Frétt

26.10.2005 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 26. október 2005

Fundargerð aðalfundar 26. október 2005
Kristján Gunnar Valdimarsson formaður setti fundinn og tilnefndi Ragnhildi Arnljótsdóttur sem fundarstjóra. Var það samþykkt samhljóða.

1. Skýrsla stjórnar: Kristján Gunnar flutti skýrslu stjórnar. Hann notaði síðan tækifærið og þakkaði stjórn og framkvæmdastjóra samstarfið en hann lætur nú af formennsku.

2. Endurskoðaðir reikningar. Helgi I. Jónsson gjaldkeri fór yfir endurskoðaða reikninga Lögfræðingafélagsins. Félagsgjöld hafa innheimst vel á árinu. Rekstrargjöld hafa hækkað vegna kostnaðar við Suður Afríkuferð en félagið greiðir kostnað fyrir faglegan fararstjóra, Davíð Þór Björgvinsson, og fyrir framkvæmdastjóra. Helgi þakkaði framkvæmdastjóra fyrir vel unnin störf. Kristín Edwald framkvæmdastjóri TL gerði grein fyrir reikningum tímaritsins. Kristín þakkaði Friðgeiri Björnssyni, fráfarandi ritstjóra, fyrir vel unnin störf, sömuleiðis Kristjáni Gunnari Valdimarssyni fráfarandi formanni. 
Fundarstjóri bauð upp á athugasemdir við skýrslu stjórnar og reikninga. Ólafur fann að því að endurskoðandi skrifaði ekki undir reikninga TL. Framkvæmdastjóri LÍ skýrði að undirskrift endurskoðenda vegna reikninga Lögfræðingafélagsins væri fullnægjandi þar sem það er alfarið með ábyrgð á TL. Ábendingu um að standa betur og skýrar að þessu var komið á framfæri.

3. Kosning stjórnar og varastjórnar: Tillaga var gerð um Benedikt Bogason sem formann og var það samþykkt samhljóða. Tillaga var gerð um Helga I. Jónsson sem varaformann og var hún einnig samþykkt samhljóða. 
Tillaga um meðstjórnendur var samþykkt samhljóða en eftirtaldir voru kjörnir: Kristín Edwald, Áslaug Björgvinsdóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Páll Þórhallsson og Skúli Magnússon.
Tillaga um varamenn í stjórn var samþykkt samhljóða en eftirtaldir hlutu kosningu: Eiríkur Tómasson, Hallvarður Einvarðsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Stefán Már Stefánsson, Þór Vilhjálmsson og Dögg Pálsdóttir.
Fundarstjóri þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum þeirra framlag til félagsins og óskaði nýjum stjórnarmönnum til hamingju. 
Fundarstjóri gaf síðan orðið laust. Nýkjörinn formaður, Benedikt Bogason, þakkaði fráfarandi stjórnarmeðlimum störf í þágu félagsins og bauð nýja velkomna. Benedikt þakkaði ennfremur Friðgeiri Björnssyni fyrir ritstjórn Tímarits lögfræðinga og bauð Róbert Ragnar Spanó velkominn til starfa. Að því loknu fór hann yfir þau verkefni sem eru á döfinni en fimmta námsferð félagsins verður í nóvember og að þessu sinni verður farið til Suður Afríku. Lögum félagsins verður breytt en væntanlegar lagabreytingar verða samþykktar á framhaldsaðalfundi þar sem ekki náðist tilskilinn meiri hluti félagsmanna á þessum fundi. Ástæður lagabreytinganna eru m.a. þær breytingar sem hafa orðið á laganámi.

4. Kosning endurskoðenda: Tillaga um aðalmenn: Kristján Gunnar Valdimarsson og Steinunn Guðbjartsdóttir. Samþykkt með lófataki

5. Lagabreytingar: Áslaug Björgvinsdóttir fylgdi þeim úr hlaði. Fyrst fór Ragnhildur fundarstjóri yfir gildandi lög og ákvæði þeirra um framhaldsaðalfund ef meiri hluti félagsmanna mætir ekki á aðalfund. Áslaug fór yfir breytingar á hverri grein fyrir sig og kynnti. Ólafur Walter Stefánsson spurði um hvað viðurkenndur háskóli væri.

6. Árgjald. Ákveðið sama árgjald á næsta ári.

7. Önnur mál. Þór Vilhjálmsson bað um orðið og fann að málþingi félagsins nú í haust. Ólafur Walter Stefánsson fann einnig að því að á málþinginu hefði ekki verið boðið upp á umræður. Benedikt lýsti því yfir að þessi gagnrýni yrði tekin til athugunar.

Að því loknu var aðalfundi frestað og ákveðið af boða til framhaldsaðalfundar til að samþykkja breytingar á lögum félagsins. Alls sátu 16 fundinn í upphafi en fjölgaði þegar leið á.

Framhaldsaðalfundur LÍ 9. febrúar 2006.
Benedikt Bogason formaður setti fundinn og tilkynnti hann löglega boðaðan. Hann gaf Áslaugu Björgvinsdóttur orðið sem kynnti breytingartillögur stjórnar. Þær voru samþykktar með þeirri breytingu á 3. gr. að orðið „mannfagnaðar" kæmi í stað "mannfagnaða".
Önnur mál: Engin önnur mál voru á dagskrá og var fundi því slitið. Framhaldsaðalfundinn sátu átta manns. 

Almenn stjórnarstörf
Á aðalfundinum var Benedikt Bogason kosinn formaður og Helgi I. Jónsson varaformaður. Á fyrsta stjórnarfundi skiptu aðrir kjörnir stjórnarmenn þannig með sér verkum: Áslaug Björgvinsdóttir ritari, Skúli Magnússon gjaldkeri og Kristín Edwald framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga. Páll Þórhallsson og Ragnheiður Harðardóttir eru meðstjórnendur.
Ásamt öðrum lagabreytingum var ákveðið að breyta upphafi starfsárs félagsins og láta það byrja í apríl í stað október. Því var nýliðið starfsár styttra en venjulega, eða einungis sex mánuðir. Á þeim tíma hafa verið haldnir fjórir stjórnarfundir ásamt framhaldsaðalfundi í febrúar. 
Félagsmenn LÍ eru nú 1020 (1009) að tölu. Þar af eru 373 (383) áskrifendur að Tímariti Lögfræðinga en í heildina eru 563 (576) áskrifendur.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Fræðafundir og málþing
Á þessu stutta starfsári voru haldnir fimm fræðafundir auk jólahádegisverðar. Um 160 manns sátu fræðafundina en um 100 manns jólahádegisverðinn. 
Yfirlit yfir fundi
Að loknum aðalfundi 2005 var haldinn fræðafundur með dr. Páli Hreinssyni prófessor undir yfirskriftinni: "um doktorsritgerðir og doktorsnám. Maður þarf ekki að vera brjálaður til að skrifa doktorsritgerð - en það getur hins vegar hjálpað." 
Hinn 3. nóvember 2005 var haldinn hádegisfundur undir yfirskriftinni "Eru aflaheimildir eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar" Fyrirlesari var dr. Guðrún Gauksdóttir dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík en að loknu erindi var Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands með athugasemdir. 
Sameiginlegur jólahádegisveður LMFÍ, DÍ og LÍ var haldinn í Iðu, Lækjargötu. Heiðursgestur að þessu sinni var Þór Vilhjálmsson og ávarpaði hann samkomuna. 
Hinn 9. febrúar 2006 var haldinn framhaldsaðalfundur félagsins en að honum loknum var fræðafundur um "Frumvarp til breytinga á meiðyrðalöggjöfinni" þar sem Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður flutti fyrirlestur og Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu var með athugasemdir. 
Hinn 14. febrúar hélt félagið ásamt Háskólanum í Reykjavík morgunverðarfundinn: "Samruni félaga yfir landamæri," Fyrirlesari var Sören Friis Hansen hp.d., prófessor við SydDansk Universitet. 
Hinn 16. mars var hádegisverðarfundur undir yfirskriftinni "Veiting embætta hæstaréttardómara" þar sem Hrafn Bragason hæstaréttardómari var frummælandi.

Útgáfustarfsemi
Tímarit Lögfræðinga 
Tímarit lögfræðinga kemur út fjórum sinnum á ári. Róbert Ragnar Spanó hefur tekið við ritstjórn TL og hefur nú þegar gefið út tvö tölublöð. Þar sem rekstrarár TL er frá janúar til desember ár hvert er ársreikningur fyrir allt árið 2005 til umsagnar og samþykktar.

Önnur starfsemi félagsins
Námsferð
Námsferð félagsins til Suður Afríku tókst afar vel en 41 fór í ferðina. Lögfræðileg dagskrá var skipulögð af hjónunum Davíð Þór Björgvinssyni og Svölu Ólafsdóttur. Háskólinn í Jóhannesarborg var heimsóttur en þar hlustaði hópurinn á fyrirlestra um réttarkerfið í Suður-Afríku og vernd mannréttinda. Stjórnlagadómstóll Suður-Afríku var heimsóttur og var að margra mati hápunktur ferðarinnar. Helsta hlutverk dómstólsins er að dæma um samræmi laga og ákvarðana stjórnvalda við stjórnarskrá landsins. Ein af þremur höfuðborgum Suður-Afríku, Pretoría, var heimsótt en þar er aðsetur æðstu stjórnsýslunnar í landinu. Dómsmálaráðuneytið var heimsótt og þar var fjallað um þróun stjórnarskrárinnar og helstu verkefni sem þar er á döfinni við uppbyggingu laga- og réttarkerfisins í Suður-Afríku. Í Háskóla Pretoríu var kynning á laganáminu. Hluti hópsins heimsótti lögmannsstofu í Pretoríu á meðan hinir hlustuðu á fyrirlestur um fjárfestingarmöguleika í Suður-Afríku. Þingið í Höfðaborg var heimsótt sem og lögmannsstofa í miðborg Höfðaborgar. Á heimasíðu félagsins er hægt að lesa nánar um ferðina.

Heimasíða
Heimasíða LÍ, www.logfraedingafelag.is var endurnýjuð og ýmsum upplýsingum komið á hana.

Lög félagsins
Með samþykkt nýrra laga hefur þeim sem útskrifast með BA próf í lögfræði verið veittur aðgangur að félaginu og hafa allnokkrir þegar nýtt sér það.

Lokaorð
Svo sem skýrsla stjórnar ber með sér hefur starfsemi Lögfræðingafélagsins almennt verið með hefðbundnu sniði þetta stutta starfsár.

Benedikt Bogason formaður

Hafa samband