Frétt

11.11.2004 -

Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 11. nóvember 2004

Aðalfundur Lögfræðingafélags Íslands 11. nóvember 2004.


1. Fundur settur. Benedikt Bogason varaformaður félagsins setti fundinn í fjarveru formanns, Kristjáns Gunnars Valdimarssonar. Benedikt stakk upp á Helga Jóhannessyni sem fundarstjóra og var það samþykkt.


2. Skýrsla stjórnar. Benedikt Bogason varaformaður flutti skýrslu stjórnar.


3. Endurskoðaðir reikningar LÍ og TL. Helgi I. Jónsson gjaldkeri LÍ kynnti ársreikninga félagsins. Hagur félagsins og rekstrartekjur hafði batnað talsvert milli ára. Steinunn Guðbjartsdóttir framkvæmdastjóri TL kynnti ársreikninga TL. Steinunn tók fram að rekstur TL hefði tekið talsverðum breytingum til batnaðar . Fundarstjóri opnaði umræðu um reikninga LÍ og TL. Enginn tók til máls og því voru reikningar LÍ bornir upp til samþykktar og samþykktir. Reikningar TL voru bornir upp til samþykktar og samþykktir.


4. Kosning stjórnar. Fundarstjóri las tillögu stjórnar um nýja stjórn: Kristján Gunnar Valdimarsson formaður, Benedikt Bogason varaformaður. Meðstjórnendur: Helgi I. Jónsson, Kristín Edwald, Áslaug Björgvinsdóttir, Ingimundur Einarsson og Kristján Andri Stefánsson. Tillagan var samþykkt einróma. Tillaga stjórnar um varamenn stjórnar: Eiríkur Tómasson prófessor, Hallvarður Einvarðsson hrl., Hrafn Bragason hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, Stefán Már Stefánsson prófessor, Þór Vilhjálmsson fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins og Dögg Pálsdóttir hrl. Tillagan var samþykkt einróma.


Tillaga um endurskoðendur: Helgi V. Jónsson og Steinunn Guðbjartsdóttir.


Varaendurskoðendur kosnir: Allan Vagn Magnússon héraðsdómari og Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri. Tillagan var samþykkt með einróma.


5. Lagabreytingar. Lagabreytingartillögur voru ekki lagðar fram á fundinum. Hins vegar var málið tekið á dagskrá. Tilefnið var hvort aukin fjölbreytni í lögfræðinámi gerði kröfu til þess að fjallað yrði um hvort ástæða væri til að breyta lögum félagsins að því er sneri að skilyrðum til þess að eiga aðild að félaginu. Auglýst var eftir sjónarmiðum og fundarstjóri lýsti viðhorfi sínu til málsins.


6. Önnur mál. Enginn tók til máls.


7. Aðalfundi slitið.

Almenn stjórnarstörf


Á aðalfundinum var Kristján Gunnar Valdimarsson kosinn formaður og Benedikt Bogason varaformaður. Á fyrsta stjórnarfundi skiptu aðrir kjörnir stjórnarmenn þannig með sér verkum: Áslaug Björgvinsdóttir ritari, Helgi I. Jónsson gjaldkeri og Kristín Edwald framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga. Kristján Andri Stefánsson og Ingimundur Einarsson eru meðstjórnendur.


Á starfsárinu hafa verið haldnir átta stjórnarfundir, auk þess sem stjórnarmenn hafa milli funda sinnt ýmsum málefnum félagsins.


Félagsmenn LÍ eru nú 1009 að tölu. Þar af eru 383 áskrifendur að Tímariti Lögfræðinga en í heildina eru 576 áskrifendur. Ætla má að fjöldi þeirra sem lokið hafa embættisprófi lögfræði sé um 1400-1500 þannig að 60%-70% eru í félaginu.

Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni


Fræðafundir og málþing


Á þessu starfsári voru haldnir þrír fræðafundir auk málþings og jólahádegisverðar. Um 130 manns sátu fræðafundina en auk þess sátu um 70 manns jólahádegisverð og 80 manns málþingið.


Yfirlit yfir fundi


Að loknum aðalfundi 2004 var haldinn fræðafundur um hvernig velja skuli hæfasta umsækjandann í opinber embætti undir yfirskriftinni: „Fremst(ur) meðal jafningja". Fyrirlesari var Margrét Vala Kristjánsdóttir hdl.


Sameiginlegur jólahádegisveður LMFÍ, DÍ og LÍ var haldinn á Hótel Loftleiðum 11. desember 2004. Heiðursgestur að þessu sinni var Einar Kárason rithöfundur og ávarpaði hann samkomuna.


Hinn 25. febrúar 2005 var haldinn hádegisfundur undir yfirskriftinni Málsmeðferð í samkeppnismálum og 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrirlesari var Ólafur Jóhannes Einarsson lögfræðingur hjá Eftirlitsstofnun EFTA, en fundarstjóri var Kristján Gunnar Valdimarsson formaður LÍ.


Hinn 14. apríl var haldinn hádegisfundur um Valdheimildir löggjafans í ljósi 27.gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga. Fyrirlesari var Davíð Þór Björgvinsson fv. prófessor, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Fundarstjóri var Kristján Andri Stefánsson stjórnarmaður í LÍ.


Málþing Lögfræðingafélags Íslands var haldið í samvinnu við stjórnarskrárnefnd á Hótel Sögu í Reykjavík 16. september 2005. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var: Þjóðaratkvæðagreiðslur og þátttaka almennings í ákvörðunartöku um opinber málefni. Sigurður Líndal prófessor emertius setti þingið en frummælendur voru Karl Axelsson hrl. og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, dr.jur. Jens Peter Christensen prófessor við Árósaháskóla, Pierre Garrone deildarstjóri á skrifstofu Feneyjarnefndar Evrópuráðsins og Kristín Ástgeirsdóttir formaður lýðræðisnefndar Norrænu ráðherranefndarinnar. Auk þess lýstu fulltrúar stjórnmálaflokkanna í stjórnarskrárnefnd viðhorfum sínum til umfjöllunarefnisins, en þeir voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður nefndarinnar og alþingismennirnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz, Kolbrún Halldórsdóttir og Guðjón Arnar Kristjánsson. Að málþinginu loknu bauð stjórnarskrárnefnd upp á léttar veitingar.


Útgáfustarfsemi


Tímarit Lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga kom fjórum sinnum út á árinu eins og venjulega en á síðasta ári varð góður viðsnúningur í rekstri tímaritsins. Endurnýja þurfti samninga um prentun TL og var samið við prentsmiðjuna Gutenberg sem áður hafði prentað blaðið. Friðgeir Björnsson, sem verið hefur ákaflega farsæll ritstjóri tímaritsins um áratuga skeið sagði upp störfum sínum og hefur nýlokið við að ritstýra sínu síðasta blaði. Friðgeiri eru færðar bestu þakkir fyrir störf sín í þágu félagins. Róbert Ragnar Spanó hefur tekið að sér að vera nýr ritstjóri TL og stjórnin býður hann velkominn til starfa.


Gert var átak í að safna fleiri auglýsendum til að styrkja tímaritið og það tókst vonum framar. Árið 2005 aukast auglýsingatekjur tímaritsins um 50% en fengið var auglýsingasöfnunarfyrirtæki til liðs við öflun auglýsinganna en það mun koma inn í rekstrarreikning næsta árs.

Önnur starfsemi félagsins


Námsferð


Skipulögð hefur verið námsferð til Jóhannesarborgar, Pretoríu og Höfðaborgar í Suður-Afríku 6.-16. nóvember 2005. Lögfræðileg dagskrá hefur verið undirbúin í samvinnu við lagadeild Háskólans í Jóhannesarborg, stjórnvöld og lögfræðingafélög á hverjum stað um sig. Davíð Þór Björgvinsson fer sem faglegur fararstjóri með félaginu auk þess sem framkvæmdastjóri fer á vegum þess.


Heimasíða

Heimasíða LÍ, www.logfr.is var uppfærð og slóðinni breytt í www.logfraedingafelag.is Þetta verkefni hefur dróst nokkuð vegna tæknilegra atriða. Hugmyndin er að á síðunni verði auglýst allt það helsta sem á döfinni er hverju sinni og þannig verði um lifandi heimasíðu að ræða. 
Lög félagsins


Stjórn Lögfræðingafélagsins hefur endurskoðað lög félagsins m.t.t. breytinga á skipan laganáms o.fl. Frumvarp til nýrra heildarlaga verður lagt fram á þessum fundi.


Merki félagsins


Merki félagsins var greypt í barmmerki sem dreift er meðal félagsmanna er mæta á fræðafundi og málþing félagsins.

Samskipti við systurfélög á Norðurlöndum


Framkvæmdastjórar félaganna á Norðurlöndum hittast árlega og ræða starfsemi sína og fór framkvæmdastjóri félagsins til Finnlands um miðjan júní.


Þar sem lögfræðingafélögin í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku eru stéttarfélög fer ávallt nokkur tími í að ræða þau atriði sem helst eru í brennidepli, t.d. varðandi samninga við vinnuveitendur.


Mikið var rætt um hvort félögin gætu gert með sér nánara samstarf um að félagar geti notað þjónustu hvers annars á Norðurlöndunum en nokkur ljón eru í veginum. T.d. eru finnsku og norsku félögin eingöngu félög lögfræðinga á meðan Djöf og Jusek eru með hagfræðinga, tölvunarfræðinga, viðskiptafræðinga innanborðs.


Það er mjög gott fyrir félagið að fylgjast með starfsemi annara félaga á Norðurlöndunum.

Lokaorð


Svo sem skýrsla stjórnar ber með sér hefur starfsemi Lögfræðingafélagsins almennt verið með hefðbundnu sniði síðastliðið starfsár.


Ég gef ekki kost á mér til endurkjörs til formanns félagsins og vil því nota tækifærið og þakka samstjórnarmönnum mínum og framkvæmdastjóra félagsins mjög gott samstarf.


Kristján Gunnar Valdimarsson, formaður.

Hafa samband