Frétt

26.05.2010 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 26.maí 2010

Aðalfundur 14. maí 2009 á Grand Hótel, Reykjavík

1. Skýrsla stjórnar
Benedikt Bogason setti fundinn og tók að sér fundarstjórn. Níu félagsmenn voru mættir. 
Helgi I. Jónsson, formaður LÍ, flutti skýrslu stjórnar. Helgi óskaði Hrafni Bragasyni sérstaklega til hamingju með öflugt starf öldungadeildar.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins og Tímarits lögfræðinga.
Eyvindur G. Gunnarsson fylgdi reikningum LÍ úr hlaði. Margrét Einarsdóttir gerði grein fyrir reikningum TL en báðir reikningarnir voru samþykktir án athugasemda.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar. 
Sama stjórn kosin og á síðasta ári: Helgi I. Jónsson formaður og aðrir í stjórn Kristín Edwald, Margrét Einarsdóttir, Margrét Vala Kristjánsdóttir, Eyvindur G. Gunnarsson, Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir. Varastjórn var og kjörin sú sama og síðast.
4. Endurskoðendur 
Kjörnir voru endurskoðendur þau Steinunn Guðbjartsdóttir og Benedikt Bogason og varamenn Allan V. Magnússon og Skúli Guðmundsson. 
5. Önnur mál: 
Formaður þakkaði traustið og sagði frá starfinu framundan. Að því búnu sleit fundarstjóri fundi.

Almenn stjórnarstörf

Stjórnin hélt fyrsta fund sinn 12. júní 2009 og skipti þannig með sér verkum: Varaformaður: Kristín Edwald, gjaldkeri: Eyvindur G. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga: Margrét Einarsdóttir, ritari: Margrét Vala Kristjánsdóttir, meðstjórnendur: Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Á starfsárinu voru haldnir 6 stjórnarfundir.

Eini núlifandi heiðursfélagi Lögfræðingafélags Íslands, dr. jur. Ármann Snævarr, fyrrverandi hæstaréttardómari og prófessor, lést á árinu og ritaði formaður undirritaður minningargrein um hann fyrir hönd félagsins sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar sl., sama dag og útför Ármanns heitins fór fram.

 

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00.

Félagsmenn LÍ 1. maí 2010 eru 1111 (1110) að tölu. Þar af eru 341 (375) félagsmaður áskrifandi að Tímariti lögfræðinga, en samtals eru áskrifendurnir 562 (589), sem er 5% fækkun frá síðasta ári. Félagar í öldungadeild eru 54 (50). Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Færeyjaferð

Dagana 4. - 8. september 2009 var farið í námsferð félagsins til Færeyja. Hægt er að lesa ferðasöguna á heimasíðu félagsins, en heimsóttur var dómstóll Færeyja (Sórenskrivarin), lögmaðurinn í Þinganesi (Lagmanden), þar sem lögmaður Færeyja, Kaj Leo Johannesen, tók á móti hópnum og bauð hann velkominn. Þar hlustaði hópurinn á erindi Sjúrðar Rasmussen, Barböru á Tjaldraflötti, Nellu Festirstein og Sörin Pram Sörensen um stjórnskipun og stjórnsýslu í Færeyjum. Að lokum var löggjafarþingið heimsótt þar sem Súsanna Danielsson, framkvæmdastjóri þess, tók á móti gestum, ásamt Kristina Samuelsen ráðgjafa (konsulent). Þá var farið í landsbyggðarferð frá Straumey til Austureyjar og merkir staðir skoðaðir, siglt út í Nólsey, farið í gönguferð um Þórshöfn undir fræðandi og skemmtilegri leiðsögn Sveinur Tómasson og endað á kvöldverði í Kirkjubæ. Fjöldi þátttakenda í ferðinni var 26 og var ekki annað að skilja á ferðalöngum en að almenn ánægja væri með hana.


Fræðafundir og málþing

Fræðafundir á þessu starfsári voru tveir og mættu 75 manns á þá. Fyrri fundurinn var haldinn 2. nóvember 2009 undir yfirskriftinni: Icesave, brást réttarríkið? Fyrirlesarar voru Eiríkur Tómasson og Helgi Áss Grétarsson. Seinni hádegisverðarfundurinn var haldinn 15. janúar 2010 undir heitinu: Bann við tvöfaldri refsingu. Ne Bis In idem - ýmis álitamál. Framsögumaður Róbert Ragnar Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.

Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 3. desember. Um 200 manns sóttu viðburðinn. Heiðursgestur var Þórarinn Eldjárn rithöfundur sem fór með vel valin og hnyttin ljóð úr smiðju sinni.

Lagadagurinn, sem er sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn í þriðja sinn 30. apríl 2010. 430 manns tóku þátt í dagskrá fundarins og 340 um kvöldið. Hefur fjöldi þátttakenda aldrei verið meiri en að þessu sinni og má ráða af því að málþingið er að festa sig rækilega í sessi. Dagurinn þótti einkar vel heppnaður, en hann hófst með sameiginlegri málstofu um Rannsóknarskýrslu Alþingis. Að því loknu tóku við sex minni málstofur. Efni málstofanna var sem hér segir: 1) Glæpur og refsing. Um umboðssvik, skilasvik og markaðsmisnotkun. 2) Nauðasamningar 3) Réttarríkið á skrítnum tímum 4) Framtíðarskipan fjármálafyrirtækja 5) Með barnið í brennidepli. Breytingar á ákvæðum barnalaga 6) Sjálfstæði lögmanna, réttindi og skyldur.

Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik.

Alls lögðu 28 lögfræðingar og leikmenn hönd á plóginn sem framsögumenn, stjórnendur eða í panil. Í lagadagsnefnd voru Kristín Edwald og Margrét Einarsdóttir fyrir hönd félagsins. Auk þess sitja framkvæmdastjórar LÍ og LMFÍ í nefndinni og sjá um framkvæmd að mestu. Mjög vel var að allri framkvæmd staðið.


Samskipti við systurfélög á Norðurlöndum
Framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins sækir árlega fund skrifstofa norrænu lögfræðinga-félaganna sem var haldinn á Íslandi í lok maí 2009. Rætt var að þessu sinni um starfsþjálfun, leiðsögn og mikilvægi tengslanets fyrir atvinnulausa sem og áhrif á almenna og pólitíska umræðu. Framkvæmdastjóra eru sem fyrr þökkuð sérlega vel unnin störf í þágu félagsins.


Útgáfustarfsemi
Ný heimasíða leit dagsins ljós á starfsárinu sem hefur að geyma ýmsa nýja möguleika, s.s. skráningarkerfi og fleira. Segja má að nú sé heimasíða félagsins orðin „fullorðins" en hún er hönnuð af fyrirtækinu Outcome sem er eitt fremsta vefhönnunarfyrirtæki landsins.

Einnig sendir félagið reglulega út tölvupóst á félagsmenn sína þar sem auglýstir eru þeir atburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu að minnsta kosti tvisvar í viku.

Tímarit lögfræðinga

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári og er Róbert Ragnar Spanó prófessor ritstjóri. Eru honum þökkuð vel unnin störf á þeim vettvangi. Á nýrri heimasíðu félagsins er sérstök vefverslun þar sem hægt er að kaupa rafræna útgáfu af tímaritinu. Mikil vinna liggur að baki vefversluninni, sem er ekki að fullu lokið, en hún mun vonandi skila sér í nánustu framtíð með sölu á rafrænum eintökum og fækkun á prentuðum. Einnig gefur þetta félaginu tækifæri á að selja aðrar rafrænar bækur. Ákvörðun var tekin um að fá Landsbókasafninu það verkefni að skanna inn öll hefti Tímarits lögfræðinga frá upphafi og birta ókeypis á www.timarit.is. Jafnframt var ætlunin að bjóða lögmannsstofum að styrkja þetta framtak sem kostar um eina milljón króna. Þessu hefur ekki ennþá verið hrint í framkvæmd, m.a. vegna þess að hönnun vefverslunarinnar hefur tafist og ætlunin var að kynna þetta samtímis.


Skýrsla stjórnar öldungadeildar Lögfræðingafélags Íslands 2009-2010

Þetta telst vera annað starfsár deildarinnar. Hið fyrsta varð nokkuð langt þar sem laga varð það að starfsári lögfræðingafélagsins sjálfs og svo mátti segja að starfsemin það ár væri nokkuð gerð í tilraunaskyni.

Frá aðalfundi í apríl 2009 hefur deildin skipulagt ferð til Borgarness þar sem hlýtt var á Einar Kárason rithöfund fjalla um efni bóka sinna sem byggðar eru á Sturlungu. Ferðin var farin 17. maí 2009, þátttaka var góð og heppnaðist ferðin vel í alla staði. Fyrir jól voru haldnir þrír umræðufundir sem allir þóttu takast vel. Á hinum fyrsta fjallaði Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, um sinn málaflokk og er ekki öfundsverður af starfi sínu, enda skortir bæði fé og aðstöðu. Í byrjun nóvember sagði Baldvin Björn Haraldsson lögmaður félagsmönnum frá málsókn sinni fyrir hönd erlendra kröfuhafa á hendur íslenska ríkinu vegna neyðarlaganna, en Arnar Þór Jónsson lögmaður var fenginn til að bregðast við frásögninni. Í lok nóvember kom Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra í heimsókn og ræddi um sinn málaflokk og það sem helst væri þar á döfinni. Stjórnin hafði fengið Helga I. Jónsson, dómstjóra og formann Lögfræðingafélags Íslands, og Valtý Sigurðsson ríkissaksóknara til að taka þátt í umræðum sem urðu hinar fjörlegustu. Í janúar flutti Ragnhildur Helgadóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík erindi um fullveldishugtakið og í febrúar sögðu þeir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, félagsmönnum frá starfsemi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins. Deildin kann öllu þessu fólki bestu þakkir fyrir liðsinnið. Fundargerðir vegna þessara funda hafa verið settar á heimasíðu Lögfræðingafélagsins og geta men þar kynnt sér efni þeirra nánar.

Þetta síðasta starfsár hafa Auður Þorbergsdóttir, Hrafn Bragason og Jón Thors skipað aðalstjórn deildarinnar og Elín Norðdal, Jakob R. Möller og Sveinbjörn Hafliðsson verið í varastjórn. Vegna reglna deildarinnar um stjórnarkjör halda Auður, Jón, Elín og Jakob áfram næsta starfsár, en Hrafn og Sveinbjörn hafa lokið sínum kjörtíma. Sveinbjörn hyggst taka sér frí í bili en Hrafn gefur kost á sér til endurkjörs næstu tvö ár, en þá ber honum að taka sér að minnsta kosti frí. Auk varastjórnarmanna hafa þau Guðrún Erlendsdóttir, Ólafur W. Stefánsson og Ragnhildur Helgadóttir skipað öldungaráð. Öldungaráðið er kosið til eins árs í senn. Þar sem þau hafa gegnt störfum í tvö ár ber þeim að taka sér frí samkvæmt samþykktum. 

Það er álit stjórnarinnar að flest það sem við og öldungaráðið höfum bryddað upp á hafi tekist vel. Umræður hafa að vísu nokkuð mikið snúist um hrun bankanna og mun sjálfsagt gera það áfram, en það er í raun að vonum. Fundarformið sem við höfum komið okkur upp gefst vel, stutt erindi eða frásagnir og síðan afslappaðar og fremur jákvæðar umræður. Ágætt er þó að fá tillögur um fleiri fundarefni og fara má í fleiri ferðir og heimsóknir.

Lokaorð
Segjast verður eins og er að starfsemi félagsins á þessu starfsári bar þess merki að afleiðingar hruns fjármálakerfisins í október fóru að koma fram. Má þar nefna að stjórnin ráðgerði að fara í námsferð til Argentínu, en kúrsinn var nú settur á Færeyjar. Verður að telja að það hafi verið bein afleiðing af veikri stöðu krónunnar og kostnaði því stillt í hóf. Það góða við þessa ferð er að þegar svo árar líta menn sér nær og kom á daginn að þessi ferð var í senn fróðleg og ánægjuleg, enda Færeyingar traustir vinir Íslendinga og ýmislegt sem þeir síðarnefndu geta lært af þeim, svo sem hófsemi, góða umgengni við náttúruna og virðingu fyrir varðveislu gamalla húsa. Afar ánægjulegt var að þátttaka í lagadegi eykst með hverju ári og að þessi samkoma allra lögfræðinga landsins virðist vera að festa sig rækilega í sessi. Þá leit ný og verulega endurbætt heimasíða félagsins dagsins ljós þar sem boðið verður í nánustu framtíð upp á að kaupa Tímarit lögfræðinga í rafrænu formi. Einnig ber að nefna að tekin ákvörðun um að fá Landsbókasafni Íslands það verkefni að skanna inn öll hefti Tímarits lögfræðinga frá upphafi og birta ókeypis á heimasíðu félagsins. Að lokum er mjög ánægjulegt að vita til þess blómlega starfs sem rekið er innan öldungadeildar félagsins.

 

Helgi I. Jónsson formaður

Hafa samband