Námsferð til Færeyja 2009
Frá því Lögfræðingafélag Íslands hóf að gangast fyrir námsferðum árið 1997 hefur verið farið um langan veg og jafnan á framandi staði, síðast til Indlands árið 2007. Snemma á síðastliðnu ári var af hálfu félagsins hafinn undirbúningur ferðar til Argentínu. Vegna efnahagshamfaranna í október það ár varð stjórn félagsins morgunljóst að ekkert yrði úr þessum ferðaáformum með öllum þeim kostnaði sem því myndi fylgja fyrir þátttakendur. Ekki þótti mega láta við það sitja að leggja niður ferð í ár, en jafnframt lá fyrir að hún yrði að vera minni í sniðum en fyrri ferðir. Að athuguðu máli þótti við hæfi að heimsækja frændur vora og vini í Færeyjum. Skipulögð var ferð með ferðaþjónustunni Færeyjaferðum sem Davíð Samúelsson rekur en hann var jafnframt leiðsögumaður og fórst það afar vel úr hendi.
Hafinn var undirbúningur fyrir ferðina í árslok 2008 og stefnt á hana um miðjan september. Hátt í 40 mann skráðu sig í ferðina, en því miður þurfti á síðari stigum að breyta dagsetningum vegna flugs og við það fækkaði nokkuð í hópnum. Síðdegis föstudaginn 4. september hélt 26 manna góður hópur frá Reykjavíkurflugvelli með færeyska flugfélaginu Atlantic Airways. Lent var í Vogum (Vágar) 80 mínútum síðar þaðan sem haldið var í rútu til Þórshafnar.
Kerlingin og risinn
Landsbyggðarferð á laugardegi
Þórshöfn er á Straumey (Streymoy) sem er stærsta eyjan í Færeyjum. Daginn eftir var farið í landsbyggðaferð til Austureyjar. Ekið var norður á Eiði og upp með rótum Slattartinds, sem er hæsta fjall Færeyja, 880 metra hátt. Áð var á þessari leið og steindrangarnir „kerlingin og risinn" barðir augum. Giskuðu ferðalangar á hvor dranginn væri hvað og höfðu flestir rangt fyrir sér. Þaðan var farið yfir í Gjá (Gjóvg) þar sem snæddur var færeyskur matur, brauð með ýmsum áleggstegundum, sem bragðaðist vel. Gjá er gamalt sjávarþorp þar sem var blómleg útgerð fyrr á öldum, en nafn staðarins er dregið hinu forna, náttúrugerða hafnarstæði. Byggð hefur nú lagst af þar mestu leyti. Frá Gjá var haldið yfir í Fuglafjörð og komið við í Piddasahandil sem er gömul verslun og handverkshús þar sem kenndi margra grasa. Þá var ljósmyndasýning í hliðarsal hvar sjá mátti fagrar myndir af Fróni. Fuglafjörður er fallegur bær, stærsti bærinn eynni, en þar búa um 1550 manns, en alls búa um 11.000 manns á Austurey. Frá Fuglafirði var haldið til byggða á austanverðri eynni og þær skoðaðar, m.a. heimaslóðir Þrándar í Götu og Eyvarar Pálsdóttur, söngkonu og Íslandsvinar. Þrándur í Götu er færeysk þjóðhetja sem barðist gegn kristnitöku og skattskyldu Noregskonungs á árunum 990-1002. Þekkt er hérlendis orðtakið „að vera einhverjum Þrándur í Götu", þ.e. hindrun eða erfiður viðureignar. Er eftir var leitað meðal Færeyinga könnuðust þeir ekki við þetta orðtak og merkingu þess. Ferðin tók um 7 klukkustundir og var hin ánægjulegasta. Náttúran minnir um margt á hina íslensku Vestfirði, djúpir firðir, vogskornar strendur og lítið undirlendi. Eyjan er iðagræn frá fjöru til fjalls og fé á beit út um allar trissur. Er sagt að sauðfé sé jafn ginnheilagt í Færeyjum og kýr eru á Indlandi, enda er heiti landsins dregið af þessari dýrmætu skepnu (Fjáreyjar). Mér fannst snyrtimennska áberandi hvert sem litið var. Færeyingar hafa varðveitt hús sín vel og hugsað um þau af kostgæfni. Við nánast hvert hús er hjallur þar sem kjöt er hengt upp og þurrkað (skerpukjöt) og þykir herramannsmatur. Undirritaður fékk að bragða á sýnishorni af þessum þjóðarrétti eyjarbúa sem og grindhval. Verður að segjast eins og er að oft hefur meira góðgæti kitlað bragðlauka smakkarans, grindhvalurinn þótti honum þó ágætur.
Sveinur Tómasson leiðsögumaður gekk með hópinn um Þórhöfn endilanga
Sunnudagsganga um Þórshöfn
Á sunnudagsmorgninum var siglt með skútu kringum Nólseyjar (Nólsoy eða Nálarey á íslensku). Eftir hádegi var gönguferð um Þórshöfn með leiðsögn. Þórshöfn (Tórshavn, í daglegu tali stytt sem Havn) er höfuðstaður Færeyja þar sem búa um 18.000 manns, en alls búa um 48.000 manns í Færeyjum. Bærinn, sem er miðsvæðis í eyjaklasanum, myndaðist í kringum Þingnesið (Tinganes) þar sem landnámsmenn stofnuðu þing Færeyja um árið 900. Leiðsögumaður okkar var Sveinur Tómasson en hann er þjóðfræðingur að mennt og hefur ritað nokkrar bækur. Fyrst uppfræddi Sveinur okkur örlítið um sögu Færeyja. Fyrsti landnámsmaðurinn hét Grímur Kamban og er hann talinn hafa numið land árið 825. Sveinur var þó harður á því að Papar, írskir munkar, hefðu náð fótfestu á eyjunum í kringum 500. Þá væri útbreiddur sá misskilningur að munkarnir hefðu verið einsetumenn. Næst var áð við styttu að Nólseyjar-Páli (1766-1809). Sá maður er þjóðhetja í Færeyjum, en hann barðist fyrir niðurfellingu á höftum og einokunarverslun Dana. Í ljós kom að Sveinur er mikill aðskilnaðarsinni og að fyrrnefnd þjóðhetja er í miklum hávegum höfð af hans hálfu. Frá styttunni af þessum merka manni var haldið í Tinganes, hins forna þingstaðar Færeyinga, og skoðaðar byggingar frá miðöldum sem hýsa m.a. skrifstofur lögmanns Færeyja. Þá var haldið út með Strönd að Skansanum, svo farið í miðbæinn þar sem skoðuð voru gömul og merk hús og styttur. Þá var haldið að „Plantasjunni", skrúðgarði Þórshafnarbúa. Ferðin endaði í Norræna húsinu þar sem verið var að opna myndlistasýningu íslensks listamanns. Gönguferð þessa var afar fróðleg og skemmtileg, þökk sé okkar frábæra leiðsögumanni sem fór á kostum í lýsingu sinni á staðháttum, mönnum og málefnum.
Jóannes Paturson sagði sögu Kirkjubæjar. Helgi I. Jónsson formaður LÍ hélt tölu.
Kirkjubær
Um kvöldið var farið út í Kirkjubæ (Kirkjuböur). Kikjubær er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá Þórshöfn og er sögufrægur staður frá miðöldum. Sagt er að þegar hæst lét hafi verið um 50 hús í Kirkjubæ en megninu af þeim var skolað burtu í ofsaroki á 16. öld. Tvær merkar kirkjubyggingar eru þarna, annars vegar Magnúsarmúrinn (Mururin) sem var reistur um 1300 og Ólafskirkja (Olavskirkjan) sem var byggð á 12. öld og er eina kirkjan frá miðöldum sem enn er í notkun í Færeyjum. Á móti hópnum tók Jóannes Patursson kóngsbóndi, en ætt hans hefur búið á jörðinni frá miðöldum og er Jóannes 17. ættliðurinn. Jóannes fór með hópinn inn í Ólafskirkju og fræddi um sögu hennar . Að því loknu var haldið inn í hina 900 ára gömlu Reykstofu (Roykstovan), en hún er hluti af húsaþyrpingu sem nefnist Kóngsgarðurinn (Kongsgardurin). Eftir að skyggnst hafði verið um gáttir var haldið til matstofu og snæddur þjóðlegur, gómsætur þriggja rétta kvöldverður.
Friðgeir Björnsson tekur lagið ásamt Davíð Samúelssyni við undirleik Lárentsínusar Kristjánssonar.
Henrik Möller dómstjóri í Færeyjum tók við þakklætisvotti frá Helga I. Jónssyni.
Fagleg dagskrá í Færeyjum
Fagleg dagskrá fór fram á mánudag. Um morguninn var Dómstóll Færeyja (Sórenskrivarin) heimsóttur. Tók þar á móti okkur Henrik Möller dómstjóri sem uppfræddi okkur um starfsemi dómstólsins. Kom þar meðal annars fram að dómarar eru tveir, fjórir dómarafulltrúar og að aðrir starfsmenn eru átján. Alls eru starfsmenn því tuttugu og fjórir. Dómstóllinn býr við þröngan húsakost, en til stendur að stækka annan tveggja lítilla dómsala, þann stærri, og innrétta kjallara. Þingmálið er jöfnum höndum færeyska og danska. Þrír dómarar úr áfrýjunardómstólnum, Östre-Landsret, koma þrisvar á ári í réttinn og þinga 14 daga í senn. Kviðdómur er í alvarlegum sakamálum og er torvelt að koma honum fyrir þröngum húsakynnunum.
Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, bauð hópinn velkominn.
Hópurinn hlustaði á kynningu í Tinganesi en gekk að því búnu til Lögþings Færeyja.
Eftir hádegið var haldið í Þinganes til lögmannsins (Lagmanden), en það embætti á rætur að rekja allar götur til 13. aldar. Þar tók lögmaður Færeyja, Kaj Leo Johannesen, á móti hópnum og bauð hann velkominn. Við svo búið var haldið í fallegan fundarsal þar sem Sjúrður Rasmussen, Barbara á Tjaldraflötti, Nella Festirstein og Sörin Pram Sörensen fluttu fróðleg erindi um stjórnskipun og stjórnsýslu í Færeyjum. Frá því Færeyingar fengu heimstjórnarlög árið 1948 er meðal hlutverka lögmannsins að vera æðsti maður færeysku heimastjórnarinnar (forsætisráðherra), tilnefna aðra ráðherra, leysa þá frá störfum, ef þurfa þykir og staðfesta lög. Með heimastjórnarlögunum var þinginu (lagtinget) og landsstjórninni (landsstýrið) gert kleift að ráða ýmsum innri málum. Færeyingar eru sem hluti Danaveldis beinir og óbeinir aðilar að flestum alþjóðasamþykktum og stofnunum, en eru ekki aðilar að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisbarátta Færeyinga hefur verið eitt helsta deilumálið í Færeyjum frá fyrri hluta 20. aldar. Er að sjá að þjóðin skiptist jafnt í þá sem vilja sjálfstæði og þá sem kjósa áfram að tilheyra Danmörku.
Frá lögmannsembættinu var haldið í löggjafarþingið þar sem Súsanna Danielsson, framkvæmdastjóri þess, tók á móti gestum, ásamt Kristina Samuelsen ráðgjafa (konsulent), en hlutverk hinnar síðarnefndu er að fara yfir lagafrumvörp og gæta þess að þau sé stjórnskipunar- og málfarslega hæf til framlagningar. Kristina er formaður Lögfræðingafélags Færeyja sem stofnað var fyrir einu og hálfu ári. Þingið starfar í einni deild og eru þingmenn 33, þar af þrjár konur. Ráðherrar sitja fremst í þingsalnum og snúa fram en ekki andsælis þingmönnum eins og háttar til á Alþingi. Næst ráðherrum sitja þingmenn þess flokks sem er fjölmennastur og svo koll af kolli. Þingsalurinn er vel búinn tækjum og tólum. Þinghúsið er gamalt, en var gert upp árið 2002. Þá hefur nýtískulegri viðbyggingu verið skeytt við það, en þar er meðal annars aðsetur þingnefnda og þingflokka. Þingstörf fara um flest fram á svipaðan hátt og hérlendis. Þess skal getið að Færeyjar voru gerðar að einmenningskjördæmi árið 2007.
Þeir embættismenn, sem tóku á móti hópnum, lögðu sig fram um að uppfræða hann sem best um þá málaflokka sem þeir sinna og ríkti mikil ánægja meðal manna með móttökurnar.
Í lokin
Fyrir utan náttúrufegurð fannst mér áberandi hið hlýja viðmót eyjarbúa í garð Íslendinga, stóísk ró þeirra, nægjusemi, góð umgengni um náttúruna og virðing fyrir varðveislu gamalla húsa. Þá kom fram hjá fyrrnefndum leiðsögumanni okkar í gönguferðinni um Þórshöfn að innbrot tíðkuðust varla í bænum, hvað þá annars staðar, og til að mynda væru meiri líkur á að maður týndi bíllyklinum tæki maður hann úr kveikjulásnum og setti í vasann í stað þess að skilja hann eftir í ólæstri bifreiðinni. Þá munu Færeyingar enn skilja hús sín eftir ólæst.
Haldið var heim að morgni þriðjudags í grenjandi rigningu og roki, en lent í Reykjavík í blíðskaparveðri. Ekki var annað að heyra á ferðalöngum en að almenn ánægja ríkti meðal þeirra með vel heppnaða ferð.
Helgi I. Jónsson, formaður Lögfræðingafélags Íslands