Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 31. maí 2012
Fundargerð aðalfundar 19. maí 2011 á Grand Hótel, Reykjavík
9 félagar voru mættir í byrjun fundar.
Kristín Edwald setti fundinn og stakk upp á Ragnheiði Harðardóttur sem fundarstjóra og Eyrúnu Ingadóttur sem ritara og var það samþykkt.
•1. Skýrsla stjórnar
Kristín flutti hana og þakkaði að lokum Ragnheiði Harðardóttur og Margréti Völu Kristjánsdóttur fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
•2. Reikningar LÍ og TL lagðir fram
Ólafur Þór Hauksson gjaldkeri LÍ fylgdi ársreikningi úr hlaði og sagði m.a. félagsgjöld vega þyngst í tekjum félagsins. Hækkun launaliðar væri til komin vegna meira vinnuframlags frkvstj. Eyvindur G. Gunnarsson flutti ársreikninga TL. Reikningar voru samþykktir samhljóða.
•3. Stjórnarkosning
Kristín Edwald var endurkjörin formaður, Eyvindur G. Gunnarsson var kosinn varaformaður. Stjórn: Páll Þórhallsson, Ólafur Þór Hauksson, Margrét Einarsdóttir, Jóhannes Eiríksson og Hervör Þorvaldsdóttir. Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Dögg Pálsdóttir og Þór Vilhjálmsson.
•4. Endurskoðendur
Benedikt Bogason og Steinunn Guðbjartsdóttir. Varamenn: Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.
•5. Önnur mál
Engin mál voru rædd
Fundi slitið.
Almenn stjórnarstörf
Stjórnin hélt fyrsta fund sinn 8. júní 2011 og skipti þannig með sér verkum: Gjaldkeri: Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga: Margrét Einarsdóttir, ritari: Jóhannes Eiríksson, meðstjórnendur: Páll Þórhallsson og Hervör Þorvaldsdóttir.
Á starfsárinu voru haldnir 6 stjórnarfundir.
Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00. Félagsmenn LÍ 1. maí 2012 eru 1158 (1154) að tölu. Þar af eru 333 (337) félagsmenn áskrifendur að Tímariti lögfræðinga, en samtals eru áskrifendurnir 531 (552). Auk þess eru 29 (18) áskrifendur að rafrænni útgáfu af TL en verð ferð eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun. Félagar í öldungadeild eru 68 (63). Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.
Fræðafundir og málþing
Fræðafundir á þessu starfsári voru þrír og mættu alls 123 manns á þá. Þann 8. september 2011 var haldinn hádegisverðarfundur um kaup erlendra aðila á fasteignum á Íslandi. Karl Axelsson hrl. flutti erindi og Eyvindur G. Gunnarsson dósent við lagadeild Háskóla Íslands brást við en Kristín Edwald hrl. formaður, var fundarstjóri. Vakti fundurinn talsverða athygli í fjölmiðlum.
Þann 30. nóvember var haldinn hádegisverðarfundur með yfirskriftinni „Áhyggjur og efasemdir um tillögu stjórnlagaráðs". Þar fór Hafsteinn Þór Hauksson lektor við lagadeild Háskóla Íslands yfir drög stjórnlagaráðs að stjórnarskrá. Fundurinn var vel sóttur og fóru fram málefnalegar og líflegar umræður eftir erindi Hafsteins Þórs. Í kjölfar fundarins urðu hins vegar nokkrar deilur á samskiptasíðum þar sem meðlimi stjórnlagaráðs fannst vegið að tillögunum á óbilgjarnan hátt.
Lífeyrissjóðirnir og hrunið var yfirskrift þriðja hádegisverðarfundar LÍ á starfsárinu sem haldinn var 10. febrúar 2012 í samstarfi við öldungadeild félagsins. Tilefnið var útgáfa skýrslu um fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagalegt umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins en Hrafn Bragason, fv. hæstaréttardómari og formaður nefndar um fjárfestingar og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða, Kristján Geir Pétursson lögfræðingur og starfsmaður nefndar, og Héðinn Eyjólfsson viðskiptafræðingur og nefndarmaður, fóru yfir lagalegt umhverfi lífeyrissjóða og helstu niðurstöðu skýrslunnar.
Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 9. desember. Um 100 manns sóttu viðburðinn.
Lagadagurinn, sem er sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í fimmta sinn 4. maí 2012 á Hilton hótel Nordica. 410 (360) manns tóku þátt í dagskrá fundarins og 410 (310) um kvöldið. Dagurinn hófst með sameiginlegri málstofu um „Traust á dómstólum og tjáningarfrelsið". Að því loknu tóku við fimm minni málstofur/rökstólar. Efni þeirra var sem hér segir: 1) „Réttarstaða í óvígðri sambúð" 2) „Fjármögnun til framtíðar - framtíðarskipan lána til heimila" 3) „Skaðabótaábyrgð sérfræðinga" 4) „Sátt um samfélagssáttmála: Hvernig getur tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá orðið að þeim samfélagssáttmála sem stjórnarskrá á að vera?" 5) „Réttarstaða sakaðra manna."
Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Alls lögðu 32 lögfræðingar og leikmenn hönd á plóginn sem framsögumenn, stjórnendur eða í panil. Í lagadagsnefnd voru Eyvindur G. Gunnarsson og Margrét Einarsdóttir fyrir hönd félagsins. Auk þess situr framkvæmdastjóri LÍ í nefndinni ásamt fulltrúum frá LMFÍ og DÍ.
Samskipti við útlönd
Framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins sækir árlega fund skrifstofa norrænu lögfræðinga-félaganna sem var haldinn á Íslandi í lok ágúst 2011. Norrænu félögin eru stéttarfélög, nema á Íslandi og í Eistlandi, og því markast umfjöllunarefni oft af því. Kristínu Edwald formanni LÍ var boðið að sitja fund á vegum EFTA í Lúxemborg 17. júní sem hún þáði.
Útgáfustarfsemi
Lögfræðingafélagið sendir reglulega út tölvupóst á félagsmenn sína þar sem auglýstir eru þeir atburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu tvisvar í viku. Einnig heldur félagið úti heimasíðu og fyrir stuttu barst í fyrsta skipti rafrænt fréttabréf félagsins til félagsmanna en ætlunin er að gefa það út a.m.k. fjórum sinnum á ári.
Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári og er Róbert Ragnar Spanó prófessor ritstjóri. Eru honum þökkuð vel unnin störf. Fyrstu 53 árgangar Tímarits lögfræðinga fást nú ókeypis á http://www.timarit.is/ en aðrir árgangar fást keyptir í vefverslun á heimasíðu félagsins http://www.logfraedingafelag.is/. Um þessar mundir er félagið að semja við FonsJuris sem hyggur á rafræna sölu á Tímariti lögfræðinga ásamt öðru lögfræðilegu efni.
Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands 2010-2011
Öldungadeild hefur nýlokið aðalfundi sínum og þar með fjórða starfsári deildarinnar.
Fundir öldungadeildar voru 5 á starfsárinu. Á þeim fyrsta fjallaði Pétur Kr. Hafstein fv. hæstréttardómari erindi um frávikningu sýslumanna en það byggðist á meistaraprófsritgerð hans í sagnfræði um þetta efni. Sigurður Líndal brást við erindi Péturs. Í lok nóvember sagði Tómas H. Heiðar aðalsérfræðingur utanríkisráðuneytisins um alþjóðarétt frá deilum um makríl, hval og hafsvæðið í kringum Ísland. Varpaði frásögn hans skýru ljósi á þessi miklu hagsmunamál okkar Íslendinga. Í janúar 2012 ræddu Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ólafur Egilsson fv. sendiherra um forsetaembættið. Í febrúar hélt öldungadeildin sameiginlegan hádegisfund með Lögfræðingafélaginu þar sem úttektarnefnd um störf lífeyrissjóðina í aðdraganda bankahrunsins kynnti störf sín. Að loknum aðalfundi 25. apríl hélt Helga Bragadóttir arkitekt erindi um skipulag Landspítala - Háskólasjúkrahúss en hún heldur utan um skipulag nýju sjúkrahúsbygginganna á vegum samstarfsverkefnisins Spítals.
Öldungadeild hélt í dagsferð til Vestmannaeyja í september 2011 undir leiðsögn Kristjáns Torfasonar fv. sýslumanns Eyjamanna. Ferðin tókst með eindæmum vel og skörtuðu Eyjarnar sínu fegursta.
Í mars heimsótti öldungadeildin Þjóðleikhúsið og sá 25 manna hópur leikritið Sjöundá. Fyrir sýningu tóku Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri og Ari Matthíasson skrifstofustjóri á móti hópnum og sýndu leikhúsið og aðstöðu baksviðs. Að því loknu var boðið upp á hressingu og Martha Norðdal leikstjóri lýsti leikritinu sem hópurinn sá síðan í Kúlunni.
Stjórn 2011-2011 skipuðu Hrafn Bragason formaður, Ingimundur Sigfússon og Kristín Briem aðalstjórn deildarinnar. Ragnhildur Benediktsdóttir, Reinhold Kristjánsson og Guðrún Erlendsdóttir voru í varastjórn.
Öldungaráð skipuðu þau Björn Friðfinnsson, Guðný Björnsdóttir, Hörður Einarsson, Þór Vilhjálmsson Kristín Briem, Auður Þorbergsdóttir, Jón Thors, Þór Vilhjálmsson og Reinhold Kristjánsson.
Námsferð til Georgíu
Dagana 16.-25. september 2011 fór 46 manna hópur frá LÍ í námsferð til Georgíu. Ferðin var farin í samstarfi við eistneska ferðaskrifstofu en Icelandair sá um að koma hópnum á áfangastað. Auk þess að fara á helstu ferðamannastaði voru þjóðþing Georgíu og dómsmálaráðuneyti sótt heim þar sem hópurinn fékk kynningu á stjórnkerfi landsins.
Lokaorð
Að lokum vil ég þakka stjórnarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf og færa Eyrúnu Ingadóttur, framkvæmdastjóra félagsins sérstakar þakkir fyrir hennar störf í þágu félagsins en eins og áður hefur hún borið hitann og þungann af skipulagningu viðburða á vegum þess, þar á meðal námsferðinni til Georgíu sem tókst einstaklega vel.
Kristín Edwald formaður