Frétt

22.05.2014 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 22. maí 2014

Fundargerð aðalfundar 22. maí 2013 í fundarsal LMFÍ, Álftamýri 9.

7 félagar mættu á fundinn 

Kristín Edwald setti fundinn og stakk upp á Herði Einarssyni sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara og var það samþykkt. 

 

1.      Skýrsla stjórnar

Kristín flutti skýrslu stjórnar.  

 

2.      Reikningar LÍ og TL lagðir fram

Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri LÍ fylgdi ársreikningum LÍ og TL úr hlaði. Reikningar voru samþykktir samhljóða.  

 

3.      Stjórnarkosning

Eyvindur G. Gunnarsson var kjörinn formaður. Auk hans voru endurkosin í stjórn: Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Jóhannes Eiríksson og Hervör Þorvaldsdóttir. Nýir í stjórn voru kosnar: Jónína S. Lárusdóttir og Þóra Hallgrímsdóttir. Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason,  Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Dögg Pálsdóttir og Þór Vilhjálmsson.  

 

4.      Endurskoðendur

Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson. 

 

5.      Önnur mál

Tillaga um hækkun árgjalds úr 3500 krónur í 4300 krónur var samþykkt.

Kristín Edwald þakkaði stjórn og frkvstj. samstarfið á liðnum starfsárum.  

Fundi slitið.   

 

Almenn stjórnarstörf

Eyvindur G. Gunnarsson var kosinn formaður á aðalfundi en stjórnin skipti þannig með sér verkum: Varaformaður: Hervör Þorvaldsdóttir, gjaldkeri: Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga: Þóra Hallgrímsdóttir, ritari: Jónína Lárusdóttir, meðstjórnendur: Páll Þórhallsson og Jóhannes Eiríksson. Á starfsárinu voru haldnir tíu stjórnarfundir. 

 

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00. Félagsmenn LÍ 15. maí 2014 eru 1148 (1174) að tölu. Þar af eru 302 (325) félagsmenn áskrifendur að Tímariti lögfræðinga, en samtals eru áskrifendurnir 509 (524). Auk þess eru 44 (41) áskrifendur að rafrænni útgáfu af TL en verð ferð eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun. Félagar í öldungadeild eru 134 (72). Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.  

 

Fræðafundir og málþing

Einn fræðafundur var haldinn á þessu starfsári. Hádegisfundurinn „Efnahagsbrot eiga ekki að borga sig“ var haldinn 20. febrúar 2014.

Frummælendur voru Sigurður Tómas Magnússon prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. Alls mættu 54 á fundinn. 

 

Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 6. desember 2013. Um 100 manns viðburðinn sem er svipað og síðustu ár. 

 

Lagadagurinn sem er sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í sjöunda sinn 4. apríl 2014 á Hilton Nordica. Dagurinn hófst með opinni málstofu þar sem viðfangsefnið var „Við hvað eiga lögfræðingar að starfa í framtíðinni?“. Að henni lokinni var aðalmálstofa dagsins í hádeginu: „Löggjöf um efni fram“.  

Fimm minni málstofur og rökstólar voru í boði milli kl. 14:30-16:15 sem þátttakendur völdu úr:

I. Hlutverk lögfræðinga í rekstri fyrirtækja - hryggjarstykki eða hraðahindrun.

II. Hlutverk verjenda í sakamálum.

III. Upplýsingaöryggi

IV. En orðstír deyr aldregi

V. Valdheimildir stjórnsýslunnar. 

 

Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Veislustjóri var Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður í Vík en Páll Óskar Hjálmtýsson þeytti skífur fram á rauða nótt.  

 

Alls lögðu 41 hönd á plóginn sem framsögumenn, stjórnendur eða í panil.

Í lagadagsnefnd voru Páll Þórhallsson og Þóra Hallgrímsdóttir fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.  

510 (430) lögfræðingar tóku þátt í dagskrá fundarins og 490 (400) gestir voru um kvöldið.


Útgáfustarfsemi

Lögfræðingafélagið sendir reglulega út tölvupóst á félagsmenn sína þar sem auglýstir eru þeir atburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og eitt hefti af rafrænu fréttabréfi félagsins var sent til félagsmanna. Ritstjóri var Páll Þórhallsson og í ritnefnd sitja auk hans Eyvindur G. Gunnarsson formaður og Eyrún Ingadóttir.  

 

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Róbert R. Spanó prófessor var ritstjóri fyrstu þriggja hefta ársins 2013 en síðan tók Hafsteinn Þór Hauksson við. Eru Róbert þökkuð afar vel unnin störf í þau átta ár sem hann hefur ritstýrt tímaritinu. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást nú ókeypis á www.timarit.is en aðrir árgangar fást keyptir í vefverslun á heimasíðu félagsins www.logfraedingafelag.is. Auk þess fást þau til sölu í gegnum vefinn Fonsjuris.is  

 

Slit útgáfufélags Lögfræðingatals Útgáfufélag Lögfræðingatals var stofnað vorið 2004 af þeim Dögg Pálsdóttur, Skúla Guðmundssyni og Gunnlaugi Haraldssyni sem fljótlega fengu Jón Thors til liðs við sig. Útgáfufélagið gaf út V. bindi Lögfræðingatals sem náði til þeirra lögfræðinga sem útskrifuðust með kandídatspróf frá Háskóla Íslands árin 1995-2004 en ritið kom út vorið 2005. Upplag ritsins var 1000 eintök sem eru nú öll seld. Samkvæmt samþykktum útgáfufélagsins var ákveðið að við slit þess myndu eignir afhendast Lögfræðingafélagi Íslands og á fundi 8. maí sl. afhenti stjórn útgáfufélags stjórn LÍ kr. 339.556,- Stjórn LÍ þakkar þeim Dögg, Skúla, Gunnlaugi og Jóni fyrir vel unnin störf í þágu lögfræðinga og félagsins.   

 

Námsferð LÍ til Argentínu

Einn af föstu liðunum í starfsemi Lögfræðingafélags Íslands eru námsferðir sem efnt er til annað hvert ár. Dagana 1.-12. nóvember 2013 fór 46 manna hópur á vegum félagsins til Argentínu og kynntist þar tangó jafnt sem stjórnarháttum. Í höfuðborginni Buenos Aires var argentínska þingið heimsótt en stjórnskipulag þar líkist því bandaríska. Þingkosningar voru nýafstaðnar og nýtt þing ekki enn komið saman. Hópurinn hitti þó tvo þingmenn sem kynntu stjórnmálaástand landsins og svöruðu spurningum.            

     Hæstiréttur Argentínu var heimsóttur og þar tók varaforseti dómsins, Elena Inés Highton de Nolasco á móti hópnum. Dómarafélag Argentínu tók einnig höfðinglega á móti hópnum og kynnti dómskerfi landsins og sögu þess. Hópurinn flaug síðan að landamærum Brasilíu til Iguazu fossanna sem af mörgum eru taldir eitt af sjö undrum veraldar. Þar var dvalið í regnskóginum í ævintýralegu umhverfi í tvo daga og fossarnir skoðaðir úr lofti og á láði. Að því loknu var aftur farið til Buenos Aires þar sem ferðalangar gátu valið úr því sem þeir höfðu áhuga á að skoða og upplifa. Mikil ánægja var með ferðina sem þótti heppnast afskaplega vel.      


Skýrsla stjórnar öldungadeildar Lögfræðingafélags Íslands starfsárið 2013-2014. 

Starfsárið hófst á því, að efnt var til vorferðar 8. maí 2013 í Hvalfjörðinn undir leiðsögn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar rithöfundar og fyrrverandi alþingismanns. Var komið við á nokkrum stöðum í Hvalfirðinum, og fræddi Magnús ferðafélagana meðal annars um sögu Íshafsskipalestanna, sem sigldu á milli Hvalfjarðar og Norðvestur-Rússlands í heimsstyrjöldinni síðari. 

    Í kjölfar þessa ferðalags, eða hinn 14. maí 2013, komu stjórn deildarinnar, varastjórn og öldungaráð saman til eina fundar síns á starfsárinu, og voru þar ræddar hugmyndir um fundi á vegum deildarinnar og aðra starfsemi hennar. 

 

Hinn 18. september 2013 var haldinn fyrsti fræðslufundur vetrarins. Þar flutti erindi Finnur Magnússon hdl. og dr. juris erindi, sem hann nefndi: Alþjóðlegur fjárfestingaréttur - réttarstaða erlendra fjárfesta. 

Hinn 16. október 2013 hélt Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra erindi um efnið: Smáþjóðir í alþjóðakerfinu - sjö dæmisögur. 

Hinn 6. nóvember 2013 var gestur öldungadeildarinnar dr. Magnús K. Hannesson lögfræðingur og sagnfræðinemi. Flutti hann erindi um efnið: Kílarfriðurinn 200 ára og sitthvað í því sambandi. 

Hinn 4. desember 2013 heimsótti öldungadeildin Listasafn Íslands og skoðaði safnið undir fróðlegri leiðsögn Rakelar Pétursdóttur deildarstjóra á safninu. 

Á fyrsta fund ársins 2014, sem haldinn var hinn 15. janúar, kom dr. Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Fjallaði Guðrún um mikilvægi dróttkvæðanna í frásögnum miðalda. 

Hinn 5. febrúar 2014 kom svo á fund deildarinnar dr. Már Jónsson prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og flutti félagsmönnum fróðleik um dánarbú og arfaskipti á 18. og 19. öld. 

Oddur Helgason framkvæmdastjóri ORG-ættfræðiþjónustunnar kom á fund deildarinnar hinn 5. marz 2014, og spjallaði hann um íslenzka ættfræði og starfsemi ættfræðiþjónustunnar. 8. apríl 2014, var haldinn aðalfundur deildarinnar.

Að loknum aðalfundarstörfum kom á fundinn Nanna Briem geðlæknir á Landspítalanum og flutti erindi um siðblindu. 

 

Ástæða er til þess að þakka öllum þeim, sem hafa stutt starf Öldungadeildarinnar á liðnu starfsári. Við þökkum þeim fyrirlesurum, sem hafa komið á fundi okkar og miðlað okkur af fróðleik sínum. Og við þökkum móðurfélaginu, Lögfræðingafélagi Íslands, stuðning þess við deildina, og framkvæmdastjóra Lögfræðingafélagsins, Eyrúnu Ingadóttur, sem ætíð er reiðubúinn að rétta deildinni hjálparhönd.                                                                                                                                Stjórn Öldungadeildar 


Lokaorð

Það er ætlun Lögfræðingafélags Íslands að vera samfélag allra lögfræðinga á Íslandi, miðla til þeirra lögfræðilegum fundum og viðburðum. Félagsgjaldi er stillt í hóf og er nú kr. 4300,- á ári. Þrátt fyrir þetta hefur félagsmönnum fækkað síðustu ár og það á sama tíma og nýútskrifuðum lögfræðingum hefur fjölgað hraðar en nokkru sinni fyrr. Ljóst er að hér má betur gera hjá félaginu en samheldni stéttar verður ekki nema hægt sé að ná til þeirra sem í henni eru. Það verkefni að fá unga lögfræðinga til liðs við félagið bíður nýrrar stjórnar.  

Eyvindur G. Gunnarsson formaður

Hafa samband