitið - áherslur og verkefni.

Annað

Könnun meðal nýútskrifaðra lögfræðinga

Í apríl 2015 var send könnun til lögfræðinga sem útskrifuðust með mastersgráðu árið 2014 og voru fyrir með BA/BS gráðu í lögfræði frá háskólunum fjórum. Alls 162 lögfræðingar uppfylltu þessi skilyrði en netföng fengust hjá 139 í tæka tíð. Svör fengust frá 112, eða 81%.

Eyrún segir betur frá að loknum aðalfundi.

Lokaorð

Að lokum vil ég þakka samstarfsmönnum í stjórn félagsins og framkvæmdastjóra fyrir gott og gjöfult samstarf á starfsárinu.

Stjórnin hefur verið samhent í verkum sínum og allir einsett sér að vinna að vexti og viðgangi félagsins eins og við best getum.

Það þétti raðir okkar og skerpti á markmiðum í starfinu að hefja starfsárið með hugarflugsfundi sem áður er getið og óhætt að segja að margt af því sem þar var sammælst um hafi gengið.

Fræðadagskráin hefur verið með betra móti og fleiri fundir haldnir á starfsárinu en oft áður
Heimsóknir til æðstu stjórnar var nýjung sem fékk góðar undirtektir.
Facebook fór vel af stað. Fær margar heimsóknir og marga áhangendur
Vísindaferð til fjarlægs lands er á döfinni á þessu ári og var fljót að fyllast.
Og loks er það sem mest er um vert, að viðleitni stjórnar til að fjölga félagsmönnum hefur borið þann árangur að þeim hefur fjölgað um 78 á árinu, úr 1148 í 1226
En betur má ef duga skal. Hlýtur að vera keppikefli nýrrar stjórnar að halda áfram leiða til að ná til nýútskrifaðra lögfræðinga og fá þá til að ganga í raðir félagsins. Til þess verður félagið hins vegar að vera áhugaverður vettvangur í þeirra augum. Liður í því var að gera könnun meðal nýúrskrifaðra um ýmislegt sem varðar þeirra hagi. Verður spennandi að fá meira að heyra niðurstöður hennar að loknum aðalfundarstörfum. Getur vonandi orðið fastur liður í starfsemi félagsins.
Kristján Andri Stefánsson formaður

Hafa samband