Frétt

06.11.2005 -

Námsferð til Suður-Afríku 2005

Dagana 6.-16. nóvember 2005 fór hópur á vegum Lögfræðingafélags Íslands í námsferð til Suður Afríku. Eftir langan undirbúningstíma var haldið af stað en faglegur fararstjóri ferðarinnar var Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Sú sem þetta ritar fór einnig með í ferðina á vegum félagsins en þátttakendur voru 41, lögfræðingar og fylgifiskar þeirra.

Nokkrir ferðalangar í SOWETO. Til hægri er hluti af minnismerki vegna atburðanna 1976 þegar herlögregla landsins skaut á skólabörn sem mótmæltu því að læra á afrikans. 

Eftir næturflug frá London var lent að morgni dags í Jóhannesarborg og farið til Soweto. Sumir höfðu á orði að það væri nokkurs konar sjokk-meðferð að fara beint úr flugvélinni að skoða bárujárnsklæddan veruleika margra svartra íbúa Suður Afríku. Það kom á óvart hve stór Soweto er en þar búa 3,5 milljónir manna. Hún hefur að geyma bæði fátækrahverfi og hverfi ríkra manna þótt fá séu. Auk þess að skoða fátækrahverfi, þar sem óhætt var að ganga um, var farið á einu götuna í heiminum þar sem tveir friðarverðlaunahafar Nóbels hafa búið; Desmond Tutu biskup og Nelson Mandela, fyrrum forseti landsins. Hópurinn sá barnaskólann fræga þar sem atburðirnir 1976 áttu sér stað, þegar skólabörn mótmæltu því að þurfa læra á afrikans, tungumáli hvítra, og lögreglan hóf skothríð á þau. Fjöldi barna lést í árásinni og hún markaði tímamót í réttindabaráttu svartra þar sem margir hvítir snérust á sveif með þeim eftir þetta og umheimurinn fordæmdi atburðina.

Lögfræðidagskrá ferðarinnar var skipulögð af hjónunum Davíð Þór Björgvinssyni og Svölu Ólafsdóttur en þau dvöldu í Suður Afríku í fjóra mánuði árið 1992. Næsta dag var háskólinn í Jóhannesarborg heimsóttur en þar fékk hópurinn góðar móttökur, próf. Derek van der Merwe sem er aðstoðarrektor skólans og próf. Jan Neels, og hlustaði á afar áhugaverða fyrirlestra um réttarkerfið í Suður Afríku og vernd mannréttinda.

Efir hádegi þann sama dag var stjórnlagadómstóll Suður-Afríku heimsóttur. Var sú heimsókn að margra mati hápunktur ferðarinnar. Stjórnlagadómstóllinn „The Constitutional Court of South Africa" var stofnaður 1994 en hin nýja stjórnarskrá landsins tók gildi árið 1996 og þykir ein sú framsæknasta í heiminum. Helsta hlutverk dómstólsins er að dæma um samræmi laga og ákvarðana stjórnvalda við stjórnarskrá landsins. Gestgjafi hópsins var Albie Sachs, sem er dómari við dómstólinn. Flutti hann erindi um hlutverk dómstólsins og dómaframkvæmd til þessa. Lagði hann sérstaka áherslu á þýðingu dómstólsins fyrir hina marglitu þjóð (Rainbow Nation) sem byggir Suður Afríku, en af orðum hans mátti merkja að dómstóllinn gegnir afar mikilvægu hlutverki við vernd mannréttinda og uppbyggingu réttarríkis í landinu eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok. Hann gekk einnig með okkur um húsakynni dómstólsins, en þar er hvert atriði úthugsað og hlaðið merkingu. Dómhúsið er byggt uppi á hæð á rústum fangelsis sem þar stóð áður og er það táknrænt fyrir hvernig þjóðin tekst á við sársauka fortíðar með sáttarhug. Útsýni á hæðinni til allra átta vísar til víðsýni sem dómurum er nauðsynleg. Dómsalurinn er einnig um margt sérstakur en við hönnun hans var talið mikilvægt að víkja frá þeim hefðum og venjum sem víða ríkja í þeim efnum. Þannig var það talið mikilvægt að sá sem gengi í salinn fengi ekki á tilfinninguna að hann væri í réttarsal enda fylgdi því þrúgandi tilfinning margra í Suður Afríku. Enn fremur má nefna að sæti þeirra níu dómarar sem sitja í dómi eru ekki á upphækkuðum palli, heldur í sömu hæð og málflytjendur, þar sem allir eru jafnir fyrir lögunum.

Albie Sachs tekur við gjöf frá Davíð Þór Björgvinssyni sem var faglegur fararstjóri í ferðinni.

Albie Sachs dómari, sem er hvítur, er þekktur maður í Suður Afríku og raunar víðar. Hann var frá unga aldri virkur þátttakandi í réttindabaráttu blökkumanna í Suður Afríku. Hann hefur greitt dýru verði fyrir hugsjónir sínar eins og margir svartir samlandar hans. M.a. var hann landflótta í tvo áratugi og bjó þá í Englandi og síðar í Mósambik. Árið 1988 reyndi öryggislögregla Suður Afríku að ráða hann af dögum er hún kom fyrir sprengju í bifreið hans. Eiginkona hans fórst í árásinni, en sjálfur missti hann hægri hendi og sjón á öðru auga. Sachs var mjög persónulegur og opinskrár í tali um hugmyndir sínar um hlutverk dómstólsins og þýðingu hans fyrir þróun réttarríkisins í Suður Afríku eftir endalok aðskilnaðarstefnunnar. Var öllum ljóst sem viðstaddir voru að þar fer maður með háleitar hugsjónir um framtíð Suður Afríku og afar sterka réttlætiskennd. Voru hinir íslensku gestir sammála um að heimsóknin í dómstólinn hafi verið sérstaklega fróðleg og áhrifamikil.

Næsta dag fór hópurinn í heimsókn til einnar af þremur höfuðborgum Suður Afríku, Pretoríu, er þar er aðsetur æðstu stjórnsýslunnar í landinu. Dómsmálaráðuneytið var heimsótt og þar var fjallað um þróun stjórnarskrárinnar og helstu verkefni sem eru á döfinni við uppbyggingu laga- og réttarkerfisins í Suður Afríku. Í Háskóla Pretoríu var kynning á laganáminu en háskólinn var stofnaður árið 1907. Árið 1992 var byrjað að kenna á ensku auk afrikans, sem var opinbert tungumál landsins undir stjórn hvítra. Í lagadeildinni eru 1600 nemendur en grunnnám tekur fjögur ár. Síðan býður skólinn upp á LL.M. nám og doktorsnám. Margir nemendur koma frá öðrum Afríkuríkjum, og nokkrir frá Evrópu, en skólinn býður m.a. upp á sérstakt nám í mannréttindum. Það var áhugavert að vita að svipaður fjöldi nemenda sækir kennslu sem fer fram á ensku og afrikans en 80% enskumælandi nemenda eru svartir og konur eru í miklum meirihluta nemenda! Sagt var að nýútskrifaðir svartir lögfræðingar sem væru með gott próf hefðu góða atvinnumöguleika að loknu námi því að stóru lögmannsstofurnar vildu gjarnan fá slíka til að „laga" sig að þjóðfélaginu. Hluti hópsins heimsótti lögmannsstofu í Pretoríu á meðan hinir hlustuðu á fyrirlestur um fjárfestingarmöguleika í Suður Afríku.Þessum annasama degi lauk með móttöku kollega lögfræðingafélagsins í „Northern Provinces" og var mjög skemmtilegt og áhugavert að hitta afríska lögmenn, lögfræðinga og dómara sem tóku afar vel á móti hópnum. Síðan var haldið til þjóðgarðsins í Pilanesberg þar sem dvalið var næstu tvo dagana og farið í safaríferðir. Að því búnu var haldið til Höfðaborgar, vínhéruðin heimsótt og gerð árangurslaus tilraun til að fara upp á hið fræga Borðfjall.

Sunnudaginn 13. nóvember var siglt var til hinnar alræmdu Robben Island þar sem Nelson Mandela var hafður í haldi í 27 ár ásamt fleiri pólitískum föngum á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Öllum pólitískum föngum var sleppt úr haldi árið 1991, en þessi svokallaða „hola helvítis" var gerð að safni nokkrum árum síðar og leiðsögumaður okkar þar var fyrrverandi fangi. Upplifunin að heimsækja þennan stað, sem hafði verið notaður sem fangelsi frá því á 17. öld, og þar af sem öryggisfangelsi fyrir pólitíska fanga frá 1959, var mjög sterk og ógleymanleg.

Mánudaginn 14. nóvember var þingið, sem hefur aðsetur í Höfðaborg, heimsótt en það ber með sér ákaflega sterk bresk áhrif. Á þinginu eru þrjár deildir; „national, province og local level" en þar sitja 400 þingmenn. Kosið er á fimm ára fresti og er landið allt eitt kjördæmi. Heimsókn í háskólann í Höfðaborg, þar sem Davíð Þór hélt erindi um Mannréttindadómstól Evrópu, var um margt svipuð og í háskólann í Pretoriu. Endað var á heimsókn til lögmannsstofu í miðborg Höfðaborgar en þar hlustuðu lögfræðingar á erindi og gátu spurt um ýmis atriði sem var áhugavert. Móttaka lögmannsstofunnar markaði svo endalok lögfræðidagskrár á vegum lögfræðingafélagsins í ferðinni enda var lagt af stað heim kvöldið eftir.

Í námsferðum sem þessari kynnast þátttakendur samfélagi, innviðum þess og sögu, á annan hátt en þeir fá tækifæri til sem venjulegir ferðamenn. Ekki er nauðsynlegt að vera lögfræðingur til að hafa gagn og gaman af slíkum ferðum. Það þarf einungis að hafa einlægan áhuga á kynnast ólíkum menningarheimi. Fyrir mér var þessi ferð merkileg og ógleymanleg og vona ég að svo hafi verið með ferðafélaga mína.

Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands

Hafa samband