Frétt

19.05.2011 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 19. maí 2011

Fundargerð aðalfundar 26. maí 2010 á Grand Hótel, Reykjavík

14 félagar voru mættir í byrjun fundar.

1. Helgi I. Jónsson formaður lagði til að Kristján Andri Stefánsson yrði fundarstjóri og var það samþykkt. Kristján Andri lagði til að Eyrún Ingadóttir framkvæmdastjóri ritaði aðalfundargerð og var það samþykkt. Helgi flutti skýrslu stjórnar. Hann minntist dr. jur. Ármanns Snævarr heiðursfélaga og risu fundarmenn úr sætum honum til heiðurs.
•2.      Endurskoðaðir reikningar LÍ og TL lagðir fram.

Margrét Einarsdóttir gjaldkeri fylgdi þeim úr hlaði í fjarveru Eyvindar G. Gunnarssonar gjaldkera.

•3.      Kosning stjórnar, formanns og varaformanns.

Kristín  Edwald var kosin formaður, Margrét Einarsdóttir varaformaður. Meðstjórnendur: Eyvindur G. Gunnarsson, Margrét Vala Kristjánsdóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Páll Þórhallsson og Ólafur Þór Hauksson.

Varastjórn: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Þór Vilhjálmsson og Dögg Pálsdóttir.

•4.      Kosning endurskoðenda.

Kjörnir voru endurskoðendur þau Steinunn Guðbjartsdóttir og Benedikt Bogason og varamenn Allan V. Magnússon og Skúli Guðmundsson.

•5.      Önnur mál

Engin mál voru tekin til umræðu

Fundi slitið.

Almenn stjórnarstörf

Stjórnin hélt fyrsta fund sinn 1. júní 2010 og skipti þannig með sér verkum: Gjaldkeri: Ólafur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga: Eyvindur G. Gunnarsson, ritari: Margrét Vala Kristjánsdóttir, meðstjórnendur: Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Á starfsárinu voru haldnir 5 stjórnarfundir.

 

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00. Félagsmenn LÍ 1. maí 2011 eru 1154 (1111) að tölu. Þar af eru 337 (341) félagsmenn áskrifendur að Tímariti lögfræðinga, en samtals eru áskrifendurnir 552 (562). Auk þess eru 18 (0) áskrifendur að rafrænni útgáfu af TL en verð ferð eftir fjölda lögfræðinga á stofu eða í stofnun. Félagar í öldungadeild eru 63 (54). Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

 

Fræðafundir og málþing

Fræðafundir á þessu starfsári voru þrír og mættu 136 manns á þá. Fyrsti fundurinn, sem var haldinn 20.september 2010, fjallaði um Landsdóm og hélt Ásmundur Helgason héraðsdómari erindi. Annar fundurinn var haldinn í samstarfi við Sakfræðifélag Íslands undir yfirskriftinni: „Þróun refsinga fyrir kynferðisbrot: Er vegið að dómstólum?" Fyrirlesarar voru Helgi Gunnlaugsson prófessor við félags- og mannvísindadeild HÍ og Ragnheiður Bragadóttir prófessor við lagadeild HÍ. Þriðji og síðasti hádegisverðarfundurinn var haldinn 31. janúar 2011 undir heitinu: „Ógilding kosningar til stjórnalagaþings. Um samspil laga og lagaflækjur" Framsögumaður var Gunnar Eydal hrl., áður skrifstofustjóri Reykjavíkurborgar og borgarlögmaður.

Málþing um millidómstig var haldið í samstarfi við Lögmannafélag Íslands, Dómarafélag Íslands og Ákærendafélag Íslands. Framsögumenn voru þeir Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Símon Sigvaldason héraðsdómari og Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, Ása Ólafsdóttir hrl. og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður Tómas Magnússon hrl. og prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Eva Bryndís Helgadóttir hrl. tóku þátt í panilumræðum en fundarstjóri var Eiríkur Tómasson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Vel yfir 100 manns sóttu málþingið en í framhaldinu sendu stjórnir félaganna sameiginlegt bréf til innanríkisráðherra þar sem skorað var á hann að beita sér fyrir stofnun millidómstig í sakamálum og einkamálum fyrir 1. júlí 2011 þar sem öll atriði, þar með talin sönnunaratriði, yrðu til endurskoðunar. Lesa má nánar um þingið í grein eftir undirritaða í Lögmannablaðinu 4.tbl. 2010.

Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 9. desember. Um 100 manns sóttu viðburðinn. Ari Eldjárn skemmti gestum yfir matnum.

Lagadagurinn,  sem er sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í fjórða sinn 6. maí 2011 og nú á Grand hóteli. 360 manns tóku þátt í dagskrá fundarins og 310 um kvöldið. Dagurinn hófst með sameiginlegri málstofu um Bókstaf laganna - Uppgjör við lagahyggjuna. Að því loknu tóku við sex minni málstofur/rökstólar. Efni málstofanna var sem hér segir: 1) Stjórnskipun í mótun - Hlutverk Alþingis og staða þess gagnvart handhöfum framkvæmdavalds. 2) Stafrænn veruleiki - Höfundaréttur í ljósi tækniframfara 3) Fjölmiðlar - Tjáningarfrelsi og ábyrgðarreglur. 4) Ofríki eftirlitsaðila? Ný ákvæði samkeppnislaga. Efni rökstóla: 1) Er það réttur allra að eignast barn? 2) Meðferð stórra efnahagsbrotamála. Lesa má nánar um Lagadaginn í Lögmannablaðinu 2.tbl. 2010.

Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik. Alls lögðu 39 lögfræðingar og leikmenn hönd á plóginn sem framsögumenn, stjórnendur eða í panil. Í lagadagsnefnd voru Ragnheiður Harðardóttir og Eyvindur G. Gunnarsson fyrir hönd félagsins. Auk þess sitja framkvæmdastjórar LÍ og LMFÍ í nefndinni og sjá um framkvæmd að mestu.

 

Samskipti við systurfélög á Norðurlöndum

Framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins sækir árlega fund skrifstofa norrænu lögfræðinga-félaganna sem var haldinn á Íslandi í byrjun júní 2010. Rætt var að þessu sinni um með hvaða hætti félögin geta nýtt sér netið, s.s. facebook, twitter, heimasíður ofl. til að koma skilaboðum til félagsmanna. Einnig var rætt um jafnvægi milli vinnu og frítíma og þjónustu við félaga í stjórnunarstöðum. Norrænu félögin eru stéttarfélög, nema á Íslandi og í Eistlandi, og því markast umfjöllunarefni oft af því. Engu að síður eru fundirnir fræðandi fyrir framkvæmdastjóra en Svíar borga uppihald á staðnum svo kostnaður er einungis dagpeningar og fargjald.

 

 

Útgáfustarfsemi

Lögfræðingafélagið sendir reglulega út tölvupóst á félagsmenn sína þar sem auglýstir eru þeir atburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu að minnsta kosti tvisvar í viku.

 

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári og er Róbert Ragnar Spanó prófessor ritstjóri. Eru honum þökkuð vel unnin störf á þeim vettvangi. Á nýrri heimasíðu félagsins er sérstök vefverslun þar sem hægt er að kaupa rafræna útgáfu af tímaritinu. Sífellt fleiri nýta sér þennan möguleika og þá sérstaklega einstök eintök. Nokkrir hafa einnig gerst rafrænir áskrifendur og hefur eitt háskólabókasafn m.a. áskrift í tilraunaskyni þannig að hægt er að nálgast heftið á netinu með lykilorði.  

Í tilefni 60 ára útgáfuafmælis TL var Landsbókasafninu fengið það verkefni að skanna inn öll hefti Tímarits lögfræðinga frá upphafi 1951-2005 til birtingar ókeypis á http://www.timarit.is/. Einstaklingum, lögmannsstofum og stofnunum var boðið að styrkja þetta framtak um á bilinu 10-100 þúsund sem kostaði tæplega 1200 þúsund krónur. Óhætt er að segja að viðbrögðin hafi verið góð því það náðist upp í kostnaðinn á nokkrum dögum og ljóst er að TL nýtur mikils velvilja og virðingar meðal lesenda sem nú geta nálgast 53 árganga ókeypis á netinu.

Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands 2010-2011

Öldungadeild hefur nýlokið aðalfundi sínum og þar með þriðja starfsári deildarinnar.

Vorferð öldungadeildar var farin í Húnaþing 22.-23. maí 2010. Fyrri daginn var ekið fyrir Vatnsnes undir fararstjórn Eyrúnar framkvæmdastjóra og Illugastaðir heimsóttir þar sem síðasta aftakan á Íslandi átti sér stað. Síðari daginn var fyrst farið á aftökustaðinn að Þrístöpum, ekinn hringur í Vatnsdal og að lokum Þingeyrar heimsóttir þar sem Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir tóku á móti hópnum með miklum höfðingsbrag. Þátttakendur voru 20 og þótti ferðin heppnast afar vel.

Fundir öldungadeildar voru fimm á starfsárinu. Á þeim fyrsta fjallaði Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, um stjórnlagaþing og þá undirbúningsvinnu sem leysa þurfti af hendi fyrir það. Í nóvember ræddu Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélagsins og Hildur Friðleifsdóttir, útibússtjóri Landsbankans í Austurstræti, um skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja og þau úrræði sem í boði væru. Í lok janúar 2011 höfðu þeir Styrmir Gunnarsson og Ellert B. Schram, fyrrum ritstjórar framsögu um stöðu íslenskra fjölmiðla. Í febrúar flutti Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari framsögu um Ríkissaksóknaraembættið og framtíð þess í tilefni þess að hann var að láta af störfum. Þann 16. mars bauð LOGOS lögmannsþjónusta öldungadeildinni í heimsókn til að kynnast fyrirtækinu og starfsemi þess. Gunnar Sturluson, hrl. og faglegur framkvæmdastjóri, kynnti fyrirtækið en síðan tóku þeir einnig til máls Pétur Guðmundarson hrl. og Jakob R. Möller hrl. 

Stjórn 2010-2011 skipuðu Hrafn Bragason formaður, Auður Þorbergsdóttir og Jón Thors aðalstjórn deildarinnar og Elín Norðdal, Jakob R. Möller og Guðrún Erlendsdóttir verið í varastjórn.

Öldungaráð skipuðu þau Björn Friðfinnsson, Guðný Björnsdóttir, Hörður Einarsson, Ingimundur Sigfússon, Kristín Briem og Þór Vilhjálmsson og Reinhold Kristjánsson til vara.

           

Kristín Edwald formaður

Hafa samband