Frétt

30.04.2007 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 30. apríl 2007

Fundargerð aðalfundar 30. apríl 2007

Kristín Edwald setti fundinn og skipaði Eyrúnu Ingadóttur sem ritara. Það var samþykkt.

Skýrsla stjórnar: Benedikt Bogason formaður flutti skýrslu stjórnar.
Endurskoðaðir reikningar. Benedikt Bogason fór yfir endurskoðaða reikninga Lögfræðingafélagsins. Kristín Edwald bar reikningana upp og þeir voru samþykktir. Kristín fór yfir reikninga Tímarits lögfræðinga og þeir samþykktir. 
Kosning stjórnar og varastjórnar: Benedikt Bogason var kosinn formaður og Helgi I. Jónsson varaformaður. Tillaga um meðstjórnendur var samþykkt samhljóða en þeir eru: Kristín Edwald, Áslaug Björgvinsdóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Páll Þórhallsson og Eyvindur G. Gunnarsson.
Tillaga um varamenn  í  stjórn var samþykkt samhljóða en þeir eru: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Þór Vilhjálmsson og Dögg Pálsdóttir.

Kosning endurskoðenda: Kristján Gunnar Valdimarsson og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkosin sem aðalendurskoðendur. Til vara voru kjörnir Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.
Önnur mál. Enginn tók til máls og var fundi slitið
Almenn stjórnarstörf
Á aðalfundinum var Benedikt Bogason kosinn formaður og Helgi I. Jónsson varaformaður. Stjórn var skipuð með sama hætti og ári áður: Áslaug Björgvinsdóttir, ritari, Eyvindur G. Gunnarsson, gjaldkeri, og Kristín Edwald, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga. Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir voru meðstjórnendur.

Stjórnin hélt 5 stjórnarfundi á starfsárinu.

Félagsmenn LÍ eru nú 1087 (1069) að tölu. Þar af eru 380 (368) áskrifendur að Tímariti lögfræðinga en í heildina eru 586 (574) áskrifendur. Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Fræðafundir og málþing
Á starfsárinu voru haldnir þrír fræðafundir auk málþings og jólahádegisverðar. 134 manns sátu fræðafundina, 250 manns sátu málþingið en um 100 manns jólahádegisverðinn.

Yfirlit yfir fundi
Að loknum aðalfundi 2007 var haldinn fræðafundur undir yfirskriftinni: „Hafa dómstólar slakað á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum?" Frummælendur voru Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður og alþingismaður og Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Málþing félagsins var haldið föstudaginn 5. Október 2007. Yfirskrift þess var „Fasteignaréttur". Eftirtaldir fluttu erindi: Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, fjallaði um fasteignir í íslenskum rétti að fornu og nýju og þær reglur sem að þeim lúta, Viðar Már Matthíasson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands fjallaði um helstu nýjungar í nýjum fasteignakaupalögum og hvernig þeim er beitt af dómstólum, Eiríkur Jónsson héraðsdómslögmaður og aðjunkt við lagadeild Háskóla Íslands fjallaði um ábyrgð fasteignasala og Ívar Pálsson héraðsdómslögmaður fjallaði um skipulags og byggingalöggjöfina. Að loknu kaffi fjallaði Margrét Hauksdóttir aðstoðarforstjóri Fasteingamats ríkisins, um Landskrá fasteigna og að endingu hélt Sigurður Helgi Guðjónsson hæstaréttarlögmaður og formaður Húseigendafélagsins erindi um nábýlisrétt og hvort þörf væri á löggjöf um grennd undir yfirskriftinni: „Margt býr í grenndinni". Móttaka var í boði Fasteignamats ríkisins en alls sóttu um 250 manns málþingið.

Hinn 24. október 2007 var haldinn hádegisfundur um ný lög um fyrningu kröfuréttinda í samstarfi við viðskiptaráðuneytið. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra setti fundinn en frummælendur voru Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri viðskiptaráðuneytisins og Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður.

Sameiginlegur jólahádegisveður LMFÍ, DÍ og LÍ var haldinn á hótel Loftleiðum 6. desember. Heiðursgestur að þessu sinni var Guðni Ágústsson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, og ávarpaði hann samkomuna.

Hinn 6. febrúar hélt félagið hádegisverðarfund undir yfirskriftinni: „Vistaskipti Valtýs". Tilefni fundarins var skipun Valtýs Sigurðssonar í embætti ríkissaksóknara og hélt hann erindi.

Útgáfustarfsemi
Tímarit Lögfræðinga

Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári og miðast við almanaksárið. Ritstjóri er Róbert R. Spanó en á árinu 2007 útbjó hann verklags- og ritrýnireglur fyrir tímaritið og setti saman 18 manna ráðgjafarráð.  

Annað

50 ár frá stofnun Lögfræðingafélags Íslands

Hinn 1. apríl 2008 voru 50 ár frá stofnun Lögfræðingafélags Íslands. Frumkvæði að stofnun félagsins kom frá prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands, einkum þeim Ármanni Snævarr og Theodóri B. Líndal. Á þeirri hálfri öld sem félagið hefur starfað hefur það haldið fjölda málþinga og funda um lögfræðileg efni. Einnig hefur félagið gefið út Tímarit lögfræðinga frá byrjun en tímaritið hóf göngu sína raunar á undan félaginu, eða árið 1951. Heiðursfélagar félagsins frá upphafi eru einungis fjórir, þau Agnar Klemenz Jónsson,  Auður Auðuns, Ármann Snævarr og  Ólafur Lárusson.
Öldungadeild Lögfræðingafélags Íslands

Öldungadeild var stofnuð 28. nóvember 2007. Hugmyndin er komin frá Hrafni Bragasyni fyrrverandi hæstaréttardómara en hann er fyrsti formaður deildarinnar. Auk hans sitja Auður Þorbergsdóttir og Jón Thors í stjórn en Elín Norðdahl, Jakob R. Möller og Sveinbjörn Hafliðason til vara. Í öldungaráði sitja varastjórnarmenn og Guðrún Erlendsdóttir, Ólafur Walter Stefánsson og Ragnhildur Helgadóttir. Stofnfélagar eru 39 en tilgangur deildarinnar er að gæta hagsmuna eldri lögfræðinga, fjalla um áhugaefni þeirra innan lögfræði, stuðla að auknum samskiptum meðal þeirra svo og að efla samskipti lögfræðinga almennt. Á stofnfundinum ræddi Þorsteinn Pálsson um störf stjórnarskrárnefndar.

Fundir öldungadeildar: Hinn 16. janúar 2008 var fundur þar sem Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins fjallaði um skiptingu landsins í lögreglu umdæmi og framkvæmd löggæslumála. Hinn 13. febrúar 2008 kynnti Sif Guðjónsdóttir lögfræðingur og framkvæmdastjóri störf Óbyggðanefndar. Hinn 23. apríl 2008 fjallaði Jónas Fr. Jónasson forstjóri um Fjármaálaeftirlitið, skipulag, starfsemi og framtíð. Auk fundanna efndi öldungadeildin til menningarferðar á Brák í Landnámssetrinu í Borgarnesi sem var afar vel heppnuð. 17 manns fóru í ferðina.   

Indlandsferð félagsins

Dagana 27. október til 7. nóvember fór 84 manna hópur á vegum Lögfræðingafélags Íslands til Indlands. Farið var til Delhi og Lok Sabha, þing Indverja, heimsótt ásamt Hæstarétti. Haldinn var hádegisverðarfundur með Sohia Kahn sem er indverskur hæstréttarlögmaður sem hefur sinnt mannréttindamálum sérstaklega. Einnig var farið í móttöku hjá sendiherra Íslands á Indlandi. Að því loknu var farið til Agra og Taj Mahal skoðað, hin bleika borg Jaipur var einnig skoðuð og í lokin var farið til Rantambore sem er þjóðgarður. Ferðin þótti í alla staði heppnast afar vel.

Norrænt samstarf

Framkvæmdastjóri fór á fund starfsmanna norrænu lögfræðingafélaganna í júní á síðasta ári. Eins og gefur að skilja er starfsemi félaganna á Norðurlöndum mun öflugri en hér á landi enda eru félögin flest stéttarfélög og jafnvel með fleiri stéttir en lögfræðinga innan sinna vébanda.

Lokaorð
Svo sem skýrsla stjórnar ber með sér hefur starfsemi Lögfræðingafélagsins verið í miklum blóma þetta starfsár. Undirritaður hefur nú um þriggja ára skeið verið formaður félagsins og telur rétt að víkja þannig að einhver annar taki við keflinu. Ég vil að lokum þakka ég meðstjórnarmönnum mínum og framkvæmdastjóra ánægjulegt og gefandi samstarf.

Benedikt Bogason formaður

Hafa samband