Skýrsla stjórnar Lögfræðingafélags Íslands flutt á aðalfundi 27. nóvember 2003
Aðalfundur LÍ var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík 27. nóvember 2003.
Kristján Gunnar Valdimarsson, formaður félagsins, bauð gesti velkomna og lagði fram tillögu um að Arnljótur Björnsson yrði fundarstjóri, sem var samþykkt. Gengið var til áður auglýstrar dagskrár og voru einstakir dagskrárliðir afgreiddir þannig:
1. Skýrsla stjórnar. Kristján Gunnar Valdimarsson formaður félagsins kynnti hana.
2. Endurskoðaðir reikningar Lögfræðingafélagsins og Tímarits lögfræðinga. Kristján Gunnar kynnti reikninga LFÍ í fjarveru Helga I. Jónssonar, gjaldkera. Tap var kr. 258.853 en eignastaða félagsins er sterk, upp á kr. 8 milljónir. Reikningar voru bornir upp og samþykktir mótatkvæðalaust. Reikningar Tímrits Lögfræðinga voru kynntir af Steinunni Guðjbartsdóttur. Tap var á rekstri árið 2002, upp á kr. 926.359. Fundarmönnum var gefinn kostur á að gera athugasemdir og síðan voru reikningar samþykktir samhljóða.
3. Kosning stjórnar og varastjórnar. Fundarstjóri las tillögu stjórnar um nýja stjórn. Kristján G. Valdimarsson yrði formaður - var samþykkt m/lófaklappi. Benedikt Bogason varaformaður - var samþykkt m/lófaklappi. Meðstjórnendur voru kosnir; Helgi I. Jónsson, Steinunn Guðbjartsdóttir, Áslaug Björgvinsdóttir, Ingimundur Einarsson og Kristján Andri Stefánsson. Ingimundur kemur inn í stað Jóhanns Benediktssonar sem gaf ekki kost á sér. Varastjórn var kosin: Arnljótur Björnsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, Eiríkur Tómasson, prófessor, Hallvarður Einvarðsson, hrl., Hrafn Bragason, hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl., Stefán M. Stefánsson, prófessor, og Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi dómari við EFTA dómstólinn.
4. Kosning tveggja endurskoðenda: Helgi V. Jónsson, hrl., og Kristín Briem, hrl. Til vara voru körin Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari, og Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri.
5. Árgjald ákveðið það sama, kr. 3.500,-.
6. Önnur mál. Stjórn kom fram með tillögu um skipun stjórnlaganefndar til að endurskoða lög félagsins fyrir næsta aðalfund. Var samþykkt að vísa því til nýkjörinnar stjórnar
Almenn stjórnarstörf
Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar skipti hún þannig með sér verkum: Helgi I. Jónsson, gjaldkeri, Steinunn Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga, Áslaug Björgvinsdóttir, ritari. Kristján Andri Stefánsson og Ingimundur Einarsson voru meðstjórnendur. Á aðalfundinum var Kristján Gunnar Valdimarsson kosinn formaður og Benedikt Bogason varaformaður.
Á starfsárinu hafa verið haldnir 5 stjórnarfundir, auk þess sem stjórnarmenn hafa milli funda sinnt ýmsum málefnum félagsins.
Félagsmenn LÍ eru nú 992 að tölu. Þar af eru 397 áskrifendur að Tímariti Lögfræðinga en í heildina eru 575 áskrifendur. Ætla má að fjöldi lögfræðinga í landinu sé um 1400-1500 þannig að 60%-70% eru í félaginu.
Í september sl. var nýútskrifuðum lögfræðingum boðin félagsaðild í móttöku eins og venja er til. Óvenju fáir mættu að þessu sinni en nýútskrifaðir lögfræðingar hafa engu að síður verið að skila sér til félagsins.
Skrifstofa, framkvæmdastjórn og einstök verkefni
Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar skipaði hún nefnd til að endurskoða lög félagsins. Í henni voru Áslaug Björgvinsdóttir, Arnljótur Björnsson og Dögg Pálsdóttir. Nefndin hittist og gerði drög að nýjum lögum en vegna anna tókst stjórn ekki að klára tillögurnar og bera upp fyrir þennan fund. Fyrirhugað er að halda þessu starfi áfram á næsta starfsári.
Fræðafundir og málþing
Fræðafundir hafa að jafnaði verið reglulega yfir vetrartímann auk þess sem árlegt málþing félagsins var haldið þann 24. september sl. Fræðafundir voru að þessu sinn fjórir auk málþings og jólahádegisverðar, og voru ýmist haldnir sem morgunverðar-, hádegis-, eða kvöldfundir. Um 160 manns sátu fræðafundina en auk þess sátu um 100 manns jólahádegisverð og 170 manns málþingið.
Yfirlit yfir fundi
Að loknum aðalfundi 2003 var fræðafundur undir yfirskriftinni: "Völd og ábyrgð á sviði starfsmannamála. Hugleiðingar um aðstoð ráðgjafarfyrirtækja í málum sem tengjast stofnun, breytingu eða slit á vinnusambandi starfsmanns við hið opinbera." Ásmundur Helgason, lögfræðingur hjá Umboðsmanni Alþingis og stundakennari við Háskóla Íslands, var fyrirlesari. Þann 17. febrúar var morgunverðarfundur um nýtt frumvarp til laga um vátryggingasamninga. Frummælendur voru Viðar Már Matthíasson, lagaprófessor, og Valgeir Pálsson, hrl. Þann 29. apríl var hádegisfundur um eignarhald á fjölmiðlum þar sem Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, hélt erindi. Þann 30. apríl var hádegisfundur undir yfirskriftinni EFTA-dómstóll í tíu ár en Carl Baudenbacer, forseti EFTA-dómstólsins, hélt erindi um samskipti dómstólsins við dómstóla EES/EFTA ríkjanna og svo við Evrópudómstólinn.
Málþing Lögfræðingafélags Íslands var haldið á Hótel Sögu í Reykjavík föstudaginn 24. september 2004. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var: Er þörf á stjórnsýsludómstól? Frummælendur voru Friðgeir Björnsson, héraðsdómari, Matti Niemivuo, skrifstofustjóri í finnska dómsmálaráðuneytinu, og Páll Hreinsson, lagaprófessor. Auk þess lýstu viðhorfum sínum þeir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, Gunnlaugur Claessen, varaforseti Hæstaréttar, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Atli Gíslason, hrl. og varaþingmaður. Alls tóku 170 manns þátt í málþinginu sem lauk með kokteilboði dómsmálaráðuneytisins.
Samskipti við systurfélög á Norðurlöndum
Framkvæmdastjórar félaganna á Norðurlöndum hittast árlega og ræða starfsemi sína og fór framkvæmdastjóri félagsins til Svíþjóðar að þessu sinni.
Systurfélögin eru hver með sínu móti en t.d. er Djöf í Danmörku félag þar sem tölvunarfræðingar, hagfræðingar og fleiri eru ásamt lögfræðingum í sama félaginu. Djöf hefur verið að gera áhugaverða rannsókn um vinnuálag hjá félagsmönnum sínum, auk þess að skoða vinnumarkaðinn og alþjóðavæðinguna. Djöf hefur komið á fót útibúi í Brussel og hefur verið að skipuleggja með hvaða móti þeir geti haldið félögum þótt þeir flytji milli landa.
JUSEK í Svíþjóð hefur verið að setja nýja stefnu í kjaramálum, en eldri stefna var frá árinu 1995. Meðal þess sem verið er að kanna er réttarstaða þeirra starfsmanna sem flytja sig úr starfi hjá hinu opinbera yfir í einkageirann. Einnig hefur verið hugað að úrræðum til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun.
Hin félögin á Norðurlöndum, frá Finnlandi og Noregi, ræddu m.a. um atvinnumál og fleira. Fulltrúi lögfræðingafélags frá Eistlandi kom í fyrsta skipti til fundarins.
Útgáfustarfsemi
Tímarit Lögfræðinga
Boðið var upp á heildarsafn Tímaristins á 35.000 kr. m/vsk og nýttu u.þ.b. 12 aðilar sér tilboðið.
Segja má að framkvæmdastjóri hafi tekið rekstur Tímaritsins í gjörgæslu á árinu 2003 en eins og sást á rekstrarreikningi varð góður viðsnúningur á stöðu þess og m.a. tókst að innheimta töluvert af gömlum skuldum.
Lögfræðingatal
Farið var fram á það við stjórn LFÍ að hún kostaði útgáfu nýs Lögfræðingatals en eftir ítarlega athugun taldi stjórnin ekki rétt að ráðast í það verkefni vegna kostnaðar.
Heimasíða
Heimasíða LÍ, www.logfr.is var uppfærð en er þó ekki komin ennþá í viðunandi horf. Fyrirhugað er að bæta úr því á næsta starfsári.
Lokaorð
Svo sem skýrsla félagsins ber með sér hefur starfsemi Lögfræðingafélagsins verið öflug síðastliðið starfsár og það er ánægjuefni að málþing félagsins og fræðafundir hafa almennt verið vel sóttir. Það hlýtur að vera meginhlutverk félagsins að bjóða fræðsluefni sem höfðar til sem flestra félagsmanna og jafnframt að taka til umfjöllunar nýmæli í íslenskum rétti og þróun réttarins.
Næsta starfsár
Ennþá er nokkur vinna eftir við að innheimta eldri félagsgjöld og áskriftargjöld fyrir Tímarit lögfræðinga. Sömuleiðis þarf heimasíðan að komast í gott horf og ýmis sóknarfæri eru til að reyna að fjölga félagsmönnum LFÍ, svo og áskrifendum og auglýsendum Tímaritsins. Þá er fyrirhuguð ferð á vegum félagsins til útlanda á næsta starfsári, svo sem nánar verður auglýst síðar.
Kristján Gunnar Valdimarsson, formaður.