Frétt

23.05.2013 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 23. maí 2013

Fundargerð aðalfundar 31. maí 2012 í fundarsal LMFÍ, Álftamýri 9.

11 félagar voru mættir í byrjun fundar.

Kristín Edwald setti fundinn og stakk upp á Herði Einarssyni sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara og var það samþykkt.

•1.      Skýrsla stjórnar

Kristín flutti skýrslu stjórnar.

•2.      Reikningar LÍ og TL lagðir fram

Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri LÍ fylgdi ársreikningi úr hlaði. Margrét Einarsdóttir flutti ársreikninga TL. Reikningar voru samþykktir samhljóða.

•3.      Stjórnarkosning

Kristín Edwald var endurkjörin formaður. Auk hennar var stjórn endurkosin en í henni sitja: Eyvindur G. Gunnarsson, Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Margrét Einarsdóttir, Jóhannes Eiríksson og Hervör Þorvaldsdóttir. Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason,  Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Dögg Pálsdóttir og Þór Vilhjálmsson.

•4.      Endurskoðendur

Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.

•5.      Önnur mál

Jón Thors óskaði félaginu til hamingju með fréttabréfið sem var nýkomið út. Hann fjallaði um ritstjórn Lögfræðintgatals sem hefur lokið við útgáfu Lögfræðingatals til 2004 en hann er hugsandi yfir framhaldi útgáfunnar. Könnun var sett í fyrsta rafræna fréttabréfið þar sem félagsmenn LÍ eru spurðir hvort þeir hafi áhuga á áframhaldandi útgáfu. Vildi Jón vekja athygli fundarmanna á því.

Kristín Edwald þakkaði stjórn og frkvstj. samstarfið á liðnu starfsári.

Fundi slitið.

Almenn stjórnarstörf

Stjórnin skipti þannig með sér verkum: Gjaldkeri: Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga: Margrét Einarsdóttir, ritari: Jóhannes Eiríksson, meðstjórnendur: Páll Þórhallsson og Hervör Þorvaldsdóttir.

Á starfsárinu voru haldnir 6 stjórnarfundir.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00. Félagsmenn LÍ 1. maí 2012 eru 1174 (1158) að tölu. Þar af eru 325 (333) félagsmenn áskrifendur að Tímariti lögfræðinga, en samtals eru áskrifendurnir 524 (531). Auk þess eru 41 (29) áskrifendur að rafrænni útgáfu af TL en verð ferð eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun. Félagar í öldungadeild eru 72 (68). Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Fræðafundir og málþing

Fræðafundir á þessu starfsári voru þrír og mættu alls 75 manns á þá.

Hádegisfundurinn „Ný tillaga að stjórnarskrá" var haldinn miðvikudaginn 19. september þar sem Ágúst Þór Árnason, formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, og Skúli Guðmundsson, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, kynntu tillögu sína að endurskoðaðri stjórnarskrá. Alls mættu 23 á fundinn.

„Úr klakaböndum Icesave" var haldinn 1. febrúar 2013. Kristín Haraldsdóttir sérfræðingur við Háskólann í Reykjavík og Reimar Pétursson hrl. sem bæði voru í málflutningsteymi Íslands fyrir EFTA dómstólnum fjölluðu um forsendur dómsins og einstök álitaefni sem fram höfðu komið. Alls mættu 37 á fundinn.

Hádegisfundurinn „Óáreiðanlegur framburður í sakamálum" var haldinn 10. apríl 2013. Á fundinum ræddu Jón Friðrik Sigurðsson prófessor og Haraldur Steinþórsson lögfræðingur, sem báðir voru í starfshópi innanríkisráðuneytisins er skrifaði skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmál, um niðurstöður skýrslunnar og veltu upp spurningunni hvort hætta væri á því að falskar játningar kæmu fram í núverandi réttarkerfi. 15 manns sátu fundinn.

Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 6. desember 2012. Um 100 manns sóttu viðburðinn.

Lagadagurinn,  sem er sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í sjötta sinn 19. apríl 2013 á Hilton hótel Nordica. 430 (410) manns tóku þátt í dagskrá fundarins og 400 (410) um kvöldið. Dagurinn hófst með nýjungum í lögfræði þar sem haldin voru erindi um heimskautarétt, fjölskyldumálefni og samfélagsábyrgð. Í hádeginu var sameiginleg málstofa: „Staða lögfræðinnar í samfélaginu." Að því loknu tóku við fimm málstofur/rökstólar. Efni þeirra var sem hér segir: 1) „Kynferðisbrot gegn börnum - löggjafinn og réttarkerfið" 2) „Kvótakerfi og atvinnuréttindi" 3) „Meðferð dómsmála og sérþekking" 4) „Eru úrskurðarnefndir úr sér gengnar?" 5) „Lögmæti verðtryggingar".

Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Alls lögðu 41 hönd á plóginn sem framsögumenn, stjórnendur eða í panil. Í lagadagsnefnd voru Páll Þórhallsson og Eyvindur G. Gunnarsson fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.

Samskipti við útlönd

Framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins sækir árlega fund skrifstofa norrænu lögfræðinga-félaganna sem var haldinn á Íslandi í lok ágúst 2012. Norrænu félögin eru stéttarfélög, nema á Íslandi og í Eistlandi, og því markast umfjöllunarefni oft af því. Páll Þórhallsson sótti ráðstefnu sem norska lögfræðingafélagið hélt í nóvember 2012.

Útgáfustarfsemi

Lögfræðingafélagið sendir reglulega út tölvupóst á félagsmenn sína þar sem auglýstir eru þeir atburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og fjögur hefti af rafrænu fréttabréfi félagsins var sent til félagsmanna, 2.-4. tbl. 2012 og 1. hefti 2013. Ritstjóri er Páll Þórhallsson og í ritnefnd sitja auk hans Kristín Edwald og Eyrún Ingadóttir.

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári og er Róbert Ragnar Spanó prófessor ritstjóri. Eru honum þökkuð vel unnin störf. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást nú ókeypis á http://www.timarit.is/ en aðrir árgangar fást keyptir í vefverslun á heimasíðu félagsins http://www.logfraedingafelag.is/. Á starfsárinu var einnig samið við FonsJuris um endursölu á rafrænu Tímariti í gegnum vef sinn.

Skýrsla stjórnar Öldungadeildar Lögfræðingafélags Íslands um starfsemi deildarinnar á starfsárinu 2012-2013.

Aðalfundur 15. apríl 2013

Eins og undanfarin ár, hefur starfsemi Öldungadeildarinnar fyrst og fremst verið fólgin í því að efna til funda og annarra viðburða fyrir félagsmenn sína yfir vetrarmánuðina.

22. ágúst 2012 var haldinn fundur stjórnar, varastjórnar og öldungaráðs til þess að ræða um starf deildarinnar á starfsárinu.

10. október 2012 hélt Magnús Thoroddsen hrl. erindi um hlýnun jarðar.

9. nóvember 2012 hélt dr. Eiríkur Jónsson dósent erindi, sem hann nefndi: Skaðabætur vegna kynferðisbrota - Er réttur brotaþola ekki að fullu sóttur?

5. desember 2012 hélt Vala Björg Garðarsdóttir fornleifafræðingur erindi um uppgröftinn á Alþingisreitnum.

9. janúar 2013 fjallaði Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands um vatnsauðlindir Íslands, meðal annars um stærð auðlindarinnar og eiginleika, nýtingu hennar til neyslu, iðnaðar og orkuframleiðslu, gildi hennar sem hluta mikilvægra vistkerfa og áhrif loftslagsbreytinga á vatnsauðlindina.

6. febrúar 2013 var efnt til heimsóknar í Þjóðminjasafn Íslands og skoðuð grunnsýning safnsins með leiðsögn frá safninu.

4. marz 2013. Fundarefni: Stefán Már Stefánsson prófessor flutti erindi, sem hann nefndi "Hugleiðingar í kjölfar Icesave-dómsins".

15. apríl 2013. Aðalfundur deildarinnar. Að loknum aðalfundarstörfum mun Jón Ögmundur Þormóðsson lögfræðingur flytja erindi, sem hann nefnir: Peace and War: Niagara of Quotations (Friður og stríð: hafsjór af tilvitnunum).

Á síðastliðnu hausti hafði stjórnin áhuga á því að efna til dagsferðar fyrir félagsmenn til Eyrarbakka, en ekki reyndist nægilegur hljómgrunnur fyrir ferðinni, svo að af henni varð ekki.

Nú er hugmynd stjórnarinnar, að efnt verði til stuttrar vorferðar í Hvalfjörðinn, 8. maí nk. Hefur Magnús Þór Hafsteinsson rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður verið fenginn til þess að vera leiðsögumaður í þeirri ferð, en hann hefur kynnt sér vel hlutverk og þýðingu Hvalfjarðar í síðari heimsstyrjöldinni og ritaði um þetta efni bókina Dauðinn í Dumbshafi. Mun hann meðal annars fræða ferðalanga um sögu Íshafsskipalestanna, sem sigldu á milli Hvalfjarðar og Norðvestur-Rússlands. Þá verður komið við í Hvammsvík og í Hvítanesi, þar sem skoða má leifar af ýmsum mannvirkjum frá stríðsárunum. Ennfremur er ætlunin að á í dálitlu hernámssetri, sem búið er að setja upp í félagsheimilinu að Hlöðum, en þar verða þegnar kaffiveitingar og setrið skoðað. Þessi ferð verður nánar kynnt félagsmönnum innan tíðar.

Stjórnin metur mikils mikilsvert framlag þeirra, sem stutt hafa starfsemi deildarinnar á síðastliðnu starfsári, þ. á m. hinna ágætu fyrirlesara, sem flutt hafa fræðandi erindi á fundum deildarinnar. Einnig erum við þakklát fyrir þá aðstöðu, sem Lögfræðingafélag Íslands býr félaginu, m.a. með traustri aðstoð Eyrúnar Ingadóttur framkvæmdastjóra félagsins við starf deildarinnar.

                                                                                              Stjórn Öldungadeildar

Lokaorð

Að lokum vil ég þakka stjórnarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf og færa Eyrúnu Ingadóttur, framkvæmdastjóra félagsins sérstakar þakkir fyrir hennar störf í þágu félagsins en eins og áður hefur hún borið hitann og þungann af skipulagningu viðburða á vegum þess, þar á meðal námsferðinni til Georgíu sem tókst einstaklega vel.

Kristín Edwald formaður

Hafa samband