Frétt

01.11.2013 -

Argentína 2013

Lögfræðingafélags Íslands 1.-12. nóvember 2013

Lögfræðingafélagið hefur um árabil staðið fyrir ferðum á framandi slóðir fyrir félagsmenn sína. Við, sem höfum tekið þátt í þessum ferðum, erum mjög þakklát fyrir þennan þátt í starfsemi félagsins. Ferðirnar hafa gert okkur kleift að kynnast fólki og stöðum sem við hefðum ella aldrei sótt heim. Þær hafa víkkað okkar heim og áhugasvið og ekki síst veitt ógleymanlegar skemmtistundir með kollegum og mökum þeirra. Þátttakendur starfa á ýmsum sviðum lögfræðinnar og eru samtaka um að hafa gagn og gaman af samveru og ferðalögum.

Lengi hafði staðið til að sækja Argentínu heim en vegna efnahagshrunsins 2008 var ferðinni frestað. Það var eftirvæntingarfullur hópur sem sté inn í morgunvélina til London 1. nóvember sl. Fyrir flesta yrðu þetta fyrstu kynni af heimsálfunni Suður Ameríku. Skemmst er frá því að segja að ferðin stóð fullkomlega undir væntingum eins og þær hafa reyndar allar gert, hver á sinn hátt.

Argentína er heillandi land og margbreytilegt. Það er næstum þrír milljón km2 að stærð og íbúar eru um 42 milljónir. Við náðum auðvitað aðeins að sjá brot af landinu. Vorum aðallega í Buenos Aires en skoðuðum líka Iguazu fossana í norðausturhluta landsins við landamæri Brasilíu og Paraguay.

Evrópsk-amerískur suðupottur

Einn þriðji hluti íbúa Argentínu býr í Buenos Aires og borgin iðar af orku og lífi. Yfirbragðið á fólki og umhverfi er suður-evrópskt. Það var ekki mikið um frumbyggja á því svæði sem varð Argentína og því er haldið fram að Argentínumenn séu evrópskari en íbúar Evrópu í dag. Blómatími Argentínu var frá 1860 til 1920 og þá voru reistar byggingar og breiðstræti í Buenos Aires sem tóku mið af París. Í dag eru þetta minnismerki um góðæri sem gekk þjóðinni úr greipum og hún hefur ekki geta endurskapað þrátt fyrir gjöfult land. Argentínumenn fagna í ár 30 ára lýðræði eftir kvalafullt tímabil herræðis og niðurlægingu Falklandseyjastríðsins. Spilling og misskipting auðs stendur í vegi fyrir framförum. Þó er enn að nokkru leyti byggt á arfleifð Evu Peron og eiginmanns hennar sem stóðu fyrir félagslegum umbótum. Eva Peron er alls staðar nálæg í umhverfi og tali fólks.

Efnahagsástand Argentínu minnir á íslenskan veruleika en okkar úrlausnarefni verða smá í samanburðinum. Það eru ströng gjaldeyrishöft í Argentínu og dollarar eftirsóttir. Ferðamenn, freistast til að skipta við ólöglega gjaldeyrisbraskara í skuggasundum til að fá helmingi fleiri pesóa fyrir dollarana sína og taka áhættuna af að fá í hendur falsaða seðla.

Hæstiréttur, dómarafélag og þjóðþing Argentínu

Íslenski hópurinn heimsótti argentínska þingið. Verið var að vinna að endurbótum á þinghúsinu sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar en fjárveitingar til viðhalds höfðu greinilegar ekki verið miklar í gegnum árin.

Stjórnskipulag Argentínu líkist bandarísku stjórnskipulagi. Þingið starfar í tveimur deildum, einni allsherjardeild og einni héraðadeild. Þingkosningar voru rétt afstaðnar og nýtt þing ekki enn komið saman. Dómarafélag Argentínu tók höfðinglega á móti okkur í virðulegum húsakynnum sínum þar sem áhugaverðar umræður sköpuðust. Við heimsóttum einnig Hæstarétt Argentínu sem er til húsa í glæsilegu dómshúsi sem reist var í byrjun 20. aldar. Varaforseti dómsins, Elena Inés Highton de Nolasco, tók á móti okkur. Þrátt fyrir að árin hefðu beygt þessa konu þannig að hún var nánast í keng þá geislaði hún af persónutöfrum, greind og húmor. Henni fannst með endemum að svona stór hópur frá slíkri örþjóð væri að þvælast alla leið til Argentínu.

Undir, yfir og allt í kring um stórkostlega regnskógarfossa

Eftir nokkra daga í miðborg Buenos Aries, með yfirþyrmandi mannhafi og bílaumferð, var ekki laust við að íslenskum eyjarskeggum þætti góð tilbreyting að lenda í friðsælli sveit við Iguazu fossanna þar sem við bjuggum á ævintýralegu hóteli með hengibrúm á milli bygginga og sundlaugum inni í regnskóginum. Regnskógarnir skila þarna af sér gífurlegu vatni sem mynda þvílíka fossa að Dettifoss og Gullfoss til samans eru hjóm í samanburðinum. Þessa fossa skoðuðum við frá öllum sjónarhornum, gangandi, siglandi og fljúgandi í þyrlu. Sú upplifun að horfa á hvíta iðuna krýnda regnboga í grænni umgjörð regnskógarins, sjá ótal fugla, stóra og smáa, leika sér að ofurkröftum vatnsins, mun aldrei gleymast.

Bocca Junior og forseti akandi um á bjöllu

Síðasta hluta ferðarinnar bjuggum við í gamla hafnarhverfi Buenos Aries þar sem gömlum hafnarhúsum hefur verið breytt í veitingastaði og glæsihótel hafa verið reist. Þar voru kvöldin nýtt vel til að snæða lungamjúkt argentínskt nautakjöt með dýrðlegu argentínsku víni og reyna fyrir sér í tangó en dagarnir til skoðunarferða, m.a. bátsferð um „delta" svæði Buenos Aries og hjólaferð um borgina. Nokkrir komust m.a.s. á fótboltaleik hjá Bocca Junior og gátu fengið eiginhandaráritun hjá fótboltastjörnunum sem gistu á hótelinu okkar fyrir leikinn. Stór hópur fór í dagsferð til Uruguay til að skoða portugölsku borgina Colonia. Það var áhugavert að fá innsýn í aðstæður í Uruguay sem eru allt aðrar og betri en í Argentínu. Uruguay er lítið land með aðeins 3,5 millj. íbúa sem eru margir afkomendur Svisslendinga og Þjóðverja. Þeir virðast hafa byggt upp blómlegt samfélag, m.a. á svissneskri banka- og ostahefð. Forsetinn ekur um á Volkswagen bjöllu og gefur hluta af launum sínum til góðgerðarmála.

Ekkert mál fyrir Jón Pál

Það var mjög ánægður hópur sem yfirgaf vorið í Buenos Aires til að takast á við myrkrið, veturinn og daglegt streð á Íslandi. Í ferðinni náðum við bara að sjá brot af Argentínu og örbrot af Uruguay, Brasilíu og Paraguay en það hefur opnast glufa fyrir okkur sem við getum stækkað með því að fylgjast með fréttum frá þessum löndum, kvikmyndum og bókum og vonandi sækja þau aftur heim með ákveðnari hugmyndir um hvað við viljum sjá.

Við tókum með okkur heim í farteskinu margar góðar minningar, ekki síst minningar um allt það frábæra fólk sem hafði orðið á vegi okkar og aðstoðað okkur. Til dæmis um þjóninn sem við hittum síðasta daginn á veitingahúsi á móti hótelinu okkar. Hann kveikti þegar í stað á íslenskunni og af hverju? Jú heimildarmynd um kraftajötuninn  Jón Pál Sigmarsson hafði náð að heilla þennan stillilega og fínlega argentínska þjón. Ekkert mál fyrir Jón Pál hljómaði þegar við kvöddum hann. Já er ekki heimurinn smá saman að þróast í eitt og sama heimilið?

Anna Guðrún Björnsdóttir lögfræðingur

Nokkrar myndir úr Argentínuför

Þinghús 1

Þinghús 2

Þinghús 3

Þinghús 4 

Tangó

Bocca Junior

San Telmo

Iguazu

Regnskógur

Hafa samband