Frétt

14.05.2009 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 14. maí 2009

Aðalfundur LÍ 23. maí 2008 á Grand Hótel, Reykjavík

Formaður félagsins, Benedikt Bogason, bauð gesti velkomna og minntist þess að 50 ár væru liðin frá stofnun þess. Af því tilefni var sérstaklega boðið á aðalfundinn heiðursfélaga og fyrsta formanni þess, Ármanni Snævarr, prófessor emeritus og fyrrverandi hæstaréttardómara, sem og fyrrverandi formönnum félagsins. Formaður gerði að tillögu sinni að Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari yrði fundarstjóri. Var það samþykkt einróma og tók hann við fundarstjórn. Þá gerði formaður að tillögu sinni að Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri félagsins, yrði ritari fundarins og var það sömuleiðis  samþykkt einróma.

                                         

1.         Skýrsla stjórnar.

Formaður kynnti skýrslu stjórnar og gerði grein fyrir starfsemi félagsins undanfarið starfsár. Hann þakkaði meðstjórnarmönnum sínum og framkvæmdastjóra fyrir samstarfið.

2.         Endurskoðaðir reikningar félagsins og Tímarits lögfræðinga.

Gjaldkeri félagsins, Eyvindur G. Gunnarsson, fylgdi reikningum úr hlaði. Gunnlaugur tók reikninga til umræðu og spurði um óinnheimtar áskriftir TL. Eyrún svaraði að taka þyrfti til í skuldum TL, afskrifa og reyna að innheimta. Reikningar LÍ og TL voru að því búnu samþykktir samhljóða. 

3.         Kosning stjórnar og varastjórnar.

Fundarstjóri las upp tillögu stjórnar um nýja stjórn, en formaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Var lagt til að Helgi I.  Jónsson yrði formaður. Var það samþykkt einróma. Á sama hátt var samþykkt einróma tillaga stjórnar um að Kristín Edwald yrði varaformaður. Aðrir stjórnarmenn voru tilnefndir sem hér segir: Eyvindur G. Gunnarsson, Margrét Einarsdóttir, Margrét Vala Kristjánsdóttir, Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir. Hlutu þessir stjórnarmenn einróma kosningu. Eftirfarandi varastjórn var kosin: Eiríkur Tómasson prófessor, Hallvarður Einvarðsson hrl., Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, Stefán Már Stefánsson, prófessor og Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi prófessor, hæstaréttardómari og dómari við EFTA-dómstólinn.

4.         Kosning tveggja endurskoðenda.

Til þess að vera endurskoðendur félagsins voru kjörin Kristján Gunnar Valdimarsson og Steinunn Guðbjartsdóttir. Til vara voru kjörnir Allan V. Magnússon héraðsdómari og Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri.

5.         Önnur mál.

Gunnlaugur þakkaði stjórn fyrir störf í þágu félagsins sem hann sagði gríðarlega þróttmikið. Nefndi hann í því sambandi Indlandsferð og stofnun öldungadeildar.

Nýkjörinn formaður, Helgi I. Jónsson, tók til máls og þakkaði það traust sem honum var sýnt og fráfarandi formanni og stjórn fyrir þeirra störf. Hann bauð síðan nýja stjórn velkomna til starfa. Að því búnu ávarpaði hann fundinn í tilefni af 50 ára afmæli félagsins.

Fundarstjóri sleit fundi kl. 17. Að fundi loknum bauð félagið upp á léttar veitingar í tilefni afmælisins. Þá var tekin ljósmynd af þeim formönnum félagsins sem mættir voru á fundinn. Í upphafi mættu 19 á fundinn en fundarmönnum fjölgaði eftir því sem leið á og í afmælisveislunni voru um 50 manns.

Almenn stjórnarstörf

Stjórnin hélt fyrsta fund sinn 4. júní 2008 og skipti þannig með sér verkum: Gjaldkeri: Eyvindur G. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga: Margrét Einarsdóttir, ritari: Margrét Vala Kristjánsdóttir, meðstjórnendur: Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Á starfsárinu voru haldnir 7 stjórnarfundir.

Rýmkun inntökuskilyrða

Samkvæmt lögum félagsins geta þeir orðið félagar sem lokið hafa grunnnámi í lögfræði, þ.e. 90 eininga námi. Ákveðið var að þeir sem lokið hafa BA námi með færri en 90 einingum í lögfræði geti orðið félagar þegar þeir hafa lokið tilskildum einingafjölda, t.d. í ML námi.

Gjafir

Lögfræðingafélagið gaf Barnaþorpi SOS á Indlandi kr. 50.000 í tilefni 50 ára afmælis félagsins. Einnig færði félagið lagadeild Háskóla Íslands kr. 400.000 að gjöf í tilefni 100 ára afmælis lagakennslu á Íslandi.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni

Skrifstofa Lögfræðingafélags Íslands er opin virka daga frá kl. 13:00-15:00.

Félagsmenn LÍ 1. maí 2009 eru 1110 (1087) að tölu. Þar af eru 375 (380) áskrifendur að Tímariti lögfræðinga en samtals eru ákrifendurnir 589 (586). Félagar í öldungadeild eru 50. Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Færeyjaferð

Félagið hafði ráðgert að fara í námsferð til Argrentínu og undirbúningur fyrir þá ferð var hafinn af fullum krafti er bankahrunið dundi á okkur í októberbyrjun. Í ljósi þess efnahagsástands sem fylgdi í kjölfarið var ákveðið að venda kvæðinu í kross og heimsækja frændur vora og vini í Færeyjum 17. - 21. september í ár. Ferðin var auglýst í febrúar og hafa 35 manns skráð sig í hana.

Fræðafundir og málþing

Fræðafundir á þessu starfsári voru þrír og mættu 100 manns á þá. Fyrsti fundurinn var haldinn 30. október. Fundarefnið var: „Af hverju deila íslenskir lögfræðingar um lögskýringaraðferðir?" Framsögumenn voru Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, Jakob R. Möller hrl. og Róbert R. Spanó prófessor. Annar fundurinn var haldinn 19. nóvember og fjallaði um sönnunarfærslu í sakamálum fyrir Hæstarétti Íslands og í því sambandi var spurt hvort milldómstig leysti vandann. Framsögumenn voru Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari í forföllum Rögnu Árnadóttur, setts ráðuneytisstjóra, og Eiríkur Tómasson, prófessor. Þriðji fræðafundurinn var haldinn 18. febrúar og var fundarefnið: „Eru fiskveiðireglur Evrópusambandsins andstæðar hagsmunum Íslands?" Framsögumaður var Stefán Már Stefánsson, prófessor.

Sameiginlegt jólahlaðborð LÍ, LMFÍ og DÍ var haldið á Hótel Nordica 4. desember. Heiðursgestur var Kristján Kristjánsson tónlistarmaður sem flutti smá hugvekju og lög af nýútkominni plötu. Um 120 manns sóttu viðburðinn.

Lagadagurinn,  sem er sameiginlegt málþing LÍ, LMFÍ og DÍ, var haldinn öðru sinni 30. apríl 2009. 340 manns tóku þátt í dagskrá fundarins og 250 um kvöldið. Dagurinn þótti einkar vel heppnaður, en hann hófst með sameiginlegri málstofu um stjórnar-skrárbreytingar. Að því loknu tóku við sex minni málstofur. Efni málstofanna var sem hér segir: 1) Ábyrgð stjórnenda, 2) Skjól fyrir sköttum eða eðlileg samkeppni um skatta? 3) Auðlindir nýrrar aldar, 4) Réttlausir viðskiptavinir? Kröfur til fjármálafyrirtækja og úrlausn ágreinings. 5) Ráðherraábyrgð og 6) Voru neyðarlögin nauðsynleg? Var gengið of langt eða of skammt með setningu þeirra?

Um kvöldið var haldin sameiginleg árshátíð félaganna með kvöldverði, skemmtidagskrá og dansleik.

Alls 43 lögfræðingar og leikmenn tóku þátt sem framsögumenn, stjórnendur eða í panil. Í lagadagsnefnd eru Helgi formaður og Kristín varaformaður félagsins, fyrir hönd LMFÍ sitja Ástríður Gísladóttir hdl. og Hildur Friðleifsdóttir hdl og Arnfríður Einarsdóttir og Greta Baldursdóttir fyrir hönd DÍ. Auk þess sitja framkvæmdastjórar LÍ og LMFÍ í nefndinni og sjá um framkvæmd að mestu. 

Samskipti við systurfélög á Norðurlöndum

Framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins sækir árlega fund skrifstofa norrænu lögfræðingafélaganna sem var haldinn í Danmörku í lok maí 2008. Rætt var um að þessu sinni hvernig félögin geta veitt félagsmönnum sínum persónulega þjónustu og þau félög sem hafa sett sér siðareglur kynntu þær.

Útgáfustarfsemi

Félagið heldur úti heimasíðu þar sem atburðir á vegum þess eru auglýstir. Einnig sendir félagið reglulega út tölvupóst á félagsmenn sína þar sem auglýstir eru þeir atburðir sem í boði eru hverju sinni í samfélagi lögfræðinga. Reikna má með að félagsmenn fái tölvupóst frá félaginu að meðaltali tvisvar í viku. Breytingar á heimasíðunni eru í vinnslu og sjá væntanlega dagsins ljós í sumar.

Tímarit lögfræðinga

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári og Róbert Ragnar Spanó er ritstjóri. Í sumar er ráðgert að hefja rafræna útgáfu Tímarits lögfræðinga og mun hún tengjast heimasíðu félagsins.

Skýrsla stjórnar öldungadeildar Lögfræðingafélags Íslands 2009

Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands var stofnuð 28. nóvember 2007. Félagar, sem nú eru um 50 talsins, eru einnig félagar í Lögfræðingafélaginu sem sér um fjármál og rekstur að öðru leyti en því sem stjórn hennar hefur á sinni könnu.

Þetta fyrsta starfsár deildarinnar er orðið nokkuð langt sem stafar af því að aðalfund á að halda mánuðinn fyrir aðalfund Lögfræðingafélagsins en hann mun áætlaður í maí.

Um stjórnina

Í stjórn  hafa setið Hrafn Bragason, kosinn til tveggja starfsára, Auður Þorbergsdóttir og Jón Thors, kosin til eins starfsárs. Í varastjórn Sveinbjörn Hafliðason, kosinn til tveggja ára, Elín Norðdahl og Jakob R. Möller kosin til eins árs. Þá starfar í félaginu öldungaráð, sem í sitja auk varastjórnarmanna, Guðrún Erlendsdóttir, Ólafur Walter Stefánsson og Ragnhildur Helgadóttir, kosin til eins starfsárs. Hefur öldungaráðið tekið þátt í umræðum og tillögum um starfstilhögun.

Starfsemi ársins

Öldungadeildin hefur á starfsárinu haldið umræðufundi, efnt vorferðar og haustferðar. Á stofnfundinum hafði Þorsteinn Pálsson ritstjóri framsögu um störf stjórnarskrárnefndar. Í janúar 2008 ræddi Stefán Eiríksson lögreglustjóri um skiptingu landsins í lögregluumdæmi. Í febrúar kom svo Sif Guðjónsdóttir skrifstofustjóri og talaði um þjóðlendumál. Í mars efndi deildin til leikhúsferðar og sá leikritið Brák í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Á vorfundi kynnti síðan Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins starfsemi þess. Þá efndi deildin til haustferðar á slóðir Magnúsar Stephensen háyfirdómara undir fararstjórn stjórnar en Sigurður Líndal og Þór Vilhjálmsson sáu um fróðleik. Í þeirri ferð var Háskólinn á Bifröst heimsóttur og tók Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar,  á móti ferðalöngum og kynnti starfsemina. Í vetrarbyrjun var Hellisheiðarvikjun skoðuð undir leiðsögn Hjörleifs Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sem kynnti lagaheimildir þær sem fyrirtækið starfar undir og bauð upp á veitingar. Eftir áramót hafa verið tveir fræðafundir. Í janúar fræddi Haukur Guðmundsson, settur forstjóri Útlendingaeftirlitsins, fundarmenn um starfsemi þess og í febrúar hafði Lárentsínus Kristjánsson, hrl. og skilanefndarmaður, framsögu um starfsemi skilanefnda bankanna.

Stjórnin kann öllu framangreindu fólki bestu þakkir fyrir liðsinnið og ennfremur miklu fleirum sem komið hafa á fundina og brugðist hafa við ræðum framsögumanna. Segja má að þetta fyrsta starfsár hafi að einhverju leyti verið í tilraunaskyni því ekki var vitað hvernig til mundi takast um starfrækslu deildarinnar. Stjórnin er a.m.k. ánægð með árangurinn og hyggst halda áfram á líkri braut en allar tillögur og ábendingar um starfsemina eru mjög vel þegnar.

                                                                                 

Lokaorð

Starfsemi félagsins hefur verið með blóma umliðið starfsár og voru fræðafundir vel sóttir. Þá ber að geta þess að tala félagsmanna í Lögfræðingafélagi Íslands fór á þessu starfsári í fyrsta skipti yfir 1100. Sérstakt ánægjuefni er að vita til þess hversu vel tókst til með Lagadag sem, eins og fyrr segir, var haldinn öðru sinni í ár. Þátttakendum í málþingingu um daginn fjölgaði um 120 milli ára og í kvölddagskránni um 60. Er ekki annað að heyra en almenn ánægja sé meðal lögfræðinga með þetta framtak og gefur það fyrrnefndum félögum lögfræðinga byr undir báða vængi með að festa þingið í sessi sem árlegun viðburð. Að lokum ber að fagna hve öflug starfsemi er rekin í öldungadeild félagsins.

Hafa samband