Frétt

22.05.2006 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 22. maí 2006

Fundargerð aðalfundar 22. maí 2006.

Benedikt Bogason formaður setti fundinn og tilnefndi Helga Jóhannesson sem fundarstjóra. Það var samþykkt.

1. Skýrsla stjórnar: Benedikt flutti skýrslu stjórnar.

2. Endurskoðaðir reikningar. Skúli Magnússon, gjaldkeri, fór yfir endurskoðaða reikninga Lögfræðingafélagsins. Kristín Edwald, framkvæmdastjóri TL, gerði grein fyrir reikningum tímaritsins. Skúli kom með tillögu um að samþykkja ársreikning með þeirri breytingu að fella út 300.000 króna eign í útgáfurétti TL í efnahagsreikningi. Það var samþykkt. 
Fundarstjóri gaf fundarmönnum kost á að gera athugasemdir við skýrslu stjórnar og reikninga. Enginn tók til máls.

3. Kosning stjórnar og varastjórnar: Benedikt Bogason var kosinn formaður og Helgi I. Jónsson varaformaður. Tillaga um meðstjórnendur var samþykkt samhljóða en þeir eru: Kristín Edwald, Áslaug Björgvinsdóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Páll Þórhallsson og Skúli Magnússon. 
Tillaga um varamenn í stjórn var samþykkt samhljóða en þeir eru: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Þór Vilhjálmsson og Dögg Pálsdóttir.

4. Kosning endurskoðenda: Kristján Gunnar Valdimarsson og Steinunn Guðbjartsdóttir voru endurkosnir aðalendurskoðendur. Til vara voru Allan Vagn Magnússon og Skúli Guðmundsson.

5. Önnur mál. Enginn tók til máls og fundi slitið
Tíu félagar mættu á aðalfundinn

Almenn stjórnarstörf


Á aðalfundinum var Benedikt Bogason kosinn formaður og Helgi I. Jónsson varaformaður. Stjórn var skipuð með sama hætti og ári áður: Áslaug Björgvinsdóttir, ritari, Skúli Magnússon, gjaldkeri, og Kristín Edwald, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga. Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir eru meðstjórnendur.


Stjórnin hélt 4 stjórnarfundi á starfsárinu.


Félagsmenn LÍ eru nú 1069 (1020) að tölu. Þar af eru 368 (373) áskrifendur að Tímariti Lögfræðinga en í heildina eru 574 (563) áskrifendur. Tölur innan sviga eru frá fyrra starfsári.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni


Fræðafundir og málþing
Á starfsárinu voru haldnir þrír fræðafundir auk málþings og jólahádegisverðar. 124 manns sátu fræðafundina, 198 manns sat málþingið en um 100 manns jólahádegisverðinn.


Yfirlit yfir fundi
Að loknum aðalfundi 2006 var haldinn fræðafundur undir yfirskriftinni: "Skipun hæstaréttardómara. Er breytinga þörf?" Erindi héldu þeir Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, Sif Konráðsdóttir, hæstaréttarlögmaður, og Róbert Ragnar Spanó, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Málþing félagsins var haldið föstudaginn 22. september í samstarfi við dómsmálaráðuneytið. Yfirskrift þess var "Nýtt réttarfar í sakamálum". Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, setti málþingið en á því fluttu eftirtaldir þessi erindi: Eiríkur Tómasson, prófessor, fjallaði um nýmæli í sakamálaréttarfari og um drög að frumvarpi til laga um meðferð sakamála, Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari, fjallaði um fyrirhugaðar breytingar á skipan ákæruvalds, Stefán Már Stefánsson, prófessor, fjallaði um hugtakið sönnun og nokkrar meginreglur sem því tengjast, Lykke Sørensen, vararíkissaksóknari í Danmörku ræddi um rannsóknaraðgerðir lögreglu í breyttum heimi og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, fjallaði um hvaða kröfur gerðar verði til ákæru svo mál sætti efnismeðferð.


Hinn 23. nóvember 2006 var haldinn hádegisfundur undir yfirskriftinni "Geta starfsmenn fyrirtækja borið refsiábyrgð á grundvelli 10. eða 11. gr. samkeppnislaga?" Framsögumenn voru Róbert Ragnar Spanó, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Birgir Ármannsson, lögfræðingur og alþingismaður, og Lúðvík Bergvinsson, lögfræðingur og alþingismaður.

Sameiginlegur jólahádegisveður LMFÍ, DÍ og LÍ var haldinn á hótel Loftleiðum 7. desember. Heiðursgestur að þessu sinni var séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur, og ávarpaði hann samkomuna.


Hinn 27. janúar hélt félagið hádegisverðarfund undir yfirskriftinni: "Hvernig er þetta með ríkið? Er dómaframkvæmd um aðild ríkisins lent í öngstræti?" Framsögumenn voru Einar Karl Hallvarðsson, hæstaréttarlögmaður hjá ríkislögmanni og dósent við lagadeild Háskólans í Bifröst, og Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands.


Útgáfustarfsemi


Tímarit Lögfræðinga 
Tímarit lögfræðinga kemur venjulega út fjórum sinnum á ári. Árið 2006 kom það hins vegar út fimm sinnum þar sem ritstjórinn, Róbert Ragnar Spanó, hyggst koma árgöngum á rétt ár en fram til þessa hafa tvö fyrri heftin verið merkt árinu á undan. Þar sem rekstrarár TL er frá janúar til desember ár hvert er ársreikningur fyrir allt árið 2006 til umsagnar og samþykktar.

Annað

Lög félagsins
Með samþykkt nýrra laga hefur þeim sem útskrifast með BA próf í lögfræði verið veittur aðgangur að félaginu og það mun vera skýringin á auknum félagafjölda milli ára.

Nýir félagar
Félagsmönnum hefur fjölgað um 49 milli ára sem er óvenju mikið eða um 5%. Ástæðar er fyrst og fremst sú að með lagabreytingu á síðasta ári var lögfræðingum útskrifuðum með BA gráðu gerð kleift að ganga í félagið. Í janúar sendi félagið 47 nýútskrifuðum cand. mag. nemum frá Háskóla Íslands bréf um að þeir væru velkomnir í félagið og til kynningar var þeim sent Tímarit lögfræðinga. Af þeim hafa 15 gengið í félagið og nokkrir hafa auk þess orðið áskrifendur að Tímaritinu.

Útgáfa Lögfræðingatals
Útgáfufélag um Lögfræðingatal fékk 300 þúsund króna útgáfustyrk frá Lögfræðingafélaginu til að skanna og endurprenta hluta af eldri bindum.

Norrænt samstarf
Framkvæmdastjóri fór á fund starfsmanna norrænu lögfræðingafélaganna í júní á síðasta ári. Eins og gefur að skilja er starfsemi félaganna á norðurlöndum mun öflugri en hér á landi enda eru félögin flest stéttarfélög og jafnvel með fleiri stéttir en lögfræðinga innan sinna vébanda.

Fyrirhuguð Indlandsferð
Á haustmánuðum ákvað stjórn félagsins að námsferð 2007 yrði farin til Indlands. Í samstarfi við Úrval-útsýn var skipulögð ferð 27. október til 7. nóvember og hún auglýst. Mikil eftirspurn var eftir ferðinni sem seldist upp á viku en 88 manns fara á vegum félagsins.

Lokaorð
Svo sem skýrsla stjórnar ber með sér hefur starfsemi Lögfræðingafélagsins almennt verið með hefðbundnu sniði þetta starfsár.

Benedikt Bogason
formaður

Hafa samband